30.11.2010 | 01:19
Aðventan hjá Gísla Marteini
Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur venjulega opið hús heima hjá sér fyrir vini sína fyrsta dag aðventunnar, og bað hann okkur Einar Kárason rithöfund um að lesa upp úr verkum okkar að þessu sinni, síðdegis sunnudaginn 28. nóvember. Bók mín, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, kom út hjá Bókafélaginu snemma í nóvember.
Var þetta hinn ánægjulegasti viðburður. Ég sagði aðallega frá þremur höfundum tilvitnana í bók minni, þeim Árna Pálssyni prófessor, Ólafi Thors forsætisráðherra og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Þeir voru allir orðheppnir, en fyndni þeirra fylgdi líka jafnan alvarlegur boðskapur, jafnframt því sem hann var græskulaus.
Einar las upp úr tveimur verkum sínum, eins konar skáldskaparævisögu, þar sem hann segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér í volki veraldar, og úr bók, sem hann gefur út með öðrum, þar sem hann semur texta við ljósmyndir í sama stíl og Þórarinn Eldjárn gerði í lítilli bók fyrir nokkrum árum: Ég man
Ein dóttir Gísla Marteins skemmti ásamt vinkonu sinni með fiðluleik, og fórst þeim það vel úr hendi. Þá tóku tveir vinir Gísla Marteins, þeir Ólafur Teitur Guðnason og Rúnar Freyr Gíslason, lagið, og sungu þeir jólalög, sem sýndu, að þeir hafa geymt mjög vel jólabarnið í sjálfum sér, og get ég ekki sagt hið sama um sjálfan mig. En gestgjafinn var glaður og reifur að venju.
ÍNN-þáttur sá, sem ég hélt, að yrði á dagskrá þennan sama dag, sunnudagskvöldið 28. nóvember, verður hins vegar eftir viku. Þar röbbum við Sigurður G. Tómasson saman um bók mína.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:25 | Facebook