30.5.2008 | 07:48
Hverjir biðjist afsökunar?
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, krefst þess í Morgunblaðinu 27. maí, að núverandi dómsmálaráðherra biðji sig og ýmsa aðra afsökunar, vegna þess að dómarar veittu lögreglu að beiðni ýmissa fyrrverandi dómsmálaráðherra heimild til að hlera síma þeirra við ýmis tækifæri árin 1949-1968. Hann segir, að tilefnið til hlerananna hafi verið óljóst: Hætta á óspektum.
Krafa Kjartans er fráleit. Í fyrsta lagi var þetta ætíð heimild, ekki aðgerð. Ósannað er, að símar hafi verið hleraðir (þótt það sé líklegt í langflestum dæmanna). Í öðru lagi var heimildin jafnan veitt af dómara, sem bar þá á henni ábyrgð. Í þriðja lagi var tilefnið oftast langt frá því að vera óljóst. Flokkur Kjartans, Sósíalistaflokkurinn, og fyrirrennari hans, kommúnistaflokkurinn, hikuðu ekki við að beita ofbeldi, þegar þeir töldu þess þurfa, enda höfðu þeir það beinlínis á stefnuskrá sinni. Forystumenn þeirra lutu fyrirmælum frá stærsta einræðisríki heims og þáðu þaðan stórfé til baráttu sinnar, eins og sést af Moskvuskjölunum.Dæmin, sem allir þekkja, eru Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932 og óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949. Í bæði skiptin reyndu kommúnistar með ofbeldi að koma í veg fyrir lýðræðislegar ákvarðanir. Í fyrra skiptið tókst það, í seinna skiptið ekki. Fjöldi lögregluþjóna hlutu alvarleg meiðsl í þessum átökum, sumir varanleg örkuml. Mörg fleiri dæmi eru til. Kommúnistar gerðu aðsúg að bæjarstjórninni 30. desember 1930 og hleyptu upp fundi hennar. Fjórir forsprakkar óspektanna voru handteknir daginn eftir. Þá hugðust kommúnistar safna liði og freista þess að taka þá með ofbeldi úr fangageymslum, en lögreglu barst njósn af þeirri fyrirætlan, svo að þeir hættu við.
Sósíalistar ruddust margir saman inn í Sjálfstæðishúsið 22. september 1946, þegar rætt var um Keflavíkursamninginn, og reyndu að hleypa upp fundi. Þeir veittust síðan utan dyra að Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, er þeir gengu að Alþingishúsinu, og varð lögregla að vernda þá. Aftur gerðu sósíalistar aðsúg að Ólafi og Bjarna 29. mars 1949, þegar þeir gengu úr Alþingishúsinu eftir umræður um aðild að Atlantshafsbandalaginu, og varð lögregla enn að vernda þá. Þjóðviljinn skoraði beinlínis á sósíalista á forsíðu 25. mars 1949 að hindra, að aðild að Atlantshafsbandalaginu yrði samþykkt. Næstu ár voru óeirðirnar á Austurvelli öllum í fersku minni.Kommúnistaflokkurinn leyndi því hvergi, að hann væri reiðubúinn til valdbeitingar, gerðist þess þörf. Í stefnuskrá Sósíalistaflokksins frá 1952 segir líka: Afstaða flokksins er díalektísk, og það merkir: Hann metur valdbeitingu eftir þýðingu hennar í hinni sögulegu þróun. Höfundur stefnuskrárinnar, Brynjólfur Bjarnason, hótaði andstæðingum sínum lífláti í umræðum um Atlantshafssáttmálann, eins og lesa má í Alþingistíðindum 1948, dálki D 283. Áratugum saman hafði Þjóðviljinn í heitingum við þá, sem vildu varnarsamstarf við vestrænar þjóðir eða leyfðu sér að efast um stjórnarfar í ríki Stalíns: Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors væru landsölumenn og föðurlandssvikarar. Jan Valtin væri þýskur lygari, Max Eastman grímulaus fasisti, Arthur Koestler falsspámaður, Viktor Kravtsénkó drykkjusjúklingur.
Þeir, sem ættu að biðjast afsökunar, eru íslenskir kommúnistar og sósíalistar, sem voru á mála hjá erlendu einræðisríki, beittu margsinnis ofbeldi og reyndu iðulega að öskra niður andstæðinga sína með ókvæðisorðum.
Fréttablaðið 30. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook
16.5.2008 | 10:51
Skattalækkun skynsamleg
Fréttir berast nú af fjöldauppsögnum í bönkum og byggingarfyrirtækjum. Fátt er sárara en að missa starfið fyrirvaralaust. Við höfum öll samúð með því fólki, sem hefur orðið fyrir slíku áfalli, og vonum, að það finni fljótlega önnur störf. Sem betur fer er atvinnuástandið á Íslandi miklu betra en í ríkjum Evrópusambandsins, þar sem atvinnuleysi er stórfellt, einkum hjá ungu fólki. Tækifærin til að brjótast í bjargálnir eru nú miklu fleiri hér en fyrir röskum sextán árum, þegar ráðist var í hinar miklu breytingar í frjálsræðisátt. Það breytir því ekki, að fyrstu merkin um samdrátt eru að koma fram á venjulegu launafólki. Íslendingar gátu ekki búist við, að þeir slyppu einir þjóða við afleiðingar hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu eða verðhækkanir á olíu og matvælum.Undir slíkum kringumstæðum er skynsamlegt að lækka skatta á launþegum og fyrirtækjum, því að það örvar neyslu og fjárfestingu, svo að störfum fjölgar á ný. Með skattalækkun er fé fært frá ríkinu, sem kann lítt með það að fara, og til einstaklinganna, sem nýta það miklu betur, annaðhvort til eigin ánægjuauka eða í sparnað og með honum fjárfestingu. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt, að tekjuskattur á fyrirtæki verði lækkaður úr 18% í 15% frá og með næstu áramótum. Það er skref í rétta átt, en vegna fyrirsjáanlegs samdráttar ætti að ganga enn lengra og lækka tekjuskattinn niður í 12%. Jafnframt ætti að lækka tekjuskatt á einstaklinga verulega, til dæmis um 2%.
Þegar minnst er á skattalækkun, heyrist jafnan í úrtölumönnum. Þeir segja, að nú sé þensla og þess vegna sé skattalækkun ótímabær. Þetta er rangt af tveimur ástæðum. Þenslan er fyrirsjáanlega að snúast í samdrátt, svo að það, sem er óheppilegt í dag, verður heppilegt á morgun. Í öðru lagi er skattalækkun ekki aðallega hagstjórnaraðgerð, þótt vissulega megi með henni örva neyslu og fjárfestingu á næsta ári. Hún er tilfærsla á fé til þeirra, sem hafa aflað þess og eiga það skilið. Eitt brýnasta langtímaverkefni okkar er að minnka umsvif ríkisins. Skattheimta hér nemur nú röskum 40% af landsframleiðslu. Það er allt of hátt hlutfall.
Þá spyrja úrtölumenn: Hvar vilja skattalækkunarsinnar nema staðar? Hvað er eðlilegt hlutfall? Ekkert endanlegt svar er til við þeirri spurningu, en til dæmis er skattheimta rétt yfir 30% af landsframleiðslu í Sviss, sem þykir mikið fyrirmyndarríki. Er það ekki hóflegt markmið? Enn segja úrtölumenn: Hvernig á ríkið að afla fjár til nauðsynlegra verkefna, ef skattar lækka? Svarið er einfalt. Til skamms tíma þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs, því að íslenska ríkið er nánast skuldlaust. Tímabundinn fjárhagsvandi er því auðleysanlegur. Til langs tíma mun verðmætasköpun aukast við lægri skatta, svo að skatttekjur ríkisins munu hækka, eins og reynslan hefur margoft sýnt.
Það er engin lausn á aðsteðjandi vanda að taka upp annan gjaldmiðil. Ráðstöfunarfé einstaklinga eykst ekki, þótt það sé skráð í evrum. Skuldir fyrirtækja lækka ekki, þótt þær séu skráðar í pundum. En afkoma einstaklinga og fyrirtækja batnar, ef opinberar álögur á þessa aðila léttast. Við bægjum atvinnuleysisvofunni best frá með myndarlegri skattalækkun.
Fréttablaðið 16. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2008 kl. 08:35 | Slóð | Facebook
2.5.2008 | 11:01
Leiðtogi sem ekki brást
Dr. Bjarni Benediktsson, sem hefði orðið hundrað ára 30. apríl 2008, var einn merkasti stjórnmálamaður Íslendinga á tuttugustu öld. Hann var lagaprófessor, áður en hann hóf stjórnmálaþátttöku, og setti fram sterk, lagaleg rök fyrir sambandsslitunum við Dani 1944, sem voru okkur nauðsynleg í óvissu og umróti stríðsins. Þá þegar studdist Ólafur Thors, lengst allra leiðtogi sjálfstæðismanna, mjög við ráð hans. Bjarni var borgarstjóri í Reykjavík 1940-1947, þegar erlendir hermenn dvöldust hér tugþúsundum saman og geipilegur húsnæðisskortur var í bænum. Réð hann fram úr mörgum erfiðum verkefnum af röggsemi og átti drjúgan þátt í viðgangi hitaveitu Reykjavíkur, þótt Winston Churchill þakkaði sér hugmyndina að henni í æviminningum sínum, og hafa raunar fleiri síðan viljað þá Lilju kveðið hafa.
Eitt vandasamasta verkefni Bjarna Benediktssonar var, þegar hann gerðist utanríkisráðherra 1947. Áttu Íslendingar að halda fast við ævarandi hlutleysi landsins, sem lýst hafði verið yfir eftir fullveldið 1918? Eða ganga til liðs við aðrar frjálsar þjóðir? Bjarni hafði í upphafi hikað við að svara. En honum var ljóst, að Íslendingar höfðu í raun horfið frá hlutleysisstefnunni með samstarfinu við breska hernámsliðið, en það var síðan staðfest opinberlega með herverndarsamningnum við Bandaríkjamenn 1941. Þjóðinni var þetta hins vegar ekki eins ljóst eins og Bjarna, og síðan voru kommúnistar beinlínis andvígir frekari tengslum við Vesturveldin. Þeir spurðu með Jóhannesi úr Kötlum: Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?
Á meðan Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra, 1947-1953, skýrði hann út í ræðu og riti, hvernig utanríkissstefna Íslendinga hlyti að markast af legu landsins, aðstæðum í alþjóðamálum, vonum um viðskipti og lýðræðishugsjónum. Gerðist Bjarni einna fróðastur Íslendinga um alþjóðamál. Þessi árin töldu kommúnistar Bjarna hættulegasta andstæðing sinn og beindu spjótum óspart að honum. En hann stóð allt af sér, enda hafði hann óskorað traust flokkssystkina sinna og mikið fylgi með þjóðinni. Hámarki náðu deilur um utanríkismál, þegar kommúnistar og meðreiðarsveinar þeirra gerðu árás á Alþingishúsið 30. mars 1949 til að koma í veg fyrir, að Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Var þeirri árás hrundið af lögreglunni og varaliði, sem trúnaðarmenn Bjarna höfðu skipulagt.
Bjarni var um skeið menntamálaráðherra, síðan ritstjóri Morgunblaðsins í nokkur ár, dómsmálaráðherra í viðreisnarstjórn Ólafs Thors og forsætisráðherra frá 1963 til 1970, þegar hann féll sviplega frá. Hann hafði mjög beitt sér fyrir því um 1950, að hér yrði dregið úr þrálátum höftum og skömmtunarstjórn, en vegna erfiðra aðstæðna tókst það ekki sem skyldi. Tíðarandinn var öndverður atvinnufrelsi eins og því, sem þeir Ólafur Thors og Bjarni aðhylltust, og sterk verkalýðshreyfing undir stjórn kommúnista torveldaði aðlögunarhæfni hagkerfisins. Í forsætisráðherra tíð sinni stjórnaði Bjarni af festu og skörungsskap. Stjórnmálaskoðun hans má best lýsa með því, að hann hafi verið frjálslyndur íhaldsmaður. Frjálslyndi hans kom fram í þeim umbótum, sem hann beitti sér fyrir í efnahagsmálum, en íhaldssemi hans í gætni og raunsæi, þjóðrækni, sögulegum áhuga og ræktarsemi við íslenska tungu. Bjarni fylgdist vel með alþjóðamálum og sagði, að virðing smáþjóða væri jafnan í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á alþjóðavettvangi. Sjálfur var hann forystumaður lítillar þjóðar, sem brást ekki, þegar á reyndi. Hans verður lengi minnst að góðu.
Fréttablaðið 2. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook