Þegar ég fékk verðlaun

Ég fékk frelsisverðlaun þau, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson, laugardagskvöldið 30. júní 2012. Það var mér ánægja og sómi að taka á móti þessum verðlaunum, sem Samband ungra sjálfstæðismanna veitir. Á hverju ári hljóta einn einstaklingur og einn lögaðili verðlaunin, og nú var lögaðilinn vefsíðan amx.is, sem mælir daglega og skörulega fyrir frelsi einstaklinganna. Fer vel á því, að verðlaunin séu kennd við Kjartan Gunnarsson lögfræðing, en hann er einlægur áhugamaður um aukið frelsi einstaklings og þjóðar.

Ég flutti ræðu við afhendinguna, þar sem ég rifjaði upp kynni mín af þeim Friedrich von Hayek, Milton Friedman og Karli Popper, en allir voru þeir merkir hugsuðir og mjög áhrifamiklir í viðkynningu. Sérstaklega hafði heimsókn Friedmans til Íslands mikil áhrif, en orðið „leiftursnjall“ lýsir honum jafnvel og orðið „djúpsær“ Hayek.

Ég sagði, að Popper hefði brýnt fyrir mér, að frjálshyggjan yrði aldrei fullsköpuð. Við vissum miklu betur, hvað væri böl en blessun, og frjálshyggjan væri sífelld barátta gegn því böli, sem mennirnir geta að einhverju leyti bætt, eins og kúgun og fátækt. Ég kvað mesta bölið á Ísland um þessar mundir vera vinstri stjórnin, sem svíkur alla samninga, nær hvergi árangri, en leggur þungar klyfjar á borgarana.

Í móttöku eftir afhendinguna ræddi ég talsvert við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem mér finnst mjög vera að vaxa í sínu erfiða hlutverki. Þetta var að kvöldi kjördags, og töldu flestir líklegt, að Ólafur Ragnar Grímsson yrði endurkjörinn, hvað sem um það mætti segja að öðru leyti. Ég sagði, að mér fyndist Ólafur Ragnar njóta sín best í því að tala máli Íslands á erlendum vettvangi. Ég hefði engar áhyggjur af því, að hann myndi brjóta stjórnarskrána, eins og sumir harðir andstæðingar hans héldu fram.

Eftir það fór ég á Fiskfélagið með Friðbirni Orra Ketilssyni, forstöðumanni amx.is, og konu hans, Þórunni Gunnlaugsdóttur, sem er dóttir ein besta vinar míns. Gæddum við okkur þar á ljúffengum fiski, en hætt er við, að slíkir réttir verði ekki lengi á boðstólum, ef við göngum í Evrópusambandið. Þar eru 88% fiskistofna ofveiddir og 30% þeirra nálægt hruni samkvæmt skýrslu sambandsins sjálfs frá 2009.

Fyrstu tölur í forsetakjöri voru ókomnar, þegar við settumst, og spáði ég því þá, að Ólafur Ragnar fengi 55% atkvæða. Ég fór ekki langt frá niðurstöðunni, því að Ólafur Ragnar fékk 53%.


Hverjum á að refsa fyrir ofveiði?

Maria Damanaki, fiskveiðistjóri Evrópusambandsins, segir, að refsa eigi Íslendingum fyrir ofveiði. Hún á þá við makrílstofninn, sem kom inn í fiskveiðilögsöguna óvænt og óumbeðinn, en er auðvitað kærkominn gestur og vonandi fastagestur.

En á þá ekki að refsa ESB fyrir ofveiði? Samkvæmt grænni bók um fiskveiðistefnu ESB, sem það gaf sjálft út 2009, eru 88% fiskistofna ESB ofveiddir (sókn í þá umfram það, sem nemur sjálfbærum hámarksafla, maximum sustainable yield) og 30% fiskistofna þess veiddir nálægt hættumörkum, þegar stofn getur hrunið vegna ofveiði.

Tröllið ætlar að refsa dvergnum, sem hefur þó fylgt skynsamlegri fiskveiðistefnu og telur sjálfsagt að veiða þá stofna, sem leita beinlínis á Íslandsmið og ekki eru undirorpnir einhverjum sögulegum rétti annarra. En hver hyggst refsa tröllinu?


Bloggfærslur 8. júlí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband