14.4.2011 | 22:47
Grein mín í Børsen
Margir Íslendingar kannast við danska blaðið Børsen, sem er aðalviðskiptablað Dana og mjög áhrifamikið og virt. Fimmtudaginn 14. apríl 2011 birti ég grein í því undir heitinu Derfor sagde Islændingene Nej, þar sem ég skýrði út, hvers vegna íslenska þjóðin hafnaði í annað sinn samningum stjórnar sinnar við bresk og hollensk stjórnvöld.
Ég skrifaði greinina ekki síst til að andmæla Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sem segir opinberlega í Danmörku, að auðvitað eigi Íslendingar að greiða skuldir sínar, en velta þeim ekki á herðar breskra og hollenskra skattgreiðenda.
Ég benti á, að þetta væri engin skuld Íslendinga, heldur flýttu bresk og hollensk stjórnvöld sér í miðri lánsfjárkreppunni að greiða innstæðueigendum Icesave-reikninga út fé úr Landsbankanum, af því að ella kynni að verða gert áhlaup á alla aðra banka. Innstæðurnar voru tryggðar í hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp eftir evrópskum reglum.
Ég vakti athygli á því í greininni í Børsen, að Arne Hyttnes, forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp eftir nákvæmlega sömu reglum og hinn íslenski, hefur vísað því á bug, að ríkisábyrgð væri á þeim sjóði.
Ég sagði:
Derfor tager Uffe Ellemann-Jensen fejl, når han beskriver sagen, som om islændingene simpelthen afviste at betale en gæld, de skylder den britiske og den hollandske regering. Der var ingen gæld.
Ég tók fram, að sennilega fengju breskir og hollenskir innstæðueigendur megnið af því fé, sem stjórnvöld í löndum þeirra hefðu í skyndi og óumbeðið lagt út fyrir þá, því að verið væri að selja þrotabú Landsbankans, og andvirðið rynni til þeirra, sem ættu forgangskröfur í búið.
Íslendingar hefðu hins vegar ekki viljað skrifa upp á óútfyllta ávísun. Þeir hefðu ekki viljað greiða skuldir óreiðumanna. Eins og ég orðaði það:
Nej-sigerne spørger: Hvorfor skal vi betale hensynsløse finansfolks gæld? Hvorfor taler Uffe Ellemann-Jensen deres sag i stedet for at tage parti for sine islandske venner?
Ég lauk greininni eins og þeirri, sem ég skrifaði svipaðs efnis í Wall Street Journal á mánudag, 11. apríl, á því, að hinir íslensku sigurvegarar kosninganna væru Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook
14.4.2011 | 07:28
Hafa vinstri menn gleymt Laxness?
Sú var tíð, að snjöllustu setningar Halldórs Kiljans Laxness voru jafnan á vörum vinstri manna, þar sem þeir sátu að tímafreku skrafi sínu á kaffihúsum og þóttust spakir. Ekki hafa þeir þó vitnað oft í slíkar setningar í Icesave-deilunni um það, hvort Íslendingar ættu að greiða skuldir óreiðumanna.
Ein lýsing Laxness í Íslandsklukkunni á þó vel við um það þolgæði, sem lítið land eins og Ísland verður að sýna í deilu við voldugri granna eins og Breta og Hollendinga:
Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.
Tíminn vinnur með okkur í Icesave-deilunni. Við skulum ekki vænta okkur hjálpar, þótt tröll það, sem kallar sig Evrópusambandið, komi með blíðskaparbragði og segist skulu frelsa okkur. Smám saman greiðir þrotabú Landsbankans út forgangskröfur, þar á meðal kröfur, sem bresk og hollensk stjórnvöld gera fyrir hönd innstæðueigenda í löndum sínum, vegna þess að þau hafa þegar greitt út það, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta átti að reiða af höndum, en gat ekki. Vonandi nægir það fyrir höfuðstól kröfunnar, en vexti eigum við auðvitað ekki að greiða, enda var lán Breta og Hollendinga ekki veitt að okkar frumkvæði.
Raunar eru orð eiginkonu hins íslenska bókasafnara Íslandsklukkunnar ekki alveg út í bláinn um þá fræðimenn í Háskóla Íslands, sem spáðu því, að Ísland yrði ýmist Kúba Norðursins eða ný Norður-Kórea, ef Icesave II samningurinn yrði ekki samþykktur (sá samningur, sem Bretar og Hollendingar vildu síðan bæta um litla 200 milljarða króna):
Þesskonar fólk sem íslenskir kalla lærða menn og spekínga eru hér í Danmörk kallaðir landsbýsidjótar og bannað með lögum að þeir komi útfyrir sinn kaupstað.
Ég tók hins vegar eftir því, að hægri mennirnir í Advice-hópnum vitnuðu óspart í Bjart í Sumarhúsum um eitt:
En meðan ég sælist ekki eftir annarra manna gróða, þá kæri ég mig heldur ekki um að bera annarra manna töp.
Það skiptir ekki máli, í hvaða samhengi Laxness setti þessar setningar sínar sjálfar, því að þær geyma í sér algildan sannleika um mannlífið, utan og ofan við dægurmálin, sem hann skipti sér sjálfur af með misjöfnum árangri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook