10.5.2011 | 08:18
Tvö ótrúleg tónlistarmyndbönd
Minn gamli lærimeistari, Friedrich August von Hayek, á afmæli 8. maí 2011. Hann fæddist þennan dag árið 1899 í Vínarborg, þar sem þá var enn höfuðborg tvíburaríkjanna Austurríkis-Ungverjalands, barðist kornungur í her Austurríkiskeisara, en nam lögfræði og hagfræði eftir stríð. Þótti hann snjallastur og djúpsæjastur austurrísku hagfræðinganna svonefndu, sem höfðu eigin kenningar um eðli hins frjálsa hagkerfis, og var hann fenginn til að kynna þessar kenningar í Lundúnum, þar sem hann varð prófessor við hagfræðiskólann (London School of Economics) aðeins 32 ára að aldri, 1931.
Hinn kunni hagfræðingur Sir John Hicks sagði eitt sinn, að The Hayek Story eða sagan af Hayek væri ósögð. Hann átti við það, að á fjórða áratug kepptu þeir von Hayek og John Maynard Keynes um forystuhlutverk í stétt enskumælandi hagfræðinga. Hayek taldi, að heimskreppan væri vegna þess, að fjármálamarkaður hefði ekki starfað við nógu mikinn aga (eða fengið nægar upplýsingar) árin á undan og skilaboðin um arðsamar fjárfestingar því verið röng. Þess vegna hefði orðið til lánsfjárbóla, sem þyrfti að springa. Niðursveifla væri eðlileg afleiðing uppsveiflu. Markaðurinn kæmist í jafnvægi, þegar óarðbær fyrirtæki hefðu hætt starfsemi sinni og laun lækkað. Aðalatriðið væri, að einstaklingar fengju fullnægjandi upplýsingar, svo að framboð lagaði sig að eftirspurn.
Keynes var hins vegar þeirrar skoðunar, að heimskreppan væri vegna smíðagalla í kapítalismanum. Hann næði ekki alltaf jafnvægi af sjálfum sér. Þess vegna þyrfti ríkið að handstýra honum, að minnsta kosti að einhverju marki. Í stað þess að óttinn við atvinnuleysi knýði niður laun, ætti ríkið að lækka þau óbeint fyrir tilstilli gjaldmiðilsins (prenta peninga) í því skyni að tryggja sæmilegan vinnufrið. Í stað þess að hrekja fyrirtæki í gjaldþrot ætti ríkið að leggja þeim til starfsfé (prenta peninga) eða sinna sjálft stórfelldum opinberum framkvæmdum.
Ef til vill má lýsa muninum á kenningum þeirra með því að segja, að Hayek hefði litið á hagkerfið sem viðkvæman gróður, sem hlúa þyrfti að, svo að hann yxi og dafnaði eftir eigin lögmálum, en Keynes talið það vél, sem þyrfti að ræsa og tryggja eldsneyti. Hayek dró fram kosti sjálfstýringar, en Keynes taldi ekki komist hjá einhverri handstýringu. Báðir voru þeir þó frjálslyndir lýðræðissinnar, eins og skýrt kom fram í bréfi Keynes 1945 til Hayeks um hina frægu ádeilu Hayeks á sósíalisma, Leiðina til ánauðar.
Óhætt er að segja, að kenning Keynes hafi orðið ofan á eftir stríð, þótt sumir tækju upp kenningu Hayeks upp úr 1970, þegar úrræði Keynes að leysa vandann með því að fleygja í hann fé, prenta peninga virtust ekki duga. Þess má geta, að núverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, skrifaði meistaraprófsritgerð sína í Cambridge-háskóla um ólíkar kreppuskýringar þeirra Hayeks og Keynes, og birtist hún 1985 í Fjármálatíðindum, sem ekki koma lengur út. Lagðist Már þar auðvitað á sveif með Keynes, sem var sjálfur frá Cambridge.
En því minnist ég á þetta allt, að á Netinu rakst ég á tvö mjög skemmtileg og vel gerð tónlistarmyndbönd, jafnvel rapparaleg, um hina ólíku sýn þeirra Hayeks og Keynes á hagkerfinu. Eru þau vitanlega leikin. Í öðru myndbandinu, Fear the Boom and Bust, syngja þeir félagar í seðlabankaveislu um kreppuna og úrræði gegn henni. Í hinu, Fight of the Century, fræða þeir bandaríska þingnefnd á skoðunum sínum og svara spurningum. Eru viðfangs- og ágreiningsefnin um margt hin sömu nú og í heimskreppunni upp úr 1930.
Þótt Keynes hafi látist 1946 og Hayek 1992, lifa kenningar þeirra beggja góðu lífi, eins og þessi ótrúlegu tónlistarmyndbönd sýna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook