18.10.2012 | 18:56
Anna Funder
Ástralski rithöfundurinn Anna Funder hélt fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í Háskólanum mánudaginn 24. september. Funder er ung kona og fríð sýnum, en sérlega vel máli farin og býður af sér góðan þokka. Hún er lögfræðingur, en lauk líka doktorsprófi í listrænni sköpun. Sinnti hún mannréttindamálum fyrir Ástralíustjórn, áður en hún gerðist rithöfundur.
Hún sagði okkur áheyrendum frá tveimur bókum sínum. Hin fyrri, Stasiland, hlaut Samuel Johnson-verðlaunin í Bretlandi og kom út á íslensku fyrr á þessu ári. Þar rekur Funder örlög nokkurra einstaklinga, sem bjuggu í Austur-Þýskalandi, á meðan kommúnistar stjórnuðu landinu og leynilögregla þeirra, Stasi, hafði gætur á öllum. Hafði Funder áður talað um bókina á ráðstefnu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.
Ég tek eftir, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson prófessor, reynir að gera lítið úr örlögum þessa fólks á bloggi sínu. Spyr hann, hvers vegna verið væri að halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum.
Stefán Ólafsson hefði átt að koma á annan hvorn fyrirlestur Önnu Funders hér á landi. Kommúnistar náðu völdum í Austur-Þýskalandi 1945 og héldu þeim til 1989, en síðan eru liðin 23 ár (en ekki 70100 ár, eins og Stefán vill vera láta). Funder sagði, að eftirlits- og njósnanet austur-þýskra stjórnvalda hefði verið mjög víðtækt. Einn uppljóstrari hefði verið á hverja fimmtíu menn í landinu. Leynilögreglan Stasi hefði verið vægðarlaus og hver þar haft eftirlit með öðrum. Kvað hún hina frægu kvikmynd Líf annarra (Das Leben der Anderen) ekki sótt í veruleikann í Austur-Þýskalandi, því að þar hefðu leynilögreglumenn ekki getað hlíft neinum.
Hin bókin, sem Anna Funder sagði okkur frá á mánudaginn, er skáldsagan All That I Am, sem kom út fyrr á þessu ári og hefur fengið mjög góða dóma. Er hún sótt í raunverulega viðburði í Þýskalandi Hitlers og Bretlandi, og sagði Anna okkur, að hún styddist meðal annars við ævi gamals þýskukennara síns, sem flýði til Ástralíu. Segir í bókinni frá hópi vinstri sinnaðra andstæðinga Hitlers, sem sluppu sumir undan honum til Bretlands, en inn í söguna blandast dularfullur dauðdagi tveggja þeirra.
1.10.2012 | 17:59
Pawel Bartoszek svarar Stefáni Ólafssyni
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, skrifaði af lítilsvirðingu á blogg sitt um ráðstefnu, sem við Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, fluttum á fyrirlestra. Nú hefur Pawel Bartoszek svarað honum í veftímaritinu Deiglunni, og leyfi ég mér að taka hið beitta og snjalla svar hans hér orðrétt upp:
Stefán Ólafsson prófessor ritar undarlegt greinarkorn á vefsvæði sitt á Pressunni þar sem hann gerir sér mat úr því að fólk tali enn um það að kommúnisminn hafi verið vond stefna. Ég meina hvað er að fólki, það eru heilir tveir áratugir liðnir!
Stefán segir meðal annars. Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.
Svo fylgir fremur mislukkað myndmál um vofu kommúnismans sem frjálshyggjumenn eiga nú að hafa vakið upp til að beina athyglinni frá því hvað kapítalisminn sé sjálfur illa misheppnaður. Síðan bætir Stefán við:
En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn [sic], eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?
Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.
Sjötíu til hundrað árum? Sem sagt 1912 til 1942? Er það tímabilið sem illska kommúnismans nær yfir að mati Stefáns Ólafssonar? Það var nú eiginlega ekki byrjað að dreifa kommúnismanum um heiminn að ráði þá. Hvað með allar hreinsanir í lok seinni heimstyrjaldarinnar? Hernám Eystrasaltsríkjanna? Valdarán og kosningasvik í Austur-Evrópu? Innrásina í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968? Stóra stökkið hans Mao sem kostaði tugmilljónir lífið? Telur þetta ekki?
Á umræddum miðilsfundi var meðal annars stödd Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland. Stór hluti þeirrar bókar gerist nú bara í hinum löngu geymda og grafna níunda áratug seinustu aldar, svona um það leyti Red Hot Chilli Peppers og Radiohead voru stofnaðar og Spaugstofan hóf göngu sína. Þeir sem dóu í mótmælunum á torgi hins himneska friðar 1989 eða í Litháen 1991 væru margir í kringum fertugt, fimmtugt í dag. Já, ótrúlegt að menn séu enn að velta sér upp úr þessu!
Það er ekki lengra síðan að kommúnisminn leið undir lok í okkar heimshluta að ég sem er þrjátíu tveggja ára í dag náði að læra það í landafræði á sínum tím að Alþýðulýðveldið Pólland hefði þessi nágrannaríki: Sovétríkin, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland. Raunar þurftu sjö ára börnin auðvitað að læra löngu nöfnin: Samband sósíalískra ráðstjórnarríkja, Tékkóslóvakíska Alþýðulýðveldið og Lýðræðislega lýðveldið Þýskaland. Ekki datt mér í hug að þessi kunnátta yrði úreld innan fjögurra ára.
Svo er auðvitað ekki eins og kommúnisminn sé liðinn undir lok. Ekki á Kúbu. Ekki í Norður-Kóreu. Ekki í Kína. Menn kalla sig kommúnista Íslandi án þess að skammast sín fyrir það og alltaf eru menn til í að malda í móinn fyrir þessa stefnu og ættingja hennar. Í ágúst var haldin námskeiðaröð undir merkjum marxismans og heilir fjórir kennarar í þeim síðsumarskóla rötuðu í Víðsjá Ríkisútvarpsins. Eitt námskeiðið fjallaði um þörfina á byltingarsinnuðum stjórnmálaflokki (bylting er ekkert krúttorð, það þýðir ofbeldi, fólk er lamið og fóld deyr). Þingmenn mættu á þessa viðburði. Leslistar fyrir nokkur námskeiðanna samanstóðu af verkum Marx og Leníns.
Ég vil ekki nota stór orð en ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta pinku skrýtið. En kannski er ég bara svo gamall. Ég meina ég fæddist í kommúnistaríki. Ég hlýt að vera að minnsta kosti sjötugur.
30.9.2012 | 11:32
Vel heppnuð ráðstefna
Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, hélt alþjóðlega ráðstefnu í Háskóla Íslands laugardaginn 22. september 2012 undir yfirskriftinni Europe of the Victims: Remembering Communism. Aðalræðuna flutti einn kunnasti sagnfræðingur heims, franski prófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem kom út á frönsku 1997 og á íslensku 2009.
Courtois sagði, að Svartbókin hefði komið út á 26 málum, en því miður ekki á kínversku og víetnömsku: Stjórnvöld í Kína og Víetnam vilja ekki umræður um fórnarlömb kommúnismans. Courtois lýsti vinnunni við bókina, sem nokkrir fræðimenn, flestir franskir, skrifuðu. Helst hefði komið þeim á óvart, þegar skjöl voru skoðuð, hversu grimmur og blóðþyrstur Lenín hefði reynst. Goðsögnin um hinn góða Lenín og hinn vonda Stalín hefði verið hrakin. Courtois sagði, að bókarhöfundar hefðu alls ekki verið sammála. Þeir hefðu allir verið vinstri menn, og sumir vinstri menn væru viðkvæmir fyrir því, þegar kommúnismi og nasismi væru lagðir að jöfnu. En það, sem stundum væri nefnt kommúnistum til málsbóta, að þeir hefðu aðeins ætlað sér að útrýma borgarastéttinni, en ekki nauðsynlega einstaklingum, væri rangt. Þeir hefðu líka reynt að útrýma ýmsum þjóðabrotum, til dæmis í Rússlandi. Courtois minnti á, að Evrópuráðið hefði 2006 samþykkt yfirlýsingu um glæpi kommúnista og að Evrópuþingið hefði 2009 samþykkt, að 23. ágúst yrði sérstakur minningardagur fórnarlamba kommúnisma og nasisma. Að loknu erindi Courtois stjórnaði Egill Helgason umræðum um það.
Þrír aðrir erlendir gestir fluttu fyrirlestra. Dr. Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands, furðaði sig á því, að kommúnisminn hefði enn aðdráttarafl sums staðar þrátt fyrir hina vondu reynslu af honum. Hann velti því fyrir sér, hvers vegna kommúnisminn hefði fallið 19891991, en ekki fyrr eða síðar. Skýringin væri líklega, að til viðbótar við hin innri mein, sem lengi hefðu grafið um sig í kommúnistaríkjunum, hefði forysta vestrænna lýðræðisríkja verið í höndum röggsamra, frjálslyndra leiðtoga. Geimvarnaáætlun Bandaríkjanna hefði til dæmis haft sín áhrif.
Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, sagði frá nokkrum söguhetjum í bókinni og örlögum þeirra. Hún kvað suma lögreglumenn og dómara í Austur-Þýskalandi, sem tóku fullan þátt í kúguninni, enn gegna störfum.
Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen rakti saman ýmis ummæli Karls Marx og Friðriks Engels annars vegar og fjöldamorð og útrýmingarherferðir kommúnista, þar sem þeir náðu völdum, hins vegar. Marx og Engels hefðu til dæmis stutt Prússa í stríðum þeirra við Dani og Frakka, því að þeir hefðu bundið vonir við þróun Prússlands. Í tilefni stríðs Prússa og Dana hefði Engels talað háðslega um, að Íslendingar væru frumstæðasta Norðurlandaþjóðin. Þeir Marx og Engels hefðu talið, að sumar þjóðir ættu sér ekki tilverurétt.
Að lokum töluðu tveir íslenskir fyrirlesarar. Ég lýsti þróun hinnar róttæku vinstri hreyfingar á Íslandi, frá því að andófsafl myndast í Alþýðuflokknum upp úr 1918, kommúnistaflokkur er stofnaður 1938, Sósíalistaflokkurinn 1968 og Alþýðubandalagið gert að stjórnmálaflokki 1968, fram að því að forysta Alþýðubandalagsins lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boðsferð kommúnistaflokks Kúbu þangað suður haustið 1998. Ekki þyrfti að fjölyrða um, að kommúnistaflokkurinn hefði verið hreinræktaður kommúnistaflokkur. Sósíalistaflokkurinn hefði verið undir stjórn sannfærðra stalínista, þótt margir kjósendur hans hefðu ekki verið stalínistar. Alþýðubandalagið hefði hins vegar ekki verið kommúnistaflokkur og ályktað gegn framferði Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968, en samt hefðu nokkrir áhrifamenn í flokknum haldið góðum tengslum við sum kommúnistaríki.
Prófessor Þór Whitehead flutti lokaorð. Hann kvað skjölin, sem fræðimenn hefðu fengið aðgang að eftir hrun Austur-Þýskalands og Ráðstjórnarríkjanna, staðfesta þær skoðanir á kommúnismanum, sem komið hefðu fram í ritum Solzhenítsyns og Roberts Conquests áður. Svartbók kommúnismans væri stórvirki, en halda þyrfti áfram sögulegum rannsóknum á kommúnisma.
Tveir fyrirlesarar á ráðstefnunni munu koma fram opinberlega, Stéphane Courtois í Silfri Egils og Anna Funder í Kiljunni. Anna Funder segir frá nýrri skáldsögu sinni á fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í hádeginu 24. september í stofu 201 í Odda.
21.9.2012 | 22:58
Ískyggileg þróun
Á heimasíðu mælingarmannanna er rækilega gerð grein fyrir aðferðum við mælingar á atvinnufrelsi. Sé ég enga ástæðu til þess að efast um niðurstöðurnar. Jafnvel má færa rök fyrir því, að atvinnufrelsi hér sé ofmetið, meðal annars vegna þess að réttaröryggi hefur minnkað hér síðustu árin, en auðvitað er erfitt að meta það í tölum.
Mjög sterk tengsl eru til langs tíma litið milli atvinnufrelsis annars vegar og góðra almennra lífskjara og hagvaxtar hins vegar. Hinir fátækustu í þeim hagkerfum, sem frjálsust eru, njóta miklu betri kjara en annars staðar, þótt eðli málsins séu kjör fátæks fólks aldrei góð.
Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Getur verið, að við séum á sömu leið og þjóðir Rómönsku Ameríku fóru á öndverðri tuttugustu öld, þegar þær urðu lýðskrumi, ofstæki og ofbeldi að bráð með þeim afleiðingum, að þær drógust aftur úr vestrænum þjóðum?
Þriðja leiðin, sem sumir vilja fara milli kommúnisma og kapítalisma, er leiðin inn í Þriðja heiminn.
19.9.2012 | 07:42
Er Stefán Ólafsson vinstri öfgamaður?
Michael Walker er eins langt frá því að vera slíkur öfgamaður og hugsast getur. Hann er þéttvaxinn, sköllóttur, brosmildur og vingjarnlegur Kanadamaður, sem starfaði í fjármálaráðuneyti lands síns og seðlabankanum, áður en hann varð forstöðumaður Fraser-stofnunarinnar í Vancouver, en hann hefur látið þar af starfi fyrir aldurs sakir. Walker er vissulega frjálshyggjumaður, af ætt Adams Smiths og Johns Lockes, og var góðvinur þeirra Miltons og Rose Friedmans.
Michael Walker hefur aðallega sinnt tölfræðirannsóknum. Stefán Ólafsson hefði haft gott af því að læra eitthvað af honum um meðferð talna. Þá hefði hann ekki gert jafnmeinlega villu og þegar hann bar eitt sinn saman Gini-stuðul fyrir Ísland, þar sem söluhagnaður af hlutabréfum var tekinn með, og Gini-stuðul fyrir grannþjóðirnar, þar sem slíkum söluhagnaði var sleppt. Þá hefði hann ekki heldur gert jafnmeinlega villu og þegar hann reiknaði í annað skipti út meðallífeyristekjur á Íslandi með því að deila með fjölda Íslendinga á lífeyrisaldri í heildargreiðslur lífeyris, en margir Íslendingar á lífeyrisaldri stunduðu vinnu og tóku ekki lífeyri (5.000 af þeim 32.000, sem um var að ræða). Ég fór yfir þessar villur Stefáns og fleiri í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009.
Michael Walker er eins lítill hægri öfgamaður og Stefán Ólafsson vinstri öfgamaður. Stefán er stóryrtur, en við þurfum ekki að hafa áhyggjur af honum: Þótt hann kunni ekki að reikna, gerir hann áreiðanlega ekki flugu mein.
18.9.2012 | 21:10
Hefur atvinnufrelsi snarminnkað á Íslandi?
Samkvæmt tölunum frá 2009 hafði atvinnufrelsi á Íslandi hins vegar snarminnkað. Vísitala þess hafði hrapað úr 7,8 árið 2004 í 6,8 árið 2009. Íslenska hagkerfið var þá hið 70. af 141, þegar miðað var við atvinnufrelsi. Ísland var þá í röð þeirra fimm landa í heiminum, þar sem atvinnufrelsi hafði minnkað mest árin á undan. Á meðal hinna landanna voru Venesúela og Argentína, en við Íslendingar höfum oftast viljað skipa okkur í röð annarra landa en þeirra.
Núna á mánudagsmorguninn mun dr. Michael Walker, forstöðumaður Fraser-stofnunarinnar, kynna niðurstöður mælinganna fyrir 2010. Þetta gerir hann á morgunfundi Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál á Grand Hotel í Reykjavík kl. 8.30 til 10.30. Full ástæða er til að vekja athygli á þessum fundi, og ég er áreiðanlega ekki eini maðurinn, sem bíður með eftirvæntingu eftir nýjum tölum um atvinnufrelsi á Íslandi.
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. september 2012.)
15.9.2012 | 09:55
Áróður Ha-Joon Chang
14.9.2012 | 16:25
Ég mun svara mörgu á næstunni
Ég mun væntanlega halda fjóra opinbera fyrirlestra á næstunni:
Einn verður á ensku. Hann verður haldinn um Íslenska kommúnista 19181998 á alþjóðlegri ráðstefnu um Evrópu fórnarlambanna í Háskóla Íslands, Öskju, N-132, kl. 1318 laugardaginn 22. september. Þar mun ég meðal annars segja frá deilum sagnfræðinga vegna bóka okkar Þórs Whiteheads um þetta efni, en upp úr sauð á frægum fundi Sagnfræðingafélagsins og Reykjavíkurakademíunnar 12. nóvember 2011.
Einn verður á ensku. Hann verður haldinn um Réttláta upphaflega úthlutun aflakvóta á alþjóðlegri ráðstefnu um Fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar í Háskóla Íslands, Öskju, N-132, kl. 1318 laugardaginn 6. október. Í þeirri ráðstefnu tala margir kunnustu fiskihagfræðingar heims og sérfræðingar OECD, FAO og Alþjóðabankans í fiskveiðimálum.
Einn verður á íslensku. Hann verður undir yfirskriftinni Fátækt á Íslandi 19912004 á fundi Sagnfræðingafélagsins í Þjóðminjasafninu í hádeginu þriðjudaginn 9. október. Þar mun ég meðal annars lýsa ólíkum fátæktarhugtökum, greina frá niðurstöðum mælinga á þessu sviði og svara málflutningi Stefáns Ólafssonar um kjaraþróun og hag hinna tekjulægstu.
Einn verður á íslensku. Hann verður undir yfirskriftinni Maó: Sagan sem hefur verið sögð. Ólík viðhorf til Maós í íslenskri sagnfræði á fundi Konfúsíusarstofnunarinnar í Háskóla Íslands í hádeginu föstudaginn 2. nóvember, en fundarstaður verður auglýstur síðar. Þar ræði ég aðallega hina hörðu gagnrýni, sem tímamótaverk Jung Cheng og Jons Hallidays um Maó hefur sætt á Íslandi, meðal annars í langri ritgerð Geirs Sigurðssonar, forstöðumanns Konfúsíusarstofnunarinnar, í Sögu.
14.9.2012 | 07:51
Ótrúleg ósannindi Jóns Steinssonar
Friðrik Sophusson var einn farsælasti fjármálaráðherra okkar. Síðan var hann mjög glöggskyggn og ábyrgur forstjóri Landsvirkjunar. Í grein í Fréttablaðinu í dag flettir hann ofan af ótrúlegum ósannindum oflátungsins Jóns Steinssonar. Friðrik segir:
Jón Steinsson, dósent við Columbia-háskóla í New York, skrifaði í síðustu viku grein í Fréttablaðið til varnar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Vörnina byggir Jón á átta tölusettum köflum. Einn þeirra fjallar um Landsvirkjun og hljóðar svo: Hún (ríkisstjórnin) skipaði nýjan forstjóra Landsvirkjunar, sem hefur gjörbreytt stefnu fyrirtækisins í þá átt að hámarka verðið (og þar með arðinn) sem við fáum fyrir auðlindina. Fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar neitaði Landsvirkjun af einhverjum ástæðum að upplýsa almenning um orkuverð til stóriðju. Öll umræða um skynsemi stóriðjuframkvæmda var af þeim sökum út og suður. Þessu var strax breytt eftir að ný forysta tók við. Þá kom í ljós að Landsvirkjun hafði verið að selja orkuna með nokkuð ríflegum afslætti af einhverjum ástæðum. En nýr forstjóri hefur síðan lagt áherslu á að hverfa af þeirri braut. Og nú glittir í það að Landsvirkjun geti farið að greiða eiganda sínum arð. Það var mikið!"
Það vekur athygli að í þessum stutta texta fer Jón rangt með í nánast öllum atriðum.
1. Jón segir að ríkisstjórnin hafi skipað nýjan forstjóra Landsvirkjunar. Það er að sjálfsögðu rangt, því að stjórn fyrirtækisins ræður forstjóra þess í samræmi við lög. Samkvæmt ráðningarsamningi var gert ráð fyrir því að ég léti af störfum í október 2008, en í kjölfar bankahrunsins fór Bryndís Hlöðversdóttir, formaður stjórnar, fram á það við mig að ég sinnti starfinu áfram til að senda lánardrottnum þau skýru skilaboð að engar breytingar yrðu á forystu fyrirtækisins, sem ávallt hefur staðið í skilum. Sumarið 2009 ákvað stjórn LV samhljóða að ráða Hörð Arnarson til fyrirtækisins og kom hann til starfa um haustið. Hafi ríkisstjórnin skipað" forstjórann eins og Jón Steinsson heldur fram eru það nýjar fréttir, sem Jón þarf að skýra betur.
2. Það hefur ávallt verið stefna LV að fá sem hæst verð fyrir orku til orkufreks iðnaðar. Smám saman hefur orkuverð farið hækkandi til stóriðju. Það er eðlilegt vegna alþjóðlegrar verðþróunar og eins vegna þess að við endurnýjun orkusamninga geta iðjuverin greitt hærra verð eftir að hafa afskrifað verulegan hluta upphaflegs stofnkostnaðar. Stóru orkusamningarnir gera flestir ráð fyrir að orkuverðið breytist með álverði og LV ver sig síðan með framvirkum samningum. Nýjasti samningurinn við RTA er hins vegar bundinn bandarískri vísitölu sem dregur úr áhættu vegna mikilla sveiflna í álverði. Það er auðvitað alrangt að LV hafði verið að selja orkuna með nokkrum afslætti af einhverjum ástæðum". Slíkar dylgjur hafa oft komið fram og jafnharðan verið hrundið.
3. Áratugum saman var hægt að lesa meðalverð á orku til orkufreks iðnaðar úr reikningum Landsvirkjunar. Hins vegar hefur fyrirtækið ekki birt opinberlega orkuverð einstakra orkusamninga, hvorki til erlendra né innlendra kaupenda, ef slíkt hefur verið trúnaðarmál. Sama gildir um samninga annarra íslenskra orkufyrirtækja og hefur þessi stefna ekkert breyst í tíð núverandi ríkisstjórnar þvert á það sem Jón segir í grein sinni.
4. Raforkusamningar við orkufrek fyrirtæki hafa ávallt verið kynntir fyrir eigendum Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur gert ítarlegar arðsemisgreiningar áður en ráðist hefur verið í umfangsmiklar fjárfestingar og notað til þess viðurkenndar aðferðir. Í nær öllum tilfellum hefur fyrirtækið síðan leitað til innlendra og erlendra ráðgjafa s.s. Sumitomo Bank, Ráðgjafar og efnahagsspár og Capacent til að leggja mat á niðurstöður útreikninga. Vegna ábyrgðar eigendanna hafa allar forsendur og útreikningar verið kynnt eigendum áður en ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdir og í ákveðnum tilvikum hafa þeir látið gera sínar eigin athuganir með aðstoð sérfræðinga. Það er því augljóst að umræða og ákvarðanir á vettvangi eigenda LV hafa byggt á vandaðri greiningu og góðum upplýsingum eins og vera ber.
5. Þótt eigendur LV hafi aldrei lagt fyrirtækinu til beina fjármuni hefur fyrirtækið greitt þeim arð að öllu jöfnu. Á árinu 2009 ákvað stjórn LV hins vegar í samráði við ríkisstjórnina (Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra) að ekki yrði greiddur arður vegna ársins 2008. Þetta var gert til að undirstrika að ríkisstjórnin ætlaði ekki að taka fé úr rekstri fyrirtækisins til eigin nota að sinni. Miklu skipti að lánasamningar fyrirtækisins héldu, en LV hefur ávallt staðið í skilum og nýtur trausts hjá lánardrottnum sínum.
6. Vegna hraðrar uppbyggingar á undanförnum árum er LV skuldsett fyrirtæki. Efnahagur fyrirtækisins er hins vegar afar traustur. Samkvæmt nýbirtu hálfsársuppgjöri eru hreinar eignir u.þ.b. 1.650 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 200 milljörðum íslenskra króna. Eiginfjárhlutfallið er 36%. Þessi sterka staða er til orðin vegna öflugrar fjármálastjórnar um langt skeið. Til viðbótar má minna á þá staðreynd að orkuverð til almennings og fyrirtækja er talsvert lægra en í nágrannalöndunum og njóta landsmenn góðs af því. Vegna mikils vaxtar Landsvirkjunar á undanförnum árum hafa eigendur skilið verulegan hluta arðsins eftir í fyrirtækinu. Þegar vaxtarskeiðinu lýkur getur fyrirtækið hins vegar greitt út mikinn arð til eigandans eins og allar spár sýna.
Að lokum segir Friðrik Sophusson:
7. Það vekur sérstaka athygli að Jón Steinsson lætur undir höfuð leggjast að fjalla um afrek ríkisstjórnarinnar í því að skapa grundvöll fyrir auknum útflutningi með erlendri fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, en til þess þarf að virkja. Fyrir liggja virkjunarkostir í neðanverðri Þjórsá. Öll sveitarfélög á svæðinu hafa samþykkt skipulag, sem gerir ráð fyrir þessum virkjunum og þær hafa allar farið í gegnum umhverfismat. Ríkið á nánast öll vatnsréttindi á svæðinu. Verkefnisstjórn um rammaáætlun gerði í tillögum sínum ráð fyrir þessum virkjunum í nýtingarflokki. Á síðari stigum greip ríkisstjórnin til þess bragðs að breyta fyrirliggjandi tillögu og færa þessar virkjanir í biðflokk. Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar er því ekki í samræmi við niðurstöður rammaáætlunar. Með því hefur ríkisstjórninni tekist tvennt í senn: Annars vegar að leggja stein í götu Landsvirkjunar og uppbyggingar iðnaðar til útflutnings, en LV var stofnuð í þeim tilgangi að virkja til útflutnings. Hins vegar hefur ríkisstjórninni tekist að grafa undan þeirri vinnu sem staðið hefur yfir í meira en áratug og hafði að markmiði að skapa sátt á milli verndar og nýtingar. Þessa afstöðu verður einnig að skoða í ljósi þess að ríkisstjórnin lofaði á sínum tíma að ryðja úr vegi hindrunum fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Það er m.a. vegna slíkra vinnubragða sem fjarar undan fylgi við ríkisstjórnina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:53 | Slóð | Facebook
13.9.2012 | 06:00
Rosenfeldt um leynistarfsemi kommúnista
Dr. Niels Erik Rosenfeldt, prófessor emeritus í Kaupmannahafnarháskóla, hélt í Háskóla Íslands erindi um leynistarfsemi kommúnista í hádeginu á mánudag, 10. september 2012, við góða aðsókn. Erindið var flutt í stofu 201 í Odda, og stóðu að því Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt og Varðberg, en formaður þess, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var fundarstjóri.
Rosenfeldt gaf út fyrir nokkrum árum mikla bók um þetta efni á ensku, Stalins Power Apparatus, og hefur hún hlotið góða dóma í alþjóðlegum sagnfræðiritum. Rekur hann þar í smáatriðum hinar strangleynilegu deildir, sem störfuðu í Komintern, alþjóðasambandi kommúnista 19191943, og raunar lengur, allt til dauða Stalíns. Voru þær þáttur í tilraunum kommúnista til að brjótast við valda um heim allan með undirróðri og ofbeldi.
Rosenfeldt hefur einnig gefið út bók um þetta efni á dönsku, Verdensrevolutionens generalstab, sem líka hefur hlotið góða dóma. Þar segir hann meðal annars nokkuð frá leyniskólum Kominterns í Moskvu, en í þeim stunduðu um tuttugu Íslendingar nám, þar á meðal Hallgrímur Hallgrímsson, sem síðar gerðist sjálfboðaliði í sveit kommúnista í spænska borgarastríðinu. Þetta nám í Moskvu var ekki síst í marxískum fræðum, en einnig var kenndur vopnaburður, skipulagning götuóeirða, skjalafölsun, dulmálssendingar og annað, sem talið var koma í góðar þarfir í byltingunni. Aðspurður kvaðst Rosenfeldt ekki telja neina ástæðu til að ætla, að Íslendingarnir hefðu stundað annars konar nám en aðrir Norðurlandabúar, til dæmis verið sleppt við hernaðarþjálfun, sem var hluti námsins.
Rosenfeldt kvaðst í rannsóknum sínum hafa rekist á þrjú dulmálsskeyti, sem enska leyniþjónustan gat náð og ráðið í, þar sem Ísland hefði komið við sögu. Fóru þau á milli aðalbækistöðvanna í Moskvu og deildarinnar í Kaupmannahöfn um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Spunnust nokkrar umræður um það, þar sem dr. Þór Whitehead prófessor kvaðst líka hafa fengið slík dulmálsskeyti frá breskum söfnum. Notaði ég nokkur þeirra í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998, til dæmis beiðni um íslensk vegabréf, sem síðan mætti falsa og láta erindreka Kominterns nota. Rosenfeldt taldi mikið verk óunnið í skjalasöfnum, bæði í Rússlandi og annars staðar.
Allt það, sem Rosenfeldt sagði, renndi frekari stoðum undir það, sem við Þór Whitehead og Snorri G. Bergsson höfum haldið fram í bókum okkar og eru viðtekin sannindi í öðrum löndum, að kommúnistaflokkar höfðu algera sérstöðu í stjórnmálum. Kommúnistaflokkurinn íslenski var ekki venjulegur lýðræðisflokkur, heldur stefndi að byltingu og var í nánum tengslum við einræðisstjórn, sem studdi hann eftir megni með fjárframlögum og ráðgjöf. Þetta breyttist lítt, þótt íslenskum kommúnistum tækist 1938 að fá til liðs við sig nokkra hrekklausa jafnaðarmenn og stofna Sósíalistaflokkinn. Hið sama gerðu þeir í Finnlandi og Austur-Þýskalandi eftir stríð. Þar buðu kommúnistar ekki fram undir eigin nöfnum, heldur í finnska Lýðræðisbandalaginu og þýska Einingarflokknum. En úlfurinn leyndist áfram undir sauðargærunni.
Rosenfeldt er vandvirkur, yfirlætislaus fræðimaður, sem segir ekki meira en hann getur staðið við. Hann hlaut árið 2009 H. O. Lange verðlaun Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (Det Kongelige Bibliotek, svarar til Þjóðarbókhlöðu hér) fyrir bók um Lenín.