Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Cssel og heimskreppan

Oftast er rætt um þrjár skýringar á heimskreppunni 1929-1933. Ein er kennd við austurríska skólann í hagfræði, að niðursveifla sé jafnan afleiðing fyrri uppsveiflu, sem orðið hafi vegna útlánaþenslu og rangra fjárfestinga. Niðursveiflan sé því aðeins nauðsynleg leiðrétting uppsveiflunnar, og ríkið eigi að láta markaðinn um úrlausnir.

Keynes lávarður setti fram aðra skýringu, að atvinnuleysi gæti verið jafnvægisástand frekar en skammtímafyrirbæri, því að sparnaður skilaði sér ekki allur í fjárfestingar, svo að ríkið yrði með verulegum opinberum framkvæmdum að tryggja fulla atvinnu.

Milton Friedman kom orðum að þriðju skýringunni, að seðlabanki Bandaríkjanna hefði horft upp á það aðgerðalaus, að peningamagn í umferð minnkaði þar í landi um þriðjung árin 1929-1933, en með því hefði hagsveifla niður á við breyst í heimskreppu. Seðlabankar ættu að bæta úr skyndilegum lausafjárskorti með seðlaprentun og kaupum á bankabréfum (eins og gert var í lausafjárkreppunni 2007-2009).

11.GustavCassel.1932.TopfotoFæstir vita, að hinn kunni sænski hagfræðingur Gustav Cassel (1866-1945) setti fram fjórðu skýringuna: Kreppuna mætti rekja til þess, að seðlabankar hefðu eftir stríð snúið aftur á gullfót, en safnað til sín gulli og geymt í sjóði, og við það hefði peningamagn í umferð dregist saman og valdið verðhjöðnun og að lokum heimskreppu. Engin mótsögn er milli skýringa Cassels og Friedmans, þar sem Cassel lýsti því aðallega, hvað hleypti kreppunni af stað árin 1929-1930, en Friedman hinu, hvernig hún snarversnaði með gjaldþrotahrinu bandarískra banka og minnkun peningamagns í umferð af þeim sökum árin 1930-1933.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2025.)


Röng hagfræði

12.JensWarming.ElfeltDanski hagfræðingurinn Jens Warming, sem fyrstur greindi ofveiðivandann í sjávarútvegi, var hallur undir georgisma, kröfuna um, að ríkið gerði alla auðlindarentu upptæka, því að eigendur auðlinda sköpuðu hana ekki, heldur náttúran og almenningur í sameiningu. Hann var þó nógu mikill hagfræðingur til að sjá, að skárra væri að leyfa rentunni að renna til einstaklinga en að hún færi í súginn í of miklum kostnaði. En furðulegt er að sjá nokkra íslenska hagfræðinga halda uppi merki georgismans í sjávarútvegi. Hagfræði þeirra er af mörgum ástæðum röng.

1. Þegar miðunum var lokað var valið um að úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu eða bjóða þær upp. Fyrri leiðin var Pareto-hagkvæm, enginn skaðaðist á henni, og sumir græddu. Uppboð hefði hins vegar gert skip, veiðarfæri og veiðikunnáttu þeirra, sem hefðu orðið frá að hverfa í uppboðinu, verðlaust í einni svipan.

2. Enginn réttur var tekinn af öðrum með því að loka miðunum og úthluta aflaheimildum eftir aflareynslu annar en rétturinn til að gera út á núlli, en Warming sýndi einmitt fram á, að við opinn aðgang hlyti sókn að aukast upp að því marki, að öll auðlindarenta færi í súginn.

3. Það er álitamál, hvort rentukenning Ricardos standist, eins og Frank H. Knight benti á. Breytilegt er, hversu mikið auðlind getur gefið af sér. Eigendur eiga sinn þátt í að skapa rentuna.

4. Ef útgerðarmenn geta gengið að því vísu, að þeir eigi aflaheimildirnar, þá hafa þeir hag af því, að auðlindin, fiskistofnarnir, skili hámarksarði til langs tíma litið. Ef þeir þurfa að leigja þær af ríkinu, þá hafa þeir ekki lengur þennan hag og hegðun þeirra breytist til hins verra.

5. Útgerðarmenn eru líklegri en stjórnmálamenn og skriffinnar til að ávaxta fiskveiðirentuna skynsamlega. Hún stækkar hraðar í meðförum þeirra. Almenningur nýtur síðan góðs af í fjárfestingum þeirra og neyslu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2025.)


Thorens-kastali, júlí 2025

IMG_6597

Thorens-kastali stendur hár og gnæfur í Suðaustur-Frakklandi, skammt frá landamærum Svisslands og Ítalíu, við gamlan þjóðveg, gegnt Alpafjöllum. Þar var haldinn sumarháskóli hugveitunnar New Direction í Brussel dagana 30. júní til 4. júlí, sem fimmtíu ungmenni hvaðanæva úr Evrópu sóttu, og talaði ég þar um um norrænar rætur frjálshyggjunnar.

Ég rakti tvær stjórnmálahugmyndir í verkum Snorra Sturlusonar, að valdhafinn verði að hafa umboð þjóðarinnar og að hún megi setja hann af, virði hann ekki hin gömlu, góðu lög, sem myndast hafi við sammæli kynslóðanna. Seinna átti John Locke eftir að binda þessar fornu hugmyndir í kerfi til réttlætingar byltingarinnar blóðlausu í Bretlandi 1688.

Ég minnti á, að 1765, ellefu árum áður en Adam Smith gaf út sitt mikla rit um auðlegð þjóðanna, hafði finnskur prestur sænskumælandi, Anders Chydenius, sett fram svipaða hugmynd um verðmætasköpun í krafti verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, en Chydenius var einnig ötull baráttumaður fyrir málfrelsi og trúfrelsi.

Ég lýsti síðan kenningum danska skáldsins og prestsins Nikolais F.S. Grundtvigs, sem taldi brýnt, þegar Danakonungur afsalaði sér valdinu til þjóðarinnar árið 1848, að þjóðin hlyti fræðslu og menntun, bændur lærðu að vera ábyrgir þátttakendur í lýðræðisríkinu, og það gætu þeir gert í lýðháskólum. Grundtvig var frjálslyndur þjóðernissinni, en þjóðernishyggja hans fól ekki í sér yfirgang eða áreitni í garð annarra þjóða eða þjóðabrota.

(Fróðleiksmoli í Morgnblaðinu 5. júlí 2025.)


Danmörk í stríði við Alsír

Furðulegt er að sjá vanmátt Evrópusambandsins (og raunar Atlantshafsbandalagsins líka) í Rauðahafi, þar sem Hútar í Jemen stunda sjórán, en tilkynna, að þeir sleppi skipum frá Kína og Rússlandi. Evrópuríkin láta Bandaríkin og Ísrael um að taka á Hútum, sem njóta fjárhagsaðstoðar írönsku erkiklerkanna.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn, sem múslimar gerast sjóræningjar. Íslendingar muna Tyrkjaránið árið 1627, en sjóræningjar frá Alsír herjuðu einnig um svipað leyti á Færeyjar og Írland. Á átjándu öld greiddu Danir stjórnendum múslimaríkja á norðurströnd Afríku árlegt gjald gegn því, að dönsk kaupskip á Miðjarðarhafi væru látin í friði. Þegar nýr landstjóri í Alsír vildi hækka gjaldið neituðu Danir. Þá lýsti hann yfir stríði gegn Dönum, sem sendu að bragði sex herskip þangað suður árið 1770, og skutu þau á Algeirsborg í nokkra daga í júlí, en héldu síðan heim. Árið 1772 sendu Danir annan flota þangað suður, og var þá samið um frið. Danir greiddu landstjóranum háa fjárhæð, en dönskum föngum var sleppt.

Bandaríkin háðu síðan tvö stríð við Barbaríið (eins og það var kallað) á öndverðri nítjándu öld. Árin 1801-1805 héldu þau og (um skeið) Svíþjóð úti flota við strönd Norður-Afríku til að stöðva sjórán á Miðjarðarhafi. Lauk stríðinu með fangaskiptum. Seinna stríðið stóð aðeins í nokkra daga árið 1815, og unnu Bandaríkin fullan sigur. Lauk þá greiðslum til landstjórans í Alsír. Frakkar lögðu síðan Alsír undir sig árið 1830, stöðvuðu öll sjórán og bönnuðu þrælahald.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. júlí 2025.)


Saltfisksfræði

Lífið er saltfiskur, en ekki draumaringl, sagði Salka Valka. Hvergi á það betur við en á Íslandi, og engin þjóð á líklega meira undir því en Íslendingar, að fiskveiðar séu hagkvæmar. Þess vegna hljótum við að hafa áhuga á fiskihagfræðinni. Venjulega er upphaf hennar talið, að kanadíski hagfræðingurinn H. Scott Gordon birti ritgerð í Journal of Political Economy árið 1954, þar sem hann leiddi út, að við opinn aðgang að fiskimiðum yrðu fiskveiðar óhagkvæmar, því að sóknin ykist, uns viðbótarbátur hreppti ekki neinn gróða, en það væri við þau mörk, að heildarkostnaður yrði jafn heildarávinningi. Kostnaðurinn æti þá upp ávinninginn. Annar kanadískur hagfræðingur, Anthony Scott, birti ritgerð í sama tímariti ári síðar, þar sem hann benti á, að undirrótin að óhagkvæmni í fiskveiðum væri, að þar væri erfitt að mynda einkaeignarrétt, sem sambærilegur væri við einkaeignarrétt á landi eða kvikfénaði, þar sem koma mætti við girðingum eða merkingum. Samnýting yrði jafnan ofnýting.

Hagfræðingar í hinum enskumælandi heimi vissu þá ekki af því, að danskur hagfræðingur, Jens Warming, hafði leitt hið sama út í tveimur ritgerðum í Nationaløkonomisk Tidsskrift árin 1911 og 1931. Prófessor Ólafur Björnsson hafði verið nemandi Warmings í Kaupmannahafnarháskóla og þekkti þess vegna ritgerðir hans. Í september 1956 sótti Ólafur ráðstefnu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm um hagfræði fiskveiða. Þar fluttu hann og þeir Gordon og Scott allir erindi. Ólafur benti á, að Warming hefði sett fram svipaða kenningu og þeir Gordon og Scott, þar sem aðalatriðið væri, að hagkvæmt væri að takmarka aðgang að fiskimiðum (sjá fundargerð ráðstefnunnar, bls. 132–133). Hitt er annað mál, að kvótakerfið, lausn Íslendinga á samnýtingarvandanum, þróaðist fremur við aðferð happa og glappa en eftir forskrift fiskihagfræðinga. Fræðin elta oftast framkvæmdina. Þau eru ósjaldan eftiráspeki. Fugl viskunnar tekur sig ekki á loft, fyrr en rökkvar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júní 2025.)


Tveir útverðir

Ísland og Finnland eru útverðir Norðurlanda. Þjóðhetja Íslendinga, Jón Sigurðsson, barðist fyrir sjálfstæði með orðum. Annað átti hin litla þjóð hans ekki. Jón þekkti sögu þjóðar sinnar út í hörgul. Hann setti fram þá kenningu, að Íslendingar hefðu samið við Noregskonung árið 1262. Sá samningur hefði fallið úr gildi við einveldishyllingjuna árið 1662, en öðlast aftur gildi, er Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848. Jón benti enn fremur á, að Íslendingar ættu sér eigin tungu, bókmenntir og sögu. Þeir þekktu í þriðja lagi aðstæður betur en skriffinnar í Kaupmannahöfn.

Þjóðhetja Finna, Carl Gustaf Mannerheim, varði hins vegar sjálfstæði lands síns í fjórum stríðum. Fyrst barði hann niður valdaránstilraun kommúnista árið 1918. Síðan varði hann Finnland frækilega gegn herliði Stalíns í Vetrarstríðinu 1939–1940. Þá stjórnaði hann Finnlandsher í Framhaldsstríðinu svonefnda við Ráðstjórnarríkin 1941–1944. Loks stjórnaði hann hernum í stríði við Þjóðverja árið 1944. Í síðustu dagskipun sinni í Vetrarstríðinu sagði hann, að Finnar kynnu að hafa staðið í þakkarskuld við aðra Vesturlandabúa, en nú hefðu þeir greitt þá skuld að fullu.

Íslendingar varðveittu menningararf Norðurlanda, en Finnar stöðvuðu villimennina austrænu. Finnska skáldið Uuno Kailas orti árið 1931:

Á landamærunum opnast gjá.

Framundan Asía, austrið.

Að baki mér Evrópa, vestrið,

sem ég gæti sem útvörður.

Svíar, Danir og Norðmenn búa að því, sem tveir útverðir þeirra lögðu fram.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júní 2025.) 


Mannerheim

CarlGustafMannerheim.AkseliGallenKallelaFáir Norðurlandabúar hafa átt ævintýralegri ævi en Carl Gustaf Mannerheim, en nýlega kom út á
ensku ágæt ævisaga hans eftir Henrik Meinander. Hann fæddist árið 1867 og var sonur sænskumælandi greifa í Finnlandi, sem þá laut Rússakeisara. Mannerheim gekk í þjónustu keisarans og varð lífvörður ekkjudrottningarinnar, sem var dönsk konungsdóttir og bar þá nafnið Dagmar. Töluðu þau saman á sænsku. Mannerheim gat sér orð fyrir hugprýði í stríði Rússa og Japana árin 1904-1905. Eftir það sendi keisarinn hann í tveggja ára njósnarferð um Kína, dulbúinn sem þjóðháttafræðingur, og þar hitti hann meðal annars 13. Dalaí Lama (forvera 14. Dalaí Lama, sem enn er á lífi). Samdi Mannerheim yfirgripsmikla skýrslu um förina. Hann gegndi herþjónustu eftir það í Póllandi og víðar.

Eftir valdarán bolsévíka í Rússlandi í nóvember 1917 slapp Mannerheim við illan leik til Finnlands, sem lýsti yfir sjálfstæði í desember það ár. Þegar finnskir rauðliðar reyndu líka að ræna völdum, fól ríkisstjórnin honum að stjórna her landsins. Hinum reynda herforingja tókst að berja uppreisnina niður, og var Mannerheim ríkisstjóri í sex mánuði 1918-1919, en dró sig síðan í hlé. Hann var skipaður aftur yfir herinn árið 1933, og þegar Stalín réðst á Finnland í nóvemberlok 1939, þótti vörn hans frækileg. Finnum tókst nú ólíkt öðrum smáþjóðum í Evrópu að varðveita sjálfstæði sitt. Mannerheim átti eftir að stjórna finnska hernum í tveimur stríðum eftir það, við Stalín 1941-1944 og Hitler í árslok 1944. Hann var kjörinn forseti Finnlands seint á árinu 1944, sagði af sér vegna heilsubrests árið 1946 og lést árið 1951 og var þá orðinn þjóðhetja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júní 2025.)


Ógildar undirskriftir?

Síðustu daga sína á bandarískum forsetastól náðaði Joe Biden fjölda manns, þar á meðal son sinn Hunter og embættismenn, sem stjórnað höfðu viðbrögðum við heimsfaraldrinum 2020-2021. En margar undirskriftir Bidens þessa daga voru gerðar með sjálfvirkum penna (autopen), svo að hann kom hvergi nærri. Jafnframt var forsetinn orðinn elliær og vissi sjaldnast sjálfur, hvað hann var að gera, þótt stundum bráði af honum. Þá vaknar sú spurning, hvort sumar náðanir Bidens hafi lagagildi, þótt sönnunarbyrðin sé þeirra, sem um það efast, og sé eflaust erfið.

Oygaard.StoltenbergÞetta leiðir hugann að öðru. Í febrúar 2009 réði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra norskan mann í embætti seðlabankastjóra þrátt fyrir ákvæði í 20. gr. stjórnarskrárinnar: „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ Klækjarefir héldu því fram, að þetta ákvæði gilti ekki um Norðmanninn, því að hann hefði verið settur, ekki skipaður. En setning er tímabundin ráðning af allt öðrum ástæðum en þeim, að vanhæfur maður geti verið settur, ekki skipaður. Sigurður Líndal lagaprófessor benti líka á, að mörkin milli setningar og skipunar hefðu með tímanum orðið ógleggri. Hann rifjaði upp það skilyrði, sem Íslendingar settu Noregskonungi í Gamla sáttmála árið 1262, að embættismenn skyldu vera íslenskir. Þetta skilyrði var margítrekað næstu aldir, meðal annars í Áshildarmýrarsamþykkt 1496.

En höfðu þá peningaseðlar, sem báru undirskrift Norðmannsins, lagagildi? Hefðu borgararnir getað neitað að taka við þeim og látið á það reyna fyrir dómstólum? Hvernig hefði slíkt mál farið?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júní 2025. Myndin er af Norðmanninum (Øygaard) og norska forsætisráðherranum brosa gleitt í Seðlabankanum með skjaldarmerki Íslands í baksýn. Meira að segja í Gamla sáttmála 1262 áttu embættismenn að vera íslenskir.)


