Nýfrjálshyggjan og lánsfjárkreppan

17.16 LehmanBrothers.gettyimages-104396071Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin. Hann segir meðal annars, að hún hafi valdið lánsfjárkreppunni 2007–2009, en hún náði hámarki sínu haustið 2008 og hafði sem kunnugt er óskaplegar afleiðingar hér á Íslandi. Þetta er mikill misskilningur. Orsakir kreppunnar voru aðallega tvær. Í fyrsta lagi höfðu seðlabankar um heim allan stuðlað að lánsfjárþenslu með lágum vöxtum, og jafnframt hafði bandaríska ríkið hvatt og jafnvel neytt lánastofnanir til að veita húsnæðislán umfram greiðslugetu margra viðtakenda. Í öðru lagi hafði ný fjármálatækni, sem átti að auðvelda mat á áhættu, haft þveröfugar afleiðingar. Erfiðara varð að meta áhættu af fjárfestingum og útlánum. Þegar þetta varð ljóst haustið 2007, varð uppnám á fjármálamörkuðum og lausafjárþurrð.

Lánsfjárkreppan 2007–2009 var dæmigerð hagsveifla eins og Friedrich von Hayek hafði lýst í ritum sínum. Óeðlileg peningaþensla árin á undan (lágir vextir og óhófleg húsnæðislán) olli óeðlilegri bjartsýni og offjárfestingum, sem síðan varð að leiðrétta í niðursveiflunni. Það er hins vegar fróðlegt, að stjórnvöld gripu ekki til þeirra úrræða, sem John Maynard Keynes hafði lagt á ráðin um í heimskreppunni, víðtækra opinberra framkvæmda. Þess í stað bættu seðlabankar úr lausafjárþurrð lánastofnana með beinni og óbeinni peningaprentun, ekki síst verðbréfakaupum. Milton Friedman hafði í tímamótaverkum sínum einmitt leitt rök að því, að niðursveiflan í atvinnulífinu eftir 1929 hefði breyst í alvarlega heimskreppu, vegna þess að seðlabankar hefðu þá brugðist því hlutverki sínu að sjá lánastofnunum fyrir nægu lausafé.

Lánsfjárkreppan alþjóðlega 2007–2009 átti sér því orsakir, sem Hayek hafði greint, og viðbrögðin við henni voru þau, sem Friedman hafði lagt til. Annað mál er það, að ein ástæðan til þess, að lánastofnanir fara geyst, er, að þær þurfa oft ekki að taka afleiðingum óvarfærni sinnar. Þegar vel gengur, hirða þær gróðann. Þegar illa gengur, bjarga seðlabankar þeim. Þetta er ekki skynsamleg regla, og við Íslendingar sýndu þar raunar 2008, að heimurinn ferst ekki, þótt lánastofnunum sé ekki alltaf bjargað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021.)


Bloggfærslur 6. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband