24.11.2010 | 09:44
Seint séð, Þuríður
Ég tók eftir því fyrir nokkru, að þáverandi leiðarahöfundur Fréttablaðsins, Páll Baldvin Baldvinsson, notaði orðtakið Seint séð, Þuríður. Sennilega kannast fæstir við þetta orðtak nú á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld. Þuríður var prestsfrú í Stykkishólmi á nítjándu öld, Þuríður Kúld, sem Matthías Jochumsson orti um frægt kvæði. Þar eru þessi vísuorð:
Hverju líkist lífið manna?
leiftri, draumi, sjónhverfing,
það er blik á brjósti hranna,
botnlaust djúp er allt í kring.
Þuríður var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar rektors og var uppi 18231899. Hún þótti einkennileg í orðum og háttum. Maður hennar var séra Eiríkur Kúld, sem sat um skeið á Alþingi, en hann var uppi 18221893. Hann var kunnur að ljúfmennsku, jafnaðargeði og æðruleysi. Gekk á ýmsu í hjónabandi þeirrar Þuríðar.
Þuríður á eitt sinn að hafa sagt, að nú tæki hún eftir því, að séra Eiríkur væri ekki aðeins dökkur í andliti, heldur líka um allan líkamann, og gæti hún ekki við það unað. Þá sagði séra Eiríkur með mestu ró: Það er seint séð, Þuríður mín.
Ólafur Grímur Björnsson, læknir og fræðimaður, sem ég hef sótt margan fróðleik til, hefur bent mér á, að Sighvatur Grímsson Borgfirðingur víkur að Þuríði Kúld og sérkennilegum uppátækjum hennar í Prestaæfum, sem varðveitt eru í Þjóðarbókhlöðu. Skrifar Sighvatur, að Þuríður hafi verið ofláti mikill, allt fram á elliár, tilgerðarsöm og glysgjörn úr hófi fram og skapvargur hinn mesti. Ekki eru þessi fleygu ummæli séra Eiríks þó þar á bók.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook