Lagaritun á þjóðveldisöld

Okkur á höfuðborgarsvæðinu standa til boða forvitnilegir fyrirlestrar á hverjum degi. Í fyrradag, þriðjudaginn 24. nóvember, ætlaði ég að hlýða á fyrirlestra Sigurðar Líndals og dr. Hans Hennings Hoffs um kristin og rómversk áhrif á lögbók þjóðveldisins, Grágás, í hádeginu og rökræður tveggja raunvísindamanna, Ólafs Flóvenz og Stefáns Arnórssonar um það, hvort jarðvarmi væri frekar náma eða lind, um kvöldið.

'Ég komst aðeins á fyrri fyrirlesturinn sökum tímaskorts og verð að útvega mér erindi þeirra Ólafs og Stefáns síðar. En fyrirlestrar þeirra Sigurðar og Hoffs voru afar fróðlegir. Sigurður ræddi um þann merkismann, prófessor Konrad Maurer í München, sem skrifaði margt um þjóðveldið og veitti Jóni Sigurðssyni drengilegan stuðning í sjálfstæðisbaráttunni.

Hoff setti fram skemmtilega tilgátu um það, að Hafliði Másson á Breiðabólsstað í Vesturhópi, sem hýsti ritun þjóðveldislaganna á öðrum áratug 12. aldar, hefði átt meira undir sér og lifað ævintýralegra lífi en haldið hefði verið. Verið gæti, að Hafliði hefði ungur maður verið foringi Væringja í Miklagarði (en á þeirri tíð er kunnugt um norrænan mann, sem stjórnaði lífvarðasveit keisarans, og ekki hefur tekist að finna) og haft þaðan með sér auð heim og einnig austrómverskan hugsunarhátt.

Rakti Hoff ýmis dæmi um áhrif úr austrómverskum lögum á lög Þjóðveldisins.

Í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, valdi ég nokkur dæmi úr Lögbók Jústiníanusar keisara, sem er helsta heimildin um austrómverskan rétt, og hef mætur á þeim öllum. Er þar mikil og hnitmiðuð speki saman komin í nokkrum knöppum setningum.

Líklega er ekki til skýrari lýsing á réttlætishugtakinu en í bók Jústiníanusar:

Juris præcepta sunt hæc: honeste vivere, alterum non lædere, suum cuique tribuere.
Lögmálið er þetta: að lifa flekklausu lífi, gera öðrum ekki mein og gjalda hverjum sitt.

Einnig má minna á orð Paulusar í bókinni: Optima est legum interpres consuetudo. Siðvenjan er besti lögskýrandinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband