6.6.2011 | 22:32
Drjúgir með sig
Líklega telja allir þeir, sem sækjast eftir þingsetu, sjálfa sig merkari en flest annað fólk, svo að ekki sé á þá minnst, sem kjöri ná. En þeir fara misjafnlega vel með hið mikla sjálfsálit sitt. Stundum hrekkur eitthvað úr munni þeirra eða penna, sem kemur upp um það.
Eitt dæmi er úr áramótagrein í Alþýðublaðinu 31. desember 1942 eftir Stefán Jóhann Stefánsson, formann Alþýðuflokksins. Eftir þrátefli á Alþingi milli formanna stærstu flokkanna, þeirra Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors, en hvorugur gat unnt hinum þess að verða forsætisráðherra, hafði Sveinn Björnsson ríkisstjóri í nóvember 1942 skipað utanþingsstjórn. Stefán Jóhann skrifaði um hina nýju ráðherra: En hitt er þó vitað, að flesta þá menn, er stjórnina skipa, skortir leikni hinna æfðu stjórnmálamanna.
Var leikni hinna æfðu stjórnmálamanna óspart höfð í flimtingum næstu árin.
Annað dæmi var það, sem Gísli Sveinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Þingvöllum að kvöldi 17. júní 1944 við Vestur-Íslendinginn Valdimar Björnsson: Ja, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi. Gísli hafði sem forseti sameinaðs þings stjórnað athöfninni fyrr um daginn, þegar lýðveldi var stofnað og forseti þess kjörinn.
Mikið gys var gert að oflæti Gísla. Eftir að hann var skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Noregi, barst utanríkisráðuneytinu íslenska dulmálsskeyti frá Pétri Benediktssyni sendiherra, sem var maður gamansamur. Þegar það var ráðið, reyndist textinn vera: Á að stofna lýðveldi í Noregi?
Ekki fór heldur á milli mála, við hvern Björn Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins og frændi minn af Guðlaugsstaðakyni, átti, þegar hann sagði eftir lát Ólafs Thors á gamlársdag 1964: Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.
En til er það einnig, að þingmenn geri ekkert til að leyna sjálfsáliti sínu og metnaði. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti til dæmis eitt sinn yfir á samkomu gamalla nemenda íslenskra í Edinborgarháskóla: Ég er eini Íslendingurinn, sem hef lært til þess að verða forsætisráðherra. Í baráttunni fyrir þingkosningarnar 1987 skopaðist Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra mjög að þessari yfirlýsingu.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem til er í öllum bókabúðum og er hentug útskriftargjöf.)
4.6.2011 | 23:49
Einar Már segir vinstri mönnum til syndanna
Bækur Einars Más Guðmundssonar, Bankastræti 0, og Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, komu út sama daginn. Þær eru ólíkar, en báðar fela í sér uppgjör við Baugstímann í íslenskum stjórnmálum, árin 20042008, þegar fjármálafurstarnir með Jón Ásgeir Jóhannesson í broddi fylkingar réðu öllu á Íslandi, forsetinn var klappstýra þeirra og Samfylkingin hegðaði sér eins og dótturfélag auðhrings.
Bók Einars Más er mjög vel skrifuð eins og við var að búast. Hann er ólíkt mörgum vinum sínum einlægur hugsjónamaður, sem blöskrar, hvernig aðrir vinstri menn hafa svikið stefnu sína.
Hvernig stendur á því, að Steingrímur J. Sigfússon, sem ólmaðist á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skuli vera fjármálaráðherra í ríkisstjórn, sem tekur við fyrirskipunum frá þessum sama sjóði?
Hvers vegna hefur Steingrímur afhent erlendum okurkörlum tvo bankana af þremur að nauðsynjalausu og þvert á markaða stefnu? Hvað gekk honum til?
Hvers vegna beitti Steingrímur sér fyrir því í Icesave-málinu, að ríkið tæki að sér að greiða skuldir óreiðumanna í stað þess að láta þá, sem lánuðu þeim, sitja uppi með tapið?
Einar Már veltir þessum spurningum fyrir sér án þess að komast að niðurstöðu. Hann nefnir engin nöfn (nema helst okkar Davíðs Oddssonar), en auðvitað er skeytum hans beint að þeim skáldum og rithöfundum, sem létu sjálfstæði sitt og reisn í skiptum fyrir sálarlaust silfrið og goldinn verð, svo að orðalag Kommúnistaávarpsins sé notað: Hallgrími Helgasyni, Einari Kárasyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Illuga Jökulssyni og öðrum Baugspennum.
Ólíkt þeim getur Einar Már horft um öxl án þess að roðna.
3.6.2011 | 19:30
Svik VG við kjósendur sína
- Loftárásir á Líbíu.
- Aðlögunarviðræður við ESB.
- Undirlægjuhlutverk við AGS.
- Heimildarlausir milljarðar í Sjóvá.
- Leikaraskapurinn og svikin í Magmamálinu.
- Tangarhald á Arionbanka og Íslandsbanka fært til erlendra spákaupmanna og vogunarsjóða.
1.6.2011 | 23:12
„Finnlandisering“ eða rússneskja?
Á áttunda áratug síðustu aldar hittumst við Davíð Oddsson og Vilmundur Gylfason um skeið reglulega á kaffihúsinu Tröð, sem var á annarri hæð í Sigfúsar Eymundssonar-húsinu við Austurstræti.
Talið barst eitt sinn að því fyrirbæri, sem nefnt var Finnlandisierung. Það orð hafði þýskur stjórnmálafræðiprófessor, Richard Löwenthal, smíðað árið 1966 um það, sem ýmist má kalla undirgefni Finna við ráðstjórnina rússnesku eða samstarfsvilja þeirra og sáttfýsi við hana.
Vöruðust Finnar að reita ráðstjórnina til reiði, enda höfðu þeir tvisvar á öldinni beðið lægri hlut fyrir henni í vopnaviðskiptum, fyrst í Vetrarstríðinu 19391940 og síðan í Framhaldsstríðinu svonefnda 19411944. Til dæmis voru bækur, sem ekki voru Kremlverjum þóknanlegar, fjarlægðar úr finnskum bókasöfnum, þar á meðal bók, sem þýdd hafði verið á íslensku fyrir stríð, Þjónusta, þrælkun, flótti, en hún var frásögn prests frá Ingermanlandi um vinnubúðavist í Rússlandi.
Nýjar bækur, sem ekki voru vinsamlegar ráðstjórninni, voru ekki heldur gefnar út á finnsku, svo sem Gúlageyjaklasinn eftir Aleksandr Solzhenítsyn. Því síður voru ýmsar kvikmyndir, sem ráðstjórnin taldi óhollar, sýndar í Finnlandi. Brögð voru líka að sjálfsritskoðun í finnskum fjölmiðlum.
Við Davíð og Vilmundur veltum því fyrir okkur, hvað mætti kalla þetta fyrirbæri á íslensku. Davíð stakk upp á orðinu rússneskju og hafði þá í huga tvö hliðstæð orð, harðneskju og forneskju. Aldrei náði sú tillaga þó lengra.
Einn þeirra stjórnmálamanna, sem voru sammála okkur Davíð og Vilmundi um það, að önnur Evrópulönd yrðu með öflugum vörnum að forðast hlutskipti Finna, var Jón Baldvin Hannibalsson, sem kjörinn var formaður Alþýðuflokksins haustið 1984.
En Finnar spurðu eins og Jessíka í leikriti Shakespeares: Á ég að halda ljósi að minni smán? Þeir voru mjög viðkvæmir fyrir orðinu Finnlandisierung, og þegar Kalevi Sorsa, forsætisráðherra Finna og leiðtogi finnskra jafnaðarmanna, heyrði, að Jón Baldvin hefði notað það í fjölmiðlum, neitaði hann að sitja kvöldverð, sem Alþýðuflokkurinn bauð norrænum jafnaðarmönnum til í tengslum við Norðurlandaráðsþing á Íslandi í marsbyrjun 1985.
Jón Baldvin hélt óðar blaðamannafund, 6. mars 1985, þar sem hann þvertók fyrir að hafa notað orðið. Þá var upplýst, að í sjónvarpsþætti hér heima 11. desember 1984 hafði Jón Baldvin einmitt sagt, að úrsagnir Íslands, Noregs og Danmerkur úr Atlantshafsbandalaginu gætu orðið fyrsta skrefið að finnlandiseringu Norðurlandanna. Í bréfi til Sorsa baðst Jón Baldvin þá afsökunar og lofaði að nota orðið aldrei aftur.
Hefðu Finnar orðið eins viðkvæmir fyrir orðinu rússneskju?
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er sem kunnugt er vinsælt útskriftar- og afmælisgjöf, enda tilvalin til þess.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook