3.5.2011 | 09:11
Misjafnir dómar
Skáld og rithöfundar hafa löngum sætt misjöfnum dómum. Bandaríski háðfuglinn Dorothy Parker sagði til dæmis um skáldsöguna L'Amante del Cardinale eftir Benító Mússólíni, sem kom út í Bandaríkjunum 1928 undir nafninu The Cardinal's Mistress, Hjákona kardínálans: Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.
Þýski félagsfræðingurinn Oswald Spengler skrifaði í riti frá árinu 1933 um bók landa síns, þjóðernisjafnaðarmannsins Arthurs Rosenbergs, Mythus des XX. Jahrhunderts, Goðsögn tuttugustu aldar: Bók, þar sem ekkert er rétt nema blaðsíðutölin. Minnir þetta á það, sem bandaríska skáldkonan Mary McCarthy mælti í sjónvarpsþætti Dicks Cavetts í janúar 1980 um aðra bandaríska skáldkonu, Lillian Hellman: Hvert einasta orð, sem hún skrifar, er ósatt, að meðtöldu og og ákveðnum greini.
Einnig má rifja upp það, sem haft er eftir þýska skáldinu Gotthold E. Lessing um ónefnt rit: Það, sem er þar nýtt, er ekki gott, og það, sem er þar gott, er ekki nýtt.
Stysti og um leið einhver neikvæðasti ritdómur á íslenskri tungu er sá, sem dr. Guðmundur Finnbogason, sálfræðingur og landsbókavörður, skrifaði í Vöku 1927 um Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Kiljan Laxness: Vélstrokkað tilberasmjör. Samkvæmt þjóðtrúnni var tilberi vera, sem galdrakind sendi til að sjúga mjólk úr kúm í haga og færa sér. Tilberinn spjó feng sínum í ílát við búrglugga, og var hrært úr spýjunni smjör. Guðmundur átti við það, að Halldór hefði sogið í sig erlendar nútímabókmenntir, spúið þeim í íslenskt ílát og hrært með nútímatækni úr verk sitt.
Í sama hefti Vöku 1927 gat að líta hin frægu ummæli Kristjáns Albertssonar um skáldsögu Laxness: Loksins, loksins. Sjálfur fékk Kristján sinn skammt, þegar hann gaf út greinasafnið Í gróandanum 1955. Þá skrifaði Einar Bragi ritdóm í Birting, sem hljóðaði í heild sinni svo: Bókin er sönnun þess, að jafnvel í gróandanum getur kalviðurinn ekki laufgast. Er þetta sennilega næststysti ritdómur íslenskrar tungu.
Ekki hafa allir rithöfundar brugðist eins við gagnrýni og Jóhannes Kjarval. Skömmu eftir að hann gaf árið 1930 út ljóðabók sína, Grjót, hitti hann Jónas Jónsson frá Hriflu á förnum vegi. Mér finnst nafnið of hart, sagði Jónas. Hún hefði heldur átt að heita Leir. Kjarval svaraði snúðugt: Nú geri ég það, sem fjandinn mun aldrei gera. Gekk hann burt.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 30. apríl og er sóttur á ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er til í öllum bókabúðum og hentar vel í fermingar- og útskriftargjafir.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook