„Stærsta bankarán Íslandssögunnar“

jon-asgeir-johannesson-415x275_990332.jpgMér er það minnisstætt haustið 2008, þegar við, sem þá sátum í bankaráði Seðlabankans, vorum kölluð á bankaráðsfund og okkur skýrt frá því, að íslenska ríkið hefði með milligöngu Seðlabankans gert kauptilboð í 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra. Tilboðinu fylgdi, að hlutir annarra hluthafa yrðu stórlækkaðir í verði. Glitnir hafði áður leitað til Seðlabankans um lán, en þessi orðið niðurstaðan. Þótti okkur þetta sögulegt.

Það þótti fleirum. Jón Ásgeir Jóhannesson, umsvifamesti hluthafinn, sagði í viðtali við blað sitt, Fréttablaðið, 30. september 2008: „Þetta er stærsta bankarán Íslandssögunnar og augljóslega hluti af stærri átökum sem hafa ekki farið fram hjá neinum. Nú hafa menn náð ákveðnum hefndum og hljóta að vera ánægðir.“ Í því er mikil kaldhæðni fólgin, að hann átti við kauptilboð ríkisins.

Nú virðist „stærsta bankarán Íslandssögunnar“ vissulega hafa verið framið í Glitni. En ræninginn var ekki íslenska ríkið, heldur Jón Ásgeir Jóhannesson og klíkan í kringum hann. Ég hef lesið stefnu slitanefndar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og viðskiptafélögum hans, sem aðgengileg er á Netinu. Þetta er auðvitað ákæruskjal, en ekki dómur. Margt getur einnig gerst á langri leið, sérstaklega ef menn hafa efni á því að ráða harðskeytta lögfræðinga sér til varnar.

Eftir lestur þessa skjals er þó enginn vafi á því í mínum huga, hverjar sem lyktir málareksturs gegn Jóni Ásgeiri verða, að hann misnotaði stórlega ítök sín og áhrif í Glitni og gaf starfsfólki bankans hvað eftir annað rangar upplýsingar vísvitandi. Hann stofnaði sýndarfyrirtæki og gerði málamyndasamninga. Hann var ekki útrásarvíkingur, heldur pappírsvíkingur. Hann skapaði ekki gróða, heldur froðu.

Davíð Oddsson hefur lengi þurft að sitja undir því, að hann hataðist við Jón Ásgeir og klíkuna í kringum hann og misbeitti valdi sínu gegn þessu liði. Ég get fullyrt af löngum og miklum kynnum af Davíð, að ekkert er hæft í þessu, þótt Davíð skynjaði fyrr og betur en aðrir hættuna af þessum mönnum, varaði við þeim og vildi takmarka umsvif þeirra. 

Sannleikurinn er hins vegar sá, að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans misbeittu hinum stórkostlegu áhrifum, sem þeir höfðu um skeið á Íslandi, gegn Davíð. Þeir ráku heiftúðlega herferð gegn honum með aðstoð fjölda leigupenna, sumra beittra, annarra sljórra. Þeim tókst að koma því í kring, að daufheyrst var við viðvörunum Davíðs — með alkunnum afleiðingum.

Nú segir Jón Ásgeir, að málshöfðun slitanefndar Glitnis og úrskurði breskra dómstóla um kyrrsetningu eigna hans megi allt rekja til Davíðs. Ef sá, sem svo mælir, er ekki vitstola, þá er hann að minnsta kosti rökþrota.

Eftir stendur: Ef einhver einn maður ber ábyrgð á því, að íslensku bankarnir stóðu berskjaldaðir, þegar lánsfjárkreppan skall á Íslandi haustið 2008, þá er hann Jón Ásgeir Jóhannesson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband