Hvar er Guðni Elísson?

big-gunielsson_jpg_340x600_q95.jpgFyrir nokkrum misserum lenti ég í ritdeilu við Guðna Elísson bókmenntafræðing. Ég taldi, að hættan af hlýnun jarðar af manna völdum væri orðum aukin. Vissulega hefði jörðin hlýnað síðustu hundrað árin, og eflaust mætti rekja eitthvað af því til losunar svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. En margt annað ylli loftslagsbreytingum, svo sem virkni sólar og straumar hafsins (sem þekur sjö tíundu hluta jarðar). Skynsamlegra væri að laga sig að loftslagsbreytingum en reyna að breyta þeim. Það væri stórkostlegt ofmat á mætti mannsins, sem gæti ekki einu sinni spáð rétt fyrir um veðrið á morgun, að treysta honum til að stjórna loftslaginu.

Guðni Elísson svaraði hróðugur, að hann væri sérfræðingur í orðræðugreiningu. Síðan gerði hann allar þær rökvillur, sem ég var varaður við í heimspekinámi forðum. Ein var, að hann hlyti að hafa rétt fyrir sér, af því að allir málsmetandi menn væru sömu skoðunar og hann. Þetta er „argumentum ad populum“ eða rökleiðsla eftir fjölda. Önnur var, að ég hlyti að hafa rangt fyrir mér, af því að ég væri „málpípa ráðandi afla“. Þetta er „argumentum ad hominum circumstantial“ eða rökleiðsla eftir hagsmunum. En ekkert leiðir um gildi staðhæfinga minna af þessum athugasemdum. Og svo framvegis. Í raun og veru svaraði Guðni mér ekki, heldur stimplaði mig.

Nú hefur hinn hróðugi orðræðugreinandi hins vegar fengið verðugt verkefni. Nýlega var laumað í fjölmiðla tölvupósti starfsmanna rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum, Climatic Research Unit, við Háskólann í East Anglia. Af honum sést, að þessir menn lögðu á ráðin um ýmsar talnabrellur til að villa um fyrir almenningi. Þeir reyndu einnig að koma í veg fyrir, að þeir vísindamenn, sem væru ósammála þeim um hættuna af hlýnun jarðar, fengju ritgerðir sínar birtar í virtum vísindatímaritum. Í stuttu máli sagt reyndu þeir eins og þeir gátu að stjórna orðræðunni með ýmsum brellum og brögðum. Þetta virðist vera eitthvert mesta hneyksli í sögu vísindanna. Hvar er Guðni Elísson?


Sífur Egils

silfuregils_ruv_940745.jpgEgill Helgason gleymir því, að hann starfar ekki á einkamiðli, sem getur hegðað sér að geðþótta. Hann starfar á Ríkisútvarpinu, sem við getum ekki sagt upp ólíkt Morgunblaðinu og Stöð tvö, enda hvílir á því lagaskylda um óhlutdrægni. Á þessum ríkismiðli er hann umræðustjóri, ekki aðeins um stjórnmál, heldur líka bókmenntir. Með þessu hefur hann öðlast mikið vald. En alkunna er, að valdið spillir. Egill tekur því illa, ef menn lúta ekki óskoruðu dagskrárvaldi hans. Þegar ég svaraði eitt sinn á bloggi mínu fullum hálsi daglegum árásum DV á mig og dirfðist að setja bloggið á Facebook-síðu mína, skrifaði Egill ótilkvaddur inn á síðuna, að ég ætti ásamt eiganda DV (Jóni Ásgeiri Jóhannessyni) að hverfa út í hafsauga! Þetta skrifaði maðurinn, sem stjórnar umræðunni á Íslandi! Nægði honum ekki að stjórna tveimur sjónvarpsþáttum á viku í ríkismiðlinum?

Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Þegar Davíð var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði hann á heimasíðu sína 24. september 2009:

„Comon, ætli maður sé ekki frekar með æluna upp í kok. Klíkan í kringum Davíð með annað dagblaðið. Og Jón Ásgeir og hans lið með hitt. Ojbjakk.“

Þegar Björn Bjarnason fann að hatursbloggi Egils á Netinu, ruku yfirmenn Ríkisútvarpsins upp Agli til varnar. Þeir höfðu gleymt því, hvernig þeir brugðust við tiltölulega meinlausu bloggi Sigmundar Sigurgeirssonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Suðurlandi, um Baugsmálið haustið 2005. Þá fékk Sigmundur áminningarbréf frá lögfræðingi Ríkisútvarpsins, og Óðinn Jónsson fréttastjóri tilkynnti, að hann hefði með skrifum sínum „sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu“.

Egill hefur með níðskrifum sínum á Netinu sýnt fullkomið dómgreindarleysi. Ég er sjálfur andvígur því að þagga niður skoðanir hans. Ég óska honum ekki út í hafsauga eins og hann mér. En hvernig hyggjast yfirmenn Ríkisútvarpsins tryggja, að fleiri skoðanir komist þar að en þær, sem Egill Helgason leggur blessun sína yfir?


Hlýnun jarðar

omar_hausmynd.jpgÓmar Ragnarsson helgar mér nýlegan pistil á bloggi sínu. Þar fullyrðir hann, að ég haldi því fram, að ekki hafi hlýnað á jörðinni síðustu áratugi. Þetta er rangt. Mér dettur ekki í hug að neita því, að hlýindaskeið hefur verið hér síðustu þrjátíu árin eða svo. Hvort tveggja er, að mælingar sýna það ótvírætt og við vitum þetta öll, því að reynsla okkar segir okkur það. Miklu kaldara var í Reykjavík, þegar ég var barn og unglingur, en nú er. Mér er í bernskuminni, þegar þulur Ríkisútvarpsins tilkynnti alvarlegri röddu, að nú nálgaðist hafís landið, og þegar viðtöl voru snemmsumars við afabróður minn, Halldór Pálsson búnaðarmálastjóra, um kal í túnum, ár eftir ár.

Tilefnið til færslu Ómars var, að ég hafði vakið athygli á því, að einhverjir hafa komist í tölvupóst rannsóknarstofnunar í loftslagsfræðum við East-Anglia-háskólann (þar sem Össur Skarphéðinsson stundaði nám) og birt á Netinu. Í þeirri stofnun starfa margir áköfustu fylgismenn kenningarinnar um það, að stórkostleg hætta sé af hlýnun jarðar, sem sé af mannavöldum, svo að mannkyn verði ekki aðeins að stórefla rannsóknir í loftslagsfræðum (veita þeim sjálfum hærri styrki), heldur gerbreyta lífsháttum sínum, til dæmis með takmörkun útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Í tölvupóstinum kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Loftslagsfræðingarnir leggja á ráðin um, hvernig bægja megi þeim vísindamönnum frá ráðstefnum og vísindatímaritum, sem séu annarrar skoðunar, og fela ýmsar óþægilegar staðreyndir með talnabrellum. Til dæmis var hlýindaskeið á miðöldum, þegar Ísland og Grænland byggðust, sem enginn getur rakið til útblásturs úr bílum, flugvélum og skipum. Einnig viðurkenna loftslagsfræðingarnir sín í milli þá óhentugu staðreynd, að síðustu tíu árin hefur ekki hlýnað, og hefur þó losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið, sem á að valda hlýnuninni, stóraukist á tímabilinu.

Að sjálfsögðu nægir þetta ekki til að hrekja kenninguna um það, að mannkynið kunni að eiga þátt í hlýnun jarðar síðustu áratugi með losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft. Hún er eflaust gild innan sinna marka. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt annað hafi áhrif á loftslag, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi. Hvort sem mannkynið hafi með gerðum sínum einhver veruleg áhrif á loftslag eða ekki, geti það ekki stjórnað loftslaginu. (Veðurfræðingar vita ekki einu sinni nóg um veðrið til að geta spáð fyrir um það með fullri vissu á morgun.) Þess vegna sé betra að laga sig að aðstæðum hverju sinni. Meira tel ég mig ekki geta sagt. Þess vegna missti Ómar Ragnarsson marks með færslu sinni.


Fullveldisdagurinn

Þegar horft er um öxl til tuttugustu aldar, hygg ég, að mestu tímamótin séu 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn, og 1918, þegar til varð sjálfstætt, íslenskt ríki í konungssambandi við Dani. Þess vegna er fullveldisdagurinn 1. desember einn merkasti dagur ársins, þótt ekki væri haldin vegleg hátíð hér þennan dag árið 1918, enda var þetta í skammdeginu miðju og Íslendingar enn miður sín eftir spánsku veikina, sem kostaði hér hundruð mannslífa. Samningamenn Íslendinga 1918 héldu af festu og hyggindum á málum, sérstaklega Jón Magnússon. Þeir skildu, að semja yrði við aðrar þjóðir, en ástæðulaust væri að gefast upp fyrir þeim. En því sorglegra er að líta til ráðamanna nú. Samfylkingin er höfuðlaus her, og Steingrímur J. Sigfússon hefur fyllst óþolandi hroka. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnarandstöðunni einkennist af óþolinmæði og frekju.

Einnig var sorglegt að sjá það leikrit, sem stjórnarsinnar settu á svið á fullveldisdaginn á Alþingi. Sigurður Líndal prófessor hafði látið í ljós rökstuddar efasemdir um, að Icesave-samkomulagið (sem er raunar ekkert samkomulag, heldur aðeins uppgjöf) stæðist stjórnarskrá. Þá voru kallaðir til tveir lögfræðingar, sem höfðu verið með í ráðum um samkomulagið, ásamt Sigurði og fjórða manni. Auðvitað sögðu lögfræðingarnir tveir, sem höfðu verið ráðgjafar „samningamannanna“ íslensku um Icesave, að gerðir þeirra sjálfra hefðu ekki stangast á við stjórnarskrá. Hvað áttu þeir að gera annað?


Stórskaðlegar skattahækkanir

Með því að hækka fjármagnstekjuskatt er verið að refsa mönnum fyrir sparsemi. Mestallar fjármagnstekjur eru í eðli sínu tekjur af uppsöfnuðu fjármagni. Menn hafa sparað til að eignast húsnæði, sem þeir leigja út, eða kaupa hlutabréf, sem þeir fá ýmist af arð eða selja. Hár fjármagnstekjuskattur merkir, að það borgar sig ekki eins vel og ella að hugsa til framtíðar, leggja til hliðar, sýna fyrirhyggju. Slíkur skattur hefur því röng hegðunaráhrif. Núverandi ríkisstjórn stígur mikið óheillaskref með því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% upp í 18%. Skattasérfræðingar núverandi ríkisstjórnar eru menn, sem vildu þegar í góðærinu hækka skatta. Það er þeim mikilvægara, að hinir ríku verði fátækari en að hinir fátæku verði ríkari. Þeir eru jöfnunarsinnar af ástríðu. Þeir vilja jafna allt niður á við.

stefanolmynd_403847_940751.jpgAuk þess kunna þeir ekki að reikna. Stefán Ólafsson prófessor sagði í Morgunblaðinu 26. febrúar 2007, að sumir gætu „fært hluta atvinnutekna sinna yfir í fjármagnstekur sem eru skattlagðar um 10% í stað hátt í 40% skattlagningar atvinnutekna“. Þessar tölur hans voru báðar villandi. Venjulegur atvinnurekandi, sem greiddi sér út arð í stað þess að greiða sér út laun, þurfti í raun að greiða 26,2% skatt af tekjum sínum (fyrst greiddi hann 18% tekjuskatt fyrirtækja af hagnaði sínum og síðan 10% af þeim 82%, sem eftir voru, en ekki þarf mikinn reikningsmann til að sjá, að þetta er samtals 18+8,2=26,2%). Venjulegur launþegi greiddi í raun ekki 36% skatt af tekjum sínum. Vegna skattleysismarkanna greiddi hann 0% af fyrstu 90 þúsund krónum sínum árið 2007, 18% af fyrstu 180 þúsund krónunum og svo framvegis. Venjulegur launþegi með meðaltekjur greiddi árið 2007 í raun um 28% af tekjum sínum í tekjuskatt eða svipað og fjármagnseigandinn.

En þarf ekki að afla fjár í ríkissjóð? Vissulega, en það mætti gera á tvennan hátt. Í fyrsta lagi mætti færa útgjöld og þjónustustig ríkisins nokkur ár aftur í tímann, til dæmis til ársins 2004, en þá lifði þjóðin engu eymdarlífi. Í öðru lagi mætti selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun, og fyrir það fengist sama fé í þrjú ár og gert er ráð fyrir, að allar skattahækkanirnar færi í ríkissjóð (um 120 milljarða).


Hringing frá DV

Ég fékk fyrir nokkrum dögum senda í tölvupósti mynd, sem einhverjir gárungar hafa sett á Netið, prentaði hana út (í einu eintaki) og sýndi nokkrum samkennurum mínum í Háskóla Íslands. Mér fundust upplýsingarnar, sem komu fram á myndinni, fróðlegar. Þetta er mynd af einu helstu umræðuefni dagsins, klíkuskap. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og fleiri hafa sagt, að klíkuskapur sé allt of algengur hér á landi. Ég held að vísu, að hann sé óhjákvæmileg afleiðing af fámenni þjóðarinnar. Klíkuskapur er annað orð á kunningsskap, og hann er hvort tveggja, kostur og galli. Okkur verður heldur starsýnt á gallana þessa dagana, en megum ekki gleyma kostunum. Samtrygging er stundum góð og stundum vond. Hitt er annað mál, að þau Sigurjón Pálsson og Helga Jónsdóttir, sem eru sýnd á þessari mynd, verða að sannfæra okkur um það, að þau taki efnislega afstöðu til mála, en fari ekki eftir því, sem venslafólk þeirra og vinir hafa hag af. Sigurjón hefur einmitt prýðilegt tækifæri til þess næstu vikur, eftir að Jóhannes í Bónus lýsti yfir því, að Hagar hefðu lagt auglýsingabann á Morgunblaðið. Sigurjón hlýtur að nota aðstöðu sína í stjórn 1998 ehf. (sem á Haga) til að hnekkja því auglýsingabanni. Hann getur ekki látið mægðir sínar við forstjóra 365-miðla ráða.

En því minnist ég á þetta, að í dag hringdi í mig blaðamaður frá DV, sem spurði, hvort ég hefði dreift þessari mynd í Háskólanum, eins og „vitni“ segðu. Ég svaraði honum sem satt var, að það hefði ég ekki gert, og spurði á móti, hvort DV hefði ekki meiri áhuga á því, sem myndin sýnir, en hverjir koma henni á framfæri. Varla vildi DV þagga niður gagnrýni á klíkuskap. Myndin á líka erindi til okkar allra, svo að ég leyfi mér að setja hana hér til að bæta það upp, að ég skyldi ekki hafa dreift henni í Háskólanum, heldur aðeins prentað þar út af henni eitt eintak og sýnt nokkrum samkennurum.


Bloggfærslur 8. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband