Veikara kynið

Oft eru konur kallaðar »veikara kynið«. Það á rætur sínar að rekja til Nýja testamentisins, þar sem segir í Fyrra almenna bréfi Péturs: »Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið.«

Þetta hugtak kemur fyrir í kunnri gamansögu af Magnúsi Ásgeirssyni og Halldóri Laxness frá vorinu 1940. Fyrri kona Halldórs, Inga, var þá nýfarin frá honum og hafði tekið saman við annan mann. Röktu þeir kvennaraunir sínar. Magnús spurði Halldór: »Er ekki veika kynið sterkara, vegna þess hve sterka kynið er veikt fyrir veika kyninu?« Halldór svaraði: »Nei, það er ekki vandinn. Hann er, að við gerum altof miklar kröfur til kvenna. Við viljum að þær séu fínar frúr þegar vinir okkar koma í heimsókn, eldabuskur í eldhúsinu og skækjur í rúminu. En konurnar snúa þessu öllu við. Þær eru eldabuskur í rúminu, fínar frúr í eldhúsinu og skækjur þegar vinir okkar koma í heimsókn.«

Eflaust þykir mörgum gæta nokkurrar kvenfyrirlitningar í orðum skáldsins og raunar í sjálfu hugtakinu.

Annað orð, sem hljómar betur í eyrum nú á dögum, er »betri helmingurinn«. Enski hermaðurinn, hirðmaðurinn og ljóðskáldið Sir Philip Sidney smíðaði það hugtak, að því er ég best veit. Kemur það fyrir í 3. hluta skáldsögunnar Arcadia frá 1580.

Áslaug Ragnars notaði þetta hugtak í lipurlega skrifaðri skáldsögu, Haustviku, sem kom út 1980. Þar segir: »Ég verð að venja mig af því að hugsa um sjálfa mig sem helming af einingu, sem ófullkominn einstakling. Ég er ein manneskja, ekki hálf. Sjálf hef ég valið mér það hlutskipti að vera ein. Það er enginn betri helmingur.«

Sjálfur beitti ég þessu hugtaki í ræðu í kvöldverði, sem Verslunarráð Íslands hélt Milton Friedman í Þingholti 31. ágúst 1984. Þar sagði ég, að erfitt væri að verða honum betri, en einum manni hefði þó tekist það. Það væri hans betri helmingur, Rose Friedman, og bað ég veislugesti að lyfta glösum fyrir henni. Milton spratt upp með breiðu brosi og kvaðst vilja verða fyrstur til að skála fyrir sínum betri helmingi.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 19. mars og er sóttur í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er ein af fermingargjöfunum um þessar mundir.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband