Frábær bók Þórs Whiteheads

ecshop_zoom_ugla88.jpgEf einhver er í vandræðum með jólagjöf, þá minnist ég auðvitað ætíð fyrst á 992 blaðsíðna bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er afrakstur fimmtán ára rannsókna minna á því, sem skemmtilegast, viturlegast og snjallast hefur verið sagt á íslensku. Ég er ánægður með, hversu vel þetta verk mitt hefur spurst út. Ég játa, að ég er stoltur af því eins og foreldri getur verið af afkvæmi.

En ég er í engum vafa um, hvaða rit annað ég myndi nefna, væri ég spurður um bestu bókina og heppilegustu jólagjöfina fyrir þessi jól. Það er stórvirki dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið, um íslensku kommúnistahreyfinguna 1920–1946. Hún er skrifuð af ótrúlegum lærdómi. Á bak við hverja einustu setningu þeirrar bókar liggur þrotlaust erfiði fræðimanns, sem þaulkannað hefur heimildir og lengi velt þeim fyrir sér.

Ekki er síður um hitt vert, að Þór skrifar lipran texta. Hann er svo áreynslulaus, að mikil áreynsla hlýtur að hafa verið að setja hann saman. Bókina má lesa eins og reyfara; hún er það, sem enskumælandi menn kalla „page turner“; menn eiga erfitt með að leggja hana frá sér. Hún myndar líka eina samfellda og haglega gerða heild. Ég tel fullvíst, að með þessari bók hafi Þór mikil áhrif á það, hvernig Íslendingar muni skoða stjórnmálasögu sína á tuttugustu öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband