Ævisaga Miltons Friedmans

friedman.reaganJennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)


Danmörk til fyrirmyndar, um margt

Bandaríkjamönnum hefur orðið tíðrætt um Danmörku hin síðari ár. Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders bendir á landið sem sérstaka fyrirmynd. Hagfræðingurinn Jeffrey Sachs telur, að dæmi Danmerkur og annarra Norðurlanda afsanni þá skoðun Friedrichs A. von Hayeks, að aukin ríkisafskipti skerði frelsi og leiði að lokum til lögregluríkis. Heimspekingurinn Francis Fukuyama heldur því á hinn bóginn fram, að í Danmörku hafi tekist að efla þá samkennd og almennu lýðmenntun, sem lýðræðinu sé nauðsynleg.

Eitt frjálsasta hagkerfi í heimi

Þegar að er gáð, sést, að Sanders og Sachs hafa rangt fyrir sér. Danmörk er síður en svo draumríki sósíalista. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum Fraser stofnunarinnar í Kanada á atvinnufrelsi var danska hagkerfið árið 2021 hið 7. frjálsasta af 165 hagkerfum í heimi, á eftir hagkerfum Singapúr, Hong Kong, Sviss, Nýja Sjálands, Bandaríkjanna og Írlands. (Ófrjálsustu hagkerfin eru hins vegar í Venesúela, Simbabve, Sýrlandi, Súdan, Jemen, Íran og Líbíu. Hagkerfi Norður-Kóreu og Kúbu eru ekki mæld vegna skorts á áreiðanlegum upplýsingum. Íslenska hagkerfið var hið 22. frjálsasta árið 1990, hið 7. frjálsasta 2004 og hið 14. frjálsasta 2021.)
Fukuyama hefur hins vegar rétt fyrir sér. Danmörk er um margt til fyrirmyndar. Hann bendir líka á, að ein skýringin á því sé, hversu áhrifamikill hinn merki hugsuður, skáld, félagsmálafrömuður, prestur og stjórnmálamaður Nikolaj F. S. Grundtvig var. Hann er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar úr íslensku á dönsku og setti fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka ritað Egils sögu. Grundtvig var fylgismaður þjóðlegrar frjálshyggju, sem hann sótti ekki síst í hinn auðuga norræna menningararf. Eitt meginstefið í ritum Snorra er til dæmis munurinn á góðum konungum og vondum: Góðu konungarnir virtu lög, héldu uppi friði og lögðu á hóflega skatta. Vondu konungarnir butu lög, háðu stríð og þyngdu skattbyrðina. Snorri lýsir því, hvernig þeir voru settir af, gengju þeir of langt að góðra manna yfirsýn.

Þjóðleg frjálshyggja

Jafnvel á einveldistímanum danska frá 1660 til 1849 virti Danakonungur í aðalatriðum meginreglur réttarríkisins, sem birtust í upphafi Jyske lov, Jótalaga, frá 1241: Með lögum skal land byggja. Undir lok átjándu aldar hafði Adam Smith líka veruleg áhrif í Danmörku, en vinir hans og lærisveinar beittu sér fyrir því, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku fyrst erlendra mála. Einokunarverslunin við Ísland og Finnmörku var afnumin, vistarband fellt úr gildi, konungsjarðir seldar og jörðum gósseigenda skipt upp, svo að dönskum sjálfseignarbændum fjölgaði úr tíu af hundraði í tvo þriðju bænda. Árið 1797 voru tollar lækkaðir verulega. Árið 1848 krafðist danskur almenningur þess síðan, að einveldið viki. Konungur lét undan, og 5. júní 1849 tók ný og frjálsleg stjórnarskrá gildi. Grundtvig sat á stjórnlagaþinginu, en helsta áhyggjuefni hans var, þegar valdið færðist úr höndum konungs, að það lenti ekki í höndum lýðskrumara og upphlaupsmanna.

Lýðurinn varð að fara gætilega með það vald, sem konungurinn hafði áður. Grundtvig beitti sér þess vegna fyrir alþýðumenntun í lýðskólum. Hann taldi málfrelsið einhverja helstu stoð upplýsts lýðræðis og orti frægt kvæði (Nordisk mytologi) um, að þetta frelsi væri norræn hugsjón, sem næði ekki síður til Loka en Þórs. Jafnframt var Grundtvig þjóðernissinni, sem taldi Dani eiga að rækta sögulega arfleifð sína og tungu, vakna til vitundar um sjálfa sig sem eina þjóð. En hann var frábitinn allri ágengni. Til dæmis lagði hann það til í deilum um Slésvík, þar sem norðurhlutinn var dönskumælandi og suðurhlutinn þýskumælandi, að héraðinu yrði skipt samkvæmt vilja íbúanna sjálfra. Varð það úr löngu eftir daga hans, þegar íbúarnir fengu að greiða um þetta atkvæði. Í öðru frægu kvæði (Folkeligt skal alt nu være) sagði hann, að þjóð mynduðu þeir, sem vildu vera þjóð, tala eigið móðurmál og eiga eigið föðurland.

Hinn danski þjóðarandi

Danir töldu sig bíða mikinn hnekki, er þeir misstu fyrst Noreg í hendur Svía 1814 og síðan Slésvík og Holtsetaland í hendur Þjóðverja 1864. En það var ekki síst fyrir áhrif Grundtvigs, sem þeir sneru ósigri í sigur, virkjuðu jafnt einkaframtak og samtakamátt og gerðust ein helsta menningarþjóð Norðurálfunnar. Einkunnarorð þeirra urðu þau, sem annað skáld, Hans Peter Holst, orti: Hvað udad tabes, skal indad vindes, úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Matthías Jochumsson orti í orðastað iðnjöfursins C. F. Tietgens, þegar hann gaf ungum íslenskum athafnamanni ráð:

Ég býð ekki Íslandi ölmusunáð;

ég ætla að gefa ykkur heillaráð:

Sá blessaðist aldrei í heimi hér,

sem hafði’ekki trú á sjálfum sér.

Þið eigið sjálfir að leysa landið,

losa’ykkur sjálfir við okurbandið.

 

Tietgen var einmitt einn af lærisveinum Grundtvigs og kostaði af honum styttuna, sem stendur fyrir framan Marmarakirkjuna í miðborg Kaupmannahafnar og óteljandi Íslendingar hafa gengið fram hjá.

Hinn frjálslyndi danski þjóðarandi sýnir sig ekki aðeins í orði, heldur líka í verki, eins og nefna má um tvö dæmi. Nasistar höfðu hernumið Danmörku vorið 1940, og eftir að danska stjórnin hafði í ágúst 1943 lagt niður völd í mótmælaskyni við yfirgang þeirra, hugðust þeir handsama alla danska gyðinga. Þetta spurðist út, og tóku þá Danir, háir og lágir, þegjandi og hljóðalaust, saman höndum um að koma þúsundum danskra gyðinga yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Þegar nasistar brunuðu á hervögnum sínum um Danmörku í októberbyrjun 1943 í leit að gyðingum, gripu þeir víðast í tómt. Af 7.800 dönskum gyðingum sluppu 7.220 yfir sundið, en aðeins 464 gyðingar náðust og voru sendir í fangabúðir. Hitt dæmið þekkja Íslendingar. Þótt Danir hefðu ólíkt ýmsum öðrum þjóðum komist löglega yfir íslensk handrit, ákváðu þeir að skila þeim til Íslands. Bretar og Frakkar taka hins vegar ekki í mál að skila til heimalandanna dýrgripum, sem þeir rændu í Grikklandi, Egyptalandi og víðar.

Umbætur síðustu áratuga

Danski flokkurinn Venstre hefur einkum haldið minningu Grundtvigs á lofti, og margir forsvarsmenn hans hafa verið eindregnir frjálshyggjumenn í anda hans. Má sérstaklega nefna hinn sjálfmenntaða bónda Thomas Madsen-Mygdal, forsætisráðherra 1926–1929, og hagfræðinginn Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra 2001–2009 og síðar framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fogh-Rasmussen birti árið 1993 fróðlega bók, Fra socialstat til minimalstat (Úr félagshyggjuríki í lágmarksríki), þar sem hann benti á ýmsar leiðir til auka atvinnufrelsi og hagsæld í Danmörku. Eftir að hann varð forsætisráðherra, fór hann þó varlegar en margir samherjar hans vildu, og varð frægt í sjónvarpskappræðum, þegar leiðtogi jafnaðarmanna reif úr bók hans margar blaðsíður, sem hann taldi úreltar. Að vísu tókst Fogh-Rasmussen að stöðva skattahækkanir og auka atvinnufrelsi nokkuð, og árið 2009 voru skattar lækkaðir talsvert í Danmörku. Danska hagkerfið fór úr því að vera hið 17. frjálsasta í heimi árið 1985 í að vera hið 7. frjálsasta árið 2021.

Nú er hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem aðstoðaði Fogh-Rasmussen við að skrifa bókina, staddur á Íslandi og ætlar að tala um „Reforming the Welfare State: The Case of Denmark“ þriðjudaginn 25. júní kl. 16.30 í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll (Nasa). Brøns-Petersen var deildarstjóri í efnahagsráðuneytinu 1993–1999 og skrifstofustjóri skattaráðuneytisins 1999–2013, svo að hann gjörþekkir innviði danska hagkerfisins. Hann er nú sérfræðingur og ráðgjafi rannsóknarstofnunarinnar CEPOS í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt við Kaupmannahafnarháskóla og Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, er höfundur nokkurra bóka og er félagi í Mont Pelerin samtökunum, alþjóðasamtökum frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði vorið 1947. Verður fróðlegt að heyra mat hans á því, hvað Dönum hefur tekist — og mistekist — í fjármálum og atvinnumálum síðustu áratugi.


Upp komast svik um síðir

Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.

Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.     

Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)


Hjátrú og hjáfræði

Þegar ég var í barnaskóla, hristum við höfuðið yfir hjátrú í öðrum löndum og á öðrum tímum. Eitt dæmið var, að Hindúar skyldu telja kúna heilaga og ekki vilja eta hana. En nú taka sumir sömu afstöðu til hvala. Engin rök eru fyrir sérstöðu hvala í dýraríkinu og það, sem meira er: Nóg er til af þeim á Íslandsmiðum, og þeir éta frá fiskum næringu og minnka með því heildarafla. Annað dæmi var gyðingahatur á miðöldum. En nú hefur gyðingahatur blossað upp á ný, jafnvel í háskólum, eins og sést á hinni alræmdu stuðningsyfirlýsingu 13. nóvember 2023 við hryðjuverkasamtökin Hamas, sem Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, Helga Kress og siðfræðingurinn og vandlætarinn Vilhjálmur Árnason skrifuðu undir.

Þegar ég var í háskóla, hristum við höfuðið yfir hjáfræði, þegar reynt var að gefa ranghugmyndum fræðilegan blæ. Þrjú dæmi voru gullgerðarlist, stjörnuspeki og mannkynbótafræði, en einnig marxismi og sálgreining. Marxisminn var hjáfræði, því að hann skýrði allt og þá um leið ekkert. Ef maður var marxisti, þá skildi hann lögmál sögunnar. Ef maður hafnaði marxisma, þá var hann á valdi annarlegra sjónarmiða. En hjáfræði lifir enn góðu lífi. Helga Kress rakti í fyrirlestri 10. október 1991 dæmi í fornbókmenntum um kúgun kvenna. Ég stóð upp og nefndi þaðan dæmi um, að konur færu illa með karla. „En þá er það textinn, sem kúgar,“ svaraði Helga. Ef textinn segir frá því, að karlar kúgi konur, þá á að taka hann bókstaflega. Ef textinn segir frá því, að konur kúgi karla, þá er hann aðeins dæmi um kúgun textahöfundanna! Tilgátan hefur alltaf rétt fyrir sér.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2024.)

Forsetakjör 2024

Um það má deila, hvenær Ísland varð ríki. Ef skilgreining Webers er notuð, einkaréttur á valdbeitingu, þá var það ekki fyrr en árið 1918. Ég tel skilgreiningu Hegels skynsamlegri, að ríkið sé einingarafl, vettvangur sátta og samstarfs, og samkvæmt því var Þjóðveldið íslenska ríki. Síðan færðist ríkisvald úr landi, fyrst til Noregs, síðan Danmerkur, en færðist aftur inn í landið árið 1918. Lögsögumaður verður að teljast hinn eiginlegi þjóðhöfðingi Þjóðveldisins, en þegar íslenskt ríki var aftur stofnað árið 1918, samdist svo um, að konungur Danmerkur yrði einnig þjóðhöfðingi á Íslandi.

Þá var Danakonungur nánast orðinn valdalaus, þótt látið væri svo heita, að ráðherrar beittu valdi sínu í umboði hans. Þegar konungur var afhrópaður árið 1944 (en óvíst var, hvort það væri heimilt samkvæmt sambandslögunum), tók þjóðkjörinn forseti við hlutverki hans. Hann fékk þó ekki eiginlegt neitunarvald eins og Danakonungur hafði haft, heldur aðeins vald til að synja lagafrumvörpum samþykkis, og tóku þau þó gildi, en bera þurfti þau undir þjóðaratkvæði.

Ólafur Ragnar Grímsson var eini forsetinn, sem lét á þetta synjunarvald reyna. Þegar fram líða stundir, munu flestir eflaust telja, að fjölmiðlafrumvarpið 2004 hafi ekki verið þess eðlis, að hann hefði átt að beita synjunarvaldinu, ólíkt Icesave-samningunum tveimur, sem vörðuðu ríka þjóðarhagsmuni. En því segi ég þetta, að í aðdraganda forsetakjörs nú í ár töluðu sumir frambjóðendur eins og forseti hefði víðtækt vald. Kusu þeir að horfa fram hjá 11. grein stjórnarskrárinnar, að forseti væri ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, og 13. greininni, að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt. Það var til dæmis fráleitt, eins og sagt var, að forseti gæti gengið gegn vilja meiri hluta Alþingis um, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hitt er annað mál, að forseti getur haft mikil áhrif stöðu sinnar vegna. En völd og áhrif eru sitt hvað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2024.)


Blagoevgrad, apríl 2024

HHG.Blagoevgrad.26.04.2024Mér var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti ég á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.

Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru „samgæði“. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Ég vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.

Ég rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að ég og félagar mínir rákum í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut ég minn fyrsta dóm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2024.)


Skopje, apríl 2024

HHG.Skopje.25.04.2024Á ráðstefnu í laga- og hagfræðideild Háskólans í Skopje í Norður-Makedoníu 25. apríl 2024 var mér falið að ræða um hið frjálsa hagkerfi að lokinni fjölþáttakreppu (polycrisis), en það hugtak er notað um kreppur, sem raða sér saman og hver þáttur styrkir annan, eitt rekur annað, allt tvinnast saman.

Um heimsfaraldurinn 2020–2022 sagði ég, að engu yrði um hann breytt úr þessu. En vita þyrfti upptökin til að koma í veg fyrir, að eitthvað svipað gerðist aftur. Kínversk stjórnvöld vildu engar upplýsingar veita, sem benti til þess, að kórónaveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan.

Um Úkraínustríðið sagði ég, að Pútín hefði tvisvar fengið röng skilaboð. Hann hefði ráðist átölulaust á Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Þess vegna hefði hann talið sér óhætt að ráðast aftur á Úkraínu árið 2022.

Um lausafjárkreppuna 2007–2009 sagði ég, að aðrar þjóðir mættu læra af Íslendingum, sem hefðu takmarkað skuldbindingar ríkisins, en þess í stað gert innstæður að forgangskröfum í bú banka og þannig róað almenning. Um banka ætti að gilda eins og önnur fyrirtæki, að þeim yrði ekki alltaf bjargað, þegar þeim gengi illa.

Um aðförina að málfrelsi í háskólum og á netmiðlum sagði ég, að líklega væri þetta bylgja, sem ætti eftir að hjaðna, svipað og róttæknibylgjan í kringum 1968, sem lítið skildi eftir sig annað en nokkra síðhærða fíkniefnaneytendur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2024.)


Zagreb, apríl 2024

HHG2.Zagreb.24.04.2024Mér var falið að ræða um siðferði markaðsviðskipta í Hagfræði- og viðskiptaháskólanum í Zagreb í Króatíu 24. apríl 2024. Ég kvað auðvelt að mæla fyrir frjálsum viðskiptum. Ef einn á epli, en vantar appelsínu, og annar á appelsínu, en vantar epli, þá skiptast þeir á eplinu og appelsínunni, og báðir græða. Erfiðara virtist hins vegar vera að rökstyðja einkaeignarrétt á gæðum eins og eplum og appelsínum. John Locke hefði haldið því fram, að eignarréttur gæti myndast á gæðum, væri því skilyrði fullnægt, að hagur annarra versnaði ekki. David Hume hefði hins vegar talið nægja til að réttlæta einkaeign á gæðum, að enginn annar gæti sýnt fram á rétt sinn til þeirra.

Hvernig svo sem réttmætur einkaeignarréttur hefði myndast, væru hin almennu rök fyrir honum tvíþætt. Hann stuðlaði í fyrsta lagi að friði, því að garður væri granna sættir. Með því að skipta gæðum jarðar með sér minnkuðu menn líkur á átökum. Í annan stað auðveldaði einkaeignarréttur verðmætasköpun, því að menn færu betur með eigið fé en annarra. Menn ræktuðu eigin garð af meiri natni en annarra, enda greri sjaldnast gras í almennings götu.

Ég sagði stuðning við frjálst skipulag ýmist hafa verið sóttan í náttúrurétt eða nytsemi, en sjálfur teldi ég breska heimspekinginn Michael Oakeshott hafa sett fram gleggstu rökin fyrir því skipulagi. Þau væru, að í hinum vestræna nútímamanni hefði smám saman orðið til í langri sögu vilji og geta til að velja og hafna. Hann hefði stigið út úr ættbálknum og orðið einstaklingur. Rómeo og Júlía hefði ekki sætt sig við að vera aðeins Montagú og Kapúlett. Frelsið til að velja væri annað eðli nútímamannsins, og þeir, sem því höfnuðu, neituðu að gangast við sjálfum sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2024.)


Ljubljana, apríl 2024

Ljubljana.HHG.Peterle.23.04.2024Mér var falið að ræða um frið í Ljubljana í Slóveníu 23. apríl 2024.  Á meðal áheyrenda var Lojze Peterle, fyrsti forsætisráðherra Slóvena eftir fall kommúnismans. Ég benti á, að til eru þrjú ráð til að fá það frá öðrum, sem maður girnist, að biðja um það, greiða fyrir það og taka það. Fyrsta ráðið á aðallega við um fjölskyldu og vini. Þriðja ráðið er ekki vel fallið til friðsamlegra samskipta. Annað ráðið er hins vegar ákjósanlegt í samskiptum ókunnugra. Maður greiðir í frjálsum viðskiptum fyrir það, sem hann þarfnast frá öðrum, og hann selur þeim það, sem þeir þarfnast. Verð er betra en sverð. Ég rifjaði upp orð eins fríverslunarsinna nítjándu aldar: Ef þú sérð í náunga þínum væntanlegan viðskiptavin, þá minnkar tilhneiging þín til að skjóta á hann.

Enn fremur fór ég með fræg ummæli, sem kennd eru ýmsum: Ef varningur fær ekki að fara yfir landamæri, þá munu hermenn gera það. Japan á fjórða áratug hefði verið skýrt dæmi. Markaðir hefðu í heimskreppunni lokast fyrir japönskum afurðum, jafnframt því sem erfitt hefði reynst að útvega hráefni til landsins. Þá jókst stuðningur í Japan við að taka það með valdi, sem ekki væri hægt að fá í viðskiptum, og því fór sem fór.

Ég benti á fordæmi Norðurlandaþjóða. Noregur hefði skilið friðsamlega við Svíþjóð 1905, Finnland við Rússaveldi 1917 og Ísland við Danmörku 1918. Landamæri Danmerkur og Þýskalands hefðu verið færð friðsamlega suður á við 1920 eftir atkvæðagreiðslur í Slésvík. Svíþjóð og Finnland hefðu bæði sætt sig við úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um Álandseyjar og Noregur og Danmörk síðar um Grænland. Samstarfið í Norðurlandaráði fæli ekki heldur í sér algert afsal fullveldis eins og virtist vera krafist í Evrópusambandinu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2024.)


Belgrad, apríl 2024

Mér var falið að tala um hlutverk ríkisins í fyrirlestri í hagfræðideild Háskólans í Belgrad í Serbíu 22. apríl 2024. Ég rifjaði upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Maður hafði verið rændur á leið frá Jórsölum til Jeríkó og lá hjálparvana við vegarbrúnina. Prestur og Levíti færðu sig yfir á hina brúnina, þegar þeir sáu hann, og héldu áfram göngu sinni, en Samverji aumkvaði sig yfir hann, flutti hann á gistihús og greiddi fyrir hann kostnað. Ég sagði, að hér væri komið eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins: að halda uppi lögum og reglu, svo að ræningjar ógnuðu ekki ferðalöngum.

Þrjár aðrar ályktanir mætti draga af dæmisögunni. 1) Samverjinn hefði verið aflögufær. Æskilegt væri, að til væri efnafólk. 2) Samverjinn hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstri menn vilja alltaf gera góðverk á annarra kostnað. 3) Menntamennirnir tveir gengu fram hjá. Vafalaust hafa þeir talið eins og vinstri menn nútímans, að einhverjir aðrir ættu að gera góðverkin.

Tvö óvefengjanleg verkefni ríkisins væru landvarnir og löggæsla, vernd fyrir erlendum og innlendum ræningjum. Flest annað gætu einkaaðilar annast. Ríkið hefði síðustu öldina hins vegar tekið að sér miklu víðtækara hlutverk. Velferðarríkið hefði til dæmis þanist út, þótt þörfin fyrir velferð hefði snarminnkað með stórauknum ráðstöfunartekjum almennings, fjölgun atvinnutækifæra, bættri heilsu og ríflegri lífeyri. Bandaríski hagfræðingurinn James M. Buchanan hefði einu sinni giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af vergri landsframleiðslu til að sinna nauðsynlegum verkefnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2024.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband