11.5.2011 | 08:18
Grunsamlegar tölur
Frétt á dögunum vakti minni eftirtekt en hún átti skilið. Hún var í Wall Street Journal 21. apríl síðast liðinn þess efnis, að Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefði árið 2005 birt landabréf af heiminum undir heitinu Fimmtíu milljónir loftslagsflóttamanna árið 2010. Umhverfisstofnunin hefði nú þegjandi og hljóðalaust fjarlægt landabréfið af heimasíðu sinni, enda leið árið 2010 án þess, að nokkur yrði þessara flóttamanna var. Raunar hefur fólki fjölgað frekar en fækkað á sumum þeim svæðum, sem talin voru í mestri hættu vegna loftslagsbreytinga.
Þetta sýnir, hversu varlegt er að treysta ótrúlegum tölum, sem áróðursmenn kasta fram undir yfirskini vísindanna og í nafni virðulegra stofnana. Þeir reyna að mynda andrúmsloft hræðslunnar, svo að meira fé og meiri völd séu sett í hendur þeirra.
Við megum ekki láta talnaflóð drekkja heilbrigðri skynsemi okkar. Hér skal ég nefna tvö önnur dæmi um grunsamlegar tölur, sem ég hef rekist á í rannsóknum mínum.
Alþjóðabankinn birti fram á áttunda áratug athugasemdalaust tölur frá rúmensku stjórninni um hagvöxt í landinu, frá því að kommúnistar rændu þar völdum árið 1945. Samkvæmt þeim hafði meðalhagvöxtur á ári 19501975 numið 9,8%. En ef þessar tölur voru reiknaðar aftur á bak, þá kom í ljós, að í byrjun tímabilsins var verg landsframleiðsla á mann langt undir því, sem nægði, til þess að maður gæti lifað. Margt hefur verið talið miðstýringu til lofs, sagði Wall Street Journal af þessu tilefni háðslega 10. ágúst 1979, en aldrei áður það, að hún geti tryggt upprisu heillar þjóðar frá dauðum.
Hitt dæmið er, að bann er við verslun með fílabein. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna héldu því fram, að bannið hefði haft svo góð áhrif á viðgang fílastofnsins í Keníu, að fílum hefði þar fjölgað úr 16 þúsund árið 1989 í 26 þúsund árið 1994. En þetta fær ekki staðist. Fílum fjölgar hægt, um 5% á ári. Því var samkvæmt þessum tölum um átta þúsund fílum fleira í Keníu 1994 en eðlilegt var. Hvaðan komu þessir átta þúsund fílar? Hefðu menn ekki orðið þeirra varir, ef þeir hefðu flykkst til Keníu frá öðrum löndum?
Hér ætla ég síðan ekki að rifja upp hrakspárnar í Endimörkum vaxtarins, sem Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur þýddi árið 1974, eða allar reikningsskekkjurnar í áróðri Stefáns Ólafssonar félagsfræðings fyrir skattahækkunum. Villur verða ekki skárri fyrir það, að á þeim sé stimpill vísindanna. Eða eins og Gertrude Stein myndi orða það: Villa er villa er villa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.5.2011 kl. 21:45 | Facebook