31.7.2012 | 06:55
Hvers vegna er Stefán Ólafsson með mig á heilanum?
Stefán er líka óánægður með það, að ég kom upp um eina talnabrellu hans. Hann hafði mótmælt staðhæfingum Árna Mathiesens fjármálaráðherra um, að á Norðurlöndum væru tekjur lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Íslandi árið 2004. Stefán kvað svo ekki vera og deildi með fjölda lífeyrisþega í heildargreiðslur lífeyris og fékk út lægri meðaltekjur þeirra. En hann gáði ekki að því, að hann deildi í raun í heildargreiðslurnar með fjölda fólks á lífeyrisaldri, ekki fjölda lífeyrisþega. Á Íslandi vinnur fjöldi fólks á lífeyrisaldri og þiggur ekki lífeyri. Það ár, sem um var að ræða, voru lífeyrisþegar 26.000, en fólk á lífeyrisaldri 31.000. Ég hef síðan í gamni kallað Stefán Mr. Five Thousand: Það er ekki ónýtt að geta lækkað tölu með að bæta fimm þúsund við í nefnarann.
Stefán er einnig óánægður með það, að ég kom upp um villu í útreikningum hans á tekjuskiptingu á Íslandi borið saman við grannríkin. Hann hafði reiknað út Gini-stuðul fyrir Norðurlöndin, þar á meðal Ísland, og Bretland og Bandaríkin, og komist að þeirri niðurstöðu, að stuðullinn hefði hækkað mjög á Íslandi árin 19952004, en það merkir, að tekjuskiptingin var orðin ójafnari, breiðara bil á milli ríkra og fátækra. En hann hafði tekið með í tölunum um Ísland það, sem sleppt var í tölunum fyrir aðrar þjóðir, sem var söluhagnaður af hlutabréfum. Breytti það miklu um niðurstöðuna. Hann bar því saman epli og appelsínur, ekki íslensk epli og dönsk epli. Útreikningar hans á Gini-stuðlum voru marklausir, rangir.
Allir gera mistök. Ég fór til dæmis of nálægt textum Halldórs Kiljans Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, þótt ég væri þar í góðri trú og gerði hið sama og aðrir höfðu einmitt hælt Laxness fyrir. En ég viðurkenndi þessi mistök mín og bætti um betur. Stefán Ólafsson hefur aldrei viðurkennt nein mistök sín. Hann hefur aldrei beðist afsökunar á trúnaðarbroti sínu sem forstöðumanns Félagsvísindastofnunar. Hann hefur aldrei bætt fyrir talnabrellu sína um lífeyristekjur. Hann hefur aldrei leiðrétt villu sína í útreikningum á Gini-stuðlum. Hann ræðst hins vegar á mig af þeirri hörku, að fólki finnst, að hann sé með mig á heilanum. Ég hef hér reynt að skýra þessa hegðun hans.
25.7.2012 | 09:26
Þeir færðust til vinstri, ekki Bjarni til hægri
Nú kyrja þeir fáu, sem enn treysta sér til þess að verja vinstri stjórnina, saman í einum kór, að Bjarni Benediktsson hafi færst til hægri með því að gagnrýna óhófleg ríkisútgjöld. Og sumir fjölmiðlar taka undir.
Uppgjör ríkisreikninga sýnir, að frá því að vinstri stjórnin tók við 2009, hefur hún safnað feikilegum skuldum, sem hún ætlar að velta yfir á næsta kjörtímabil. Hún er engu betri en bankamennirnir fyrir fall bankanna, sem harðast voru gagnrýndir fyrir óhóflegar lántökur. Take the money and run, eins og sagt var, eða: Syndafallið kemur eftir minn dag.
Í raun og veru hafa íslenskir vinstri menn farið langt til vinstri síðustu misseri. Það sýndu til dæmis viðbrögð þeirra við bókum okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um ágreining jafnaðarmanna og kommúnista í íslenskri vinstri hreyfingu árin 19181938. Sá ágreiningur snerist um, hvort virða ætti lýðræði eins og jafnaðarmenn vildu eða beita ofbeldi, þegar þess þyrfti með, eins og kommúnistar kröfðust. Inn í það fléttaðist síðan ágreiningur um afstöðuna til einræðisríkisins mikla í austri, sem Lenín og Stalín stjórnuðu.
Svo virðist, ef marka má nýlegar greinar í Tímariti Máls og menningar og Herðubreið, sem vinstri menn á Íslandi taki sér stöðu með gömlu kommúnistunum gegn gömlu jafnaðarmönnunum, en bækur okkar þriggja um þetta tímabil sýna, að margar ásakanir jafnaðarmanna á hendur kommúnistum í hinum sögulegu átökum þessa tímabils voru réttar. Eins og fram hefur komið opinberlega, hyggst ég svara þeim greinum á næstunni.
23.7.2012 | 08:01
Hvers vegna sitja þeir heima?
Hátt í tuttugu þúsund manns hafa verið myrt í Sýrlandi að sögn fjölmiðla. Stjórnvöld reka pyndingakjallara á mörgum stöðum í landinu.
Um allan heim er kúgunin í Sýrlandi fordæmd. En kínversku og rússnesku stjórnirnar koma í veg fyrir ályktanir um málið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þær líta á Sýrlandsstjórn sem bandamann.
En hvar eru hinir íslensku vinir Araba? Hvers vegna sést ekki einn einasti mótmælandi við kínverska sendiráðið til að mótmæla stuðningi Kína við Sýrlandsstjórn? Eða við rússneska sendiráðið af sömu ástæðu?
Óteljandi eru þær ferðir, sem íslenskir vinir Araba hafa gert sér að sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík til að mótmæla því, þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis í samskiptum Ísraelsmanna og Palestínu-Araba. Er þá Bandaríkjastjórn jafnan kennt um, því að hún hefur veitt Ísrael öflugan stuðning.
En strætin fyrir fram sendiráð þeirra tveggja ríkja, sem veita Sýrlandsstjórn stuðning og koma í veg fyrir ályktanir og aðgerðir gegn þeim, eru auð, mannlaus, tómleg. Enginn Sveinn Rúnar Hauksson heldur á spjaldi fyrir framan sendiráð Rússlands. Enginn Viðar Þorsteinsson steytir hnefa í átt til sendiráðs Kína.
Læðist ekki grunur að fleirum en mér um það, að ást sumra Íslendinga á Palestínu-Aröbum sé ekki ást á kúguðum og undirokuðum Aröbum í Austurlöndum nær, heldur hatur á Bandaríkjunum? Og þar sem ekki sé unnt að saka Bandaríkin um kúgunina í Sýrlandi, sitji vinir Arabanna heima?
22.7.2012 | 09:08
Ég er kominn á Youtube!
Nú hefur frjálshyggjudeild Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hélt góðan fund um hægri stefnu á dögunum, sett ræðu mína þar á Netið, nánar tiltekið á Youtube.
Ég rek þar fjögur áhersluatriði:
- Skatta og tekjudreifingu
- Auðlindanýtingu og umhverfisvernd
- Nýsköpun og framkvæmdamenn
- Minninguna um fórnarlömbin
Nýstofnað Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt mun vonandi geta unnið að þessum verkefnum. Fyrsti fundurinn á hennar vegum (sem haldinn er í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands) verður föstudaginn 27. júlí kl. 17.30 í Öskju, stofu 132, þar sem dr. Matt Ridley, einn kunnasti rithöfundur Breta, mun mæla fyrir bjartsýni af skynsemisástæðum.
19.7.2012 | 16:03
Hvers vegna þegja þeir um þetta hneyksli?
Á stuðning okkar við málfrelsi reynir ekki, þegar aðrir segjast vera sammála okkur. Á hann reynir, þegar aðrir láta í ljós skoðanir, sem við getum ekki tekið undir og teljum jafnvel alrangar. Snorri í Betel sagði á heimasíðu sinni:
Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.
Fyrir þessi ummæli er hann rekinn úr kennarastarfi á Akureyri. Ég er ekki sammála Snorra í Betel, satt að segja algerlega ósammála honum, en hann átti rétt á þessari skoðun. Hann lýsir afstöðu tiltekinna trúarsafnaða til tiltekins hóps án þess að hvetja á neinn hátt til þess, að þeim hópi sé gert mein.
Ummælin féllu ekki heldur í kennslustund, heldur inni á heimasíðu hans, sem menn urðu að heimsækja sérstaklega til þess að geta lesið þau.
Auðvitað getur þurft að setja hömlur á málfrelsi kennara. Ef slíkur maður er til dæmis nasisti eða kommúnisti og vísar því á bug, sem sannað er, að Hitler, Stalín og Maó hafi verið einhverjir grimmustu fjöldamorðingjar sögunnar, og fullyrðir jafnframt, að helfarir hinna ólánssömu þegna þeirra hafi aldrei farið fram, þá er ástæða til að staldra við. Ef hann hvetur til ofbeldis og illvirkja, til dæmis blóðugra mótmælaaðgerða gegn gyðingum eða borgarastéttinni, þá hefur líka verið stigið skref í átt frá ógeðfelldri skoðun til ólöglegs verknaðar.
Og hvar á þetta að enda? Áskell Örn Kárason, sálfræðingur og yfirmaður barnaverndar á Akureyri, skrifaði inn á Facebook-síðu vegna áfloga á leikvelli, þar sem svartur maður og hvítur áttust við (23. febrúar 2011): Djös. svertingjar. Á að reka hann líka?
Brottrekstur Snorra er hneyksli. En hvers vegna þegja allir málfrelsispostularnir, sem jafnan eru hinir háværustu, um málið? Hvar er málfrelsissjóður Páls Skúlasonar? Hvenær blogga Illugi Jökulsson og félagar hans um þetta? Eigum við von á grein frá Guðmundi Andra?Rósa Lúxemburg sagði, að frelsið væri ætíð frelsi þeirra, sem hugsa öðru vísi. Hún hafði rétt fyrir sér. Menn þurfa ekki frelsi til að vera samþykkir rétttrúnaði hvers tíma. Þá þurfa þeir aðeins að kunna eftiröpunarlistina.
18.7.2012 | 06:54
Öfugþróun
Þeir sátu að drykkju og deildu hátt
á Darwins þróunarfræðin öll:
Slíkar hugmyndir næðu engri átt,
svo að ekki sé talað um mennskuspjöll.
Þeir drukku lengi og drukku stórum,
dálítið reikulir kvöddust hér,
og dæstu þungt, er þeir fóru á fjórum
fótum upp stigana heima hjá sér.
Ekki hefur mér tekist að finna þýðandann, en á þýsku kom kvæðið út í Kritik der Herzen 1874.
Einar H. Kvaran notaði svipaða hugmynd í svari til manns, sem andmælti þróunarkenningunni:
Þú segir, allt sé orðið vesalt þá,
ef ættargöfgi vorri þannig töpum.
Hitt er þó miklu verri sjón að sjá,
er synir manna verða'að heimskum öpum.
Einar orti raunar líka vísu, eftir að honum hafði sinnast við Boga Th. Melsteð sagnfræðing:
Illt var ei Darwin auðnaðist
á þér skoltinn, Bogi, að kanna.
Þá hefði sönnun fengist fyrst
fyrir skyldleika apa og manna.
(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 8. júlí 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:55 | Slóð | Facebook
17.7.2012 | 11:35
Hvað merkir J-ið í nafni Steingríms J. Sigfússonar?
Öðru hverju er eins og fólkið, sem skrifar reglulega á Netið, missi stjórn á sér og hlaupi eftir einhverjum órum. Þetta gerðist fimmtudaginn 12. júlí. Þá hafði í Staksteinum Morgunblaðsins verið sagt, að menn vissu, hvað J-ið í nafni Steingríms J. Sigfússonar merkti. Eiður Guðnason kastaði því óðar fram á bloggi sínu á DV, að Staksteinahöfundur ætti við Júdas. Egill Helgason greip þetta á lofti og var hinn reiðasti, einnig Baldur Þórhallsson, samkennari minn, og margir fleiri. Náðu þeir vart andanum fyrir hneykslun á því, hvernig Davíð Oddsson skrifaði um Steingrím.
En Eiður Guðnason getur ekki lagt Davíð Oddssyni orð í munn. Ég las þessa Staksteina og gat mér fyrst til um, að höfundur hefði í huga Jójó, því að Steingrímur J. Sigfússon hefur sveiflast fram og aftur í ýmsum málum, til dæmis Icesave-málinu og ESB-málinu. En ég held, að gamanið hafi jafnvel verið meinlausara. Steingrímur heitir Steingrímur Jóhann, og frá því er ekki langt í Steingrím Jóhönnu, því að hann hefur verið henni mjög fylgispakur, eins og dæmin sanna.
En hvar voru allir þessir vandlætarar, þegar Steingrímur J. lagði hendur á Geir H. Haarde á þingi? Eða þegar hann kallaði Davíð Oddsson druslu og gungu úr ræðustól þingsins, af því að Davíð nennti ekki að hlusta í tuttugasta skipti á sömu ræðuna standa upp úr Steingrími?
15.7.2012 | 07:22
Takið frá föstudaginn 27. júlí
14.7.2012 | 18:08
Ættir á Íslandi
Jón Baldvin Hannibalsson hélt því eitt sinn fram, að fjölskyldurnar fjórtán ættu Ísland. Hann skýrði ekki nánar, hverjar þær væru, enda tók hann orðið traustataki frá El Salvador, þar sem iðulega var talað um Las catorce familias.
Greining Jóns Baldvins er ekki eins einföld og danska þjónsins á einni Kaupmannahafnarkránni á nítjándu öld. Hann skipti íslenskum stúdentum í tvo hópa, Briemere og Bløndalere, og sagði hin fleygu orð: Briemerne, de er gode betalere, men dårlige sangere. Bløndalerne, de er gode sangere, men dårlige betalere.
Sjálfur var Jón Baldvin raunar af einni af valdaættum Íslands á tuttugustu öld. Faðir hans, Hannibal Valdimarsson, var formaður þriggja stjórnmálaflokka, forseti Alþýðusambands Íslands og ráðherra. Föðurbróðir Jóns Baldvins var bankastjóri og þingmaður. Bróðir Jóns Baldvins er faðir forsetaframbjóðandans Þóru Arnórsdóttur.
Líklega var ein ættin, sem Jón Baldvin hefði getað nefnt, Thorsararnir, afkomendur stórútgerðarmannsins Thors Jensens. Meinlegt var svar Steins Steinarrs, þegar hann var spurður, hvað honum fyndist um skáldskap Thors Vilhjálmssonar, dóttursonar Thors Jensens: Það veit ég ekki, en það er gaman, að Thors-ættin skuli vera farin að yrkja.
Ekki var það síður meinlegt, sem ónefndur maður sagði í samkvæmi í Reykjavík, þegar maður af Gautlandaætt raupaði af ætterni sínu, en tveir menn af þeirri ætt voru ráðherrar á öndverðri tuttugustu öld: Gautlandaættin er eins og kartöflugras. Hið besta af henni er neðanjarðar. Er þessi fyndni líklega komin frá enska skáldinu Sir Thomas Overby, sem skrifaði í Characters (Manngerðum) árið 1614: Maður, sem getur ekki hrósað sér af öðru en merkum forfeðrum, er eins og kartöflugras, hið besta úr honum er neðanjarðar.
(Þessir fróðleiksmolar birtust í Morgunblaðinu 1. júlí 2012 og eru sóttir í ýmsa staði í 992 bls. bók mína frá 2010, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, en tilvalið er að líta inn í bókabúð og kaupa hana og taka með sér upp í sumarbústað til að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa á kvöldin, eftir grillveisluna.)11.7.2012 | 10:17
Jón Sigurðsson var frjálshyggjumaður
Jón Sigurðsson fæddist sem kunnugt er á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811, fyrir 201 ári. Það er engin tilviljun, að hann gerðist leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, því að í fari hans var sjaldgæft jafnvægi kappsemi og hófsemi, vöku, sem unir hlutskipti sínu, og draums, sem vill rætast.
Allir vita, að Jón vildi sækja rétt í hendur Dana. En rétt til hvers? Hver var stjórnmálaskoðun Jóns?
Því er fljótsvarað. Hann var frjálshyggjumaður. Hann dáðist að því, hvernig Bretar takmörkuðu ríkisvaldið með því að dreifa því og skorða það við siði og venjur. Hann hafi lesið með skilningi og alúð rit Jean-Baptiste Says, sem var einn kunnasti lærisveinn Adams Smiths á meginlandi Norðurálfunnar.
Jón skrifaði 1841: Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu (þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram. Enn sagði hann: Að líkum hætti má atvinnufrelsi og verslunarfrelsi ekki missa, þar sem nokkuð fjör og dugnaður á að komast á fót, og má í því skyni ekki hafa stundarskaða nokkurra manna fyrir augum, heldur gagn alþýðu bæði í bráð og lengd.
Jón skrifaði bróður sínum 1866: Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti. Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn.
Skýrar verður skoðun Jóns varla lýst. Hún er þveröfug við þá, sem núverandi valdhafar á Íslandi hafa, en í þeirra sögu renna öll vötn til Dýrafjarðar.