Svör við spurningum DV um milljónagreiðslur til mín

Að morgni miðvikudagsins 16. mars 2011 hringdi í mig blaðamaður af DV, Jón Bjarki Magnússon. Ég bað hann að senda mér tölvuskeyti, þar eð ég væri erlendis. Hann sendi mér seinna sama dag tölvuskeyti með nokkrum spurningum um milljónagreiðslur til mín úr Landsbankanum. Ég svaraði honum því til, að ég skyldi fúslega svara honum, þegar ég væri kominn til Íslands og hefði aðgang að öllum mínum gögnum. Jón Bjarki hringdi síðan í mig miðvikudagsmorguninn 23. mars 2011, þegar ég var kominn heim, og endurtók spurningar sínar. Hér eru þær og svör mín:

Spurning: Heimildir DV herma að þú hafir þegið greiðslur fyrir „kynningarátak vegna skattalækkana“ frá Landsbankanum árið 2007 og 2008, er þetta rétt?

Svar: Nei, þetta er ekki rétt. Ég fékk engar greiðslur fyrir slíkt átak. Hins vegar fékk kynningar- og ráðgjafarfyrirtæki, sem ég rek, framlög frá Landsbankanum þessi ár fyrir kynningarátak vegna skattalækkana. Það er engin frétt. Það kemur skýrt fram á heimasíðu verkefnisins á Netinu og einnig á rekstrarreikningi og skattframtali fyrirtækisins. Ekkert er athugavert eða óeðlilegt við þessi framlög, enda voru þau til þjóðþrifamáls.

Spurning: Þá herma heimildir blaðsins að þú hafir  gert munnlegt samkomulag við Sigurjón Þ. Árnason um að taka þetta verkefni að þér, er það eitthvað sem þú kannast við? 

Svar: Nei, það er ekki heldur rétt. Ég hygg, að ég rjúfi engan trúnað með því að segja, að ákvörðun Landsbankans um að styðja þetta kynningarátak var tekin á fundi bankastjóranna tveggja, Sigurjóns Þ. Árnasonar og Halldórs J. Kristjánssonar, með mér, eftir að ég hafði lýst átakinu með því að bregða upp nokkrum glærum á skjá, og voru nokkrir aðrir menn á þeim fundi, ef ég man rétt, þar á meðal forstöðumaður hagfræðideildar bankans.

Spurning: Samkvæmt heimildum blaðsins munu þetta hafa verið þrjár milljónir króna árið 2007 og þrjár árið 2008. Samtals sex milljónir sem millifærðar voru inn á fyrirtækið Conferences and Ideas sem á þessum tíma var skráð í þína eigu.

Svar: Ég hef haft samband við Landsbankann vegna þessa máls. Ég hef enga heimild til þess að skýra frá þeim upphæðum, sem Landsbankinn leggur fram til einstakra verkefna, þar á meðal til þess þjóðþrifamáls, sem kynningar- og ráðgjafarfyrirtæki mitt sinnti. Það er hins vegar alvarlegt mál, ef einstaklingar úti í bæ hafa upplýsingar um millifærslur inn á reikninga í Landsbankanum. Augljóst er, ef satt er, að einhver aðili í Landsbankanum fæst þá við það að lauma bókhaldsgögnum bankans til blaðamanna DV. Það hlýtur að koma til kasta bankans sjálfs og jafnvel yfirvalda. Auðvelt ætti að vera fyrir bankann að komast að því, hver þessi aðili er.

Spurning: Nú sagðir þú þetta í pistli á bloggsíðu þinni á Pressunni þann 5. Mars 2010: „En íslenskur almennningur á ekki að greiða skuldir óreiðumanna“ og vísaðir til Icesave málsins. Icesave var eins og öllum er kunnugt útibú Landsbankans í Bretlandi. Erfitt er að skilja orð þín öðruvísi en þannig að skuldir óreiðumanna séu skuldir Icesave og þar með Landsbankans. Lítur þú svo á að með því að þiggja greiðslur frá Landsbankanum hafir þú verið að þiggja greiðslur frá óreiðumönnum? Ef ekki, hvað breytti skoðun þinni?

Svar: Ég hef margsinnis skýrt út í pistlum mínum á Pressunni.is og annars staðar, hverjir óreiðumennirnir eru. Þeir eru Baugsfeðgar, Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem tæmdu alla íslensku bankana þrjá að innan, þar á meðal Landsbankann. Féð, sem sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi lögðu inn á Icesave-reikninga í góðri trú, runnu í ýmis ævintýri Baugsfeðga og klíkubræðra þeirra, ekki aðeins í einkaþotur, lystisnekkjur, skrauthýsi á Manhattan og skíðaskála í Frakklandi, heldur líka í ýmis fjárfestingarævintýri. Það er mikið áhyggjuefni, að þessir óreiðumenn hafa enn fjölda manns á launum við að verja sig, lögfræðinga jafnt sem álitsgjafa og blaðamenn, og hefur DV raunar upplýst um suma þeirra. Athyglisvert er, að það eru aðallega leigupennar og lögkrókafræðingar Baugsfeðga, sem vilja, að íslensk alþýða greiði skuldir þessara óreiðumanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband