Kjartan Ólafsson um verk Þórs Whiteheads

mynd_1068566.jpgÉg skil vel, að fortíðin hvíli þungt á ýmsum fyrrverandi forystumönnum íslenskra kommúnista og sósíalista. Kommúnisminn er einn ljótasti kaflinn í sögu tuttugustu aldar, eins og skýrt kemur fram í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út á vegum Háskólaútgáfunnar sumarið 2009. Kostaði hann hátt í hundrað milljón manns lífið.

Umræðustjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, leiddi einn fyrrverandi forystumann íslenskra sósíalista, Kjartan Ólafsson, fram í sjónvarpsþætti sínum sunnudaginn 6. mars 2011. Þar andmælti Kjartan harðlega greiningu dr. Þórs Whiteheads prófessors á íslenskum kommúnisma í stórmerkri bók, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, sem kom út fyrir jólin 2010.

Kjartan gerði eina staðhæfingu Þórs sérstaklega að umræðuefni. Hún var, að íslenskir kommúnistar hefðu á fjórða áratug fengið þjálfun í vopnaburði í Moskvu. Kjartan sagði, að margt annað en vopnaburður hefði verið kennt í skólum þeim (og nær væri raunar að kalla þjálfunarbúðir), sem Komintern (alþjóðasamband kommúnista, sem íslenski kommúnistaflokkurinn var aðili að) rak í Moskvu og um þrjátíu Íslendingar sóttu. Það er rétt. En aðalatriðið var, að vopnaburður var þar kenndur. Um það nefnir Þór órækar heimildir. Það má auðvitað gera lítið úr þeim heimildum, ef menn vilja. En skóli, þar sem vopnaburður er kenndur, jafnvel aðeins hluta námstímans, er í eðli sínu öðru vísi en skóli, þar sem aðeins er stundað venjulegt nám.

Kjartan kvað engar heimildir til um, að Íslendingar hefðu eftir nám í þessum skólum dvalist í herbúðum Rauða hersins, eins og venja var um nemendur, sem fengu þjálfun í Moskvu. En Þór benti neðanmáls í bók sinni á eina heimild, sem ég hef sjálfur kannað og get ekki skilið öðru vísi: Hún er grein eftir Hallgrím Hallgrímsson (sem seinna barðist í spænska borgarastríðinu og komst þar til nokkurra metorða sem stjórnmálafulltrúi, enda dyggur stalínisti) í málgagni ungra kommúnista, Rauða fánanum, 5. árg., 2. tbl. (1933). Heitir greinin „Lífið í Rauða hernum“. Raunar má líka spyrja, hvers vegna hefðu átt að gilda aðrar reglur um íslenska kommúnista en aðra nemendur í þessum skólum.

Ekki þarf að lesa lengi í bók Hallgríms um spænska borgarastríðið, Undir fána lýðveldisins, til að sjá, að höfundur hafði í senn mikla þekkingu og logandi áhuga á vopnaburði. Þess má einnig geta, að eftir Hallgrím birtist í Þjóðviljanum 22. febrúar 1943 greinin „Úr sögu rauða hersins“ í tilefni 25 ára afmælis hersins.

Ég held, að niðurstaða allra óvilhallra fræðimanna, sem rannsaka íslensku kommúnistahreyfinguna, hljóti að vera hin sama: Íslenskir kommúnistar voru hvorki betri né verri en kommúnistar annars staðar. Þeir voru blátt áfram sömu kommúnistarnir og annars staðar, en það merkti, að þeir hikuðu ekki við að beita ofbeldi til þess að ná markmiðum sínum. Þar skildi einmitt með þeim og lýðræðisjafnaðarmönnum og öðrum lýðræðissinnum. Og um leið og fjölmennur hópur hættir að virða leikreglurnar, breytist leikurinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband