Kápa bókar minnar

kjarni_malsins_jpg_1044932.jpgFréttatíminn fékk nokkra hönnuði til að velja bestu og verstu bókarkápur ársins, og var kápa bókar þeirrar, sem ég tók saman og Bókafélagið gefur út fyrir þessi jól, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, valin ein af tíu bestu kápunum. Björn Jónsson hannaði kápuna, en á framhlið kápunnar er mynd Þrándar Þórarinssonar listmálara, „Útifundur á Austurvelli“ og á hægri flipa ljósmynd Baldurs Kristjáns ljósmyndara af mér í fornbókabúð Braga Kristjónssonar á Klapparstíg.

Málverk Þrándar Þórarinssonar hefur marga skemmtilega drætti. Þetta er útifundur á sama stað og sumir útifundirnir eftir hrun. En fundargestir eru klæddir í föt frá nítjándu öld og bera yfirbragð þeirrar tíðar. Styttan af Jóni Sigurðssyni snýr einnig að fundargestunum. Listamaðurinn leyfir Alþingishúsinu, Dómkirkjunni, Hótel Borg og Nathan & Olsen-húsinu öllum að vera á sínum stað, en teiknar nýtt hús í stað gler- og stálvirkis Almennra trygginga, sem honum finnst greinilega ekki prýða götumyndina.

Yfir þessari mynd er einhver tímalaus og þjóðlegur blær, eins og ætlunin er, að sé yfir bókinni. Hún er í senn nútíminn og fortíðin, skírskotar til sögu og samtíðar. Bókin á einmitt að geyma það, sem sagt hefur verið sögulegast, fleygast, viturlegast og snjallast á Íslandi. Hún á líka að vera handbók fyrir þá, sem þurfa að taka til máls á fundum eins og sýndir eru í verki Þrándar eða skrifa um þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband