Hvað varð um söfnunarféð?

Stúdentafélag Reykjavíkur hélt marga merkilega fundi um þjóðmál um og eftir miðja tuttugustu öld. Sérstaklega varð mörgum minnisstæður fjölmennur fundur félagsins um andlegt frelsi í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 12. janúar 1950, enda var umræðunum útvarpað sunnudaginn á eftir. Framsögumenn voru Tómas Guðmundsson skáld og Þórbergur Þórðarson rithöfundur, og voru tildrög þau, að Tómas hafði gert gys að íslenskum sósíalistum á fullveldisfagnaði 1. desember 1949. Kvað hann engu líkara en þeir hæfu kvöldbænir sínar á orðunum: „Faðir vor, þú sem ert í Moskvu!“ Málgagn sósíalista, Þjóðviljinn, réðist þá harkalega á „skáld borgarastéttarinnar“ eins og blaðið kallaði Tómas og kvað hann hafa staðið frammi fyrir þjóð sinni sem „þriðja flokks gamanleikari“.

Á stúdentafélagsfundinum fluttu þeir Tómas og Þórbergur báðir innblásnar ræður, sem prentaðar eru í ritsöfnum þeirra og enn er fróðlegt að lesa. Fjörugar umræður urðu eftir framsöguerindi þeirra, og tóku margir til máls, þar á meðal Geir Hallgrímsson, Gylfi Þ. Gíslason og Þorvaldur Þórarinsson lögfræðingur, kunnur harðlínumaður í Sósíalistaflokknum. Þorvaldur kvað andlegt frelsi fullkomið í Ráðstjórnarríkjunum (sem þá voru undir stjórn Stalíns), og vildi hann glaður flytjast þangað austur, hefði hann tækifæri til.

Sjálfstæðismenn tóku Þorvald á orðinu og hófu söfnun í farareyri fyrir hann aðra leiðina austur, og sá dagblaðið Vísir um að taka við framlögum og birti jafnóðum lista um gefendur, en heilu vinnustaðirnir tóku þátt í söfnuninni. Talsvert fé safnaðist til austurfarar Þorvaldar, um 1.500 krónur, sem hefði þá meira en nægt aðra leiðina. En Þorvaldur vildi ekki þiggja féð. Ég sé, að Leifur Sveinsson lögfræðingur veltir fyrir sér í Morgunblaðinu, hvað hafi orðið um söfnunarféð, en ég rannsakaði það, er ég setti saman bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998. Hef ég fyrir satt, að féð hafi loks verið afhent Fegrunarfélagi Reykjavíkur. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2013.)


Ellefta boðorðið

Boðorðin tíu, sem skráð eru í annarri bók Móse, eru raunar flest bönn frekar en boð: þau leggja taumhaldsskyldur á menn frekar en verknaðarskyldur, eins og siðfræðingar orða það. Eina boðorðið, sem leggur á menn verknaðarskyldu, er hið fimmta: „Heiðra föður þinn og móður þína.“ Hvað sem því líður, hefur mörgum manninum reynst erfiðast að fara eftir sjöunda boðorðinu: „Þú skalt ekki drýgja hór,“ að minnsta kosti í upprunalegri merkingu orðsins, þegar bannað er allt kynlíf utan hjónabands og jafnvel öll sú kynhegðun, sem ekki stuðlar að fjölgun mannkyns. Ein útgáfa biblíunnar á ensku, sem kom á prent 1631, hlaut nafnið „The Wicked Bible“ eða biblían illa, af því að þar hafði orðið „not“, ekki, fallið niður í sjöunda boðorðinu, svo að þar stóð: „Thou shalt commit adultery,“ þú skalt drýgja hór.

Andríkir menn hafa fetað í fótspor Móse og samið fleiri boðorð. Sænski ritstjórinn Sigge Ågren sagði til dæmis, að boðorð góðra blaðamanna ætti að vera: Elska skaltu lesendur þína meira en sjálfan þig. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken kvað ellefta boðorðið hljóða svo: Þú skalt ekki skipta þér af því, sem þér kemur ekki við. Önnur tillaga og algengari er: Þú skalt ekki láta standa þig að verki. Hefur breski rithöfundurinn Jeffrey Archer samið heila skáldsögu um það boðorð, The Eleventh Commandment (1998). Í Kaliforníu, þar sem unglegt útlit er mikilvægt í skemmtanaiðnaðinum, er ellefta boðorðið sagt vera: Þú skalt ekki eldast. En sjálfum finnst mér viturlegasta tillagan um ellefta boðorðið vera sú, sem Milton Friedman gerði: Þú skalt ekki gera góðverk þin á kostnað annarra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2013.)


Halda Ögmundur og Össur verndarhendi yfir tölvuþrjóti?

Afskipti Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra af máli tölvuþrjóts þess, sem gengur undir nafninu „Siggi“, eru mjög undarleg. Ég hygg, að það sé einsdæmi, að ráðherrar hafi á þennan hátt afskipti af og reyni að stöðva rannsókn lögreglumáls.

Tölvuþrjóturinn er gamalkunnur. Hann hóf ungur brotaferil. Til dæmis braust hann inn í tölvukerfi lögmannsstofu í Reykjavík og seldi DV upplýsingar þaðan, sem það notaði í herferð sinni gegn formanni Sjálfstæðisflokksins. Um skeið var þessi maður tengdur Wikileaks, sem nú þvær hins vegar hendur sínar af honum.

Rekið var upp ramakvein, þegar tölvuþrjóturinn var handtekinn við innbrotstilraun í Málningu í Kópavogi á sínum tíma, og töldu sumir þetta vera ofsóknir gegn Wikileaks. Innbrotstilraunin var hins vegar ótengd Wikileaks.

„Siggi“ hafði að eigin frumkvæði samband við bandaríska sendiráðið í Reykjavík, og starfsmenn alríkislögreglunnar bandarísku, sem yfirheyrðu hann, gerðu það í fullu samstarfi við hann. Virðist svo sem slitnað hafi upp úr samstarfi „Sigga“ og Wikileaks, og hann hafi við svo búið leitað til bandarískra yfirvalda.

En hvers vegna vilja ráðherrar í ríkisstjórn Íslands halda verndarhendi yfir tölvuþrjóti og brotamanni? Hvers vegna reyna þeir að stöðva rannsókn á máli hans? Það er mér hulin ráðgáta. Og fara þeir ekki yfir eðlileg mörk á milli sín og lögreglunnar með þessum afskiptum?

Til samanburðar verður að skoða annars vegar endurteknar ásakanir um afskipti ráðherra af rannsókn Baugsmálsins, sem reyndust ósannar, og hins vegar nána samvinnu sérstaks saksóknara og breskra eftirlits- og lögregluyfirvalda. Almennar reglur verða að gilda um embættisfærslur, ekki geðþótti.


Sænsk áhrif

Þegar ég hlustaði fyrir skömmu á fróðlegan fyrirlestur dr. Nils Karlsons um „nýju, sænsku leiðina“, sem felst í auknu atvinnufrelsi og lækkun skatta, rifjaðist upp fyrir mér, að sænskir hagfræðingar hafa haft nokkur áhrif á Íslandi á tuttugustu öld, til góðs og ills. Til dæmis voru hagfræðiskrif Jóns Þorlákssonar, verkfræðings og forsætisráðherra, að miklu leyti sótt í verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var ötull málsvari frjálsra viðskipta.

Annar kunnur sænskur hagfræðingur, Erik Lundberg, kom hingað 1935 til að veita þáverandi vinstri stjórn ráð, en aðallega lagði hann það þá til, að Íslendingar hættu að lifa um efni fram, og hefur margt verið sagt af minna viti. Lundberg sneri aftur hingað 1955 á ráðstefnu um, hvort Norðurlandaþjóðir ættu að endurreisa myntbandalag það, sem stóð frá 1873 til 1914 og gaf góða raun. Voru þá íslensk króna, dönsk, sænsk og norsk allar jafngildar og skiptanlegar.

Þriðji frægi sænski hagfræðingurinn, Gunnar Myrdal, lagði leið sína til Íslands sumarið 1952 og kvað kreppu og matvælaskort vofa yfir heiminum, og kann það að hafa haft sitt að segja um, að landbúnaðarframleiðsla til útflutnings var aukin á Íslandi.

Alþekkt hagfræðilegt sjónarmið íslenskt er ef til vill líka sænskt að uppruna. Gleðimaðurinn Þórður Guðjohnsen sagði eitt sinn: „Nú er brennivínið orðið svo dýrt, að ég hef ekki efni á að kaupa mér skó!“ Minnir þetta á fleyg ummæli sænska háðfuglsins Alberts Engströms í skopblaðinu Strix 1903: „Brennivínið verður aldrei svo dýrt, að það sé ekki peninganna virði.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. janúar 2013.)


Orðaskipti Rousseaus og Voltaires

Margir vinstri sinnar kenndu mér í Oxford á sínum tíma, hver öðrum snjallari, og átti ég í vinsamlegum útistöðum við þá suma, til dæmis Amartya Sen, Ronald Dworkin og Jerry Cohen, en hinn síðastnefndi var sannfærður marxisti og þó um leið ætíð reiðubúinn til að rökræða. Eftirlætistilvitnun Cohens var ekki eftir Karl Marx, heldur franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau, sem uppi var 1712–1778. Hún var í Orðræðu um ójöfnuð, Discours sur l’origene et les fondements de l’inégalité parmi les hommes, frá 1755. Þar segir Rousseau: „Hinn fyrsti, sem fékk þá hugmynd að girða af jarðarskika og segja: „Þetta er mín eign“ — og fann menn, sem voru nógu grunnhyggnir til að trúa honum, er hinn sanni frumkvöðull þjóðfélagsins. Hve mörgum glæpum, morðum og styrjöldum, hvílíkri ógn og eymd hefði sá maður hlíft mannkyninu við, er rifið hefði upp staurana eða fyllt upp skurðinn og hrópað til meðbræðra sinna: „Gætið yðar! Hlustið ekki á svikara þennan. Þið eruð glötuð, ef þið gleymið því, að ávextir jarðarinnar eru eign okkar allra, en jörðin sjálf tilheyrir engum manni.““

Ég nota hér þýðingu Einars Olgeirssonar, en hann samdi bók á íslensku um Rousseau árið 1925. Ég tek eftir því, að Einar Már Jónsson fornfræðingur vitnar í orð Rousseaus (með sömu velþóknun og Cohen) í nýútkominni ádeilu sinni á frjálshyggju, Örlagaborginni. En ég kann ekki betra svar við orðum Rousseaus en landi hans, rithöfundurinn og háðfuglinn Voltaire, sem uppi var 1694–1778. Eftir að Rousseau hafði sent honum bókina, skrifaði Voltaire til baka (og nota ég enn þýðingu Einars): „Aldrei hefir slíku andríki verið beitt til að gera oss að dýrum, sem þér gerið hér. Mig fer að dauðlanga til að skríða á fjórum fótum, þegar ég les rit yðar. En þar sem ég lagði þann vana niður fyrir sextíu árum, finn ég til allrar óhamingju, að mér er ómögulegt að taka hann upp aftur.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. janúar 2013.)


Arnór Hannibalsson: Minningarorð

Arnór Hannibalsson sneri heim 1961 eftir sjö ára háskólanám í Moskvu, Varsjá og Kraków. Hann var þá áhugasamur sósíalisti, sem vildi fræða landa sína um reynsluna af sósíalisma. Gerðist hann umsjónarmaður æskulýðssíðu Þjóðviljans. Eitt sinn tók hann þá viðtal við Skúla Magnússon, sem var nýkominn frá Kína. Þar sagði meðal annars, að einhverjir bændur hefðu verið vegnir í „Stóra stökkinu“ kínverska 1958–1961. Sigurður Guðmundsson, ritstjóri Þjóðviljans, tilkynnti Arnóri, að slík skrif yrðu ekki birt í blaðinu. Sumarið 1961 bauð Arnór Rétti grein um ríkisvald í Ráðstjórnarríkjunum, en ritstjórinn, Einar Olgeirsson, hafnaði henni, þar eð hún væri ekki „aktúel“. Í janúar 1962 bauð Arnór Þjóðviljanum gagnrýna grein um Stalínstímann, en ritstjórar blaðsins, Sigurður Guðmundsson og Magnús Kjartansson, synjuðu henni birtingar. Staðfesti framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins þá ákvörðun. Í febrúar 1963 bauð Arnór Sigfúsi Daðasyni, ritstjóra Tímarits Máls og menningar, aðra gagnrýna ritgerð um frelsi og ánauð undir ráðstjórn, en hún var endursend með skætingi.

Íslenskir sósíalistar vildu ekki heyra neitt misjafnt um reynsluna af sósíalisma. Virtist vera botnfrosið fyrir skilningarvitin á þeim. En Arnór prentaði hinar endursendu greinar sínar 1963 í bókinni Valdinu og þjóðinni. Safni greina um sovét. Sama ár veitti Arnór Halldóri K. Laxness aðstoð við að setja saman Skáldatíma, uppgjör skáldsins við sósíalisma, enda var Arnór þá þegar allra manna fróðastur um rússneska sögu. Arnór birti ári síðar ádeilurit á íslenska sósíalista, Kommúnisma og vinstri hreyfingu á Íslandi. Jafnframt gagnrýndi hann opinberlega þjónkun íslenskra sósíalista við Kremlverja. Þeim var nóg boðið. Páll Bergþórsson, formaður Sósíalistafélags Reykjavíkur, skrifaði framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins í septemberlok 1964 og krafðist þess, að Arnór yrði rekinn úr flokknum. Höfðu nú leiðir skilið með Arnóri og íslenskum sósíalistum. En eftir að mistekist hafði að þagga niður í honum, var honum útskúfað og rógi dreift skipulega um hann.

Með því að segja sannleikann um sósíalistaríkin, á meðan aðrir í sömu sporum þögðu, sýndi Arnór Hannibalsson tvo eðlisþætti sína, réttlætiskennd og hugrekki. Hann var aldrei augnaþjónn. Þriðji þátturinn í fari Arnórs var yfirgripsmikil þekking á heimspeki og sögu. Að fornu hefði hann verið nefndur Arnór fróði. Eftir doktorspróf frá Edinborgarháskóla gerðist hann heimspekiprófessor í Háskóla Íslands, en lét sig áfram varða örlög manna og þjóða austantjalds. Arnór var glaður í bragði, þegar við sátum kvöldverð í boði Davíðs Oddssonar í Ráðherrabústaðnum 26. ágúst 1991 með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, eftir að Íslendingar höfðu endurnýjað viðurkenningu á þeim. Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna viðaði hann að sér ótal skjölum úr söfnum þaðan, en afhenti mér þau til úrvinnslu, þegar heilsan brást, og voru þau mér ómetanleg, þegar ég skrifaði Íslenska kommúnista 1918–1998. Með Arnóri er genginn kjarkaður og réttsýnn öðlingur með óvenjuvíða sýn á umheiminn.

(Minningarorð í Morgunblaðinu 12. janúar 2012.)


Tvö dæmi mega ekki gleymast

Kolbeinn Óttarsson Proppé, kosningastjóri Vinstri grænna í Reykjavík 1999, en nú blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar í fréttaskýringu, að Icesave-málið sé dæmi um það, að stjórn sé hlynnt samningum við önnur ríki, en stjórnarandstaða ekki. Þetta er almennt ekki rangt, svo langt sem það nær. Gallinn er hins vegar sá, að þessi athugasemd á ekki við um Icesave-málið. Þar vildi stjórnin ekki aðeins semja, heldur líka semja af sér.

Ég skal nefna tvö lítil dæmi um það, hversu áhugalítil stjórnin var um að bæta vígstöðu Íslendinga, en mörg fleiri eru til.

Annað var, þegar norsk-franska baráttukonan Eva Joly skrifaði grein til stuðnings Íslendingum í Icesave-málinu. Taldi hún kröfur Breta og Hollendinga á hendur þeim ekki réttmætar, gagnrýndi framkomu ríkjanna og taldi greiðslubyrði samkvæmt fyrsta Icesave-samningnum þyngri en þjóðin gæti risið undir. Birtist greinin í nokkrum erlendum blöðum og einnig í Morgunblaðinu 1. ágúst 2009. Þá skrifaði aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, Hrannar B. Arnarsson (sá sem gerði Jón Sigurðsson að Dýrfirðingi), ólundarlega á Facebook-síðu sinni: „Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis? Veit hún ekki að megnið af erlendu lánunum (eiginlega allt nema Icesave) er til að styrkja gjaldeyrisforðann og þar myndast eign á móti? Held hún ætti að halda sig við ráðgjöf við sérstaka saksóknarann og láta aðra um efnahagsmálin.“

Hitt var, að Davíð Oddsson benti á það í viðtali við Morgunblaðið 5. júlí 2009, að nefnd undir forystu Trichets, seðlabankastjóra Frakklands og síðar seðlabankastjóra Evrópu, hefði komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu, að ákvæði um innstæðutryggingar ættu ekki við um bankahrun, enda eru slík ákvæði jafnan um gagnkvæma ábyrgð banka. Þessi skýrsla væri til í utanríkisráðuneytinu. En hver voru viðbrögðin? Þau voru að gera að aðalatriði, að í endursögn blaðamannsins hafði slæðst villa, sem ekki var komin frá Davíð, um, að skýrslan hefði verið unnin fyrir OECD. Hitt var ekki gert, að fara eftir þessari ábendingu Davíðs, sem hefði styrkt málstað Íslendinga í viðureigninni við Breta og Hollendinga, ekki síður í fjölmiðlum en við samningaborðið.

Í ljósi sögunnar er það ráð Hrannars B. Arnarssonar til Evu Joly að láta hann og aðra stjórnarsinna um efnahagsmálin hins vegar gráthlægilegt.


Cuba Libre

Tvær eru þær tegundir staða, sem reknir eru mönnum til yndis og ánægjuauka hér í Reykjavík: vínstúkur (barir á vondri íslensku) og bókabúðir.

Nú er ljóst, hvaða drykki menn báðu um á vínstúkunum í janúarlok 2013: Cuba Libre (Frjáls Kúba), í tilefni þess að EFTA-dómstóllinn sýknaði íslenska ríkið af öllum sökum í Icesave-málinu. Því hafði verið spáð, eins og frægt er, ef við Íslendingar samþykktum að greiða skuldir óreiðumanna í stað þess að standa á rétti okkar, að við yrðum Kúba norðursins. Í Cuba Libre eru sem kunnugt er hvítt romm, kók og lime.

Næsta víst er líka, hvaða bók menn báðu um næstu daga í bókabúðunum: Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann. Var hún til til sölu með afslætti, á aðeins 990 krónur, í tilefni dómsins. Þar rekur Sigurður Már sögu Icesave-málsins. Hann lýsir því með tilþrifum, hvernig átti að lauma málinu í gegnum þingið, eftir að þeir Svavar Gestsson og Indriði Þorláksson höfðu samið af sér (eftir öllum mælikvörðum, því að þrátt fyrir allt náði Lee Buchheit miklu betri samningi síðar). Margt fleira fróðlegt kemur fram í þeirri bók. Ef hún verður endurprentuð (eða sett á Netið), þá þarf hins vegar að taka spurningarmerkið úr titlinum.


Sigur Davíðs og Ólafs Ragnars

Dómurinn í Icesave-málinu er sigur Davíðs Oddssonar, sem barðist eins og ljón gegn Icesave-samningunum, og Ólafs Ragnars Grímssonar, sem tryggði, að þjóðin ætti síðasta orðið um þá. Davíð hafði þegar haustið 2008 sagt, að við ættum ekki að greiða skuldir óreiðumanna, og hann skrifaði áhrifamikið Reykjavíkurbréf um málið. Þetta er líka sigur þeirra vösku ungu manna, sem fylktu liði gegn samningunum, til dæmis þeirra Jóns Helga Egilssonar, Frosta Sigurjónssonar, Gísla Haukssonar, Sigurðar Hannessonar og Friðbjörns Orra Ketilssonar.

Dómurinn er um leið ósigur þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar og Steingríms J. Sigfússonar, sem ætluðu að neyða samningi þeirra Svavars Gestssonar og Indriða Þorlákssonar upp á þjóðina ólesnum, eins og Sigurður Már Jónsson rekur í merkri bók sinni um málið. Og hann er ósigur margra samkennara minna, sem sögðu, að Ísland yrði Kúba norðursins eða jafnvel eins konar Norður-Kórea, ef Íslendingar neituðu að verða við óbilgjörnum kröfum Breta og Hollendinga.


Ólafur Ragnar hafði rétt fyrir sér

Ólafur Ragnar Grímsson hefur rétt fyrir sér um það, eins og hann sagði á fyrirmannafundi í Davos í Sviss, að fiskveiðistefna Evrópusambandsins, Common Fisheries Policy, er misheppnuð. Ég held, að Íslendingar geri sér ekki almennt grein fyrir því, hversu mótsagnakennd og raunar hættuleg þessi stefna er. Samkvæmt grænbók, sem ESB lét sjálft taka saman 2009, eru 88% fiskistofna innan efnahagslögsögu ESB ofveiddir í þeim skilningi, að árlegur afli fer fram úr sjálfbærum hámarksafla. Nokkrir þessara stofna eru nálægt hruni.

Nýjar tilraunir ESB til að endurskoða stefnuna hafa ekki borið árangur. Okkur Íslendingum tókst hins vegar í langri þróun að koma okkur upp hagkvæmu kerfi í fiskveiðum, kvótakerfinu, þar sem útgerðarmenn vinna að almannahag, um leið og þeir keppa að eigin hag, en galdurinn er ætíð að reyna að sameina þetta tvennt. Menn eru skynsamir, ef skynsemin borgar sig, og óskynsamir, ef hún gerir það ekki. Það var ekki að ófyrirsynju, þegar Wall Street Journal skrifaði á dögunum, að aðför núverandi ríkisstjórnar að kvótakerfinu líktist helst efnahagslegu sjálfsmorði.

Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt hélt ráðstefnu 6. október 2012, þar sem helstu sérfræðingar Íslendinga í stofnana- og fiskihagfræði og yfirmenn og aðalsérfræðingar Alþjóðabankans, FAO og OECD héldu erindi um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar. Hér má lesa blaðaviðtöl við tvo fyrirlesaranna, þá dr. Þráin Eggertsson prófessor og dr. Gunnar Haraldsson, sem þá var sérfræðingur OECD í fiskveiðimálum, en er nú orðinn forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hér er viðtal við dr. Ragnar Árnason prófessor af sama tilefni og hér við dr. Rögnvald Hannesson prófessor.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband