10.4.2011 | 12:27
Þjóðmál og Icesave
Í fyrsta hefti tímaritsins Þjóðmála á þessu ári er ritstjóraspjall eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund. Þar segir hann meðal annars:
Hinn 9. apríl nk. verður gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um síðustu Icesavesamningana. Þjóðmál hvetja lesendur sína eindregið til að segja Nei. Það er mikilsvert að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort kröfur Breta og Hollendinga séu lögleysa, ekki bara Íslands vegna heldur vegna skipulags bankastarfsemi til frambúðar, sbr. fróðlegar greinar Hallgríms Th. Björnssonar og Örvars Arnarssonar í þessu hefti (bls. 5356 og 6369). Það er í rauninni með öllu forkastanlegt að nokkur maður, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli mælast til þess að Alþingi skuldbindi þjóðina til að greiða skuld sem ekki er ljóst hvort Íslendingum beri að greiða og enginn veit hvað er há. Í hinum nýja Icesavesamningi felst bæði mikil óvissa um skuldarfjárhæðina í erlendri mynt (þ.e. heimtur þrotabús Landsbankans) og gríðarleg gengisáhætta þar sem smávægilegar gengissveiflur krónunnar gætu steypt þjóðinni í fjárhagslegt öngþveiti.
Ef vilji er til að semja um þetta mál á einhvern veg ber að gera það á pólitískum forsendum. Öllum er ljóst að málið er af hálfu vinstri stjórnar Steingríms J. og Jóhönnu risavaxið klúður frá upphafi. Með því að hafna nýja Icesavesamningnum gæfist tækifæri fyrir forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar til að taka málið upp að nýju á pólitískum forsendum, berjast með oddi og egg fyrir málstað Íslands á alþjóðavettvangi og fá þannig stjórnmálamenn í Bretlandi og Hollandi til að sýna sjónarmiðum Íslendinga skilning. Það er með öllu fráleitt að fela svo veigamikið mál alfarið í hendur embættismanna eða keyptra málaliða í lögfræðistétt. Með því að segja afdráttarlaust Nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni myndi þjóðin vísa veginn til farsællar lausnar þessa vandræðamáls.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook