21.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (9)
Gera má greinarmun á vitringum og sérvitringum, og eins má gera greinarmun á sögum og þjóðsögum. Ég hef hér bent á, að margt það, sem sagt hefur verið um bankahrunið fyrir fimm árum, er frekar af ætt þjóðsögunnar en sögunnar. Svo er til dæmis um eina algengustu skýringu bankahrunsins, sem er, að íslensku bankarnir hafi verið of stórir. Of stórir miðað við hvað? Flestir ensku bankanna hafa höfuðstöðvar á mjög litlu svæði í miðborg Lundúna, City. Þeir voru stórir miðað við það svæði og jafnvel fyrir talsvert stærra svæði, til dæmis héraðið Coventry, en þar eru íbúar jafnmargir (eða öllu heldur jafnfáir) og á Íslandi. En þeir voru varla of stórir miðað við Bretland allt. Að minnsta kosti var Englandsbanka það ekki um megn að halda þeim uppi í fjármálakreppunni, sem skall á heiminum fyrir fimm árum.
Hér er komið að kjarna málsins. Það fer eftir viðmiðunarsvæðinu, hvort bankar séu of stórir. Ef viðmiðunarsvæðið var Ísland eitt, þá voru íslensku bankarnir þrír vissulega of stórir. En ef viðmiðunarsvæðið var Evrópa öll, þá voru þeir alls ekki sérlega stórir. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var rekstrarsvæði bankanna öll Evrópa. Það var kerfisgalli og sennilega engum að kenna, að baktrygggingarsvæði þeirra reyndist ekki vera jafnstórt og rekstrarsvæðið. Það reyndist að lokum vera Ísland eitt.
Ástæðan til þess, að mönnum sást yfir þessa kerfisvillu, var sú, að engum datt í hug, að grannþjóðir okkar myndu ekki hjálpa okkur, þegar á reyndi, eins og þær hjálpuðu hver annarri. Í fjármálakreppunni veitti bandaríski seðlabankinn til dæmis danska seðlabankanum stórkostlega fyrirgreiðslu, 73 milljarða dala í gjaldeyrisskiptasamningum (að vísu ekki allt í einu), sem gerði honum kleift að bjarga Danske Bank, sem ella hefði hrunið eins og íslensku bankarnir. Bandaríski seðlabankinn neitaði hins vegar íslenska seðlabankanum um sambærilega fyrirgreiðslu.
Sviss var með hlutfallslega jafnstórt bankakerfi og Ísland. Það fékk enn umfangsmeiri fyrirgreiðslu frá Bandaríska seðlabankanum, samtals um 466 milljarða (ekki allt í einu), svo að svissnesku stórbankarnir gætu haldið velli.
Ekki var nóg með það, að Bandaríski seðlabankinn neitaði hinum íslenska um sambærilega samninga og hann gerði við aðra seðlabanka. Breska ríkisstjórnin lokaði bönkum í eigu Íslendinga í Lundúnum sama daginn og hún framkvæmdi neyðaráætlun um að bjarga öllum öðrum bönkum í Bretlandi. Og hún bætti gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki.
Ísland var ekki skilið eftir úti á köldum klaka. Ísland var rekið út á kaldan klaka.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:39 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 11:00
Þjóðsögur um bankahrunið (8)
Í íslenskum þjóðsögum koma umskiptingar oft fyrir. Þeir eru úr álfheimum og jafnan ófrýnilegir. Ein nútímagerð af þessari þjóðsögu er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu síðri starfssystkinum sínum erlendis. Þeir hafi verið ættaðir úr álfheimum frekar en mannabyggð.
En bankahrunið verður ekki skýrt með því, að íslenskir bankamenn hafi verið öðrum verri. Til þess eru þrjár ástæður. Ein er rökleg, liggur í eðli máls. Bankarnir íslensku uxu ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir öfluðu sér viðskiptavina, jafnt fjármálastofnana, sem lánuðu þeim, og sparifjáreigenda, sem lögðu fé inn á reikninga þeirra. Skýringarefnið er aðeins flutt til um einn reit, ef sagt er, að íslenskir bankamenn hafi verið óreyndir glannar. Voru þá ekki erlendir viðskiptavinir þeirra jafnóreyndir glannar?
Önnur ástæða styðst við reynslu okkar. Við sjáum nú, fimm árum eftir hrun, að erlendir bankamenn eru engir englar. Stórbankinn HSBC varð nýlega að greiða risasekt fyrir aðild að peningaþvætti. Hinn virðulegi breski banki Barclays varð líka að greiða stórsekt, þegar upp komst, að ráðamenn hans höfðu tekið þátt í að hagræða vöxtum, svokölluðum LIBOR. Og fjármálafyrirtækið alkunna JP Morgan Chase varð að greiða stórsekt fyrir að hafa ekki haft nógu strangt eftirlit með því, að starfsfólk veitti réttar upplýsingar. Fréttir berast nú um ásakanir og ákærur á hendur danskra bankamanna vegna pappírsfyrirtækja og málamyndagerninga. Margar sögur eru líka sagðar af óhóflegum kaupaukum og eyðslu erlendra bankamanna fyrir fjármálakreppuna.
Þriðja ástæðan er, að nú vitum við, að margir erlendir bankar hefðu fallið, hefðu seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins ekki dælt í þá fé í fjármálakreppunni. Til dæmis kemur fram í skýrslu bandarískrar rannsóknarnefndar, að bandaríski seðlabankinn gerði þá gjaldeyrisskiptasamninga við svissneska seðlabankann upp á hvorki meira né minna en 466 milljarða Bandaríkjadala. Slíkir samningar jafngilda heimild til að prenta dali. Vegna þessara samninga gat svissneski seðlabankinn bjargað stórbönkum eins og UBS og Credit Suisse frá falli. Svipað er að segja um danska seðlabankann. Hann gerði gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann upp á 73 milljarða dala og gat því haldið uppi Danske Bank, sem ella hefði farið í þrot.
Íslenskir bankamenn voru hvorki betri né verri en bankamenn annars staðar og því síður umskiptingar úr álfheimum. Þeir fóru gáleysislega, en munurinn á þeim og starfssystkinum þeirra erlendis var, að þeim var ekki bjargað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:37 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 23:00
Þjóðsögur um bankahrunið (7)
Margar þjóðsögur eru á kreiki um bankahrunið 2008 og aðdraganda þess. Ein er, að íslenskt atvinnulíf hafi löngum verið gerspillt. Til dæmis segja þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir í tímaritsgrein árið 2010: Fjórtán fjölskyldur réðu frá upphafi mestu í íslenskum kapítalisma, og voru þær stundum kallaðar Kolkrabbinn, en þessi hópur myndaði ráðastétt landsins jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Kolkrabbinn stjórnaði ekki aðeins innflutningsverslun, heldur líka samgöngum, bönkum, tryggingafyrirtækjum og fiskveiðum og síðar verkefnum fyrir varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Í hálfa öld komu flestir valdamenn úr röðum hans, og fjölskyldurnar í honum skiptu með sér opinberum stöðum og bitlingum og lifðu eins og smákóngar í ríkjum sínum.
Líklega er þessi fróðleikur sóttur í læsilega, en mjög óáreiðanlega bók um íslenska bankahrunið, Meltdown Iceland, sem breski blaðamaðurinn Roger Boyes gaf út 2009. En hér er í fyrsta lagi ruglað saman tveimur hugtökum, fjórtán fjölskyldunum og kolkrabbanum. Ég hef áður bent á, að fjölskyldurnar fjórtán eru ættaðar frá El Salvador, en því landi er skipt í fjórtán umdæmi, og er landeigendastéttin þar stórauðug og eftir því óbilgjörn og tekjudreifing ójöfn. Ólíku er því saman að jafna, El Salvador og Íslandi. Orðið kolkrabbinn um auðmannaklíkur slæddist hins vegar inn í íslenska tungu, eftir að þáttaröð um ítölsku mafíuna með þessu heiti var sýnd í sjónvarpinu 19861987. Tóku blaðamenn það síðan upp og notuðu um fámennan hóp kaupsýslumanna undir forystu Halldórs H. Jónssonar húsameistara. Skrifaði Örnólfur Árnason heila bók um þennan hóp árið 1991.Hér eru í öðru lagi ekki lögð fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að einhverjar fjórtán fjölskyldur eða kolkrabbi hafi stjórnað íslensku atvinnulífi. Hver gætu þessi gögn verið? Ég skoðaði lista Frjálsrar verslunar um stærstu íslensku fyrirtækin árin 1980 og 1990. Þá kom í ljós, að kolkrabbinn svonefndi stjórnaði ekki nema einu af tíu stærstu fyrirtækjunum, Flugleiðum. Þrjú voru samvinnufyrirtæki, Samband íslenskra samvinnufélaga, KEA á Akureyri og Olíufélagið. Tvö voru ríkisfyrirtæki, Landsbankinn og ÁTVR. Tvö voru sölusamlög í sjávarútvegi, SH og SÍF.
Í þriðja lagi er fráleitt að nota orð, sem táknuðu óbilgjarna auðstétt í El Salvador eða glæpuklíku á Ítalíu um íslenska atvinnurekendur, sem kunnir voru að prúðmennsku og löghlýðni. Lýsing þeirra Wades og Sigurbjargar á íslensku atvinnulífi mestalla 20. öldina styðst ekki við staðreyndir. Hún er þjóðsaga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:35 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (6)
Margt það, sem sagt hefur verið erlendis um bankahrunið íslenska 2008, er með annarlegum blæ. Ein þjóðsagan, sem háskólakennararnir Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir birta í mörgum erlendum blöðum og tímaritum, er um aðgerðir Seðlabankans í byrjun bankahrunsins, dagana 7. og 8. október 2008. Þau segja í New Left Review 2010: Þegar hrunið hélt áfram af fullum þunga, festi Davíð Oddsson gengi krónunnar við myntkörfu nálægt því gengi, sem verið hafði. Þau segja síðan: Þetta var líklega skammlífasta gengisfesting, sem sögur fara af. En hún entist nógu lengi til þess, að klíkubræður með réttar upplýsingar gátu losnað við krónur sínar á miklu hagstæðara gengi en síðar bauðst. Innanbúðarmenn segja, að milljörðum króna hafi verið skipt út fyrir gjaldeyri á þessum klukkutímum. Þau hafa endurtekið þessa sögu víðar.
Sagan er þó tilhæfulaus. Seðlabankinn festi ekki gengið þennan tíma, heldur gerði hann kauptilboð til viðskiptabankanna þriggja á genginu 131 króna á móti evru. Sérstaklega var tekið fram á vef bankans, bæði á íslensku og ensku, að ekki væri um gengisfestingu að ræða. Einnig kom þar fram, að í þessum viðskiptum seldu bankarnir Seðlabankanum alls 786 milljónir króna eða sex milljónir evra, ekki neina milljarða, eins og þau Wade og Sigurbjörg segja.
Hins vegar er alvarleg ásökun fólgin í orðum þeirra Wades og Sigurbjargar um, að klíkubræður með réttar upplýsingar hafi gripið tækifærið til að selja Seðlabankanum krónur. Þetta kauptilboð takmarkaðist við millibankamarkað. Voru klíkubræður Davíðs þá ráðamenn viðskiptabankanna? Sigurður Einarsson og Jón Ásgeir Jóhannesson? Ég spurði Wade, hvaða innanbúðarmenn hefðu veitt þeim Sigurbjörgu upplýsingar. Hann nefndi mann í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Allir þrír nefndarmennirnir hafa sagt mér, að það sé rangt. Einnig nefndi Wade ónefndan starfsmann Landsbankans og hagfræðing í Bretlandi. Hvort sem þeir menn voru úr álfheimum eða mannabyggð, voru þeir ekki innanbúðarmenn. Þeir höfðu engan aðgang að innviðum Seðlabankans. En slíkan aðgang þurfti ekki heldur, því að allar upplýsingar voru tiltækar á vef bankans. Saga Wades og Sigurbjargar er þjóðsaga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:33 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (5)
Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska árið 2008, enda spruttu þá óprúttnir náungar út úr öllum skúmaskotum og sögðu, að sinn tími væri kominn. Ein þjóðsagan hefur meira að segja verið kynnt í erlendum blöðum. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sögðu í breska marxistatímaritinu New Left Review 2010 um árin fyrir bankahrunið: Hagstofa Íslands, sem sá um að safna gögnum, var kúguð, svo að eftirtekt vakti, til að stinga undir stól upplýsingum um síaukinn ójöfnuð tekna og eigna, og áræddi hún vart að vekja athygli á óhagstæðri þróun. Þau endurtóku þessa alvarlegu aðdróttun í Huffington Post sama ár.
Þegar Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands auglýsti fund með Robert Wade 6. september 2013, notaði ég tækifærið til að inna hann eftir því, hvað hann hefði til síns máls, enda átti fyrirlestur hans að vera um tekjudreifingu. Wade sagði enda margt um tekjudreifingu á Íslandi, vitnaði til Stefáns Ólafssonar prófessors og sýndi línurit frá honum. Þegar fyrirlestrinum lauk, stóð ég á fætur og spurði Wade: Þú hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?
Wade sagði þá, að þessi spurning varðaði ekki efni fyrirlesturs síns, svo að hann myndi ekki svara henni. Hafði fyrirlesturinn þó verið um tekjudreifingu! En skýringin á því, að Wade varð svara fátt, er auðvitað, að hann hefur engin gögn í höndunum, enda er ásökun þeirra Sigurbjargar fráleit. Á hagstofunni vinna allra flokka menn, sem eiga það eitt sameiginlegt að vera samviskusamir og talnaglöggir. Hagstofan hefur ekki stungið neinum gögnum undir stól, heldur notað sömu reikningsaðferðir um tekjudreifingu og hagstofur annarra landa. Með þeim aðferðum mátti sýna, að tekjudreifingin var árið 2004 ekki ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, þótt nokkrir óprúttnir náungar hefðu haldið öðru fram.
Séra Eggert Sigfússon á Vogsósum flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Ekki þarf að hafa mörg orð um, í hvorri þvögunni þessir þjóðsagnahöfundar eru.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:31 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 11:00
Þjóðsögur um bankahrunið (4)
Nokkrar bækur hafa birst á ensku um bankahrunið, og kennir þar margra grasa. Ein er Deep Freeze: Icelands Economic Collapse eftir Philipp Bagus og David Howden, sem kom út hjá Ludwig von Mises-stofnuninni í Alabama 2011. Þessum tveimur ungu hagfræðingum er mjög í mun að kenna Seðlabankanum íslenska um bankahrunið 2008. Hann hafi ábyrgst skuldir banka, svo að þeir hafi hegðað sér gáleysislega. Þeir Bagus segja á bls. 95: Seðlabankinn, sem var undir stjórn Davíðs Oddssonar, sendi 13. nóvember 2001 frá sér fréttatilkynningu, sem fól í sér, að hann yrði þrautavaralánveitandi fjármálakerfisins.
Í fyrsta lagi var Davíð Oddsson ekki seðlabankastjóri 2001. Í öðru lagi var þessi fréttatilkynning um, að ný lög um Seðlabankann hefðu tekið gildi. Ekki var í lögunum minnst á, að Seðlabankinn yrði þrautavaralánveitandi, heldur honum aðeins veitt heimild til að veita fjármálastofnunum lán. Í fréttatilkynningunni sagði, að samkvæmt lögunum væri Seðlabankanum veitt heimild til að veita þrautavaralán. En slík heimild felur ekki í sér skyldu.
Í þriðja lagi vísaði Davíð sjálfur því beinlínis á bug, að Seðlabankinn þyrfti undir öllum kringumstæðum að gegna slíku hlutverki. Hann sagði á blaðamannafundi í Seðlabankanum 8. maí 2008: Skyndilega hefur það gerst, þegar fjárþurrð skapast, að þá kemur upp sú kenning, að seðlabankar eigi að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður banka, í hvaða stærð sem þeir fara. Þetta hefur maður nú aldrei heyrt um áður, að bankar eigi að stækka eins og þeim hentar og taka þá áhættu, sem þeim hentar, en síðan beri almenningi, fyrir meðalgöngu síns seðlabanka, að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður út í það óendanlega fyrir slíka starfsemi. Davíð bætti við, að vissulega hlyti Seðlabankinn að reyna að tryggja peningalegan stöðugleika og stuðla að fjármálastöðugleika.
Það er því enn ein þjóðsagan, að Seðlabankinn hafi undir forystu Davíðs Oddssonar ýtt undir ábyrgðarleysi fjármálastofnana.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:28 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 23:00
Þjóðsögur um bankahrunið (3)
Ég hef síðustu mánuði reynt að lesa allar þær bækur og ritgerðir, sem komið hafa út á ensku um bankahrunið. Þar hef ég rekist á fjöldann allan af ónákvæmum staðhæfingum. Til dæmis kom 2011 út bók hjá stofnun, sem kennd er við minn gamla lærimeistara (þótt ég hitti hann raunar aldrei), austurríska hagfræðinginn Ludwig von Mises, og hefur hún bækistöðvar í Alabama í Bandaríkjunum. Bókin nefnist Deep Freeze: Icelands Economic Collapse og er eftir tvo unga hagfræðinga, Philipp Bagus og David Howden. Þeir rekja bankahrunið til rangrar stefnu Seðlabankans, sem hafi skapað þenslu.
Eflaust má gagnrýna stefnu Seðlabankans í ýmsum málum, en gagnrýni þeirra Bagusar og Howdens missir marks vegna vanþekkingar þeirra á íslenskum aðstæðum. Þeir segja til dæmis á bls. 1213, að seðlabankinn hafi minnkað bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003. Ólíkt starfsbræðrum sínum í öðrum seðlabönkum minnkaði Davíð Oddsson (áður forsætisráðherra) bindiskylduna, sem átti að knýja banka til að hafa varasjóði, þegar að kreppti. En Davíð var í fyrsta lagi ekki seðlabankastjóri árið 2003. Í öðru lagi var bindiskyldan þá færð að kröfu bankanna sjálfra niður í hið sama og í grannríkjunum, svo að þeir gætu keppt við sömu skilyrði. Í þriðja lagi var leyft síðar, vorið 2008, að bindiskyldan næði ekki til innstæðna í erlendum útbúum eða dótturfélögum bankanna, enda hnigu þau rök að því, að þeir peningar væru geymdir erlendis og gætu því ekki valdið þenslu á Íslandi. Beitti Yngvi Örn Kristinsson, þá hagfræðingur í Landsbankanum, sér sérstaklega fyrir þessum rýmkuðu reglum um bindiskyldu.
Spakvitringar og spámenn kaffihúsanna og spjallþáttanna hafa hins vegar tuggið það hver eftir öðrum, að ein ástæðan til bankahrunsins hafi verið lækkun bindiskyldu hér á landi. Hún hafði nákvæmlega engin áhrif á bankahrunið. Orsakir þess voru aðrar. Það er einkennilegt, að þessir tveir ungu hagfræðingar á vegum Ludwig von Mises-stofnunarinnar hafi ráðist í að skrifa heila bók um íslenska bankahrunið án þess að kynna sér að ráði aðstæður á Íslandi. Þess í stað segja þeir þjóðsögur um bankahrunið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:23 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (2)
Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska 2008. Við því hefði þó mátt búast, að þær yrðu ekki margar í safni greina, sem samdar voru fyrir hrun, en það kom út í Lundúnum 2011 undir heitinu Preludes to the Icelandic Financial Crisis. En annar ritstjórinn, Gylfi Zoëga, skrifar í formála (24. bls.): Einnig er ófyrirgefanlegt, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skyldu ekki gera neyðaráætlun, sem framkvæma mætti, ef einn eða fleiri bankar hryndu.
Ég sat í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009, og þó að menn töluðu varlega, jafnt á fundum ráðsins og opinberlega, segir Gylfi hér þjóðsögu um bankann. Davíð Oddsson seðlabankastjóri varaði margsinnis við óhóflegri skuldasöfnun bankanna, til dæmis í ræðu á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, sem lesa má á Netinu. Hann gekk líka að minnsta kosti þrisvar á fund ráðherra til að vara við í aðdraganda bankahrunsins, eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, 21. kafla), til dæmis 7. febrúar, 1. apríl og 8. júlí 2008. Ég veit af samtölum við hann á þessum tíma, að hann var svo sannarlega myrkur í máli.
Jafnframt undirbjó Seðlabankinn í kyrrþey neyðaráætlun, sem var tiltölulega einföld og Davíð lýsti í aðalatriðum í Kastljósi 7. október 2008. Hún var, ef illa færi, að ríkið þjóðnýtti þá hinn íslenska hluta bankakerfisins, en léti hinn erlenda sigla sinn sjó, eignir og skuldir. Þessi leið hefur stundum verið kennd við Washington Mutual og er alþekkt í fjármálafræðum. Hún er fólgin í að skipta banka upp í góðan banka og vondan, reka áfram góða bankann og gera upp hinn vonda. Þessi neyðaráætlun var gerð í samráði við fjármálafyrirtækið J. P. Morgan, og stjórnaði Michael Ridley, afburðasnjall maður, því verkefni af þess hálfu. (Össur Skarphéðinsson sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að Ridley hefði verið prúðbúinn og vel mæltur yfirstéttar Breti, en ég get upplýst, að hann braust úr fátækt til bjargálna, þótt hann tali prýðilega ensku.) Davíð lýsti þegar í ágúst 2008 þessari Washington Mutual-leið fyrir mér, en vitanlega bar mér að gæta trúnaðar. Allir góðgjarnir menn vonuðu síðan auðvitað í lengstu lög, að ekki þyrfti að grípa til neinnar slíkrar áætlunar, og sennilega hefur fátt verið skjalfest um hana. Þess vegna er það ómaklegt um Seðlabankann, sem Gylfi Zoëga segir, að hann hafi ekki gert neyðaráætlun. Gylfi á að birta þjóðsögur sínar í þjóðsagnasöfnum, ekki fræðiritum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (1)
Liðin eru fimm ár frá bankahruni. Ég hef síðustu vikur verið að grúska í þeim ritverkum, sem komið hafa út um það, og eru þau misjöfn að gæðum. Ég tek hins vegar eftir því, að kviknað hafa ýmsar þjóðsögur um bankahrunið, sem ganga síðan aftur í hverri bókinni af annarri. Mér til nokkurrar undrunar rakst á ég á eina slíka í greinasafni, sem ég hélt fyrir, að væri fræðilegasta ritið um hrunið, sem enn væri völ á. Það heitir Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Gaf Palgrave Macmillan það út 2011, og voru ritstjórar Robert Aliber, sem sagði einmitt margt skynsamlegt um aðstæður á Íslandi, og Gylfi Zoëga. Flestar greinarnar voru skrifaðar fyrir bankahrun. Ein var þó samin eftir það og er eftir Þröst Sigurjónsson, og er hún eins konar yfirlit um atburðarásina. Þar segir Þröstur (33. bls.): Íslenski seðlabankinn lét frá sér fara ummæli, sem skilin voru á þann veg, að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum innstæðueigendum. Viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar voru að leggja hald á breskar eignir allra íslensku bankanna í krafti laga gegn hryðjuverkasamtökum.
Þröstur vísar hér bersýnilega til viðtals í Kastljósi Sjónvarpsins að kvöldi 7. október 2008 við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabankans, þar sem hann kvað skattgreiðendur ekki eiga að greiða skuldir óreiðumanna. En beiting hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum morguninn eftir stóð ekki í neinu sambandi við ummæli Davíðs, enda nefndi enginn breskur ráðamaður þau heldur. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, vitnaði opinberlega í samtal sitt við Árna Mathiesen fjármálaráðherra, sem hafði farið fram að morgni 7. október, og staðfesti Darling fyrir þingnefnd, að hann hefði átt við samtal sitt við Árna. Er þetta rakið nákvæmlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, 20. kafla, 149. bls., sem kom út ári áður en Þröstur Sigurjónsson birti grein sína. Afskrift af samtali þeirra Árna og Darlings leiðir að vísu í ljós, að Darling vitnaði rangt í það. Líklegast er því, eins og Árni hefur varpað fram, að Bretar hafi ákveðið með einhverjum lengri fyrirvara að beita Íslendinga hörku. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er bent á (s. r., 248. bls.), að Darling hefði orðið fyrir vonbrigðum með fund sinn 2. september 2008 með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Er sennilega þar að leita einnar ástæðunnar til tortryggni breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.
Þjóðsögur eiga hins vegar heima í þjóðsagnasöfnum, ekki í vönduðum fræðiritum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 11:00
Huldumaðurinn fundinn
Í för til Galápagos-eyja síðast liðinn júní varð ég þess áskynja, að Íslendingur hefði búið þar frá 1931 og borið beinin vorið 1945. Kallaði hann sig Walter Finsen, og hitti íslenskur sjómaður á norsku skipi hann vorið 1944. Vildi hann þá ekki segja full deili á sér. Einnig birtist löng grein um hann í Morgunblaðinu 1967 eftir þýska blaðakonu, sem þekkti vel til á Íslandi, var þá nýkomin frá Galápagos-eyjum og hafði hitt gamla granna Íslendingsins. Kom fram í þessum heimildum, að hann hefði stundað ýmis störf víða í Vesturheimi, meðal annars í Mexíkó og Venesúela. Í nokkrum gögnum á ensku er einnig á hann minnst. Velti ég fyrir mér hér fyrir skömmu, hver maðurinn væri. Hálfdan Helgason, tæknifræðingur og ættfræðingur, varpar fram í Morgunblaðinu 3. ágúst langlíklegustu ráðningu gátunnar.
Maður var nefndur Valdimar Friðfinnsson, bóndasonur frá Hvammi í Hjaltadal, fæddur 9. desember 1876. Hann flosnaði 1896 upp úr Lærða skólanum í Reykjavík og virðist þá hafa reynt að flytjast til Vesturheims, en var snúið við í Leith í Skotlandi. Í manntali 1901 er hann skráður háseti á skonnortu Ørum & Wulff-verslunarfélagsins, sem var umsvifamikið á Norðausturlandi. Síðan eru til um hann fjórar heimildir, sem Hálfdan bendir á, smáfréttir úr blöðum Vestur-Íslendinga. Fór hann ásamt Jóhannesi Jóhannessyni og norskum manni í leiðangur til Bólivíu 1912, og leituðu þeir félagar að gulli, olíu og verðmætum steinum. Þeim tókst bersýnilega ekki ætlunarverk sitt, og er Jóhannes kominn til Kaliforníu og Valdimar til Tampico í Mexíkó sumarið 1914. (Jóhannesi bregður fyrir í bók minni um Jón Þorláksson forsætisráðherra, en þeir voru bekkjarbræður í Lærða skólanum.)
Ég tel einsætt, að Valdimar sé Íslendingurinn á Galápagos-eyjum. Ástæðan er ekki aðeins, að allt kemur heim og saman um feril hans, eins og hann sagði Íslendingnum frá 1944 og grannar hans einnig þýsku blaðakonunni 1967. Hún er líka, að Valdimar er á ljósmynd af nemendum Lærða skólans frá vorinu 1896, og til eru ljósmyndir af Íslendingnum Finsen á Galapagos-eyjum, og er sterkur svipur með þeim. Walter Finsen var því mjög líklega Valdimar Friðfinnsson. Hann á þá ættingja á Íslandi, en hann var föðurbróðir Magnúsar Gamalíelssonar útgerðarmanns og ömmubróðir Herdísar Egilsdóttur, kennara og rithöfundar. Rek ég örlög hans nánar í síðasta hefti Þjóðmála. Raunar gerðist svo margt sögulegt á árum Valdimars á Galápagos-eyjum, að franski rithöfundurinn Georges Simenon notar það sem uppistöðu í einni skáldsögu sinni, sem sjónvarpsmynd hefur verið gerð eftir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:37 | Slóð | Facebook