Hvalveiðar þurfa ekki að vera rányrkja

Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á grein, sem ég skrifaði í Vísbendingu, 9. tbl. 29. árg. (3. mars 2011), 3.–4. bls. Þar ræði ég um tvær afar fróðlegar greinar, sem birtust í hinu virta alþjóðlega tímariti Science með 34 ára millibili.

Önnur greinin hét „Hagfræði rányrkju“ (Economics of Overexploitation), var eftir kanadíska stærðfræðinginn Colin W. Clark og kom á prent 1973. Þar notaði Clark hið hefðbundna líkan fiskihagfræðinnar af ofveiði og gagnrýndi þá niðurstöðu, að jafnan væri hagkvæmast að veiða minna en nemur mögulegum hámarksafla úr fiskistofni.

Clark ræddi sérstaklega um hvalveiðar, en þá sem nú virðist vera mjög lítið til af steypireyði, stærstu hvalategundinni. Benti Clark á, að hvalir tímgast mjög hægt. Kvað hann þess vegna hugsanlegt, væri vaxtafótur (sem heitir á ensku discount rate) lágur, að það borgaði sig að að veiða stofninn upp. Rányrkja væri þess vegna hugsanlega „hagkvæm“ fyrir veiðimennina.

Margir hvalfriðunarsinnar hafa vitnað í þessa grein, til dæmis Grænfriðungar, sem látið hafa að sér kveða á Íslandi.

En árið 2007 birtist í Science önnur grein eftir þrjá hagfræðinga frá ýmsum löndum, Grafton, Kompas og Hilborn, „Hagfræði rányrkju endurskoðuð“ (Economics of Overexploitation Revisited). Þar leiða þeir rök að því, að rányrkja borgi sig aldrei. Ef veiðimenn, hvort sem þeir veiða hval eða fisk, hugsa aðeins um að hámarka gróða sinn, þá gera þeir það hagkvæmast með því að landa talsvert minna en nemur mögulegum hámarksafla úr hvalastofni eða fiskistofni.

Ein meginástæðan til þess er, að kostnaður á hverja sóknareiningu minnkar, eftir því sem stofn er stærri, og öfugt. Það er veiðimönnunum því í hag, að stofninn sé stór. Þeir græða á því.

Ég mun hins vegar flytja fyrirlestur í Háskóla Íslands 8. apríl næstkomandi um afstöðu Evrópusambandsins til hvalveiða og hvernig sætta megi sjónarmið hvalveiðimanna annars vegar og hvalfriðunarsinna hins vegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband