1.5.2011 | 12:46
Merkilegt afmæli 30. apríl
Hinn 30. apríl 2011 eru rétt tuttugu ár frá því, að Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn, 1991. Hann stóð ekki upp af stóli forsætisráðherra fyrr en 15. september 2004, eftir þrettán og hálfs árs setu.
Tímabilið 19912004 er eitthvert mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Hagkerfið var opnað, aðgangur að mörkuðum í Evópu tryggður með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, réttur einstaklinga bættur með nýjum stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, fyrirtæki ríkisins seld, en afraksturinn notaður til að lækka skuldir ríkisins niður í nánast ekki neitt, skynsamlegt og hagkvæmt fyrirkomulag fiskveiða treyst með margvíslegri löggjöf og skattar lækkaðir með þeirri afleiðingu, að vinnusemi einstaklinga og verðmætasköpun jókst, svo að skatttekjurnar sjálfar lækkuðu ekki, af því að kakan stækkaði.
Kjör almennings bötnuðu um þriðjung þetta tímabil, sem er mikið, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að þetta mátti ekki rekja til Bretavinnu eða síldarævintýra, eins og stundum áður, heldur til eðlilegs hagvaxtar í skjóli atvinnufrelsis. Kjör almennings bötnuðu ekki heldur út af lánsfjárbólu, því að hún kom síðar til sögunnar, eftir 2004, eins og sést mjög vel á 27. mynd (103. bls.) í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, þar sem erlendar skuldir 19912007 eru sýndar í hlutfalli við verga landsframleiðslu.
Í áðurnefndri bók minni er líka sýnt, að fyrstu átta árin í forsætisráðherratíð Davíðs var aðhald í útgjöldum ríkisins. Þau jukust ekki sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá var Friðrik Sophusson fjármálaráðherra. Stóð hann sig afburðavel í því starfi.
Hinir fátækustu báru ekki skarðan hlut frá borði. Kjör þeirra bötnuðu tímabilið 19952004 tvöfalt hraðar en nam meðaltalinu í löndum OECD. Tekjur ellilífeyrisþega voru árið 2004 hinar hæstu á Norðurlöndum. Það ár var fátækt samkvæmt viðurkenndum mælingum næstminnst á Íslandi allra Evrópuríkja (og með því áreiðanlega í öllum heiminum); hún var aðeins minni í Svíþjóð. Og þar sem lífskjör voru þá nokkru betri á Íslandi en í Svíþjóð og átt var við hlutfallslega fátækt, er líklega óhætt að fullyrða, að kjör hinna fátækustu voru í krónum eða kaupmætti hin skástu í heimi.
Tekjuskiptingin hafði ekki orðið ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, þótt því væri raunar haldið fram (og þá stuðst við hreinar reikningsskekkjur). Samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins (sem sýndar eru á 29. mynd í bók minni, 110. bls.) var tekjuskipting hér jafnari en í Finnlandi og Noregi, en ójafnari en í Svíþjóð og Danmörku. Ísland skar sig því ekki úr hópi Norðurlandanna.
Davíð hafði fulla ástæðu til að vera stoltur af verki sínu, þegar hann stóð upp af stóli forsætisráðherra 15. september 2004. En í sérhverjum sigri geta leynst fræ ósigurs. Davíð hafði með sölu banka og óheftum aðgangi að Evrópumarkaði veitt duglegum og harðskeyttum einstaklingum svigrúm og tækifæri. Sumir og þá á ég aðallega við Baugsfeðga misnotuðu þessi tækifæri herfilega.
Davíð sá hættuna fljótar og skýrar en aðrir og reyndi að vera við henni. En þá höfðu þessir menn keypt upp flesta fjölmiðla í landinu og ráðið marga kænustu lögfræðinga þjóðarinnar í þjónustu sína og myndað ofurþungt almenningsálit sér í vil, svo að þeir komust upp með miklu meira en aðrir, jafnvel lögbrot og yfirgang. Í laumi tæmdu þeir bankana, sem stóðu fyrir vikið berskjaldaðir, þegar að kreppti. Í þá tíð giltu í raun önnur lög um Jón en um Jón Ásgeir. Er sú ljóta saga öllum í fersku minni og þarf ekki að rifja upp hér. Ekki tók nema fjögur ár að gera að engu hinn mikla árangur, sem náðst hafði árin 19912004.
Nú þarf hins vegar að hefjast handa við að reisa Ísland úr rústunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Facebook