Hver er besti maturinn?

Þrjár söguhetjur Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns, hafa öðlast sjálfstætt líf í þjóðarvitundinni sem tákn um ákveðna mannlega eiginleika: Bárður á Búrfelli um nískuna, Gróa á Leiti um söguburð með sakleysislegu yfirbragði og Þorsteinn matgoggur um græðgi, sem er auðvitað líka ein af dauðasyndunum sjö.

„Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta,“ sagði Þorsteinn matgoggur. Orðhvatur rithöfundur, sem nú situr á Alþingi, hafði þessi orð raunar fyrir nokkrum árum í blaði eftir „Íslendingi á þorrablóti“.

Hvað sem því líður, er fátt skemmtilegra en að gæða sér á ljúffengum mat. Ég gerði það að gamni mínu á dögunum, þar sem ég er að hrista af mér nokkur aukakíló og þarf þess vegna að gæta hófs í mat og drykk, að velta fyrir mér, til hvers ég gæti hlakkað.

Nokkrir eftirlætisréttir mínir eru þeir, sem voru á boðstólum á Hótel Holti, þegar ég var ungur og stórmál að fara á veitingastað. Forrétturinn var grafinn lax með sinnepssósu (sem er af einhverjum ástæðum miklu bragðbetri á Hótel Holti en annars staðar), aðalrétturinn lambalundir með jarðeplum (kartöflum) og ábætirinn crepes suzettes (flamberaðar pönnukökur í Grand Marnier-sósu).

Góður vinur minn, Pétur heitinn Björnsson í Vífilfelli, kenndi mér að drekka hið ágæta rauðvín Chateau Cantenac Brown með þessum réttum. Það fæst enn í Ríkinu.

Annar góður vinur minn, sem hefur gaman af matreiðslu, bauð mér einu sinni heim til sín í gómsætan kvöldverð. Forrétturinn var grafin ýsa, sem hafði verið í sítrónulegi í sólarhring, ef ég man rétt, og aðalrétturinn var humarhalar í smjörsósu. Hef ég sjaldan smakkað betri mat, og muna hin fjölmörgu börn þessa vinar míns enn eftir ánægju minni með hann.

Á slíku kvöldi á skraufþurrt Puligny Montrachet, sem þarf auðvitað að vera ískalt, best við. Ég hef því miður ekki séð það í Ríkinu og held, að það fáist ekki þar.

Annars finnst mér líka mjög góður grillaður kjúklingur í sveppasósu með frönskum jarðeplum, þótt sennilega þyki sumum sá réttur heldur hversdagslegur. Með kjúklingnum er að mínum dómi best að drekka kælt Beaujolais.

Ég er raunar með aldrinum að verða hrifnastur af Búrgundarvínum með mat. En bestu fordrykkirnir eru, finnst mér, Dry Martini eða Manhattan. Man ég vel eftir boðum hjá móður eins vinar míns og bekkjarbróður í menntaskóla, sem nú er virðulegur sendiherra, og veitti hún óspart Manhattan. Á ég ljúfar minningar um höfðinglegar veitingar á því heimili á menntaskólaárunum og oft síðar. Reynsla mín er hins vegar sú, að konum finnst oftast Kir Royal betri en þessir tveir fordrykkir.

Á námsárum mínum í Oxford var ég í tvö ár það, sem kallað var „R. G. Collingwood Scholar“ eða verðlaunaþegi á garði mínum, Pembroke, og fylgdu því þrjár ókeypis máltíðir á viku við háborðið, High Table, þar sem kennarar og gestir þeirra snæddu. Fyrir mat var ætíð drukkið sérrí-glas í sérstökum sal, Broadgates Hall, undir borðum fengu menn sérvalið hvítvín og rauðvín úr kjallara garðsins, eftir matinn var sest inn í þriðja salinn og flöskur af Madeira og portvíni látnar ganga, og að lokum var horfið aftur inn í fyrsta salinn, Broadgates Hall, og borið fram kaffi eða viskí.

Í Oxford lærði ég að meta andabringu í glóaldinsósu (appelsínusósu), sem oft var á boðstólum á háborðinu. Þegar ég sé andabringu á matseðlum á veitingastöðum, rifjast alltaf upp þessi tvö ánægjulegu ár þar, 1984 og 1985. (Heimspekingurinn R. G. Collingwood, sem þessi verðlaun voru kennd við, var sonur W. G. Collingwoods, sem ferðaðist um Ísland 1897 og gerði fjöldann allan af skemmtilegum vatnslitamyndum af sögustöðum.)

Þegar ég hef skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi, hef ég iðulega sett saman matseðil eitthvert kvöldið, þar sem forréttur er reyktur áll með eggjahræru, aðalréttur hreindýrasteik með sykurgljáðum jarðeplum og ábætir bláberjaskyr. Þetta þykir útlendingum hið mesta hnossgæti, sem það og er. Ef hóparnir eru litlir, þá voga ég mér að bjóða frekar upp á grafinn hval í forrétt.

Annars er einn eftirminnilegasti málsverður minn sá, sem ég fékk haustið 1987 í Suður-Afríku. Liðsforingi í hernum bauð mér í hádegisverð. Forrétturinn var krókódílahalar og aðalrétturinn gíraffasteik. Krókódílahalarnir voru á bragðið einhvers staðar á milli kjúklinga og humars, en gíraffasteikin var dæmigerð villibráð, safarík og römm.

Liðsforinginn bauð mér líka með í ferð þyrlusveitar sinnar næsta dag til Angólu, þar sem fylgjast átti með skæruliðum, en ég afþakkaði kurteislega.

Við þurfum ekki að vera eins gráðug og Þorsteinn matgoggur forðum til að njóta þess að setjast við matborðið. Nautn er ekki nauðsynlega fíkn. Gott er að geta hlakkað til einhvers.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband