3.10.2015 | 09:27
Er stórsagan dauð?
Fimmtudaginn 1. október sat ég fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar um notkun Sturlungu í samtíðardeilum. Hann endursagði þar það, sem hann kallaði endurskoðun stórsögunnar íslensku (grand narrative) á vegum fræðasamfélagsins: Hér hafi verið sældartími á þjóðveldisöld, sundrung og svik höfðingja hafi selt landið undir erlendan konung, þjóðin hafi síðan vaknað til vitundar um sjálfa sig, krafist sjálfstæðis og fengið eftir mikla baráttu, en eftir það hafi henni vegnað vel.
Guðni taldi allt þetta hafa verið dregið í efa eða jafnvel hrakið af sagnfræðingum okkar daga. Við hafi tekið margar smásögur, en um leið hafi samband sögunnar við stjórnmál og almenningsálit rofnað. Ég held að vísu, að stórsöguna þurfi að endurskoða, en á annan veg en Guðni telur (eða hefur eftir starfssystkinum sínum):
- Þjóðveldið var enginn sældartími, en það var þó að mörgu leyti skárra en skipulagið á sama tíma í Evrópu, þar sem konungar kvöddu saman fjölmenna heri og börðust í blóðugum stríðum. Stofnanir Þjóðveldisins voru merkilegar tilraunir til réttarvörslu í höndum einkaaðila (goðorðin) og samtryggingar (hrepparnir), eins og David Friedman, Birgir Þór Runólfsson og Þráinn Eggertsson hafa sýnt fram á.
- Það var alls ekki óumflýjanlegt, að Íslendingar játuðust undir Noregskonung 1262. Ekki gengu Svisslendingar á hönd Habsborgurum þrátt fyrir margar tilraunir Habsborgaranna til þess. Vilhjálmur frá Sabína hafði ekki rétt fyrir sér um það, að eitthvert náttúrulögmál segði Íslendingum að lúta konungum.
- Hin raunverulegu mistök eða svik voru ef til vill ekki 1262, því að samningurinn við Noregskonung var um margt viðunandi. (Landið hélt áfram að stjórna sér sjálft furðulengi eftir það, þótt skattur væri goldinn til konungs. Hann stóð hins vegar illa við sinn hluta samningsins.) Hin raunverulegu mistök eða svik voru 1490, þegar landeigendastéttin sammæltist við konung um það, að landbúnaður yrði eini lögleyfði atvinnuvegur á Íslandi með Píningsdómi (og síðan bættist við einokunin danska). Enskum og þýskum kaupmönnum var smám saman bægt frá landinu, og það einangraðist og lokaðist inni í fátæktargildru.
- Danska einokunarverslunin var í raun innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt, sem heimtur var af fiskveiðum: Fiskur var með konunglegum tilskipunum verðlagður langt undir heimsmarkaðsverði, en landbúnaðarafurðir langt yfir því verði. Um þetta hafa þeir Gísli Gunnarsson og Þráinn Eggertsson skrifað margt merkilegt.
- Íslendingum vegnar betur, þegar þeir stjórna sér sjálfir, en þegar aðrir stjórna þeim, eins og sagan sýnir. Ástæðan er einföld. Þeir eru kunnugri eigin högum en aðrir eru, hvort sem þeir eru í kansellíinu í Kaupmannahöfn eða skrifstofu Evrópusambandsins í Brüssel. Við erum um margt sérstæð þjóð, sem aðrir skilja illa.
- Það er rétt, að fornmenn þekktu ekki þjóðarhugtakið, eins og það mótaðist á 19. öld. En þeir vissu vel af sjálfum sér sem Íslendingum, allt frá því að Sighvatur Þórðarson orti um íslensk augu og Íslendingar gerðu fyrsta milliríkjasamninginn við Norðmenn snemma á elleftu öld. Nánast frá öndverðu var til íslensk sjálfsvitund og samvitund: Við vorum aldrei Norðmenn, og við viljum ekki fremur en Grímur Thomsen læra belgísku.
Það þarf nýja stórsögu handa Íslendingum, ekki andlausa neðanmálsfræðinga nema auðvitað í neðanmálsgreinum. Það þarf lifandi skilning í stað dauðrar heilafylli.
1.10.2015 | 22:09
Íslendingar sátu á matarkistu og sultu
Ég skrifaði fyrir nokkru stutta grein í DV, þar sem ég renndi örstutt yfir Íslandssöguna í því skyni að sýna, hversu mikilvægt það er okkur að veiða fisk og selja. Við búum við einhver gjöfulustu fiskimið í heimi. En hvers vegna sultu þá Íslendingar og komust sjaldnast upp fyrir fimmtíu þúsund? Ég rakst nýlega á stutt og fróðlegt myndband frá Háskólanum með viðtali við Þráin Eggertsson prófessor um þetta mál: Hollt er að rifja þetta upp. Velmegun er ekki sjálfsögð. Hún er afleiðing af skynsamlegum ákvörðunum manna og kynslóða, en umfram allt er hún afleiðing af atvinnufrelsi. Þess vegna eigum við að einbeita okkur að því að veiða fisk og selja, en láta lítið fyrir okkur fara á alþjóðavettvangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook
1.10.2015 | 10:37
Sögðu Billinn og Sillinn ósatt?
Tveir kornungir Íslendingar sóttu annað heimsþing Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, í Moskvu sumarið 1920: Brynjólfur Bjarnason (kallaður Billinn í vinahóp) og Hendrik Siemsen Ottósson (Sillinn). Þingfulltrúar ætluðu sér ekkert smáræði: Þeir hugðust steypa stjórnum Vesturlanda á sama hátt og Lenín hafði haustið 1917 bylt lýðræðisstjórninni í Rússlandi, sem tekið hafði þá um vorið við af keisaranum.
Báðir áttu þeir Brynjólfur og Hendrik eftir að segja frá þinginu, Hendrik í bókinni Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands 1948, Brynjólfur í ræðum og viðtölum á gamals aldri. Báðir sögðust þeir hafa verið fulltrúar á þinginu, og kvað Hendrik þá hafa haft atkvæðisrétt og greitt atkvæði með ströngum inntökuskilyrðum í Alþjóðasambandið, sem þingið samþykkti. Eftir erindi Hendriks um kommúnisma á Íslandi hefði Lenín bent á aukið hernaðarlegt mikilvægi Íslands á Norður-Atlantshafi vegna flugvéla og kafbáta.
Í umsögn í tímaritinu Herðubreið sumarið 2012 um bók mína um kommúnistahreyfinguna íslensku vísar Pétur Tyrfingsson því á bug, að þeir Brynjólfur og Hendrik hefðu verið þingfulltrúar. Með ýmsum tilvísunum í gögn Kominterns hrakti ég það í næsta hefti Herðubreiðar og hefði ekki haft frekari áhyggjur af málinu, hefði ég ekki séð nýlega, að Jón Ólafsson heimspekingur tekur upp skoðun Péturs gagnrýnislaust í bókinni Appelsínum frá Abkazíu (bls. 383).
Rétt er, að Brynjólfur og Hendrik voru ekki á opinberum skrám um þingfulltrúa. En sumir þeir, sem voru sannanlega fulltrúar, voru þar ekki heldur, og sú skýring getur verið á þessu, að þeir félagar komu seint á þingið, enda hafði þingseta þeirra verið ákveðin í skyndingu.
Ýmis rök eru hins vegar fyrir því, að þeir Brynjólfur og Hendrik hafi sagt satt um setu sína á þinginu. Til dæmis sjást þeir á ljósmynd í bók eftir Willi Münzenberg 1930, og undir stendur Die Jugend-Delegierten an 2. Kongress der Kommunistischen Internationale, Ungir fulltrúar á 2. þingi Kominterns. Í annan stað segir í sögu Alþjóðasambands ungra kommúnista 1929 eftir Alfred Kurella (bls. 106), að framkvæmdastjórn sambandsins hafi sett sig í samband við fulltrúana frá Íslandi. Í þriðja lagi sést á gögnum þingsins, að Hendrik Ottósson var vissulega fenginn til að halda erindi fyrir framkvæmdastjórn Kominterns um Ísland.
Tvenn rök eru hugsanlega fyrir því að hafna frásögn Brynjólfs og Hendriks. Önnur eru, að þeir finnast ekki á opinberum skrám um þingfulltrúa. Hæpið er þó að meta þá staðreynd mikilvægari skýlausum vitnisburði þeirra tveggja og öðrum gögnum um, að þeir hafi verið taldir fulltrúar. Hin eru, að þeir voru kommúnistar, en slíkir menn séu kunnir að ósannsögli. Þau rök eru auðvitað sterkari.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2015. Myndin er af ungum fulltrúum á 2. þingi Kominterns, og standa Hendrik Ottósson og Brynjólfur Bjarnason efst til hægri. Willi Münzenberg, sem var leiðtogi Alþjóðasambands ungra kommúnista og einn helsti áróðursmeistari þeirra, situr fjórði frá hægri. Hann kom Halldóri Laxness til Rússlands 1932. Stalín lét myrða Münzenberg í skógi í Frakklandi 1940. Nánar er sagt frá örlögum fólksins á myndinni í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998.)
28.9.2015 | 09:02
Stórkostleg handvömm Más Guðmundssonar
Már Guðmundsson var hagfræðingur Seðlabankans framan af þeim tíma, þegar ég sat í bankaráðinu, 20012009. Okkur kom vel saman, og ég hafði þá ekki nema gott eitt um hann að segja. Hann er gáfaður maður og vel að sér. Mér fannst hann alltaf efnislegur. Mjög var hins vegar raunalegt, hvernig ráðningu hans sem seðlabankastjóra bar að árið 2009: Jóhanna Sigurðardóttir samdi um hana við hann í laumi, á meðan tveir gegnir og rosknir sjálfstæðismenn voru gabbaðir til að vera í einhvers konar valnefnd um bankastjórastöðuna. Síðan hefur þrennt gerst, sem hvert um sig verður að teljast stórkostleg handvömm Más.
Hann höfðaði mál gegn bankanum vegna þess, að hann taldi sig ekki fá þau laun, sem honum bar samkvæmt samningnum við Jóhönnu. Þetta var auðvitað dómgreindarbrestur, ekki síst skömmu eftir bankahrun, þegar fjöldi fólks hafði misst vinnuna og mörg heimili voru að sligast undan skuldum. En Már bætti gráu ofan á svart með því að láta greiða sér eigin málskostnað (auk þess kostnaðar, sem bankinn bar af málarekstrinum)! Nam kostnaður bankans af þessu 7,4 milljónum króna. Þetta var annaðhvort ólöglegt eða nálægt því að vera ólöglegt. Breytir engu um málið, að þáverandi formaður bankaráðsins kaus að taka á sig sökina. Már tók fullan þátt í þessum ljóta eftirleik með því einu að þiggja greiðsluna.
Már fór mjög illa með veðið, sem Seðlabankinn hafði undir forystu þeirra Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar tekið í FIH banka gegn neyðarláni til Kaupþings, en vilji ríkisstjórnarinnar var að veita Kaupþingi þetta lán, og töldu bankastjórarnir þrír ekki stætt á öðru en fara eftir vilja hennar, enda var gjaldeyrisforðinn að miklu leyti lán, sem ríkissjóður hafði tekið. Már samdi við danska fjárfesta um, að þeir keyptu bankann, en þeir greiddu aðeins út lítinn hluta kaupverðsins. Frá afgangi kaupverðsins átti að draga tap á umsömdum tíma, og gerðu kaupendur bankans sér lítið fyrir og hlóðu öllu hugsanlegu tapi á þann tíma, sem samið hafði verið um. Eigið fé bankans er hins vegar lítt skert, og hefur Seðlabankinn tapað um sextíu milljörðum króna á þessu, en kaupendurnir, danskir auðjöfrar og lífeyrissjóðir, grætt nær þrefalt kaupverðið.
Framganga Más gagnvart Samherja á Akureyri, einhverju myndarlegasta fyrirtæki landsins, er síðan sérstakur kapítuli. Óðinn í Viðskiptablaðinu hefur greint það mál rækilega, sérstaklega margvísleg brot á eðlilegum rannsóknarreglum og réttarsjónarmiðum. Niðurstaða Óðins er: Málið kallar á ýmsar aðgerðir innan Seðlabankans og að gripið verði til þeirra hið fyrsta. Rannsókn þarf að fara fram á því hvernig Kastljósi Ríkisútvarpsins var ljóst að húsleit ætti að fara fram áður. Fara þarf yfir starfsferla gjaldeyriseftirlitsins og þá röð ákvarðana sem leiddu til þess að starfsmenn Samherja hafa setið undir grun um lögbrot án þess að saksóknari telji sig geta sannað slíka sekt, sem og þær ákvarðanir sem lágu að baki Aserta-málinu, þar sem fjórir saklausir menn voru dregnir í gegnum svaðið að ósekju. Seðlabankinn og stjórnendur hans þurfa að axla ábyrgð á því sem gert hefur verið í stað þess að flýja þessa ábyrgð í sjónvarpsviðtölum.
Sæti ég enn í bankaráði Seðlabankans, þá myndi ég svo sannarlega taka þessi þrjú mál upp þar.
28.9.2015 | 08:18
Sammála Guðmundi Andra
19.9.2015 | 07:50
Hvað sagði Gunnar við Hitler?
Stríð skall á í Norðurálfunni 1. september 1939, þegar Hitler réðst inn í Pólland, eftir að þeir Stalín höfðu skipt nokkrum löndum mið- og austurhluta álfunnar leynilega á milli sín með griðasáttmála. Stalín átti samkvæmt sáttmálanum að hreppa Finnland, og réðst hann á það 30. nóvember. Einn þeirra mörgu Íslendinga, sem hafði óskipta samúð með Finnum, var Gunnar Gunnarsson skáld, sem hrifist hafði ungur af Norðurlandahugsjóninni. Gunnar var líka vinveittur Þýskalandi, jafnvel eftir að nasistar höfðu tekið þar völd, þótt hann væri sjálfur enginn nasisti. Fundust honum Þjóðverjar bregðast Finnum á ögurstund.
Áreiðanleg heimild styður hins vegar frásögn Þórs. Hún er minningabók Jóns Krabbes, sendiráðsritara Íslands í Kaupmannahöfn, sem kom út 1959. Jón hitti Gunnar Gunnarsson í Kaupmannahöfn á heimleið frá Þýskalandi. Kvað hann Gunnar ekki hafa átt frumkvæði að því, að Hitler kallaði hann á sinn fund, heldur Norræna félagið þýska (bls. 132). Fundurinn hefði að mestu leyti verið eintal Hitlers, en Gunnar hefði sagt nokkur orð til styrktar Finnlandi, sem væri bugað af árás Stalíns. Þá hefði Hitler gripið heiftúðlega fram í og sagt, að hann hefði boðið Finnlandi griðasáttmála, en því verið hafnað. Jón sagði Gunnar sjálfan hafa sagt sér þetta um samtal þeirra Hitlers.
Þótt Finnar hefðu vissulega nýlega gengið til samninga við Rússa, þegar Gunnar hitti loks Hitler, breytir það engu um, að einkum hefur vakað fyrir Gunnari með Þýskalandsförinni að tala máli Finna við Þjóðverja, eins og Þór Whitehead heldur fram.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2015. Myndin er af Gunnari Gunnarssyni að koma af fundi Hitlers í kanslarahöllinni í Berlín 20. mars 1940.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:55 | Slóð | Facebook
19.9.2015 | 07:46
Dagur: Soðvatn, ekki eldfjall
Hver bunan annarri hratt,
uns máttlítið, sífrandi soðvatn
í sömu holuna datt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook
18.9.2015 | 08:32
Léttúðartal Egils Helgasonar
Viðskiptabann Dags Bergþórusonar Eggertssonar og félaga hans í borgarstjórn á Ísrael hefur vakið mikla athygli. Virðist það vera ólöglegt, enda eru skýr ákvæði um það í lögum, að bannað sé að mismuna mönnum eftir þjóðerni, kyni, kynþætti, trú eða öðrum óefnislegum atriðum. Sveitarfélög hafa ekki heldur vald til að gera ýmislegt það, sem ríkið hefur vald til að gera. Egill Helgason bloggaði hins vegar, að menn yrði að vanda orðaval sitt í umræðum um þetta mál. Rangt væri að nota stór orð eins og gyðingahatur um viðskiptabannið.
Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd við blogg hans:
Eitt sem hefur lengi böggað mig er Hamas. Ef þessi punktur á ekki við að þá bara leiðréttið þið mig. Þegar maður fylgist með ástandinu á Gaza að þá kemst maður ekki undan þeirri tilfinningu að Hamas stjórni þar einsog mafía. Þeir komust til valda með lýðræðislegum kosningum árið 2006. Síðan þá, í níu ár, hefur Hamas passað uppá að halda engar kosningar en halda öllum völdum með reglulegum opinberum aftökum án dóms og laga. Fyrir vikið reyni ég að hafa sem minnsta skoðun á þessum átökum. Þótt ekki sé annað hægt en að finna til samúðar með fjölskyldunum á Gaza og með þeim börnum sem þurfa að alast upp við þessar ömurlegu aðstæður.
Þá svaraði Egill fyrir vikið:
Hamas er mafía. Sprengjum bara alla aftur á steinöld.
Mér fannst þessi athugasemd Egils svo einkennileg, einkum vegna þess að hann hafði sérstaklega verið að kvarta undan léttúðartali um alvarlegt mál, að ég hélt fyrst, að einhver hefði brotist inn á síðu hans (eins og kom fyrir annan aðsópsmikinn álitsgjafa, Gylfa Ægisson). Velti ég þessu fyrir mér á Snjáldru (Facebook). Þá skrifaði Ingvar Smári Birgisson þar athugasemd:
Pælingin hjá Agli er að þótt Hamas sé mafía þá sé framferði Ísraels ólíðandi. Tók mig smá tíma að lesa í þetta, en er nokkuð viss um að þetta sé meining Egils.
Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd:
Þetta er ábyggilega rétt lesið hjá þér Ingvar Smári. En afhverju sagði hann þá það ekki? Í svona hrópum eru mörg skilaboð, ein af skilaboðunum eru: þú skalt ekkert vera að brydda uppá öðru sjónarhorni en passar inní umræðuna sem ég vil búa til! Annars færðu yfir þig reiði mína! Ég kann ekki við svona. Sérstaklega ekki frá svona valdamiklu fólki.
Líklega er niðurstaðan því gamalkunn: Dagskrárvald spillir, en ótakmarkað dagskrárvald spillir ótakmarkað. Munurinn á sjónvarpsþáttum þeim á Ríkisútvarpinu, þar sem Egill Helgason sest í öllu sínu veldi í dómarasæti, og efni í öðrum fjölmiðlum er, að við getum ekki sagt upp áskrift að Ríkisútvarpinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook
17.9.2015 | 11:56
Samfylkingin í 73 milljón króna vanskilum
Stundin birtir hróðug frétt um, að Sjálfstæðisflokkurinn sé í vanskilum. Það hefur verið lagað. En Sjálfstæðisflokkurinn greiddi til baka framlög frá stórfyrirtækjum 2006. Samfylkingin fékk svipaðar upphæðir, samtals 73 milljónir króna, frá stórfyrirtækjum 2006, þótt henni tækist að fresta uppgjöri fram yfir kosningarnar 2009. Því má segja, að Samfylkingin sé í 73 milljóna króna vanskilum, því að auðvitað nær það ekki nokkurri átt, að Sjálfstæðisflokkurinn skili öllum sínum styrkjum frá stórfyrirtækjum, á meðan Samfylkingin heldur sínum styrkjum.
Um þetta hljóta fréttamenn að þýfga Vilhjálm Þorsteinsson, gjaldkera Samfylkingarinnar. Þeir gætu líka spurt hann, hvað varð um Sigfúsarsjóð, sem geymdi afganginn af Rússagulli íslenskra sósíalista (sem nam um hálfum milljarði króna samtals núvirt og skattvirt samkvæmt útreikningum mínum, en þeir hafa ekki verið véfengdir). Tekjufærir Samfylkingin afslátt, sem hún fær af leigu í húsum Sigfúsarsjóðs? Af hverju hafa hinir harðskeyttu rannsóknarblaðamenn á Kjarnanum eða Stundinni ekki tekið þessi mál upp? Þau standa þeim þó nærri, enda er Vilhjálmur Þorsteinsson einn aðalfjárfestirinn í Kjarnanum og Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni einn mesti vandlætingarpostuli landsins.
(Myndin er af hluthöfum Kjarnans, Vilhjálmur situr lengst t. v.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook
15.9.2015 | 15:14
Fyrirlestur í Brasilíu: Upptaka
Ég sé, að einn af fyrirlestrum þeim, sem ég flutti hjá Brasilíusamtökum frjálshyggjustúdenta, Estudantes pela liberdade, vorið 2014 er kominn á Youtube á Netinu. Hann var í Porto Alegre 25. maí og um, hvernig sækja má röksemdir og gögn fyrir frelsið á Netið: