Siðferðilegt endurmat kommúnismans

Ég birti ritgerð í 3. hefti 5. árg. Þjóðmála, „Siðferðilegt endurmat kommúnismans,“ 59.–73. bls., þar sem ég ræði um íslenska kommúnista í ljósi ályktunar Evrópuráðsins um ódæði kommúnista á tuttugustu öld og Svartbók kommúnismans, sem kom út 31. ágúst sl. Þetta hefti Þjóðmála er barmafullt af fróðlegu efni, og má sérstaklega nefna viðtal við Guðna Ágústsson, sem gekk aldrei í björg með auðjöfrunum og getur þess vegna horft kinnroðalaust um öxl.

Umræður á Morgunvaktinni

_rnidaniel.gifÉg ræddi um Svartbók kommúnismans við Árna Daníel Júlíusson sagnfræðing á Morgunvaktinni á Rás tvö í Ríkisútvarpinu klukkan átta að morgni þriðjudagsins 8. september 2009. Árni Daníel kvað rússnesku byltinguna hafa leitt til góðs þrátt fyrir ýmislegt, sem miður hefði farið. Til dæmis hefði lífi margra verið bjargað með góðri heilsugæslu þar eystra. Hefur hann skrifað í svipaðan dúr hér á Netinu. Ég benti á, að þetta var ekki bylting, heldur valdarán kommúnista. Margar aðrar þjóðir hefðu síðustu 100–200 árin tekið örum framförum án þess að drepa stjórnarandstæðinga eða reka úr landi, flytja heilar stéttir eða þjóðflokka nauðuga úr heimkynnum sínum, senda milljónir manna í þrælkunarbúðir, svipta menn málfrelsi, fundafrelsi, félagafrelsi og trúfrelsi og valda hungursneyðum ýmist vitandi vits eða af glæpsamlegri vanrækslu. Árni Daníel sagði einnig, að frelsi vestrænna manna hefði að mestu leyti takmarkast við Evrópu. Nýlenduþjóðir hefðu verið kúgaðar. Ég benti þá á, að Ráðstjórnarríkin voru mesta nýlenduveldi tuttugustu aldar og það, sem síðast hvarf frá nýlendustefnunni.

Viðtal við Björn Bjarnason á ÍNN

80-bj0rnb.jpgÉg var í viðtali við Björn Bjarnason í þætti þeim, sem hann stjórnar á sjónvarpsstöðinni ÍNN, kl. 21.30 miðvikudagskvöldið 2. september 2009. Við ræddum um Svartbók kommúnismans, sem kom út 31. ágúst, en Björn aðstoðaði mig talsvert við bókina og las prófarkir af nokkrum hluta hennar af sínum mikla dugnaði og áhuga. Margt bar á góma, meðal annars hvað helst hefði verið deilt um í tengslum við Svartbókina. Ég taldi, að það væri einkum þrennt: 1) Hversu margir hafa týnt lífi af völdum kommúnisma, um 85 eða um 100 milljónir manna? 2) Er réttlætanlegt að jafna saman kommúnisma og nasisma? 3) Að hve miklu leyti má rekja ógnarstjórn kommúnista á 20. öld til marxismans og að hve miklu leyti er um að ræða sögulegar hefðir í þeim ríkjum, sem þeir stjórnuðu?

Viðtal á Útvarpi Sögu

Ég var í þætti Höskulds Höskuldssonar á Útvarpi Sögu 99.4 miðvikudaginn 2. september kl. 17 ásamt Jóni G. Haukssyni, ritstjóra Frjálsrar verslunar, og Agli Jóhannssyni, forstjóra Brimborgar. Við ræddum um Svartbók kommúnismans, og töldu viðmælendur mínir allir, að mikill fengur væri að henni á íslensku. Ég sagði, að ég hefði viljað votta fórnarlömbum kommúnismans virðingu mína. Voðaverkin í nafni þeirrar hugsjónar mættu ekki gleymast fremur en glæpir nasista. Umræður voru fjörugar og málefnalegar.

Viðtal á X977

Ég var í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X977 kl. 16 þriðjudaginn 1. september 2009, en stjórnendur þáttarins eru Frosti Logason og Þorkell Máni Pétursson. Við ræddum fyrst um Svartbók kommúnismans og síðan um lánsfjárkreppuna og bankahrunið. Meðal annars ræddum við um, hvort illvirki kommúnista á tuttugustu öld, sem Svartbókin er um, væru í rökréttu framhaldi af kenningu Marx eða frávik frá henni og hvort kommúnismi og nasismi væru skyldar stefnur. 

Svartbók kommúnismans

svartbok.jpgSvartbók kommúnismans, Livre noir du communisme, kom út hjá Háskólaútgáfunni 31. ágúst 2009 í þýðingu minni og undir minni ritstjórn. Íslenska útgáfan er 828 bls. Undirfyrirsögn er Glæpir, ofsóknir, kúgun. Þetta er stórfróðleg og vönduð bók. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskólanum og Samtök um vestræna samvinnu kynntu bókina á hádegisfundi í fundarsal Þjóðminjasafnsins á útgáfudaginn. Þar gerði sænski þingmaðurinn Göran Lindblad grein fyrir ályktun Evrópuráðsins frá því í janúar 2006 til fordæmingar glæpaverkum kommúnistastjórna um allan heim. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, brást við erindi Lindblads, en einnig tóku Birgir Ármannsson alþingismaður, sem átti þátt í að greiða fyrir ályktuninni á vettvangi Evrópuráðsins, Alyson Bailes, kennari í alþjóðastjórnmálum og fleiri til máls. Björn Bjarnason, formaður SVS og fyrrverandi ráðherra, stjórnaði fundinum.

Jón Baldvin hefur birt innlegg sitt á heimasíðu sinni. Þar er fróðlegt að lesa athugasemd dr. Eyjólfs Kjalars Emilssonar, prófessors í heimspeki í Noregi og fyrrverandi eiginmanns Hjördísar Hákonardóttur hæstaréttardómara:

emilsson_903977.jpgÞetta var flest alveg rétt og ágætt hjá Jóni Baldvin, þannig séð. En tvennt vildi ég gera athugasemdir við: (1) Hann talar um óhæfuverk katólsku kirkjunnar. Það má til sanns vegar færa en um flest af því sem hann nefnir (að vísu ekki krossferðir en það hefði eins getað verið) eru lúterska kirkjan og mótmælendakirkjur almennt meira sekar, ekki síst á Íslandi Hitt er (2) að Jón Baldvin, sem hefur skrifað svo marga ágæta pistla síðustu vikur og mánuði, skuli vera að eyða púðri í hann Hannes. Hann er ekki og hefur aldrei verið nema blaðra sem best er látin alveg óáreitt. Það mun farsælast.

Það er einmitt hugarfar eins og Eyjólfs Kjalars, virðingarleysið fyrir andstæðingum (sem hann telur ekki menn með full réttindi, tilfinningar, vit og vilja, verur af holdi og blóði, heldur aðeins „blöðrur“), sem ryður brautina til alræðis, hvort sem það er síðan kennt við nasisma eða kommúnisma.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband