30.3.2011 | 14:28
Rannsóknaskýrsla mín fyrir 2010
Við háskólakennarar þurfum á hverju ári að gera rannsóknaskýrslu um það, sem við höfum gert árið á undan. Ég lauk minni nýlega fyrir árið 2010. Hér er árangurinn.
Bækur
Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku. 2010. Bókafélagið. 992 bls.
Greinar í fræðiritum
Björn Ólafsson. Andvari, 135. árg. (haust 2010). Bls. 1358.
Grein í ráðstefnuritiSkapa eigendur auðlindar engan arð? Rannsóknir í félagsvísindum. XI. Ritstj. Silja Bára Ómarsdóttir. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2010. Bls. 281291. Netútgáfa.
RitdómarJónína Ben eftir Sölva Tryggvason. Þjóðmál, 6. árg. 4. hefti. Bls. 8789.
Erindi á vísindaráðstefnuSkapa eigendur auðlindar engan arð? Þjóðarspegillinn, XI. ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum 29. október 2010.
KennslaPrófessor í stjórnmálafræði í stjórnmálafræðideild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
Fræðsluefni fyrir almenning:Why Iceland Does Not Want to Pay. Wall Street Journal Europe 7. janúar 2010.
Icelands Message: Dont Bail Them Out. Wall Street Journal Europe 8. mars 2010.
Dýrleif í Parti. Morgunblaðið 13. nóvember 2010.Seint séð, Þuríður. Morgunblaðið 20. nóvember 2010.
Skemmtilegar auglýsingar. Morgunblaðið 27. nóvember 2010.
Á erlendum krám. Morgunblaðið 4. desember 2010.
Í Súdan og Grímsnesinu. Morgunblaðið 11. desember 2010.
Íslenskar skammavísur. Morgunblaðið 18. desember 2010.
Daglegar blogggreinar (að heita má) í pressan.is.
Viðtöl og svör í fjölmiðlum:
Vinstri menn eru orðsnjallari en hægri menn. Viðtal. Fréttablaðið 13. nóvember 2010.
Hagstætt beljuvín í fallegri karöflu. Viðtal. Fréttablaðið 25. nóvember 2010.
Speki árþúsunda safnað á bók. Viðtal. Morgunblaðið 19. desember 2010.
Umsjón rannsóknarverkefna:Umsjón alþjóðlegs rannsóknarverkefnis um umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu í samstarfi Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og stofnana í Brasilíu, þ. á m. Cato Institute í Washington-borg og Rio de Janeiro (útbú) og Instituto Millenium í Rio de Janeiro. Hófst haustið 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook
29.3.2011 | 10:51
Fróðleg skoðanakönnun
Bretar gerðu Íslendingum mikinn óleik haustið 2008, þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa færðist í aukana. Þá synjuðu þeir Singer & Friedlander einum breskra banka um fyrirgreiðslu og lokuðu honum raunar. Bankinn var í eigu Kaupþings. Og þeir lokuðu ekki aðeins hinu breska útbúi Landsbankans, heldur komu í veg fyrir allar þær millifærslur fjár milli Íslands og annarra landa, sem fóru í gegnum Lundúnir, og settu Landsbankann á opinberan lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana!
Þessi framkoma var dæmalaus, sérstaklega við gamlan bandamann í Atlantshafsbandalaginu, sem hafði tekið Bretum vel í stríðinu þrátt fyrir heimildarlaust hernám þeirra. Hátt í fimm hundruð íslenskir sjómenn týndu lífi í stríðinu, þegar þeir sigldu til Bretlandseyja með fisk ofan í bresku þjóðina á ögurstund. Þótt ég byggi í fjögur ár á Bretlandi og kynni þá vel að meta breskar hefðir, blöskraði mér framferði þeirra í lánsfjárkreppunni. Þá hjó sá, er hlífa skyldi.
Nú hefur Andríki gert skoðanakönnun, sem sýnir, að mikill meiri hluti landsmanna vill höfða mál gegn Bretum fyrir að hafa beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Furðu sætir hins vegar, hversu undirgefnir sumir íslenskir stjórnmálamenn eru nú Bretum. Þeir sættu sig ekki aðeins við þessa framkomu, heldur vilja ólmir greiða reikninga, sem bresk stjórnvöld senda íslenskum almenningi fyrir ýmis útlát sín, þegar þau töldu sig vera að girða fyrir áhlaup á breska banka.
Þann reikning eiga Bretar ekki að senda íslenskum almenningi, heldur hinum íslenska Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem settur var upp samkvæmt evrópskum reglum.
27.3.2011 | 20:47
Ólafur afturgenginn
Halldóra B. Björnsson var skáldkona í Reykjavík. Hún var uppi 19071968 og starfaði lengi á skrifstofu Alþingis. Hún var róttæk í stjórnmálaskoðunum og einn af stofnendum Félags byltingarsinnaðra rithöfunda árið 1933.
Svo sem nærri má geta, var Halldóra lítt hrifin af leiðtoga Sjálfstæðisflokksins, Ólafi Thors. Haustið 1946 sprengdu sósíalistar Nýsköpunarstjórn Ólafs, sem þeir höfðu átt aðild að, eftir að hann hafði gert svokallaðan Keflavíkursamning við Bandaríkjastjórn. Máttu sósíalistar, sem þá fylgdu Stalín að málum, ekki heyra minnst á neins konar samstarf við Bandaríkin.
Ólafur reyndi í lengstu lög að halda stjórninni saman, en gafst loks upp og baðst lausnar. Þá orti Halldóra vísu, sem varð strax fleyg, þótt ekki væri upplýst, hver höfundurinn væri:
Átt hef ég árum saman
á því bjargfasta trú,
að Ólafur gæfist illa,
en upp ekki fyrr en nú.
Reyndi Ólafur samt af kappi að endurreisa stjórnina eftir afsögn sína, og áttu sumir von á því, að það heppnaðist. Starfsbróðir Halldóru á skrifstofu Alþingis var Andrés Eyjólfsson í Síðumúla, sem síðar settist á þing fyrir Framsóknarflokkinn. Hann orti til Halldóru:
Góð er að vonum þín vísa,
en vanhugsað niðurlag:
Ólafur upp mun rísa
aftur jafnvel í dag!
Halldóra varð snögg til svars:
Góður er sérhver genginn,
geti hann legið kyrr,
en Ólafur afturgenginn
er Ólafur verri en fyrr.
Ólafi tókst þó ekki að endurreisa Nýsköpunarstjórnina. Hann myndaði aftur stjórn þremur árum síðar, haustið 1949.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. mars og er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010, en er auðvitað tilvalin fermingargjöf um þessar mundir.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook
26.3.2011 | 12:51
Þokkafull risadýr hjá Félagsvísindastofnun
Ársfundur Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands var haldinn í gær, föstudaginn 25. mars, síðdegis í Öskju, náttúrufræðihúsinu rétt sunnan af Norræna húsinu, stofu N-132. Þar fluttum við nokkur, sem höfum umsjón með rannsóknarverkefnum fyrir stofnunina, örerindi, fimm mínútur hvert, um einhvern þátt í verkefnum okkar. Ég hef umsjón með rannsóknarverkefninu:
Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.
Ég ræddi á mínum fimm mínútum, kl. 15.50, strax eftir kaffihlé, um efnið:
Þokkafull risadýr: Friðun eða verndun?
Með þokkafullum risadýrum á ég við það, sem Englendingar kalla Charismatic Megafauna, en það eru risavaxin dýr, sem flestir vilja vernda og sumir jafnvel friða með öllu. Ég ræddi sérstaklega um fíl, nashyrning og hval í þessu örerindi (en í föstudagshádegi í þarnæstu viku, 8. apríl, flyt ég síðan sérstakan, opinn fyrirlestur og miklu rækilegri í Háskólanum um Evrópusambandið og hvalveiðar).
Hvers vegna hika menn við að skjóta fíla, eins og Orwell lýsir vel í frægri smásögu, en drepa umsvifalaust lítil dýr, eins og rottur og kóngulær? Hvers vegna er haförninn friðaður, en svartbakur hvarvetna eltur uppi og drepinn? Engar sjónvarpsmyndir eru vinsælli en þær, sem sýna ljón drepa antílópur. Þar sést náttúran, rauð um kjaft og kló.
Ég leiddi raunar í örerindi mínu í gær rök að því, að best sé að vernda þokkafull risadýr með því að útvega þeim verndara. Það gerist með því að afhenda þeim, sem næstir standa dýrunum, nýtingarréttinn yfir þeim. Þá halda þeir nýtingunni í skefjum. Hitt er árangurslaust að reyna að friða þau.
Þetta sést á dæmi fílsins og nashyrningsins. Viðskiptabann á fílabein og nashyrningahorn hefur ekki náð tilgangi sínum. Veiðiþjófnaður er algengur á slóðum þeirra í Afríku og síðan smygl, enda er ríkisvald þar veikt, spilling landlæg og ríkin flest fjárvana. Íbúar á þeim slóðum, þar sem þessi þokkafullu risadýr hafa bólfestu, þurfa að hafa hag af því að gæta þessara dýra.
Hvalur er þokkafullt risadýr eins og fíll og nashyrningur, en þar þarf að leysa ágreining hvalveiðimanna og hvalfriðunarsinna.
Mér hefur fundist afar skemmtilegt að vinna að þessum þætti rannsóknarverkefnis míns. Við þetta hafa rifjast upp fyrir mér dýrlegir dagar í Suður-Afríku haustið 1987, er ég fór í skoðunarferð eða safari um Mala-Mala, einkagarð við hlið hins víðlenda Kruger-garðs, þar sem ég horfði opinmynntur á dýrin úr barnabókunum, sem ég hafði lesið ungur, spretta fram af síðum þeirra og lötra letilega fram hjá mér í ljósaskiptunum, ljónin, fílana, gíraffana, blágnýinn (wildebeest) og önnur dýr gresjunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook
25.3.2011 | 07:58
Hver er heimildarmaðurinn?
Ég birti hér í gær svör mín við spurningum blaðamanns DV um greiðslur frá Landsbankanum 20072008 til kynningar- og ráðgjafarfyrirtækis, sem ég rek. Ekkert var athugavert við þessar greiðslur, og þess var sérstaklega getið á heimasíðu verkefnisins, sem styrkt var, að Landsbankinn var styrktaraðili, jafnframt því sem þessar greiðslur komu að sjálfsögðu fram í rekstrarreikningi fyrirtækisins og á skattframtali þess.
Þetta var með öðrum orðum engin frétt. En samt er frétt í þessu. Hún er, að einhver aðili, karl eða kona, sem hefur síðustu vikur haft aðgang að bókhaldsgögnum Landsbankans frá 2007 og 2008, hefur misnotað þennan aðgang sinn í því skyni að veita blaðamanni DV upplýsingar. Mér virðist, að blaðamaðurinn hafi ekki haft fyrir framan sig ljósrit af þessum bókhaldsgögnum. Upplýsingar hans um greiðslurnar sjálfar voru ekki nógu nákvæmar til þess. En einhver hefur haft tal af honum (eða ritstjóra blaðsins) og lesið upp fyrir hann úr gögnunum eða sagt honum frá þeim. Til dæmis er rétt, að á reikningum frá fyrirtæki mínu er nefnt kynningarátak vegna skattalækkana.
Það á að vera hægðarleikur fyrir Landsbankann að komast að því, hver hefur síðustu vikur haft aðgang að þessum tilteknu bókhaldsgögnum. Pappírseintökin eru væntanlega geymd í læstu herbergi og skráð, hverjir fá aðgang að þeim. Ef til eru rafræn eintök, þá má áreiðanlega rekja í tölvu, hverjir hafa opnað þau skjöl síðustu vikur. Hver er heimildarmaður DV? Hvaða maður innan Landsbankans telur sér hag í að fletta ýmsum bókhaldsgögnum og lauma síðan upplýsingum úr þeim til DV? Eða er það maður utan bankans, sem hefur tímabundinn aðgang að þessum gögnum?
24.3.2011 | 07:51
Svör við spurningum DV um milljónagreiðslur til mín
Að morgni miðvikudagsins 16. mars 2011 hringdi í mig blaðamaður af DV, Jón Bjarki Magnússon. Ég bað hann að senda mér tölvuskeyti, þar eð ég væri erlendis. Hann sendi mér seinna sama dag tölvuskeyti með nokkrum spurningum um milljónagreiðslur til mín úr Landsbankanum. Ég svaraði honum því til, að ég skyldi fúslega svara honum, þegar ég væri kominn til Íslands og hefði aðgang að öllum mínum gögnum. Jón Bjarki hringdi síðan í mig miðvikudagsmorguninn 23. mars 2011, þegar ég var kominn heim, og endurtók spurningar sínar. Hér eru þær og svör mín:
Spurning: Heimildir DV herma að þú hafir þegið greiðslur fyrir kynningarátak vegna skattalækkana frá Landsbankanum árið 2007 og 2008, er þetta rétt?
Svar: Nei, þetta er ekki rétt. Ég fékk engar greiðslur fyrir slíkt átak. Hins vegar fékk kynningar- og ráðgjafarfyrirtæki, sem ég rek, framlög frá Landsbankanum þessi ár fyrir kynningarátak vegna skattalækkana. Það er engin frétt. Það kemur skýrt fram á heimasíðu verkefnisins á Netinu og einnig á rekstrarreikningi og skattframtali fyrirtækisins. Ekkert er athugavert eða óeðlilegt við þessi framlög, enda voru þau til þjóðþrifamáls.
Spurning: Þá herma heimildir blaðsins að þú hafir gert munnlegt samkomulag við Sigurjón Þ. Árnason um að taka þetta verkefni að þér, er það eitthvað sem þú kannast við?
Svar: Nei, það er ekki heldur rétt. Ég hygg, að ég rjúfi engan trúnað með því að segja, að ákvörðun Landsbankans um að styðja þetta kynningarátak var tekin á fundi bankastjóranna tveggja, Sigurjóns Þ. Árnasonar og Halldórs J. Kristjánssonar, með mér, eftir að ég hafði lýst átakinu með því að bregða upp nokkrum glærum á skjá, og voru nokkrir aðrir menn á þeim fundi, ef ég man rétt, þar á meðal forstöðumaður hagfræðideildar bankans.
Spurning: Samkvæmt heimildum blaðsins munu þetta hafa verið þrjár milljónir króna árið 2007 og þrjár árið 2008. Samtals sex milljónir sem millifærðar voru inn á fyrirtækið Conferences and Ideas sem á þessum tíma var skráð í þína eigu.
Svar: Ég hef haft samband við Landsbankann vegna þessa máls. Ég hef enga heimild til þess að skýra frá þeim upphæðum, sem Landsbankinn leggur fram til einstakra verkefna, þar á meðal til þess þjóðþrifamáls, sem kynningar- og ráðgjafarfyrirtæki mitt sinnti. Það er hins vegar alvarlegt mál, ef einstaklingar úti í bæ hafa upplýsingar um millifærslur inn á reikninga í Landsbankanum. Augljóst er, ef satt er, að einhver aðili í Landsbankanum fæst þá við það að lauma bókhaldsgögnum bankans til blaðamanna DV. Það hlýtur að koma til kasta bankans sjálfs og jafnvel yfirvalda. Auðvelt ætti að vera fyrir bankann að komast að því, hver þessi aðili er.
Spurning: Nú sagðir þú þetta í pistli á bloggsíðu þinni á Pressunni þann 5. Mars 2010: En íslenskur almennningur á ekki að greiða skuldir óreiðumanna og vísaðir til Icesave málsins. Icesave var eins og öllum er kunnugt útibú Landsbankans í Bretlandi. Erfitt er að skilja orð þín öðruvísi en þannig að skuldir óreiðumanna séu skuldir Icesave og þar með Landsbankans. Lítur þú svo á að með því að þiggja greiðslur frá Landsbankanum hafir þú verið að þiggja greiðslur frá óreiðumönnum? Ef ekki, hvað breytti skoðun þinni?
Svar: Ég hef margsinnis skýrt út í pistlum mínum á Pressunni.is og annars staðar, hverjir óreiðumennirnir eru. Þeir eru Baugsfeðgar, Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem tæmdu alla íslensku bankana þrjá að innan, þar á meðal Landsbankann. Féð, sem sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi lögðu inn á Icesave-reikninga í góðri trú, runnu í ýmis ævintýri Baugsfeðga og klíkubræðra þeirra, ekki aðeins í einkaþotur, lystisnekkjur, skrauthýsi á Manhattan og skíðaskála í Frakklandi, heldur líka í ýmis fjárfestingarævintýri. Það er mikið áhyggjuefni, að þessir óreiðumenn hafa enn fjölda manns á launum við að verja sig, lögfræðinga jafnt sem álitsgjafa og blaðamenn, og hefur DV raunar upplýst um suma þeirra. Athyglisvert er, að það eru aðallega leigupennar og lögkrókafræðingar Baugsfeðga, sem vilja, að íslensk alþýða greiði skuldir þessara óreiðumanna.
23.3.2011 | 13:40
Veikara kynið
Oft eru konur kallaðar »veikara kynið«. Það á rætur sínar að rekja til Nýja testamentisins, þar sem segir í Fyrra almenna bréfi Péturs: »Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið.«
Þetta hugtak kemur fyrir í kunnri gamansögu af Magnúsi Ásgeirssyni og Halldóri Laxness frá vorinu 1940. Fyrri kona Halldórs, Inga, var þá nýfarin frá honum og hafði tekið saman við annan mann. Röktu þeir kvennaraunir sínar. Magnús spurði Halldór: »Er ekki veika kynið sterkara, vegna þess hve sterka kynið er veikt fyrir veika kyninu?« Halldór svaraði: »Nei, það er ekki vandinn. Hann er, að við gerum altof miklar kröfur til kvenna. Við viljum að þær séu fínar frúr þegar vinir okkar koma í heimsókn, eldabuskur í eldhúsinu og skækjur í rúminu. En konurnar snúa þessu öllu við. Þær eru eldabuskur í rúminu, fínar frúr í eldhúsinu og skækjur þegar vinir okkar koma í heimsókn.«
Eflaust þykir mörgum gæta nokkurrar kvenfyrirlitningar í orðum skáldsins og raunar í sjálfu hugtakinu.
Annað orð, sem hljómar betur í eyrum nú á dögum, er »betri helmingurinn«. Enski hermaðurinn, hirðmaðurinn og ljóðskáldið Sir Philip Sidney smíðaði það hugtak, að því er ég best veit. Kemur það fyrir í 3. hluta skáldsögunnar Arcadia frá 1580.
Áslaug Ragnars notaði þetta hugtak í lipurlega skrifaðri skáldsögu, Haustviku, sem kom út 1980. Þar segir: »Ég verð að venja mig af því að hugsa um sjálfa mig sem helming af einingu, sem ófullkominn einstakling. Ég er ein manneskja, ekki hálf. Sjálf hef ég valið mér það hlutskipti að vera ein. Það er enginn betri helmingur.«
Sjálfur beitti ég þessu hugtaki í ræðu í kvöldverði, sem Verslunarráð Íslands hélt Milton Friedman í Þingholti 31. ágúst 1984. Þar sagði ég, að erfitt væri að verða honum betri, en einum manni hefði þó tekist það. Það væri hans betri helmingur, Rose Friedman, og bað ég veislugesti að lyfta glösum fyrir henni. Milton spratt upp með breiðu brosi og kvaðst vilja verða fyrstur til að skála fyrir sínum betri helmingi.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 19. mars og er sóttur í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er ein af fermingargjöfunum um þessar mundir.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook
19.3.2011 | 08:54
Sigurður Líndal hefur lög að mæla
Sigurður Líndal prófessor segir í blaðagrein 17. mars 2011 um þingsályktunartillögu stjórnarliða um stjórnlagaþing, þar sem fulltrúar eiga að vera þeir, sem kosnir voru ógildri kosningu:
Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins. Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni, eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald. Ekki bætir úr þótt einhverjar málamyndabreytingar séu gerðar á hlutverki stjórnlagaráðs frá því sem ákveðið var um stjórnlagaþing.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook
18.3.2011 | 00:54
Furðuskrif Indriða um skatta
Indriði H. Þorláksson á um þessar mundir í ritdeilu við Finn Oddsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Indriði heldur því fram, að skattar hafi lækkað, en Finnur, að þeir hafi verið hækkaðir.
Þetta er gömul deila, og hefur Finnur rétt fyrir sér í henni, þótt satt sé, að skattar hafi lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu. Stjórnvöld hafa hækkað skatta, eins og raunar allir vita.
Ástæðan til þess, að skattar hafa lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu, er, að skattar lækka sjálfkrafa í niðursveiflu og hækka sjálfkrafa í uppsveiflu.
Þetta sést við örlitla umhugsun. Þegar menn hafa hærri tekjur vegna uppsveiflu, greiða þeir hærra hlutfall tekna sinna í skatt (tekjur þeirra umfram skattleysismörk eru hærri hluti heildartekna þeirrra), því hærra hlutfall sem tekjurnar eru hærri.
Og þegar menn hafa hærri tekjur, kaupa þeir meira af margvíslegri vöru, sem opinber gjöld eru lögð á. Innflutningur stóreykst.
Fyrirtæki, sem áður voru rekin með tapi, eru í uppsveiflu rekin með gróða, svo að þau greiða tekjuskatt, en greiddu áður engan tekjuskatt.
Inn í ríkissjóð streymir því fé, sem er afleiðing af uppsveiflunni, en hvorki vísvitandi skattahækkana né skattalækkana.
Hið öfuga gerist í niðursveiflu. Þegar menn hafa lægri tekjur, greiða þeir lægra hlutfall tekna sinna í skatt og kaupa minna af margvíslegri vöru, sem opinber gjöld eru lögð á.
Fjárstraumurinn inn í ríkissjóð minnkar því sjálfkrafa. Hlutfall skatta af landsframleiðslu lækkar sjálfkrafa.
Í niðursveiflu léttist því skattbyrðin sjálfkrafa. Fyrirtæki, sem áður var rekið með gróða, er nú rekið með tapi. Það greiðir engan tekjuskatt. Skattbyrði þess hefur lést. En er það þetta, sem Indriði vill? Maður, sem áður hafði góðar tekjur, hrapar niður í sömu tekjur og nemur skattleysismörkum. Hann greiðir engan tekjuskatt. Skattbyrði hans hefur lést. En er það þetta, sem Indriði vill?
Hitt er síðan annað mál, að stjórnvöld 19912007 lækkuðu sjálf markvisst skatta, en stjórnvöld frá 2008 hafa markvisst hækkað skatta að ráðum Indriða H. Þorlákssonar, þótt með því tefji þau nauðsynlega endurreisn atvinnulífsins.
Indriða H. Þorlákssyni nægir hins vegar ekki að þyngja skattbyrði Íslendinga vísvitandi, um leið og hann beitir reiknibrellum til að létta hana á pappírnum, heldur reyndi hann á síðasta ári að troða upp á Íslendinga stórkostlegum skuldabagga, þegar hann var ásamt öðrum viðskiptasnillingi, Svavari Gestssyni, aðalsamningamaðurinn í fyrstu Icesave-deilunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2011 kl. 08:54 | Slóð | Facebook
17.3.2011 | 13:03
Hvalveiðar þurfa ekki að vera rányrkja
Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á grein, sem ég skrifaði í Vísbendingu, 9. tbl. 29. árg. (3. mars 2011), 3.4. bls. Þar ræði ég um tvær afar fróðlegar greinar, sem birtust í hinu virta alþjóðlega tímariti Science með 34 ára millibili.
Önnur greinin hét Hagfræði rányrkju (Economics of Overexploitation), var eftir kanadíska stærðfræðinginn Colin W. Clark og kom á prent 1973. Þar notaði Clark hið hefðbundna líkan fiskihagfræðinnar af ofveiði og gagnrýndi þá niðurstöðu, að jafnan væri hagkvæmast að veiða minna en nemur mögulegum hámarksafla úr fiskistofni.
Clark ræddi sérstaklega um hvalveiðar, en þá sem nú virðist vera mjög lítið til af steypireyði, stærstu hvalategundinni. Benti Clark á, að hvalir tímgast mjög hægt. Kvað hann þess vegna hugsanlegt, væri vaxtafótur (sem heitir á ensku discount rate) lágur, að það borgaði sig að að veiða stofninn upp. Rányrkja væri þess vegna hugsanlega hagkvæm fyrir veiðimennina.
Margir hvalfriðunarsinnar hafa vitnað í þessa grein, til dæmis Grænfriðungar, sem látið hafa að sér kveða á Íslandi.
En árið 2007 birtist í Science önnur grein eftir þrjá hagfræðinga frá ýmsum löndum, Grafton, Kompas og Hilborn, Hagfræði rányrkju endurskoðuð (Economics of Overexploitation Revisited). Þar leiða þeir rök að því, að rányrkja borgi sig aldrei. Ef veiðimenn, hvort sem þeir veiða hval eða fisk, hugsa aðeins um að hámarka gróða sinn, þá gera þeir það hagkvæmast með því að landa talsvert minna en nemur mögulegum hámarksafla úr hvalastofni eða fiskistofni.
Ein meginástæðan til þess er, að kostnaður á hverja sóknareiningu minnkar, eftir því sem stofn er stærri, og öfugt. Það er veiðimönnunum því í hag, að stofninn sé stór. Þeir græða á því.
Ég mun hins vegar flytja fyrirlestur í Háskóla Íslands 8. apríl næstkomandi um afstöðu Evrópusambandsins til hvalveiða og hvernig sætta megi sjónarmið hvalveiðimanna annars vegar og hvalfriðunarsinna hins vegar.