Uppnefni og viðurnefni

Íslendingar hafa löngum haft gaman af því að uppnefna fólk eða auðkenna það með viðurnöfnum. Stundum hafa menn gefið tilefni til þess sjálfir. Til dæmis skrifaði Sigurður Kristjánsson, ritstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðið 5. apríl 1931, þegar framsóknarmenn utan af landi flykktust til Reykjavíkur á flokksþing sitt: „Þeir þvo sér úr sápu og strjúka fiðrið af tötrunum og mosann úr skegginu.“ Þetta mæltist að vonum misjafnlega fyrir í sveitum, en höfundur orðanna var eftir þetta jafnan kallaður „Sigurður mosi“.

Eftir að Björn Jónsson, ritstjóri og síðar ráðherra, birti í misgáningi ljósmynd af Gatkletti við Arnarstapa á Snæfellsnesi í Sunnanfara 1901, sagði hann vera Dyrhólaey og vildi síðan ekki viðurkenna mistök sín, kallaði keppinautur hans á blaðamarkaðnum, Hannes Þorsteinsson ritstjóri, hann „Dyrhólagatistann“. Enn sárari broddur var í þessu uppnefni vegna þess, að Björn hafði löngu áður gengið frá prófi í Kaupmannahöfn.

Einar Benediktsson skáld gat verið orðljótur og uppnefndi óspart andstæðinga sína. Hann kallaði til dæmis Pál Eggert Ólason sagnfræðiprófessor „Mokstrar-Pál“, af því að honum þóttu gæði skrifa hans ekki í samræmi við afköstin. Og Jón Magnússon forsætisráðherra kallaði Einar „hálfhringinn“, af því að hann hallaði stundum á aðra hliðina, þegar hann gekk.

Sigurður Jónasson var kunnur maður í Reykjavík á öndverðri tuttugustu öld. Hann fylgdi ýmsum flokkum að málum og var umsvifamikill fésýslumaður, drykkfelldur og sérkennilegur í háttum. Um skeið sat hann í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn og var þá áhugasamur um virkjun Sogsins. Reyndi hann jafnvel að semja sjálfur við erlenda aðila um málið. Einn þeirra, umboðsmaður þýska fyrirtækisins A. E. G. í Kaupmannahöfn, sendi þá bæjaryfirvöldum í Reykjavík skeyti: „Er Byraadsmedlem Sigurdur Jonasson seriøs?“ Er Sigurði Jónassyni bæjarfulltrúa full alvara? Eftir þetta var Sigurður jafnan kallaður „Sigurður seriös“.

Eftir að Freymóður Jóhannsson, listmálari og textahöfundur, hóf herferð gegn klámi, kölluðu gárungarnir hann iðulega „Meyfróð“. Alkunna er einnig, að Guðni Guðmundsson, sem var rektor Menntaskólans í Reykjavík í minni tíð þar, var oft kallaður „Guðni kjaftur“, en þeir, sem töldu viðurnefnið óvirðulegt, lögðu til, að hann yrði kallaður „Guðni munnur“.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 16. spríl og er sóttur á ýmsa staði í bók minni, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir síðustu jól, en er tilvalin fermingar- og útskriftargjöf.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband