Merkilegar upplýsingar um Danmörku og Grikkland

Margir fyrirlestrar á ráðstefnu frjálshyggjustúdenta í Sofia í Búlgaríu, sem ég sótti 17. október 2015, voru stórfróðlegir. Gamall kunningi minn, Otto Brøns-Petersen, talaði um Danmörku. Spurning hans var: Er velferðarríkið þrátt fyrir allt skilvirkt? Þau Hillary Clinton og Bernie Sanders höfðu í kappræðum Lýðræðisflokksins (Democrats) bæði lýst yfir aðdáun sinni á Danmörku. Brøns-Petersen benti hins vegar á, að norrænu ríkin búa við tiltölulega frjáls hagkerfi. Til dæmis mælist danska hagkerfið hið 22. frjálsasta í heimi þrátt fyrir þunga skattbyrði. Hann varpaði líka á skjá línuritum, sem sýndu, að hagsæld Dana er frá þeim tíma, þegar hagkerfið var jafnfrjálst og í Bandaríkjunum og skattbyrði sambærileg. Munurinn var sá, að Danir ákváðu á sjötta áratugnum að endurdreifa eftir föngum ávinningnum af atvinnufrelsi, en Bandaríkjamenn ekki. Hann bætti við, að danska hagkerfið væri að sumu leyti skilvirkt, en að í það vantaði nýsköpun. Brøns-Petersen minntist á það, að Danir hefðu iðulega mælst hamingjasamasta þjóð í heimi. Hann varpaði hins vegar á skjá línuriti, sem sýndi sterka almenna fylgni milli hagsældar og hamingju: Fátækar þjóðir eru óhamingjusamar, ríkar þjóðir hamingjusamar. Niðurstaða Brøns-Petersens var: Þjóðir eiga ekki að taka upp velferðarríki til þess að verða ríkar eða hamingjusamar, heldur geta þær tekið upp velferðarríki, af því að þær eru ríkar og hamingjasamar. Það er hins vegar vafamál, hversu lengi auðlegð þjóða endist, verði skattbyrðin of þung.

Aristides Hatzis, hagfræðiprófessor í Aþenu, talaði um gríska harmleikinn. Hann benti á, að gríska hagkerfið tók miklum framförum árin 1929–1980. Þá var meðalhagvöxtur um 5% á ári þrátt fyrir mikinn óróa í stjórnmálum. Grikkir gátu gengið í Evrópusambandið 1980, af því að margt gekk vel hjá þeim. En upp úr því hófst harmleikurinn. Sósíalistaflokkkurinn komst til valda undir forystu Andreasar Papandreu, og andstæðingar þeirra, sem kölluðu sig íhaldsmenn, fylgdu svipaðri stefnu, þegar þeir komust síðar til valda, og kallaði Hatzis þá „Sósíalistaflokk númer tvö“. Við tók kerfisbundin spilling, þar sem miðstéttin hrifsaði til sín fjárframlög Evrópusambandsins, sem áttu að renna í að styrkja innviði hagkerfisins, jafnframt því sem allir reyndu að svíkja undan skatti. Gríski draumurinn, sem nú hefði snúist upp í martröð, hefði verið að ljúka háskólaprófi snemma, starfa hjá hinu opinbera og komast á eftirlaun laust eftir fimmtugt. Allt hefði farið í neyslu, ekkert í fjárfestingar. Gríska hagkerfið væri ekki sjálfbært. Það væri ekki frjálst markaðshagkerfi, og varpaði Hatzis á skjá nokkrum línuritum til að sýna það. Studdist hann meðal annars við alþjóðlega vísitölu atvinnufrelsis og mælingar á samkeppnishæfni. Í ljós kom, að ótrúlega tafsamt og erfitt er til dæmis að stofna fyrirtæki eða ljúka gjaldþrotaskiptum í Grikklandi. Skilaboðin til erlendra fjárfesta væru í raun: Komið ekki til Grikklands! Tvær leiðir væru út úr ógöngunum, sagði Hazis. Önnur væri að leggjast á bæn og vona hið besta, hin að gera róttækar breytingar í frjálsræðisátt á hagkerfinu. 


Fjölsóttur fyrirlestur í Sofia

hhg_sofia_17_10_2015.jpgÉg flutti fyrirlestur um „Frelsi á Íslandi 930–2015“ í Sofia í Búlgaríu í gær, laugardaginn 17. október 2015. Fjölmenni sótti hann, og rigndi spurningum yfir mig að honum loknum. Ég lýsti Þjóðveldinu, þar sem réttarvarsla var í höndum einstaklinga, menn gátu valið um verndaraðila (goðana) og glæpir voru metnir til fjár. Ég greindi ítöluna, sem kveðið er á um í Grágás, en með henni var stjórnað aðgangi að bithögum á fjöllum til að forðast „samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Ég rakti fátækt Íslendinga 1490–1787 til þess, að þróun sjávarútvegs var torvelduð með höftum og verðlagsstýringu: Íslendingar reru til fiskjar á opnum árabátum, á meðan þilskip sigldu hingað frá Englandi, Hollandi, Frakklandi og Spáni. Ég skýrði kvótakerfið, sem myndaðist hér frá 1975 (í síld) til 1990, þegar sett voru almenn lög um framseljanlega og varanlega aflakvóta. Ég ræddi um bankahrunið, en bankarnir gátu þanist út (aflað sér viðskiptavina) 2004–2008 vegna hins góða orðspors, sem Ísland hafði aflað sér 1991–2004; síðan bjargaði enginn íslensku bönkunum, á meðan öðrum bönkum í Evrópu var bjargað, meðal annars fyrir tilstilli bandaríska seðlabankans. Ég horfði fram á við og sagði, að Íslendingar hefðu engu að kvíða, gætu þeir haft stjórn á sér, en upp á það vantaði stundum eitthvað.

Mönnum fannst einkum fróðlegt að heyra um Þjóðveldið og kvótakerfið. Ég var spurður sömu spurninga um kvótakerfið og alls staðar annars staðar, þar sem ég hef á það minnst. Hvað um nýliðun? Svarið er, að vandinn var ótakmarkaður aðgangur og allt of margir að veiðum. Nýliðun er ekki markmiðið við þær aðstæður. Komið var á því kerfi, að menn kæmust ekki á veiðar, nema þeir hefðu kvóta. Þetta er sama lögmál og í landbúnaði. Menn geta ekki hafið búskap, nema þeir kaupi sér land og bústofn. Eini rétturinn, sem var tekinn af öðrum við það, að kvótum var úthlutað til þeirra, sem stundað höfðu veiðar, var rétturinn til að gera út með engum ábata, og sá réttur var samkvæmt skilgreiningu einskis virði. Hvað um arðinn? Af hverju átti hann að renna til útgerðarmanna? Svarið er, að það er skömminni skárra en að hann renni til ríkisins, sem notar fé sitt sjaldnast skynsamlega. Ríkið er ekki við; ríkið er þeir. Auk þess var úthlutun aflakvóta samkvæmt veiðireynslu eina leiðin til að loka fiskimiðunum eða girða þau af, sem vænleg var til árangurs, því að þá var högum manna lítt raskað: Þeir, sem vildu halda áfram veiðum, gátu þá keypt út hina, sem vildu hætta veiðum.


Stóri bróðir, dísilbílar og blóðfita

Ég hlustaði á mjög fróðlegan fyrirlestur á ráðstefnu frjálshyggjustúdenta í Sofia í Búlgaríu 17. október. Boyan Rashev umhverfisfræðingur flutti hann, og var hann um mistæk ríkisafskipti.

Rashev benti á, að margt hefði batnað í umhverfi okkar síðustu áratugi. Vatn væri orðið hreinna og loft tærara. En ekki væri þó allt sem sýndist. Dísilbílar voru réttilega taldir nýta betur eldsneyti en bensínbílar, og þess vegna hefur Evrópusambandið stutt framleiðslu þeirra á ýmsan hátt, bæði með beinum styrkjum og með ýmsum ívilnunum, til dæmis í opinberum gjöldum. En gallinn er sá, að dísilbílar losa margvísleg önnur efni út í andrúmsloftið og menga það. Afleiðingin er, að loft er ekki eins hreint í borgum Evrópu og til dæmis í Bandaríkjunum og Japan.

Upp úr 1960 varð sú kenning vinsæl, aðallega að frumkvæði bandaríska líffræðingsins Ancels Keys, að hjartasjúkdóma mætti að nokkru leyti rekja til neysluvenja á Vesturlöndum, þar á meðal neyslu kjöts, eggja og smjörs. Þess í stað ætti að neyta grænmetis og kolvetnaríks matar. Bandaríkin settu sér manneldismarkmið í þessa veru, og skyndibitastaðir, veitingahús og matvælaframleiðendur um allan heim breyttu samsetningu vöru sinnar. Þessi kenning hefur reynst röng, en framkvæmd hennar hefur valdið miklu um offitu, sem er einn stærsti heilsufarsvandi okkar daga.

Stóri bróðir, hið opinbera, tók báðar kenningarnar upp á sína arma. En hann hafði rangt fyrir sér, og það hefur valdið loftmengun, offitu, verra lífi og fjölda dauðsfalla.


Hvers virði var Ísland?

Vísbending er nýkomin út, 39. tölublað 2015. Þar er birt á bls. 3 rannsókn eftir mig í stuttri grein á því, hvers virði Ísland var. Árið 1518 var það boðið að veði fyrir 50.000 flórína láni og árið 1645 að veði fyrir 500.000 dala láni. Ég reikna út núvirði þessara stærða. Enn fremur er ljóst, að Ísland var 0 flórína, dala eða króna virði árið 1785, þegar átti að rýma það (en Anna Agnarsdóttir prófessor staðfesti nýlega hina fornu frásögn Hannesar biskups Finnssonar um það, þegar hún fann óvænt merkilegt skjal í bresku safni). Einnig reikna ég út, hvers virði Ísland hefði verið árið 1867, hefði verðið verið hið sama á hvern ferkílómetra og Alaska, sem Bandaríkin keyptu það ár af Rússum. Vísbending fæst í mörgum bókabúðum, og geta áhugamenn nálgast niðurstöður mínar þar, en þær eru satt að segja ótrúlegar. Og hið dapurlega er, að þetta var verð, sem seljandinn gat hugsað sér, en enginn kaupandi reyndist vera á því verði!


200 milljarða óþarft tap

Tímaritið Þjóðmál er nýkomið út, barmafullt af forvitnilegu efni eins og endranær. Ritstjóraskipti hafa orðið: Jakob F. Ásgeirsson stjórnmálafræðingur, sem hefur verið ritstjóri frá upphafi af framúrskarandi dugnaði og metnaði, hefur horfið til annarra starfa (hann er meðal annars að skrifa ævisögu Bjarna Benediktssonar), en Óli Björn Kárason hagfræðingur tekið við. Óli Björn (sem hefur meðal annars verið ritstjóri Viðskiptablaðsins og DV) skrifar reglulega í Morgunblaðið af yfirsýn og þekkingu.
Tímaritið er til sölu í bókabúðum, en ég birti í því ritgerð um hugsanlegt 200 milljarða tap Íslendinga á margvíslegri handvömm eftir bankahrun. Hér er útdráttur úr ritgerðinni:

Fyrir bankahrunið 2008 voru ýmsir erlendir bankar í eigu íslenskra fyrirtækja. Hér verða þrír þeirra skoðaðir. Í Danmörku átti Kaupþing FIH banka, og tók Seðlabankinn hann að veði 6. október 2008 fyrir €500 milljóna neyðarláni til Kaupþings. Að tilhlutan danskra stjórnvalda og ráði Seðlabankans var bankinn seldur haustið 2010, og var söluverð háð væntanlegu tapi næstu árin. Svo virðist sem Seðlabankinn fái aðeins um helminginn af láni sínu aftur. Nú er verið að leggja bankann niður, og eiga danskir eigendur hans von á verulegum gróða, miklu hærri en nemur tapi Seðlabankans. Hvað gerðist? Í Bretlandi átti Landsbankinn Heritable Bank og Kaupþing KSF, Kaupthing Singer & Friedlander. Bresk stjórnvöld lokuðu þeim báðum í október 2008, færðu innlánsreikninga til keppinautar þeirra og settu þá í skiptameðferð. Jafnframt veittu bresk stjórnvöld öðrum bönkum í Bretlandi ríflega lausafjárfyrirgreiðslu eða lögðu þeim til aukið fjármagn. Nú er skiptameðferð að ljúka á Heritable Bank og KSF, og er endurheimtuhlutfall í báðum bönkum nálægt 100%, þótt lagst hafi á búin afar hár lögfræði- og skiptakostnaður, auk þess sem sú eign, sem fólst í rekstri og viðskiptavinum, varð verðlaus og aðrar eignir seldust eflaust ekki á hámarksverði. Hvað gerðist? Hér er leitast við að svara þessum spurningum með því að rannsaka gögn um bankana og ræða við þá, sem áttu hlut að máli. Niðurstaðan er, að hugsanlega hafi tapast að óþörfu hátt í milljarður punda eða 200 milljarðar króna í þessum þremur bönkum.


Hlustað á kúbverskan útlaga

img_0428.jpgÉg brá mér á Borgarbókasafnið laugardaginn 10. október. Rithöfundurinn og skáldið Orlando Luis Pardo Lazo hélt þar fyrirlestur á vegum Pen klúbbsins íslenska um mannréttindabrot á Kúbu, og var rithöfundurinn Sjón fundarstjóri. Eftir ofsóknir leynilögreglu Castros ákvað Pardo að flytjast til Bandaríkjanna. Hann kvaðst hissa á því, þegar menn héldu, að hann væri stuðningsmaður Lýðveldisflokksins bandaríska (Repúblikana) fyrir það eitt, að hann gagnrýndi stjórnarfar á Kúbu. Það einkenndist af ritskoðun, kúgun og einstefnu. Rithöfundar, sem leyfðu sér að gagnrýna stjórnvöld eða tala um önnur mál en opinberir aðilar hefðu sett á dagskrá, væru eltir uppi, hrelltir, fangelsaðir, oft pyndaðir og stundum líflátnir. Pardo kvaðst helst telja sig vinstri mann, en Vesturlandabúar mættu ekki loka augunum fyrir því, að á þessari suðrænu eyju væru íbúarnir kúgaðir. Pardo brá upp glæru, þar sem sætaskipan á Alþingi Íslendinga var auðkennd með ólíkum litum á sætum ólíkra flokka, og annarri glæru með sætaskipan á þingi Kúbu, þar sem aðeins sætu fulltrúar eins flokks og öll sæti væru því eins á litinn. Pardo brá upp mörgum glærum með kúbverskum menntamönnum, sem hefðu verið ofsóttir, þar á meðal rithöfundinum Carlos Franqui, sem var fjarlægður af ljósmyndum, eftir að hann snerist gegn kommúnisma. Pardo sýndi einnig nokkur brot úr ræðum Castros, þar á meðal hinni alræmdu ræðu, sem hann hélt 13. mars 1963, þegar hann réðst á þröngar buxur, sem ungir, kúbverskir gagnbyltingarsinnar gengju í og væru kvenlegar. Þá lýsti Pardo því, sem kalla mætti þjóðflutninga frá Kúbu: Margir Kúbverjar hefðu „greitt atkvæði með árunum eða fótunum“ með því að flýja á bátum eða flytjast á annan hátt burt frá Kúbu. Taldi hann Raúl Castro, sem tekið hefði við völdum af Fidel, bróður sínum, ekki hafa beitt sér fyrir neinum raunverulegum eða mikilvægum umbótum í frjálsræðisátt. Líklegast væri, að sonur Raúls tæki við stjórnartaumunum að honum gengnum. Ég hugsaði með sjálfum mér, að þá væri Kúba orðin erfðaveldi eða konungsríki eins og Norður-Kórea.

Ein merkilegasta glæra Pardos sést á ljósmyndinni hér að ofan (sem ég tók á iphone minn): Kommúnistar höfðu 1962 sett upp á Kúbu fjölda kjarnorkuflugskeyta, sem miðað var á stærstu borgir Bandaríkjanna. Voru þau ekki tekin niður, fyrr en Kennedy Bandaríkjaforseti hótaði stríði. Fjölmenni var á fundinum, og sá ég þar meðal annarra Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Einar Kárason rithöfund og Halldór Guðmundsson, forstjóra Hörpunnar. Ekki var minnst nema lítillega á hinn mikla áhuga sumra Íslendinga á liðnum árum á því að styðja einræðisstjórn Castros á Kúbu. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, málgagns sósíalista, fór til Kúbu 1962, skrafaði við Che Guevara og hlustaði á Castro flytja langar ræður. Einn viðmælandi hans þá var Carlos Franqui, sem kom við sögu í fyrirlestri Pardos. Birti Magnús síðan ferðabókina Byltinguna á Kúbu og lofsöng Castro hástöfum. Nokkrir Íslendingar, þar á meðal Silja Aðalsteinsdóttir, um skeið ritstjóri Þjóðviljans, og Páll Halldórsson, sem enn lætur að sér kveða í kjarabaráttu opinberra starfsmanna, voru sjálfboðaliðar á sykurekrum Kúbu. Síðasta verk Alþýðubandalagsins haustið 1998, áður en flokkurinn var lagður niður og skipti sér á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, var að taka boði kúbverska kommúnistaflokksins um ferð sérstakrar sendinefndar til Kúbu. Var hún undir forystu Svavars Gestssonar og Margrétar Frímannsdóttur, og reyndu þau að ná fundi Castros, sem hirti hins vegar ekki um að hitta þau. Eins og ég bendi á í Íslenskum kommúnistum 1918–1998 má því segja, að sögu Alþýðubandalagsins hafi ekki lokið með gný, heldur snökti (not with a bang, but with a whimper, eins og T. S. Eliot orti).


AGS lánið var dýrt og óþarft

Seðlabankinn tilkynnir nú, að lán frá AGS hafi verið greidd upp. Öllum finnst þetta góð frétt. En hvers vegna tókum við á sínum tíma risalán frá AGS? Það stóð áhreyft árum saman á reikningi í New York. Það var aldrei notað til neins (ekki einu sinni sem samningsatriði, þegar Danir hótuðu okkur haustið 2010 í samningum um sölu FIH-banka). En á tímanum bar þetta AGS lán háa vexti. Til hvers? „Við þurfum líka að lifa,“ sagði AGS-maður við háttsettan íslenskan embættismann.

(Eftirmáli: Ég var spurður um vaxtakostnaðinn. Vextir eru breytilegir hjá AGS, en venjulega um 4%. Ef lán er 2,1 milljarðar dala, þá er vaxtakostnaður um 84 milljónir dala á ári eða 10 milljarðar ísl. kr. Fróðlegt væri að reikna út heildarkostnaðinn við þessa lántöku. Við þurfum líka að lifa, herra AGS-maður.)


Hrunið þið munið

Ég fór 6. október á fund í Háskólanum, sem þeir Guðni Th. Jóhannesson og Jón Karl Helgason héldu, þar sem kynnt voru verkefni nemenda um bankahrunið og gagnabanki, sem þeir eru að koma upp. Fundurinn var fróðlegri og skemmtilegri en ég hafði haldið. Ég sat og hlustaði, eins og minn er vandi, en hefði ég talað, þá hefði ég gert tvær athugasemdir:

  • Það varð ekki hrun á Íslandi. Það varð bankahrun. Stoðir hins borgaralega skipulags stóðust áfallið. Og niðursveiflan eða kreppan var minni en sex eða sjö annarra Evrópuþjóða (ef það er til dæmis mælt í samdrætti landsframleiðslu 2009). Hitt er annað mál, að þjóðin varð fyrir miklu sálrænu áfalli.
  • Íslendingar eru hvorki betri né verri en annarra þjóða menn. Fyrir bankahrun bar hér á hrokagikkjum, sem töldu Íslendinga standa öllum öðrum framar. Eftir bankahrun heyrist hátt í heybrókum, sem kikna í hnjáliðum, þegar þeir heyra útlensku talaða. Báðar skoðanirnar eru rangar.  

Sjötta hneykslið í kringum Má Guðmundsson

Ég sé ekki betur en sjötta hneykslið sé komið til sögunnar um Má Guðmundsson: álit umboðsmanns Alþingis í kæru Heiðars Guðjónssonar fjárfestis gegn honum:

  1. Már sýndi dæmalaust dómgreindarleysi með því að höfða mál gegn bankanum til að fá hærri laun, eftir að forverar hans höfðu verið hraktir úr starfi með lagabreytingum og samið við hann í laumi um ráðningu hans, en á sama tíma var kreppa í landinu.
  2. Már braut eflaust einhverjar reglur, annaðhvort lagalegar eða siðferðislegar, þegar hann lét bankann greiða málskostnað sinn gegn bankanum. Auðvitað vissi Már af því frá byrjun. Þessum greiðslum var haldið leyndum fyrir bankaráðinu.
  3. Ekki þarf heldur að rifja upp þá raunasögu, þegar Már misnotaði Seðlabankann til að veita ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar liðsinni í Icesave-málinu.
  4. Már kostaði landsmenn hugsanlega um sextíu milljarða króna vegna handvammar í meðferð veðsins fyrir neyðarláninu til Kaupþings í bankahruninu. Talsvert var talað um þetta lán fyrir hálfu ári, en af einhverjum ástæðum eru þær raddir allar þagnaðar. Már seldi nokkrum fjárfestum í Danmörku veðið, FIH-banka, með þeim kjörum, að þeir þurftu aðeins að greiða útborgun, en réðu í raun eftirstöðvunum. Þeir hafa stórgrætt á þessum kaupum og þjóðin að sama skapi stórtapað.
  5. Már braut stórkostlega af sér í málinu, sem hann rak af ofurkappi gegn Samherja á Akureyri, einu myndarlegasta útgerðarfyrirtæki landsins, en hann hefur orðið að láta það niður falla. Þá sögu þarf alla að segja. Hún er flóknari og verri en þegar hefur komið fram. Er ekki hægt að kalla þetta annað en ofsóknir í garð Samherja.
  6. Már braut bersýnilega af sér gegn Heiðari Guðjónssyni, eins og umboðsmaður Alþingis bendir á í áliti sínu og Morgunblaðið hefur skýrt frá. Fór Már langt fram úr lagaheimildum sínum í viðskiptum við Heiðar, vísaði á bug tilboði frá honum og kærði hann til lögreglu. 

Þegar horft er á þetta, er síðan hollt að hafa í huga, að fjöldi manns, til dæmis fyrrverandi starfsmenn bankanna, hefur lent í stórkostlegum hremmingum vegna rannsókna á högum þess. Þetta fólk á hins vegar ekki að njóta minna réttaröryggis en Már Guðmundsson. Eitt og hið sama á yfir alla að ganga. Hafa verður líka í huga, að fjölmennur hópur blaðamanna og álitsgjafa hefur vart náð andanum af hneykslun yfir ýmsum málum, stórum og smáum og misjafnlega alvarlegum, hin síðari ár. Hvar er þessi hópur nú, þegar hvert málið rekur annað um Má Guðmundsson? Hér gildir líka: Eitt og hið sama á yfir alla að ganga.

Ég sat í bankaráði Seðlabankans 2001–2009. Ég man ekki eftir neinu sambærilegu við það, sem Már Guðmundsson hefur gert. Mjög var þá gætt að því að fara eftir settum reglum og hagsmunum Íslendinga jafnan fylgt fast eftir. Sjálfur hef ég áhyggjur af því, að Már semji nú af sér við erlenda kröfuhafa viðskiptabankanna, eins og hann gerði við dönsku fjárfestana, sem keyptu FIH-banka.


Hvernig skiptust skáld milli flokka?

Í föggum Bjarna Benediktssonar í Borgarskjalasafni er plagg, sem kunningi hans skrifaði í gamni um, hvar í flokki sextíu rithöfundar á landinu kynnu að standa í þingkosningunum 1953. Þá var þjóðin miklu fámennari og flokkaskipting afdráttarlausari en síðar tíðkaðist.

  1. Flestir rithöfundar voru taldir sjálfstæðismenn, átján, enda hafði höfundur plaggsins sennilega gleggstar upplýsingar um þá: Axel Thorsteinsson, Ármann Kr. Einarsson, Árni Óla, Davíð Stefánsson, Guðrún frá Lundi, Gunnar Gunnarsson (en við nafn hans stendur raunar „úfinn gegn öllum“), Halldór Sigurðsson (höfundarnafn: Gunnar Dal), Haraldur Á. Sigurðsson (höfundarnafn: Hans Klaufi), Helgi Hjörvar, Jakob Thorarensen, Jón Björnsson, Jón Thorarensen, Kristmann Guðmundsson, Margrét Jónsdóttir, Sigurður Grímsson, Sigurður Nordal, Tómas Guðmundsson og Þorsteinn Jónsson (höfundarnafn: Þórir Bergsson).
  2. Alþýðuflokksmenn voru samkvæmt listanum fimmtán: Bragi Sigurjónsson, Elínborg Lárusdóttir, Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum, Guðmundur Daníelsson, Guðmundur G. Hagalín, Helgi Sæmundsson, Jakob Jónsson, Jakob J. Smári, Óskar Aðalsteinn, Ragnheiður Jónsdóttir, Sigurður Einarsson í Holti, Sigurjón Jónsson, Stefán Júlíusson, Þórleifur Bjarnason og Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.
  3. Fjórtán studdu að sögn Sósíalistaflokkinn: Elías Mar, Guðmundur Böðvarsson, Gunnar Benediktsson, Gunnar M. Magnúss, Halldór Helgason á Ásbjarnarstöðum, Halldór K. Laxness, Halldór Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristján Bender, Magnús Ásgeirsson, Ólafur Jóh. Sigurðsson, Snorri Hjartarson, Stefán Jónsson og Þórbergur Þórðarson.
  4. Þjóðvarnarmenn voru átta: Agnar Þórðarson, Heiðrekur Guðmundsson, Jón Helgason ritstjóri (alnafni prófessorsins), Jón úr Vör, Kristján frá Djúpalæk, Sigurður Helgason, Steinn Steinarr og Þórunn Elfa Magnúsdóttir.
  5. Fæstir voru framsóknarmenn: Guðmundur Frímann, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Guðrún Jónsdóttir frá Prestbakka, Indriði G. Þorsteinsson og Kári Tryggvason.

Þá vitum við það.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2015.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband