13.3.2011 | 10:31
Talan sjö
Einkennilegt er, hversu margt í lífinu er sjöfalt. Eitt kunnasta dæmið er sjö skeið eða afbrigði mannsævinnar, sem William Shakespeare telur upp í 2. þætti leikritsins Sem yður þóknast: Barnið, unglingurinn, æskumaðurinn rómantíski, hermaðurinn, frár á fæti, dómarinn með ístru, öldungurinn og loks ellisljótt gamalmennið.
Ég benti á það í Laxness, þriðja bindi ævisögu nóbelsskáldsins, sem kom út árið 2005, að smásögurnar í Sjöstafakverinu svara að sumu leyti til þessara sjö skeiða mannsævinnar.
Dauðasyndirnar, sem Guð fyrirgefur ekki á efsta degi samkvæmt kenningum kirkjufeðranna, fara einnig sjö saman: dramb, ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi.
Höfuðdygðirnar voru að vísu aðeins fjórar í heiðnum sið, dómgreind, réttsýni, hófsemi og hugrekki. En í kristnum sið bættust við trú, von og kærleikur, og þá eru þær orðnar sjö.
Undur veraldar voru að fornu sjö talsins: egypsku pýramídarnir, hangandi garðar Babýlon-borgar, Artemisarhofið í Efesos, Seifsstytta Fídíasar, grafhýsi Mausolosar í Halikarnossos, risastytta af sólguðnum á Ródos og vitinn við Alexandríuborg í Egyptalandi.
Í fjörlega skrifaðri bók Díógenesar Laertíusar, Ævisögum heimspekinga, segir frá »vitringunum sjö« í Grikklandi hinu forna, og höfðu þeir hver sitt einkunnarorð.
Sólon Aþeningur sagði: Kynnstu sjálfum þér. Kílon frá Spörtu varaði við: Í upphafi skyldi endinn skoða. Þales frá Míletos mælti: Sá, sem er óttalaus, þarf ekkert að óttast. Bías frá Príene fullyrti: Flestir menn eru illir. Kleóbúlos frá Lindon kvað: Varist öfgar. Pittakos frá Mýtilene minnti á: Nýtið tímann. Og Períandros frá Korinþu benti á: Allt er framtakssömum fært.
Enn má nefna »Systurnar sjö«, en þær eru stjörnuþyrping í Nautsmerkinu. Á íslensku eru þær oftast nefndar »sjöstirnið« eða »sjöstjarnan«. Sjö virtir kvennaháskólar í Bandaríkjunum voru enn fremur nefndir »systurnar sjö«, Barnard, Bryn Mawr, Mount Holyoke, Radcliffe, Smith, Vassar og Wellesley. Þetta nafn hefur líka verið notað um sjö stærstu olíufélög heims.
Ekki má gleyma ævintýrinu um sjösofendur. Þeir voru sjö kristnir unglingar frá Efesos, sem leituðu um miðja þriðju öld skjóls undan ofsóknum Rómverja í helli einum og voru múraðir inni. Guð lét svefn falla á þá, og þeir vöknuðu ekki aftur fyrr en að hálfri annarri öld liðinni, en þá var Rómaveldi orðið kristið. Lögðust þeir þá aftur til svefns og sofa að eilífu. Hér á landi talaði Jónas Jónsson frá Hriflu stundum um vökumenn annars vegar og sjösofendur hins vegar.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2011 og er sóttur víða í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, en ætti ekki síður að henta til fermingar- en jólagjafa.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Facebook