Tvö skólabókardæmi í fjölmiðlun

Ef fjölmiðlun er kennd af metnaði hér á landi hafa síðustu misseri bæst við tvö skólabókardæmi um óeðlileg vinnubrögð. Annað er hvernig bandarískir fjölmiðlamenn reyndu að leyna því eftir megni að Joe Biden Bandaríkjaforseti væri orðinn elliær. Hann kom ekki einu sinni leikaranum heimsfræga George Clooney fyrir sig. Nú upplýsa fjölmiðlamenn í þremur nýjum bókum að hann hafi aldrei stjórnað neinu í Hvíta húsinu. Sjálfvirkur penni hafi verið notaður til að skrifa undir lög, tilskipanir og náðanir. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort til dæmis náðanir hans hafi eitthvert lagagildi.

Hin fámenna klíka sem stjórnaði í raun svarar af þjósti að engin dæmi séu til um rangar stórákvarðanir Bidens. En brottflutningur herliðs frá Afganistan fór afar klaufalega fram, og með því voru send skilaboð til Pútíns um svo mikla ringulreið á æðstu stöðum í Bandaríkjunum að hann gæti ráðist á Úkraínu. Það gerðist líka, um leið og Biden varð forseti, að straumur flóttamanna stórjókst yfir suðurlandamæri Bandaríkjanna.

Seinna dæmið er að Ríkisútvarpið reynir að fela að aðalheimild þess og jafnvel hin eina um átökin á Gasasvæðinu er hryðjuverkasamtökin Hamas. Ríkisútvarpið ber ýmsa aðila fyrir fréttum sínum en í ljós kemur við nánari athugun að þeim er öllum stýrt af Hamas. Margar þessar fréttir eru mjög ósennilegar. Talsmenn Palestínuaraba á Íslandi eru heldur aldrei spurðir hvers vegna þeir skori ekki á Hamas að láta lausa gíslana sem teknir voru 7. október 2023, en þá myndi þegar verið gert vopnahlé, og hvers vegna þeir áfellist ekki Hamas fyrir að skýla vígamönnum sínum í sjúkrahúsum (og geyma þar gísla). Það er raunar í alþjóðalögum að sjúkrahús hætta að vera griðastaðir sé stundaður frá þeim hernaður.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. maí 2025.)


Búdapest, maí 2025


_O1A3656Á ráðstefnu í Búdapest 13. maí 2025 rifjaði ég upp að ég hefði í æsku háð margar kappræður við íslenska ungkommúnista. Lauk ég þá ræðum mínum jafnan á vísuorðum eftir ungverska skáldið Sàndor Petöfi, sem hljóða svo í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Upp nú lýður, land þitt verðu,

loks þér tvíkost boðinn sérðu,

þjóðar frelsi, þrældóms helsi,

þú sérð muninn: kjóstu frelsi.

Allir Ungverjar þekkja strax þessi vísuorð, sem ort voru árið 1848 og eru í þjóðsöng þeirra.

Á þessari ráðstefnu var mér falið að tala um alþjóðaviðskipti og tolla. Ég kvað frjáls alþjóðaviðskipti í senn stuðla að auðsæld og friðsæld. Þau stuðluðu að auðsæld vegna þess að skaparinn hefur dreift gæðum svo misjafnlega á löndin og mennina að einstaklingar og þjóðir verða að skiptast á slíkum gæðum. Og þau stuðluðu að friðsæld vegna þess að tilhneiging okkar til að skjóta á náungann minnkar ef við sjáum í honum væntanlegan viðskiptavin. Hitt væri vafamál að hin raunsanna kenning um frjáls alþjóðaviðskipti næði til Kínaveldis, sem lagt hefði undir sig lönd með vopnavaldi (Tíbet), færi þjösnalega fram í Suður-Kínahafi, hótaði árás á Taívan, skráði rangt gengi á gjaldmiðli sínum, nýtti þrælavinnu í vesturhéruðum sínum og beitti ýmsum brögðum í viðskiptum. Ég lét þó í ljós þá von að Norður-Ameríka og Evrópa gætu orðið eitt stórt fríverslunarsvæði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband