24 stundir, Sverrir Stormsker og Mannlíf

Ég svaraði í 24 stundum laugardaginn 28. júní 2008 nokkrum athugasemdum bloggara um mig í vikulegum þætti, sem blaðið hefur hleypt af stað, þar sem menn svara ummælum annarra bloggara um þá. Skoða má viðtalið hér. Ég var í þætti Sverris Stormskers, Miðjunni, á Útvarpi Sögu, FM 99,4, tvo miðvikudaga, 11. og 18. júní, þar sem hann spurði mig spjörunum úr. Sverrir hefur sett upptökurnar á heimasíðu sína.

ml0807aÉg svaraði einnig spurningu Mannlífs um, hver væri áhrifamesti Íslendingurinn. Mannlíf hefur það ekki alveg nákvæmlega eftir í síðasta hefti sínu, því að tímaritið segir, að ég hafi nefnt Davíð Oddsson einan áhrifamestan, en sannleikurinn er sá, að ég nefndi þrjá menn, hann og þá Björgólf Guðmundsson og Geir H. Haarde, og treysti mér ekki til að gera upp á milli þeirra um áhrif. Hér er tölvuskeytið, sem ég sendi Sigurjóni M. Egilssyni, ritstjóra Mannlífs:

Ég treysti mér ekki til að gera upp á milli þessara þriggja manna og raða þeim þess vegna í stafrófsröð:

1-3. Björgólfur Guðmundsson

1-3. Davíð Oddsson

1-3. Geir H. Haarde

Rökstuðningur um hvern og einn (má hafa eftir mér, en ekki eins og ég hafi raðað viðkomandi manni í eitthvert eitt sæti af þremur):

Björgólfur Guðmundsson er ekki aðeins einn ríkasti Íslendingur, sem uppi hefur verið, eigandi banka og margra annarra fyrirtækja og fjölmiðla, heldur hefur hann líka öðlast mikið siðferðilegt áhrifavald. Hann er góðgjarn og skynsamur, og menn hlusta á hann. Hann er öðrum fyrirmynd, af því að hann er lifandi dæmi um það, að menn geta ratað í mikla erfiðleika, en brotist út úr þeim aftur og jafnvel orðið meiri og betri menn.

Davíð Oddsson er svo öflugur maður, að hann hefur ekki glatað áhrifum sínum, þótt hann sé ekki lengur í fylkingarbrjósti í stjórnmálum. Rætur áhrifa hans eru tvíþættar. Í fyrsta lagi nýtur hann mikillar virðingar og trausts þorra þjóðarinnar, þótt orðastrákar á kaupi hjá óvinum hans reyni að gera lítið úr því. Menn vita, hversu heill Davíð er og heiðarlegur, hreinn og beinn og hræsnislaus. Í öðru lagi gegnir Davíð auðvitað enn lykilstöðu sem bankastjóri Seðlabankans. Hann hefur átt drjúgan þátt í því, að bankarnir virðast vera að komast út úr þeirri kreppu, sem þeir voru í. Vandlega er hlustað á Davíð í hinum alþjóðlega peninga- og bankaheimi. Fátt væri fjær Davíð en að láta gamlar væringar stjórna sér, þegar til kastanna kemur.

Geir H. Haarde hefur á stuttum ferli sínum sem forsætisráðherra bætt mjög við það traust, sem hann vann sér sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hann er friðsamur og laginn, og þess vegna fer minna fyrir áhrifum hans en margra annarra, sem hærra gala. En hann er fastur fyrir, þegar á reynir. Öll þjóðin veit, þegar hún sér Geir, að hann vill vel og vinnur vel. Hann hefur líka góða menntun og er ákaflega frambærilegur. Það er til slíkra manna, sem leitað er á úrslitastundum.
 


Fleiri virkjanir!

KarahnjukavirkjunEnn fjölgar uppsögnum. Fátt er ömurlegra en fá uppsagnarbréf í hendur. Síðustu ár hefur að vísu verið auðvelt að útvega sér aðra vinnu, en það er smám saman að breytast. Samdráttur atvinnulífsins er að segja til sín. Hann var að sumu leyti fyrirsjáanlegur eftir hinar miklu virkjunarframkvæmdir á hálendinu. En Íslendingar voru svo óheppnir, að um leið skall á hörð lánsfjárkreppa í heiminum, og til að bæta gráu ofan á svart hækkuðu stórkostlega á alþjóðamarkaði tvær lífsnauðsynjar, matvæli og eldsneyti.

Við getum ekki gert að þessum erfiðleikum. En það merkir ekki, að við getum ekkert gert til að minnka þá. Í kínversku má með einu pennastriki breyta táknunum fyrir kreppu í tákn fyrir tækifæri. Í fyrsta lagi er til hefðbundið úrræði, sem hagfræðingar mæla jafnan með í samdrætti. Það er að lækka skatta á fyrirtækjum og fólki. Þá eykst ráðstöfunarfé fólks og með því væntanlega fjárfesting og neysla. Bílar og hús verða ekki lengur óseljanleg. Nú er rétti tíminn til að lækka skatta myndarlega, til dæmis um 3% á fyrirtækjum, í 12%, og um 6% á þann hluta tekjuskattsins, sem ríkið fær, í 17%.

Annað hefðbundið úrræði er til í niðursveiflu, að auka nytsamlegar framkvæmdir. Ég er enginn áhugamaður um opinberar framkvæmdir, en hlýt að viðurkenna, að nýlegar vegabætur á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi auðvelda lífið og tengja saman byggðir frá Snæfellsnesi í Vík í Mýrdal, svo að þær mynda allt að því einn markað, og það er æskilegt frá sjónarmiði frjálshyggjumanna séð. Því stærri sem markaðurinn er, því betri skilyrði eru til frjálsrar samkeppni. Þetta hefur raunar komið vel í ljós, því að talsvert er keppt um jarðir á þessu svæði, svo að þær hafa hækkað í verði. Samgöngubætur hafa margvíslegar aðrar jákvæðar afleiðingar, ekki allar sýnilegar eða mælanlegar.

Þriðja úrræðið blasir við. Þar er tækifærið. Skyndilega hefur myndast skortur á orku í heiminum. Við Íslendingar eigum tvenns konar orkugjafa, fallvötnin og jarðvarmann, sem við höfum nýtt með góðum árangri. Þessir orkugjafar eru öðrum umhverfisvænni, einkum fallvötnin, og prýði er að þeim stöðuvötnum, sem myndast hafa á hálendinu sem uppistöðulón virkjana. Orkufrek fyrirtæki erlend hafa mikinn áhuga á viðskiptum við Íslendinga. Við eigum þess vegna að snarfjölga virkjunum á Íslandi og minnka með því fyrirsjáanlega erfiðleika næstu missera.

Auðvitað hljóta nýjar virkjanir að lúta þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi verða þær að vera arðbærar. Ástæðulaust er að selja rafmagn á útsöluverði. Í öðru lagi þurfa virkjanirnar sjálfar að vera umhverfisvænar. Í þriðja lagi verða þau fyrirtæki, sem kaupa orkuna, hvort sem þau reka álver, járnblendiverksmiðjur eða netþjóna, líka að vera umhverfisvæn. Sem betur fer hefur mengun frá álverum stórlega minnkað með nýjum tæknibúnaði, svo að ekki þarf að hafa af þessu verulegar áhyggjur.

Við megum ekki snúa bakinu við því fólki, sem hefur fengið uppsagnarbréf síðustu mánuði, eða hinu, sem á von á slíkum sendingum. Draumlyndir sveimhugar íslenskir halda, að rétta ráðið gegn myrkrinu sé að syngja um ljósið. Hitt er miklu skynsamlegra, að kveikja á ljósum. Hér eru ljósin fjögur skattalækkanir, vegabætur og virkjanir vatnsafls og jarðvarma.

Fréttablaðið 27. júní 2008. 


Alþingi götunnar og krossfestingar

I.

MagnusKjMagnús Kjartansson var ritstjóri Þjóðviljans 1947-1971, en einnig alþingismaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið. Hann hafði verið afbragðsnámsmaður í menntaskóla og lagði stund á verkfræði í Kaupmannahöfn fyrir stríð, hvarf frá því og stundaði síðan um skeið norrænunám í Kaupmannahöfn, Lundi og Stokkhólmi, en lauk ekki prófi. Hann þótti skömmóttur í skrifum, og kallaði dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra daglegan dálk hans í Þjóðviljanum „Meinhornið“. Magnús átti tvenn fleyg ummæli, og minntist Guðmundur Magnússon sagnfræðingur á önnur hér í vorhefti Þjóðmála: „Alþingi götunnar.“ Tildrög voru þau, að „hernámsandstæðingar“, sem svo nefndu sig, höfðu farið í göngu til að mótmæla dvöl varnarliðs á Miðnesheiði. Magnús birti um þetta leiðara í blað sitt 21. júní 1960 undir nafninu „Sigurgangan“, þar sem hann vék í lokin nokkrum orðum að ráðherrum og alþingismönnum þjóðarinnar: „Þegar þeir bregðast, ber fólkinu í landinu, alþingi götunnar, stjórnarráði heimilanna, að taka ákvarðanir sínar og tryggja með baráttu, að þær verði framkvæmdar.“ Skáletraði Magnús þessi orð til áhersluauka.

Morgunblaðið tók orð Magnúsar óstinnt upp. Birti það 14. júlí 1960 heldur ófagra mynd af áflogum kommúnista og nýfasista á Ítalíu og sagði í myndatexta: „Hér hefur „Alþingi götunnar“, sem ritstjóri Þjóðviljans vildi fá til valda hérlendis í ræðu sinni að „göngunni“ lokinni, greinilega látið nokkuð til sín taka.“ Dr. Bjarni Benediktsson vitnaði einnig í orð Magnúsar af nokkurri vanþóknun í „Reykjavíkurbréfi“ 24. júlí og oft eftir það. Magnús brá við og birti 9. ágúst heilan leiðara undir heitinu „Alþingi götunnar“ í Þjóðviljanum. Þar sagði hann meðal annars: „Alþingi götunnar er einföld og auðskilin umritun á orðinu lýðræði, því stjórnarfari að lýðurinn ráði.“ Morgunblaðið var að vonum ekki sammála. Í „Staksteinum“ daginn eftir sagði: „Með þessu áttu kommúnistar við, eins og glöggt kom fram hjá þeim, að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum landsins yrði steypt af stóli og ofbeldi og einræði hafið til vegs.“

Leið nú að hausti. Nokkur styrr stóð um landhelgissamning við Breta, og notuðu „hernámsandstæðingar“ tækifærið til að vekja athygli á málstað sínum. Þegar þeir efndu til mótmælafundar fyrir utan Alþingishúsið við setningu Alþingis 10. október 1960, birti Morgunblaðið frétt undir fyrirsögninni „„Alþingi götunnar“ reynir að trufla þingstörf“. Daginn eftir fylgdi blaðið fréttinni eftir með leiðara um, að ofbeldismönnum yrði ekki leyft að trufla störf Alþingis. Magnús Kjartansson samdi enn einn leiðarann um málið í Þjóðviljanum 12. október 1960 og sagði í lokin: „Og því aðeins er hið kjörna Alþingi Íslendinga starfi sínu vaxið, að það hafi hið fyllsta samráð við alþingi götunnar, virði að fullu ákvarðanir alþýðu manna.“ Var oft eftir þetta vitnað í ummæli Magnúsar, ekki síst í Morgunblaðinu.

Ummæli Magnúsar má eflaust rekja til frægra orða sænska jafnaðarmannsins Zeths Höglund, sem uppi var frá 1884 til 1956. Höglund gerðist ungur róttækur, gekk í Jafnaðarmannaflokkinn 1904 og var kjörinn á þing 1914. Hann var rekinn úr flokknum snemma árs 1917 og stofnaði þá flokk vinstrisósíalista, sem síðar breyttist í kommúnistaflokk Svíþjóðar. Þegar rætt var um útfærslu kosningarréttar á þingi 5. júní 1917, beið mikill mannfjöldi fyrir utan þinghúsið. Höglund lauk ræðu sinni svo: „Leve gatans parlament!“ (Lifi alþingi götunnar!) Honum þótti kommúnistaflokkurinn hins vegar of hallur undir ráðstjórnina rússnesku, hraktist úr honum 1924 og gekk ásamt félaga sínum Fredrik Ström (sem kom nokkuð við sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar) aftur í Jafnaðarmannaflokkinn 1926. Höglund var borgarstjóri í Stokkhólmi 1940-1950. Dr. Benjamín Eiríksson, sem stundaði um skeið nám í Stokkhólmi, minnist á Höglund í endurminningum sínum, sem ég skráði 1996. Hann segir þar, að forystumenn Alþýðuflokksins hefðu átt að taka Héðni Valdimarssyni fagnandi 1939, þegar hann hraktist úr Sósíalistaflokknum, eins og sænskir jafnaðarmenn hefðu tekið Höglund og Ström.


II.


Hin ummæli Magnúsar Kjartanssonar, sem fleyg hafa orðið, birtust í Þjóðviljanum hálfu ári áður. Í árslok 1959 var gert uppskátt um svonefnt Olíufélagsmál, en tvö samvinnufyrirtæki, sem seldu olíu til varnarliðsins á Miðnesheiði, höfðu orðið uppvís að því að brjóta hinar ströngu reglur, sem þá giltu um gjaldeyrisskil og tollafgreiðslu. Haukur Hvannberg, forstjóri Hins íslenska steinolíuhlutafélags, hafði játað á sig sök, en Vilhjálmur Þór, sem hafði verið forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, en síðan gerst bankastjóri Landsbankans, neitað aðild að málinu. Eftir nokkurra ára rannsókn og réttarhöld var Haukur dæmdur í fangelsi, en Vilhjálmur sýknaður, þar sem hugsanleg sök hans var talin fyrnd. Jón Pálmason alþingismaður orti landskunna vísu af þessu tilefni:

Vilhjálmur hlýtur vegleg laun,
valinn til æðstu ráða,
en Haukur er látinn á Litla-Hraun,
lagður inn fyrir báða.

Hefði sumt af því, sem Haukur var dæmdur fyrir, nú ekki verið saknæmt og því síður refsivert, til dæmis að geyma fé á erlendum bankareikningum.

Þjóðviljinn krafðist þess á forsíðu 20. desember 1959, að Vilhjálmur Þór viki úr bankastjórastarfi vegna Olíufélagsmálsins, og inni í blaðinu rifjaði Magnús Kjartansson upp, að Vilhjálmur hefði hlotið fjölda heiðursmerkja. Þetta væri til marks um, hversu mannkyninu hefði miðað í sókn til fullkomnunar: „Áður voru ræningjar festir á krossa; nú eru krossar festir á ræningja.“ Eru þetta sennilega frægustu orð Magnúsar.

Þau eru þó ekki eins frumleg og þau eru snjöll. Kveikjan að orðum Magnúsar kemur eflaust frá nafna hans Ásgeirssyni eða Þórbergi meistara Þórðarsyni. Magnús Ásgeirsson birti kvæðið „Krossfestingu“ í ljóðabókinni Síðkveldi, sem kom út 1923. Þar sagði í lokin:

Og víst er ei líkingin lítil,
þótt líti ég í henni brestinn.
Því Kristur var festur á krossinn,
en krossinn var festur á prestinn.

Þórbergur skrifaði í „Opnu bréfi til Árna Sigurðssonar“, sem dagsett var á Ísafirði 14. september 1925 og þáttur í miklum þrætum hans vegna Bréfs til Láru: „Kristur endaði sína á krossi. Þér endið ævi yðar með krossi.“

Sennilegast er, að Magnús Ásgeirsson og meistari Þórbergur sæki líkinguna báðir í smásögu eftir Jón Trausta, „Séra Keli.“ Þar segir frá séra Þorkeli, sem misst hafði hempuna sakir ofdrykkju og segir nokkur vel valin orð á fundi presta: „Sá, sem við þjónum allir og kennum okkur við, spurði ekki um launin, meðan hann dvaldi hér á jörðinni. Launin hans voru þyrnikóróna og húðstroka, og hann bar sinn kross — ekki á brjóstinu, eins og prófasturinn þarna, heldur á blóðugu bakinu og vanmegnaðist undir honum.“

Það er aukaatriði, hvort þeir Þórbergur Þórðarson og Magnús Ásgeirsson hafa sjálfir vitað af því, að þeir unnu úr hugmynd Jóns Trausta. Hitt skiptir meira máli, hvernig líkingin hefur á leið sinni náð fullkomnun, orðið meitlaðri, skýrari, snjallari. Magnús Kjartansson lagar hana síðan að eigin þörfum, svo að ádeilan á kirkjunnar menn hverfur. Hann beinir sjónum að ræningjunum tveimur, sem krossfestir voru með Kristi, og virðist raunar telja, að þeir hafi hlotið makleg málagjöld ólíkt Vilhjálmi Þór. En úr því að Magnús haslaði sér völl í Jórsölum forðum, er hollt að muna, að þar kaus Alþingi götunnar Barrabas, en ekki Krist.

Þjóðmál, vorhefti 2008.

Heimildir:
Eiríkur Jónsson, fyrrv. kennari. Munnlegar upplýsingar.
Guðmundur Magnússon: „Ákafafólk og opinberir fundir,“ Þjóðmál, vorhefti 2008.
Hannes H. Gissurarson: Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða. Bókafélagið, Reykjavík 1996.
Hannes H. Gissurarson: Kjarni málsins (óútgefið tilvitnanasafn).
Jón Trausti: Ritsafn, II. bindi. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Reykjavík 1960.
Magnús Ásgeirsson: Ljóðasafn, I. bindi. Helgafell, Reykjavík 1975.
Morgunblaðið (aðgengilegt á Netinu, http://www.timarit.is).
Þjóðviljinn (aðgengilegur á Netinu, http://www.timarit.is).
Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Mál og menning, Reykjavík 1975 (m. a. bréfið til Árna Sigurðssonar).


Sabína-rökvillan

462px-Håkonshallen_1Vilhjálmur var maður nefndur, kardínáli af Sabína. Hann var uppi á þrettándu öld og sendur til Noregs 1247 til að krýna Hákon konung gamla. Þá voru þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson staddur við hirð konungs og fluttu mál sitt fyrir kardínálanum. Vilhjálmur af Sabína „kallaði það ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“, eins og segir í Hákonar sögu. Þetta er algeng röksemd: Einn verður að gera eitthvað, af því að allir aðrir gera það.

Röksemd Vilhjálms af Sabína er óspart notuð í umræðum um Evrópusambandið. Við þurfum að ganga í það, af því að allir aðrir eru í því. Nú er það að vísu svo, að tvær ríkustu þjóðir Evrópu eru ekki í Evrópusambandinu. Svisslendingar láta sig ekki dreyma um inngöngu, og aðild hefur tvisvar verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Noregi. Ástæður Svisslendinga og Norðmanna til þess að standa utan Evrópusambandsins eru hinar sömu og Íslendinga. Þessar þjóðir hafa með samningum tryggt sér óhindraðan aðgang að mörkuðum Evrópuríkjanna, svo að engin nauður rekur þær inn í Evrópusambandið. Um leið vita þær, að þær yrðu vegna auðlegðar sinnar að bera feikilegan kostnað af aðild.

Í mínum huga er röksemd Vilhjálms af Sabína nær því að vera rökvilla en sjálfstæð röksemd. Við þurftum ekki 1247 að þjóna undir konung, þótt allar aðrar þjóðir gerðu það. Ólán okkar þá var, að við vorum sjálfum okkur sundurþykk, svo að þjóðveldið brast. Eins þurfum við ekki nú að beygja okkur undir ráðamenn í Brüssel, þótt flestar aðrar Evrópuþjóðir geri það. Spurningin nú er, hvaða brýna nauðsyn knýr okkur inn í Evrópusambandið. Ég kem ekki auga á hana, þótt vitaskuld myndi aðild ekki merkja heimsendi, eins og dæmi Dana, Svía og Finna sýna vel.

Meginröksemdin fyrir aðild er ógild. Hún er, að við þyrftum að hafa áhrif á þær ákvarðanir, sem okkur varða og teknar eru í Brüssel. Hvort sem við værum í Evrópusambandinu eða ekki, myndum við lítil sem engin áhrif hafa á mikilvægar ákvarðanir stórþjóðanna, fremur en aðrar smáþjóðir fyrr og síðar. Lítt er að marka kurteisishjal í Brüssel við gesti, sem síðan hafa sjálfir hagsmuni af því heima fyrir að ýkja áhrif sín.

Önnur meginröksemdin gegn aðild hefur þegar verið nefnd, sem er hinn mikli og óþarfi kostnaður af henni. Hin meginröksemdin er líka gild: Við myndum afsala okkur yfirráðum yfir fiskistofnunum á Íslandsmiðum í hendur ráðamanna í Brüssel. Það er afdráttarlaus og undantekningarlaus stefna þeirra, staðfest í sáttmálum og óteljandi yfirlýsingum, að auðlindir Evrópusambandsríkjanna séu sameiginlegar. Við fengjum eflaust einkaaðgang að Íslandsmiðum í einhvern tíma, en sá aðgangur yrði fyrir náð Brüssel-manna, ekki réttur okkar. Það, sem verra er: Evrópusambandið fylgir óhagkvæmri fiskveiðistefnu, sem hefur skilað lökum árangri.

Sú röksemd, að Brüssel-menn myndu vera samvinnuþýðir við okkur í samningum um sjávarútvegsmál (sem er eflaust rétt), minnir raunar á málflutning Loðins lepps, sendimanns Noregskonungs, sem hét Íslendingum 1280 miskunn konungs, ef þeir stæðu ekki á fornum rétti. Hvað sem því líður, eru lífskjör í víðum skilningi hin bestu í heimi á Íslandi samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega voru kynntar. Þótt á móti blási um stund vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og þó minna en í mörgum grannlöndum, er ástæðulaust að hlaupa í fangið á Vilhjálmi af Sabína, Loðni lepp og sálufélögum þeirra.

Fréttablaðið 13. júní 2008. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband