10.4.2013 | 17:21
Viðtalið komið á Netið!
Nú er sjónvarpsviðtal Björns Bjarnasonar við mig á ÍNN 27. febrúar 2013 komið á Netið, og má horfa á það hér. Í fyrri hluta viðtalsins ræddum við um stjórnmálaviðhorfið, en í síðari hlutanum snerum við okkur að efninu í fyrirlestri mínum 19. febrúar 2013 um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann. Þar svaraði ég fimm bókum, sem komið hafa út síðustu ár gegn frjálshyggju og kapítalisma, eftir Stefán Snævarr, Stefán Ólafsson og fleiri, Einar Má Guðmundsson, Einar Má Jónsson og Ha-Joon Chang.
Einnig vek ég athygli á því, að vikublaðið Séð og heyrt birti fyrir skömmu viðtal við mig ásamt tveimur opnum af myndum, meðal annars myndum úr þrítugsafmæli mínu, fertugsafmæli, fimmtugsafmæli og sextugsafmæli. Er gaman að skoða, hvernig vinir og vandamenn hafa breyst eða ekki breyst með árunum. En alltaf sjást þar sömu andlitin, sem betur fer, auk þess sem aðrir bætast í vinahópinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook
7.4.2013 | 11:29
Hvar voru þeir, þegar Elín var rekin?
Nú er mikið fjaðrafok vegna þess, að Steinunn Stefánsdóttir er að hætta störfum á Fréttablaðinu, þótt það virðist raunar hafa verið í sátt við yfirmenn 365-miðla. En hvar voru allir gagnrýnendurnir, þegar Elín Hirst var rekin fyrirvaralaust af Ríkisútvarpinu? Þegar Óðinn Jónsson fréttastjóri kom til hennar í sminkherberginu og sagði, að hennar nærveru væri ekki lengur óskað?
Látið var svo heita, að Elín væri rekin af sparnaðarástæðum. Bent var á það til staðfestingar á þessu, að stjúpsonur Jóhönnu Sigurðardóttur, Gunnar Hrafn Jónsson, var rekinn um leið. En það er einn munur á: Gunnar Hrafn vinnur enn á Ríkisútvarpinu.
4.4.2013 | 11:06
Myndband með mér frá 1985!
3.4.2013 | 23:28
Ágirnd og sjálfelska
Okkur er sagt, að dauðasyndirnar verði ekki fyrirgefnar á efsta degi. Þær eru samkvæmt kenningu kirkjufeðranna sjö talsins, á latínu superbia, avaratia, luxuria, invidia, gula, ira og acedia, en á íslensku er algengast að kalla þær í sömu röð dramb, ágirnd, lauslæti, öfund, græðgi, heift og hirðuleysi. Hin síðari ár hefur merking orðanna ágirnd og græðgi blandast nokkuð saman, en áður fyrr vísaði græðgi einkum til þess, er menn kunnu sér ekki hóf í mat eða drykk, voru átvögl eða vínsvelgir. Ein ástæða til þessarar merkingarbrenglunar er eflaust, að enska orðið greed merkir ágirnd, en gluttony græðgi.
Ágirnd er líka stundum ruglað saman við sjálfselsku. Kristur sagði mönnum (Lk 12,15) að varast ágirnd, og Páll postuli taldi (1Tm 6, 10) fégirndina rót alls ills, eins og Hallgrímur Pétursson lagði út af í 16. Passíusálmi. Sjálfselskan er hins vegar hvergi bönnuð. Öðru nær. Í boðorðum gamla og nýja testamentisins um, að menn skuli elska náunga sína eins og sjálfa sig, felst beinlínis, að þeir skuli elska sjálfa sig. En hvað í sjálfum sér? Séra Arnljótur Ólafsson, sem gaf 1880 út fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði, benti á, að mennirnir eru engan veginn misgóðir eftir því hve mjög þeir elska sjálfan sig, heldur eftir hinu hvað þeir elska hjá sjálfum sér og í sínum kjörum. Sjálfið takmarkast ekki heldur nauðsynlega við einstaklinginn. Móður, sem ann barni sínu eins og sjálfri sér, hefur fært sjálf sitt út.
Munurinn á ágirnd og sjálfselsku er, að ágirndin beinist ætíð gegn öðrum, felur í sér ásælni. Sjálfselskan getur hins vegar verið áreitnislaus. Hvernig geta menn síðan elskað náunga sína í raun? Séra Arnljótur svaraði hinu sama og Adam Smith: með því að keppa á frjálsum markaði að hámarksgróða, því að hann er vísbending um, að þeim hafi tekist betur en aðrir að fullnægja þörfum náunga sinna. Þetta hlýtur stuðning af því, hverjar tvær aðrar dauðasyndirnar eru, öfund og hirðuleysi. Menn eiga ekki að öfunda þá, sem vegnar vel, og þeir eiga að leggja sig sjálfa fram um að leysa verkefni lífsins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2013.)
3.4.2013 | 12:28
Markaðskapítalismi og klíkukapítalismi
Mér er minnisstætt, þegar Verslunarráðið bauð Milton Friedman í kvöldverð í Þingholti 31. ágúst 1984. Einn veislugesturinn spurði Friedman, hver væri hættulegasti óvinur kapítalismans. Hann svaraði að bragði: Horfið í spegil! Það eru kapítalistarnir. Þeir vilja alltaf vernd fyrir samkeppni.
Hugsun Friedmans var svipuð og Ayns Rands í skáldsögum hennar, þar sem hún deilir af mikilli mælsku á crony capitalism eða klíkukapítalisma.
Í fyrirlestri mínum í Háskóla Íslands 19. febrúar síðast liðinn gerði ég greinarmun á markaðskapítalisma, eins og fylgt var á Íslandi 19912004, og klíkukapítalisma, sem náði hér yfirhöndinni 2004, en féll um koll í fjármálakreppunni 2008.
Markaðskapítalismi einkennist af virðingu fyrir skattgreiðendum og neytendum og frjálsu vali þeirra um það, hvernig þeir verja sjálfsaflafé sínu. Hann felur í sér opið hagkerfi og fjöruga samkeppni. Þar er leiðarljósið að virkja ávinningsvonina í almannaþágu. Slíkur kapítalismi er öflugasta tækið, sem enn hefur fundist til að breyta fátækt í bjargálnir.
Klíkukapítalismi er hins vegar, þegar fámenn auðklíka nær víðtækum áhrifum og jafnvel völdum, eins og gerðist hér á landi í hinum hatrömmu átökum ársins 2004 (ekki síst um fjölmiðlafrumvarpið). Þessi auðklíka tæmdi bankana, keypti upp fyrirtæki og takmarkaði samkeppni. Eftir bankahrunið sást, að hún skuldaði miklu meira en áður hafði verið talið, en á mörgum kennitölum. Þótt margir gáfaðir og góðviljaðir menn hefðu starfað í bönkunum og í fjármálaeftirlitinu fyrir bankahrunið, var þeim þetta ekki að fullu ljóst. En með þessu jókst kerfisáhættan stórlega á Íslandi umfram það, sem gerðist í grannríkjunum.
Þessi auðklíka merkti lystisnekkju sína með tölunni 101 og einkaþotuna með sömu tölu. Þetta var eflaust ekki aðeins gert til þess að minnast hirðskálds klíkunnar, Hallgríms Helgasonar, höfundar bókarinnar 101 Reykjavík, heldur líka til að hælast um af því, sem klíkunni tókst óneitanlega: Skuldirnar voru á 100 kennitölum, þótt skuldarinn væri 1.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook
31.3.2013 | 11:36
Guðni Th. Jóhannesson hefur orðið
Nú fyrstu vikurnar á árinu 2013 vildi svo til, að ég fór á tvo fróðlega fyrirlestra dr. Guðna Th. Jóhannessonar, nýráðins sagnfræðilektors í Háskóla Íslands.
Fyrri fyrirlesturinn var hjá Sagnfræðingafélaginu þriðjudaginn 29. janúar 2013 og bar titilinn: Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst. Guðni varpaði fram mörgum umhugsunarefnum, en ég staldraði við tvö. Annað var, hvað hefði gerst, hefðu Þjóðverjar hernumið Ísland 1940, en ekki Bretar. Margir stjórnmálamenn og aðrir íslenskir frammámenn hafa síðar lýst því, hve þeim létti, þegar þeir sáu, að herskipin, sem komu að landi 10. maí, voru bresk, en ekki þýsk. Þjóðverjar gengu fram af miklu meiri hörku í Noregi og Danmörku en Bretar á Íslandi. Eitt dæmið er, að 1941 hvatti norski lögfræðingurinn Viggo Hansteen (sem margir Íslendingar þekktu) til verkfalls gegn þýsku hernámsyfirvöldunum. Hið sama gerðu Eðvarð Sigurðsson og Hallgrímur Hallgrímsson hér á landi gegn bresku hernámsyfirvöldunum sama ár. Þjóðverjar skutu Hansteen umsvifalaust. Bretar létu sér nægja, að íslensk yfirvöld vistuðu þá Eðvarð og Hallgrím á Litla Hrauni í nokkra mánuði. Þar tóku þeir á móti heimsóknum samherja sinna, annarra kommúnista, og létu taka af sér ljósmyndir borginmannlegir, og Hallgrímur skrifaði endurminningar úr Spánarstríðinu. (Hallgrímur hafði sem kunnugt er hlotið hernaðarþjálfun í Moskvu.)
Hitt umhugsunarefnið er, hvað hefði gerst, hefðu Rússar hernumið Ísland 1948, til dæmis með því að sigla stórum flota, sem þá var að fiskveiðum skammt utan landsteinanna, til Íslands og skipa þaðan út hermönnum (svipað og Þjóðverjar höfðu gert í Noregi). Þeir hefðu ekki þurft mikinn herafla til að taka Ísland. Raunar hafa þeir Arnór Hannibalsson og Árni Bergmann (sem fyrstir íslenskra námsmanna settust á skólabekk í Moskvu eftir lát Stalíns) báðir skrifað um það, sem gerst hefði á Sovét-Íslandi, óskalandinu. Arnór skrifaði (árið 1963):
Ríkisstjórn undir forsæti einhvers góðborgara. Menntamenn fluttir til staðar hinum megin á hnettinum vegna burgeisalegrar þjóðernisstefnu. Íslendingar sjálfir aðeins um 40% íbúanna í landinu. Afkastaaukning iðnaðarins 2000% á fimm árum. Jóhannes úr Kötlum hengdur fyrir að yrkja ekki kvæði um hinn Mikla, en læða þess í stað á loft burgeisalegum sveitaferskeytlum, sem sáðu hugmyndaleysi og andvaraleysi gagnvart hættunum og óvinunum. Ekkert gefið út á íslenskri tungu nema einn tvíblöðungur í sama broti og Lesbók Morgunblaðsins. Þar hefði félagi Da-da-son [Sigfús Daðason] líklega orðið prófarkalesari. Kristinn E. Andrésson forseti nefndar til að hreinsa íslenskt mál af próvinsíalismanum, en látinn víkja, þegar hann neitaði að löggilda orðið kúltúra (í kvk.) í staðinn fyrir orðið menning. Einar Olgeirsson formaður áætlunarráðs, en sviptur embætti, þegar hann gekk of ákaft fram í hreinsun og var einn orðinn eftir í stofnuninni. Því var hann tekinn úr umferð fyrir skemmdarverk. Úr síðasta bústað sínum, rammgirtum, skrifaði hann hástemmdar lofgerðir og hollusturollur til Sonar Sólarinnar á fjallstindi heimsins, ásamt með hvatningu til Flokksins að ganga betur fram gegn þjóðaróvinunum. Allir skólar á erlendu máli undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar.
Árni Bergmann skrifaði (árið 1992):
Fyrst fjúka hausar af oddvitum borgaralegra afla, þá af þeim sósíaldemókrötum, sem ekki sýna auðsveipni, og að lokum kemur röðin af byltingarmönnunum sjálfum, það er að segja þeim, sem helst eru hugsjónamenn og ætluðu sér á annan stað en þeir eru komnir. Við tekur ný stétt, vanheilög blanda af ofstækismönnum valdsins, sem tekst einhvernveginn að fleyta sér áfram í tilverunni á dólgamarxískum formúlum um lögmál sögulegrar þróunar og svo nýliðum úr ýmsum áttum, hundingjum valdsins, sem kunna þá list að klifra upp eftir hvaða valdkerfi sem vera skal.
Það er ekki að ófyrirsynju, að Áki Jakobsson, sem verið hafði frammámaður í hreyfingu kommúnista og jafnvel ráðherra á þeirra vegum, sagði: Íslenskir kommúnistar mega vera þakklátir fyrir að hafa ekki komist til valda, því þá hefðu margir þeirra orðið verri menn en þeir nú eru. Allt er afgreitt með þessum orðum: Flokkurinn, kenningin þarfnast þess og hins. Og í krafti þess er ofbeldi beitt.
Síðari fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar var hjá Churchill-klúbbnum laugardaginn 3. febrúar um sagnfræðínginn Winston Churchill. Þar fór Guðni á fróðlegan og greinargóðan hátt yfir sagnfræðirit Churchills, meðal annars það, hversu mikinn þátt hann átti sjálfur í þeim, því að hann hafði heilan her aðstoðarmanna við skriftir. Churchill sagðist hafa lært mest af þeirri sagnfræðihefð, sem þeir Edward Gibbon og Macaulay lávarður komu úr, og er þar ekki leiðum að líkjast. Ég dáist sjálfur að þeirri hefð, þótt mér fyndist Gibbon skrifa aðeins of skrautlegan stíl, ofhlaðinn. Macaulay notaði einfaldari og hraðari stíl, og það get ég sagt Einari Má Jónssyni, sem tekur upp gagnrýni ýmissa dalakofasósíalista nítjándu aldar á kapítalismann, að Macaulay svaraði þeim afar vel í frægri ádeilu á skáldið Southey. Hvað sem því öllu líður, var Churchill stórbrotinn og margbrotinn einstaklingur, eins og skýrt kom fram í fyrirlestri Guðna, síður en svo gallalaus, en sannkallað mikilmenni.
30.3.2013 | 20:42
Veðmál Bjarna Benediktssonar
Setningarræða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi var vel hugsuð, vel samin og vel flutt. Hann er nú sá formaður stjórnmálaflokks, sem helst hefur þunga, pondus. Boðskapurinn var einfaldur: Lækkum skatta til að örva atvinnusköpun. Komum í veg fyrir það stórkostlega atvinnuleysi, sem sést í Evrópu, aðallega hjá ungu fólki, og sköpum fleiri atvinnutækifæri.
Þá segja andstæðingarnir: Hvernig er hægt að lækka skatta við núverandi skilyrði? Svarið er, að sósíalistar hugsa sér alltaf, að lífið sé kyrrstætt. Þeir halda, að kakan sé föst stærð, sem við eigum að halda langa fundi um, hvernig skipta eigi, og skipta henni síðan í smærri og smærri sneiðar.
En frumskilyrði kökunnar er öflugt bakarí, og kakan getur stækkað, ef bakarinn fær það verð fyrir kökuna, sem hann er ánægður með. Lífið er ekki kyrrstætt, heldur á sér þar stað lífræn þróun (og stundum öfugþróun, eins og við höfum séð síðustu árin).
Í ræðu sinni veðjaði Bjarni Benediktsson á það, að með lækkun skatta myndu fjárfestingar aukast, hjól atvinnulífsins taka að snúast, fólk að skapa meiri verðmæti. Þetta er veðmál, sem alltaf vinnst, eins og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent hefur sýnt í nokkrum fróðlegum línuritum.
En þá segja andstæðingarnir: Verið getur, að veðmálið vinnist til langs tíma. En hvað gerist til skamms tíma? Hvernig á að brúa bilið, þegar tekjur ríkisins lækka vegna skattalækkana? Svarið er einfalt. Það er verulegt svigrúm til að hagræða í ríkisrekstri. Í annan stað kemur vel til greina að selja einhverjar eignir, og í þriðja lagi má taka lán innan lands eða utan til skamms tíma, sé það notað til að brúa bilið, uns skatttekjur taka að aukast til langs tíma.
28.3.2013 | 11:39
Skemmtilegur afmælisdagur
Ég varð sextugur þriðjudaginn 19. febrúar, og var dagurinn hinn skemmtilegasti. Ég hélt fyrirlestur undir nafninu Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan fimm síðdegis, og var hvert sæti setið, og þurftu nokkrir að standa eða koma sér fyrir á efri svölum. Þar fór ég yfir þá gagnrýni, sem frjálshyggja og kapítalismi hafa sætt frá hruni, meðal annars í bókum Stefáns Snævarrs, Stefáns Ólafssonar, Ha-Joon Changs, Einars Más Guðmundssonar og Einars Más Jónssonar, og reyndi að svara henni. Ómar Kristmundsson var fundarstjóri, en Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stóð að fundinum. Myndir af fyrirlestrinum má meðal annars sjá hér.
Að fyrirlestrinum loknum urðu nokkrar umræður. Þórólfur Þórlindsson prófessor benti á, að ég hefði aðallega rætt um fortíðina. Hverja teldi ég leið Íslendinga út úr ógöngum síðustu ára? Ég svaraði því til, að mikilvægast væri að lækka skatta og minnka ríkisafskipti, setja hjól atvinnulífsins aftur í gang. Gunnlaugur Jónsson fjármálafræðingur spurði, hverja ég teldi heppilegasta framtíðartilhögun gjaldeyrismála á Íslandi. Ég rifjaði upp, að sjálfur hefði ég lagt til að taka upp annan gjaldmiðil snemma í níunda áratug, áður en nokkur annar (að dr. Sigurði B. Stefánssyni hagfræðingi undanteknum) hefði orðað það. Jóhannes Nordal hefði hins vegar bent á veigamikla mótbáru: Ef við tökum upp annan gjaldmiðil, þá verðum við að hegða okkur vel, því að við getum ekki notað peningaprentun eða lánsfjárþenslu til að sleppa undan beinum afleiðingum óskynsamlegrar hegðunar okkar. En ef við getum hegðað okkur vel, þá er óþarfi að taka upp annan gjaldmiðil. Réttast væri að kippa okkar málum í lag, leyfa valfrelsi um gjaldmiðla og athuga síðar meir, hvort við héldum í krónuna eða tækjum upp annan gjaldmiðil. Yrði síðari kosturinn fyrir valinu, þá litist mér best á myntslátturáð með breskt pund sem viðmiðunarmynt. Viðskiptablaðið tók við mig stutt viðtal á Netinu, sem skoða má hér.
Síðan var móttaka í Hámu, mötuneyti Háskólans, milli klukkan sex og átta. Sóttu hana á að giska tvö hundruð manns. Gísli Marteinn Baldursson var þar veislustjóri, en þeir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og dr. Ómar Kristmundsson prófessor, forseti stjórnmálafræðideildar, fluttu þar ávörp. Voru þau bæði vel samin og vel flutt og mjög vinsamleg í minn garð. Pétur Emil Júlíus Gunnlaugsson og tveir vinir hans léku jasslög í hófinu af mikilli fimi. Mér barst fjöldi gjafa mér til nokkurrar undrunar, og voru þær undantekningarlaus vel valdar. Myndir úr hófinu eru meðal annars hér og hér og hér og hér.
Um kvöldið héldu nokkrir góðir vinir og samverkamenn mér kvöldverð. Þar var Kjartan Gunnarsson veislustjóri, en Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, flutti ávarp, sem var í senn fyndið og elskulegt, eins og hans var von og vísa. Í byrjun hófsins lék kvartett frá Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkur fögur lög, aðallega eftir Mozart. Við það tækifæri hélt áfram að rigna yfir mig gjöfunum, og voru þær satt að segja stórkostlegar. Ég verð ekki oft orðlaus, en þar varð ég allt að því orðlaus.
28.3.2013 | 07:39
Glærurnar í fyrirlestri mínum
Hér eru glærurnar úr fyrirlestri þeim, sem ég flutti þriðjudaginn 19. febrúar 2013 í Hátíðasal Háskóla Íslands um Frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann. Ættu þær að gefa góða mynd af efni fyrirlestursins.
28.3.2013 | 00:49
Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2012
Við háskólaprófessorar þurfum 1. febrúar ár hvert að skila skýrslu um rannsóknir okkar og önnur störf árið á undan. Ég tók á dögunum saman þessa skýrslu, og fer hún hér á eftir með tengingum, þar sem efni er aðgengilegt á Netinu. Margir kennarar Háskólans eru mér fremri í að birta ritgerðir í ritrýndum tímaritum erlendum, en fyrir það fást flest rannsóknarstig. Þeir hreppa því fleiri stig en ég. Þeir eru flestir vel að þessum stigum komnir, en ég velti því stundum fyrir mér, hvort háskólaprófessorar geti ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni á annan veg líka, til dæmis með því að fara að fordæmi Jóns Sigurðssonar, rannsaka sögu Íslands og þjóðhagi, halda uppi vörnum fyrir land og þjóð erlendis og leggja á ráðin um efnalegar framfarir innan lands. Háskólinn var einmitt stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911.
A3.2 Bókarkaflar: innlend ritrýnd útgáfa
- Fátækt á Íslandi 19912004. Í Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson ritstj. Tekjudreifing, skattar og tekjujöfnun, bls. 6793. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Hvað segir stjórnmálahagfræðin okkur um íslenska peningalykt? Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Reykjavík 2012.
A4.4 Greinar birtar í almennum tímaritum
- Gyðingastjarnan og hakakrossinn: Örlög tveggja útlendinga á Íslandi. Þjóðmál 8 (1), 6377.
- Göfugir villimenn? Þjóðmál 8 (2), 3440.
- Til varnar íslenskum jafnaðarmönnum. Herðubreið 3 (2).
- Kolröng gagnrýni. Tímarit Máls og menningar 73 (3), 128134.
- Jöfnuður á Íslandi 19912007. Stjórnmál og stjórnsýsla 8 (2), 571578.
- Twists and Turns in the History of the Icelandic Communist Movement. Grapevine 2 (February 2012), 14.
A6.3 Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu
- Icelandic Communists, 19181998. Paper at an International Conference on Europe of the Victims in Iceland 22 September 2012.
- How Can the Initial Allocation of ITQs Be Just? Paper at an International Conference on Fisheries: Sustainable and Profitable in Iceland 6 October 2012. [Not delivered for constraints of time.]
A6.4 Erindi á innlendri ráðstefnu
- Hvað segir stjórnmálahagfræðin okkur um íslenska peningalykt? Erindi í Þjóðarspeglinum 26. október 2012.
A6.5 Erindi á málþingi eða málstofu
- Sjálfstæðisflokkurinn, stofnun hans og stefna. Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins 10. mars 2012.
- Green Capitalism. Talk at an informal seminar organised jointly by RNH (Rannsoknarsetur um nyskopun og hagvoxt) and Reason Foundation in Rio de Janeiro 19 June 2012 in connection with the international environmental conference Rio+20.
- Fátækt á Íslandi 19912004. Erindi í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins 9. október 2012. Á Youtubehér.
- Maó. Sagan sem hefur verið sögð. Erindi hjá Konfúsíusarstofnuninni í Háskóla Íslands 2. nóvember 2012.
- Stjórnmálaskörungurinn Winston Churchill. Erindi á fundi íslenska Churchill-klúbbsins 17. nóvember 2012.
A8.2 Ritdómar
- Sjálfstæðisflokkurinn. Átök og uppgjör. Höf. Styrmir Gunnarsson. Stjórnmál og stjórnsýsla 8 (2), 585589.
- 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Ja-Hoon Chang. Stjórnmál og stjórnsýsla 8 (2), 603608.
C4 Forstöðumaður rannsóknastofnunar
- Fræðilegur forstöðumaður Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.
D1 Skipulagning alþjóðlegrar vísindaráðstefnu
- Fyrirlestraröð 2012 í Háskóla Íslands um Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans
- Fyrirlestraröð 2012 í Háskóla Íslands um Evrópu fórnarlambanna
- Europe of the Victims: Remembering Communism. International Conference in Iceland 22 September 2012.
- Fisheries: Sustainable and Profitable. International Conference in Iceland 6 October 2012.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Erlend blöð
- A Prime Minister in the Dock. Wall Street Journal 24 April 2012.
- Icelands Big Trial, Travesty of Justice. Gestabloggari á Bloomberg 12. mars 2012.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Fyrirlestrar
- Íslenskir kommúnistar 19181998. Rotary-klúbbur Reykjavíkur 8. febrúar 2012.
- Hægri stefna á Íslandi: Viðhorf og verkefni. Samband ungra sjálfstæðismanna 8. mars 2012. Á Youtube hér.
- Íslenskir kommúnistar 19181998. Frjálshyggjufélagið 14. mars 2012.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Blaðagreinar
- Jóhannes Halldórsson. Minningarorð. Morgunblaðið 20. janúar 2012.
- Jónas H. Haralz. Minningarorð. Morgunblaðið 27. febrúar 2012.
- Hefur atvinnufrelsi stórminnkað á Íslandi? Morgunblaðið 15. september 2012.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Viðtöl við fjölmiðla
- What, If Anything, Has Changed Since 2009? Interview, Grapevine 1 (January 2012).
- Bein lína á DV 24. febrúar 2012.
- Viðtal við New York Times 5. mars 2012 um landsdómsmálið.
- Viðtal við tvo katalónska fjölmiðla, spænska margmiðilinn ARA (Cristina Mas) og La Vanguardia (Gloria Moreno), 5. mars 2012 um landsdómsmálið. Hér eru svörin, eins og þau komu frá mér.
- Kastljós Sjónvarpsins 18. ágúst 2012. Ásamt Stefáni Snævarr. Á Youtube: fyrri hluti og seinni hluti.
- Do Icelanders Need More Ayn Rand In Their Lives? Interview. Grapevine 13 (August 2012), 22.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu
- Gróa á Leiti. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 7. janúar 2012.
- Söngvarar þjóðvísunnar. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 14. janúar 2012.
- Misskipting gæðanna. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 21. janúar 2012.
- Hvar er föðurlandið? Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 28. janúar 2012.
- Er hlutleysi til eftirbreytni? Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 4. febrúar 2012.
- Hlegið að sjálfum sér. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 11. febrúar 2012.
- Ísland klukkunnar. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 18. febrúar 2012.
- Tómas í Hressingarskálanum. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 25. febrúar 2012.
- Ljós og myrkur. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 3. mars 2012.
- Valdsmenn standi ekki fyrir sólinni. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 10. mars 2012.
- Heiðursmerki. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 25. mars 2012.
- Þeir duttu í Tjörnina. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 1. apríl 2012.
- Sandburg og Steinn. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 15. apríl 2012.
- Eitt gras tekið. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 22. apríl 2012.
- Rússagrýlan. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 29. apríl 2012.
- Laxness og Shakespeare. Morgunblaðið 6. maí 2012.
- Seinheppnir söngvarar. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 13. maí 2012.
- Ekki aðeins rímsins vegna. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 20. maí 2012.
- Hægri og vinstri. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 27. maí 2012.
- Vísnaþáttur í útvarpi. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 3. júní 2012.
- Jarðarfarir. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 10. júní 2012.
- Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 24. júní 2012.
- Ættir á Íslandi. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 1. júlí 2012.
- Öfugþróun. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 8. júlí 2012.
- Íslenska eða belgíska? Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 15. júlí 2012.
- Jón á enn erindi við okkur. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 22. júlí 2012.
- Forsjálni Jónasar frá Hriflu. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 29. júlí 2012.
- Brotin egg. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 5. ágúst 2012.
- Móðurmál án föðurlands. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 12. ágúst 2012.
- Upp er skorið, engu sáð. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 19. ágúst 2012.
- Guðmundarnir þrír úr Húnaþingi. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 26. ágúst 2012.
- Gore Vidal. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 2. september 2012.
- Litla, gula hænan. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 9. september 2012.
- Tolstoj og Gunnar Gunnarsson. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 16. september 2012.
- Afbrigðilegasta öfughneigðin. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 29. september 2012.
- Mjallhvít og Bond íslensk! Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 6. október 2012.
- Máttur hugmyndanna. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 13. október 2012.
- Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal! Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 20. október 2012.
- Hvenær er bylting lögleg? Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 27. október 2012.
- Gildi daganna veltur ekki á lengd þeirra. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 3. nóvember 2012.
- Skörpustu gagnrýnendurnir. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 10. nóvember 2012.
- Ef landráðin hafa heppnast. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 17. nóvember 2012.
- Höggstokkur í stað gálga. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 24. nóvember 2012.
- Bókum liggur ekki á. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 1. desember 2012.
- Ættarmetnaður og ættardramb. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 8. desember 2012.
- Íslensku ættarveldin. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 15. desember 2012.
- Valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 22. desember 2012.
- Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins. Fróðleiksmolar. Morgunblaðið 29. desember 2012.
D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Blogg
- Nær daglegt blogg á pressan.is allt árið 2012, þar sem talað var máli Íslendinga gagnvart erlendum stórveldum, máli skattgreiðenda gegn skatteyðendum og máli neytenda gegn framleiðendum.
Verðlaun og viðurkenningar
- Frelsisverðlaun ungra sjálfstæðismanna, kennd við Kjartan Gunnarsson, ásamt vefnum amx.is
- Aldrei boðinn í Spegilinn árið 2012, en Þórólfur Matthíasson, spámaður í Icesave-deilunni, sex sinnum