23.3.2013 | 16:11
Sænsk áhrif
Þegar ég hlustaði fyrir skömmu á fróðlegan fyrirlestur dr. Nils Karlsons um nýju, sænsku leiðina, sem felst í auknu atvinnufrelsi og lækkun skatta, rifjaðist upp fyrir mér, að sænskir hagfræðingar hafa haft nokkur áhrif á Íslandi á tuttugustu öld, til góðs og ills. Til dæmis voru hagfræðiskrif Jóns Þorlákssonar, verkfræðings og forsætisráðherra, að miklu leyti sótt í verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var ötull málsvari frjálsra viðskipta.
Annar kunnur sænskur hagfræðingur, Erik Lundberg, kom hingað 1935 til að veita þáverandi vinstri stjórn ráð, en aðallega lagði hann það þá til, að Íslendingar hættu að lifa um efni fram, og hefur margt verið sagt af minna viti. Lundberg sneri aftur hingað 1955 á ráðstefnu um, hvort Norðurlandaþjóðir ættu að endurreisa myntbandalag það, sem stóð frá 1873 til 1914 og gaf góða raun. Voru þá íslensk króna, dönsk, sænsk og norsk allar jafngildar og skiptanlegar.
Þriðji frægi sænski hagfræðingurinn, Gunnar Myrdal, lagði leið sína til Íslands sumarið 1952 og kvað kreppu og matvælaskort vofa yfir heiminum, og kann það að hafa haft sitt að segja um, að landbúnaðarframleiðsla til útflutnings var aukin á Íslandi.
Alþekkt hagfræðilegt sjónarmið íslenskt er ef til vill líka sænskt að uppruna. Gleðimaðurinn Þórður Guðjohnsen sagði eitt sinn: Nú er brennivínið orðið svo dýrt, að ég hef ekki efni á að kaupa mér skó! Minnir þetta á fleyg ummæli sænska háðfuglsins Alberts Engströms í skopblaðinu Strix 1903: Brennivínið verður aldrei svo dýrt, að það sé ekki peninganna virði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. janúar 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.3.2013 kl. 21:29 | Slóð | Facebook
23.3.2013 | 08:25
Orðaskipti Rousseaus og Voltaires
Margir vinstri sinnar kenndu mér í Oxford á sínum tíma, hver öðrum snjallari, og átti ég í vinsamlegum útistöðum við þá suma, til dæmis Amartya Sen, Ronald Dworkin og Jerry Cohen, en hinn síðastnefndi var sannfærður marxisti og þó um leið ætíð reiðubúinn til að rökræða. Eftirlætistilvitnun Cohens var ekki eftir Karl Marx, heldur franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau, sem uppi var 17121778. Hún var í Orðræðu um ójöfnuð, Discours sur lorigene et les fondements de linégalité parmi les hommes, frá 1755. Þar segir Rousseau: Hinn fyrsti, sem fékk þá hugmynd að girða af jarðarskika og segja: Þetta er mín eign og fann menn, sem voru nógu grunnhyggnir til að trúa honum, er hinn sanni frumkvöðull þjóðfélagsins. Hve mörgum glæpum, morðum og styrjöldum, hvílíkri ógn og eymd hefði sá maður hlíft mannkyninu við, er rifið hefði upp staurana eða fyllt upp skurðinn og hrópað til meðbræðra sinna: Gætið yðar! Hlustið ekki á svikara þennan. Þið eruð glötuð, ef þið gleymið því, að ávextir jarðarinnar eru eign okkar allra, en jörðin sjálf tilheyrir engum manni.
Ég nota hér þýðingu Einars Olgeirssonar, en hann samdi bók á íslensku um Rousseau árið 1925. Ég tek eftir því, að Einar Már Jónsson fornfræðingur vitnar í orð Rousseaus (með sömu velþóknun og Cohen) í nýútkominni ádeilu sinni á frjálshyggju, Örlagaborginni. En ég kann ekki betra svar við orðum Rousseaus en landi hans, rithöfundurinn og háðfuglinn Voltaire, sem uppi var 16941778. Eftir að Rousseau hafði sent honum bókina, skrifaði Voltaire til baka (og nota ég enn þýðingu Einars): Aldrei hefir slíku andríki verið beitt til að gera oss að dýrum, sem þér gerið hér. Mig fer að dauðlanga til að skríða á fjórum fótum, þegar ég les rit yðar. En þar sem ég lagði þann vana niður fyrir sextíu árum, finn ég til allrar óhamingju, að mér er ómögulegt að taka hann upp aftur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. janúar 2013.)