Draumar Jóns Trausta

Thor Vilhjálmsson sat eitt sinn um borð í Gullfossi með þeim Halldóri Kiljan Laxness og Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Jón Trausti barst í tal. Thor rifjaði upp, þegar Jón Trausti varð ber að fáfræði í ferðalýsingu. Jónas frá Hriflu reiddist fyrir hönd Jóns Trausta. Ég er sammála Jónasi. Jón Trausti er vanmetinn rithöfundur. Athyglisgáfa og frásagnargleði þessa sjálfmenntaða manns eru með ólíkindum. Hann á til dæmis margt í Laxness og Þórbergi. Hliðstæður eru milli heiðarbýlissagna hans og Sjálfstæðs fólks Laxness, og söguna um hreindýrið, sem Bjartur í Sumarhúsum sat, má raunar rekja til einnar smásögu Jóns Trausta. Sitt hvað í Bréfi til Láru minnir á aðra smásögu eftir Jón Trausta, „Séra Keli,“ sem birtist í Eimreiðinni 1915 og Þórbergur hefur þá eflaust lesið. Það er rétt, að Jón Trausti skrifaði ekki nógu vandaðan stíl. Sniðið á sögum hans er ekki fullkomið. En á sama hátt og hin rússneska þjóðarsál nítjándu aldar birtist í verkum Dostóévskís, eru sögur Jóns Trausta heimildir um hina íslensku þjóðarsál um aldamótin 1900. Er Jón Trausti ekki Dostóévskí Íslands?

Jón Trausti var frjálslyndur framfaramaður. Berum saman sögulokin í heiðarbýlissögunum og Sjálfstæðu fólki. Halla flyst niður í kaupstaðinn. Hún skilur, að þar er frelsið. Þar getur hún selt vinnuafl sitt fyrir glóandi krónur. Þar er hún einstaklingur. Mistök hennar voru að hrekjast upp í heiðarbýlið forðum. En Bjartur í Sumarhúsum flýr lengra upp á heiðina (alveg eins og Ólafur Kárason gekk upp á jökulinn). Bjartur hverfur út úr veruleikanum, Halla inn í hann. Heiðarbýlissögur Jóns Trausta gerast á skilum bændaveldisins forna, þar sem hlutskipti fátæklinga var ýmist að deyja úr hor eða tóra sem vinnufólk, og hins íslenska kapítalisma, sem kom til sögunnar á nítjándu öld og veitti fólki tækifæri til að flytjast í kaupstaðina, ekki síst Reykjavík, og brjótast til bjargálna.

fastnet_sailing_race_30_foot_Grimalkin_yacht_1979Ádeila Jóns Trausta á sósíalisma, Bessi gamli, er auðvitað ekki vel heppnuð skáldsaga. Þar er þó snjöll lýsing á hugsjónum jafnaðarmanna: „Upp með dalina! Niður með fjöllin!“ En skýrasta dæmið um stjórnmálaskoðun Jóns Trausta er í smásögunni „Kappsiglingunni“. Hún gerist erlendis. Gamall maður og ung stúlka fylgjast úr stúku með kappsiglingu, þar sem snekkja keisarans er lengst af fremst, en síðan siglir minni skúta hana uppi, og henni stýrir alþýðumaður, sonur gamla mannsins og unnusti stúlkunnar. Í stúkunni veðja áhorfendur um úrslit. Lundúnasláni og gildvaxinn stórkaupmaður veðja báðir á keisarasnekkjuna, en Bandaríkjamaður á skútu alþýðumannsins. Siglingunni lýkur með sigri alþýðumannsins. Gamli maðurinn, faðir hans, segir þá við Bandaríkjamanninn: „Þeir sigra ekki alltaf, miklu mennirnir, oddborgararnir, — ekki alltaf. Einokunaröldin er um garð gengin. Nú er öld samkeppninnar og hins frjálsa mannjafnaðar.“

Jón Trausti skildi og bjó skáldlegum búningi, að samkeppni er alþýðu manna í hag. Það er engin tilviljun, að í þessari smásögu lætur hann Bandaríkjamann veðja á skútu alþýðumannsins. Þar vestra hefur löngum verið land tækifæranna. Ísland breyttist í sömu átt með auknu atvinnufrelsi í lok nítjándu aldar, þótt nokkur afturkippur yrði síðan með heimskreppu og haftabúskap. Í lok tuttugustu aldar rættust loks draumar Jóns Trausta.

Lesbók Morgunblaðsins 29. mars 2008. 


Nýir brennuvargar?

capt.63d3e5b305e9455da1c81e3ab36f87e0.pakistan_denmark_prophet_drawings_pes101Leikritið „Biedermann og brennuvargarnir“ eftir svissneska rithöfundinn Max Frisch var frumsýnt í Zürich vorið 1958. Hér var það fyrst sett á svið vorið 1962 í Tjarnarbæ. Þar segir frá einföldum oddborgara, sem leyfir tveimur skálkum að setjast upp hjá sér og gera sig heimakomna. Þeir reyna lítt að dylja, að þeir ætla að kveikja í húsinu, og kona Biedermanns varar hann við. En Biedermann er fullur sektarkenndar og ótta og lokar augunum fyrir hættunni. Hvers vegna á hann að vera vondur við þessa aðkomumenn? Ræður hann hvort sem er við þá? Að lokum réttir hann þeim eldspýturnar til að tendra eldinn. Þótt Frisch kallaði sjálfur leikritið „prédikun án boðskapar“, er margt í því bersýnilega sótt í valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948. Einnig má lesa úr því ádeilu á andvaraleysi lýðræðissinna í Norðurálfunni gagnvart Adolf Hitler og þjóðernisjafnaðarmönnum hans fyrir stríð.

Skopmyndir og málfrelsi

Tveir danskir menntamenn, hjónin Karen Jespersen og Ralf Pittelkow, halda því fram í bókinni Íslamistar og naívistar, sem birtist fyrir skömmu á íslensku, að nýir brennuvargar séu komnir til Evrópu: Íslamistar. Síðustu áratugi hefur fjöldi múslima flust til Norðurálfuríkja. Flest er þetta gott fólk í leit að betri lífskjörum. En meðal þess hefur risið upp hreyfing, íslamisminn, sem ræðst beint á ýmis vestræn verðmæti, aðallega málfrelsi og jafnrétti kynjanna. Þegar Jótlandspósturinn birti skopteikningar af Múhameð spámanni, ætlaði allt um koll að keyra í ýmsum múslimalöndum og í röðum danskra íslamista. Teiknararnir urðu að fara í felur. Þótt í ýmsum múslimaríkjum, einkum Íran og Sádi-Arabíu, sé rekinn hatursáróður gegn kristni og Gyðingdómi í skólum og fjölmiðlum, vildu erindrekar þessara ríkja takmarka frelsi til að gagnrýna Íslam opinberlega í vestrænum löndum. Þeir vildu í raun hrifsa af okkur dýrmætan ávöxt mörg hundruð ára frelsisbaráttu, málfrelsið.

Morð og morðhótanir

Önnur dæmi eru alkunn. Rithöfundurinn Salman Rushdie, breskur ríkisborgari, var dæmdur til dauða í Íran fyrir eitt verk sitt og verður að fara huldu höfði. Ayaan Hirsi Ali, flóttakona frá Sómalíu, skrifaði handrit og var þulur í heimildarmynd um kúgun kvenna í múslimaríkjum, sem hollenski leikstjórinn Theo van Gogh gerði. Íslamisti einn myrti van Gogh í nóvember 2004 og sendi Hirsi Ali morðhótanir, svo að hún varð að fá lögregluvernd. Hættan er aðallega af ofsatrúarfólki í hópi innflytjenda frá múslimaríkjunum. Þótt það meti góð lífskjör í Norðurálfuríkjunum nógu mikils til að flytjast þangað, sættir það sig ekki við frumverðmæti hins vestræna menningarheims, til dæmis jafnrétti kynjanna. Íslamistar í hópi innflytjenda reyna að kúga konur á sama hátt og gert er í Íran og Sádi-Arabíu (en ekki víða annars staðar í múslimaríkjum). Þær eiga að hylja sig, ganga með höfuðklút, tákn ófrelsis og kúgunar. (Raunar er eðlilegast að banna slíka klúta af öðrum ástæðum en trúarlegum: Þeir eru dulbúningar. Unnt verður að vera að bera kennsl á fólk á förnum vegi.)

Einfeldningar eins og Biedermann

Sumir Vesturlandabúar myndu vitna í gamalt spakmæli: Eftir landssið skulu lifa þegnar. Ef múslimskir innflytjendur vilja ekki sætta sig við vestrænan landssið, málfrelsi og jafnrétti kynja, þá ættu þeir að snúa aftur til múslimaríkjanna. Aðrir Vesturlandabúar láta eins og Biedermann sektarkennd og ótta stjórna sér og loka augunum fyrir hættunni. Þeir afsaka jafnan íslamistana. Þegar Ayuun Hirsi Ali kom til Íslands á vel heppnaða bókmenntaráðstefnu haustið 2007, skrifaði ungur blaðamaður, að gagnrýni hennar á stjórnarfar í múslimaríkjum væri „ófrumleg og einfeldningsleg“. Hefði hann sagt hið sama um gagnrýni Þórbergs á stjórnarfar í Þýskalandi fyrir stríð? Fréttablaðið sagði frá því 26. nóvember 2001, að stjórnendur Austurbæjarskóla hefðu tekið svínakjöt af matseðli skólans „í virðingarskyni“ við þá nemendur, sem ekki snæði slíkt kjöt sakir trúar sinnar. Þetta hljómar sakleysislega, en kann að vera upphaf að öðru ískyggilegra. Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þeim, sem gera sig líklega til að verða brennuvargar. Biedermann hugsaði: Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki. Við hljótum að svara: Skálkurinn mun skaða þig, ef hann getur, svo að best er að vera við öllu búin.

Fréttablaðið 25. mars 2008. 


Fyrirlestur í Stjórnmálaskólanum

Ég flutti fyrirlestur um fátækt og ójöfnuð í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins 11. mars 2008. Þar notaði ég glærur, sem skoða má hér.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á öfugum enda

Euro_banknotesIndriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, er andlegur leiðtogi þeirra, sem ekkert hafa séð jákvætt við hagkerfisbreytinguna frá 1991, þegar skattar voru einfaldaðir og lækkaðir öllum til hagsbóta. Það er opinbert leyndarmál, að Indriði reiknaði út þær tölur um ójafnari tekjuskiptingu vegna skattabreytinga, sem minni spámenn ruku með í fjölmiðla haustið 2006 og reyndust síðan rangar. Ég fór yfir ýmsar hæpnar hugmyndir Indriða um skattamál í síðasta hefti vefritsins Stjórnmála og stjórnsýslu, meðal annars kröfu hans um stighækkandi tekjuskatt. Hér ætla ég hins vegar að ræða stuttlega nýjustu grein Indriða, sem vakið hefur athygli. Hún er um það, að Íslendingar geymi verulegt fé, á að giska 500 milljarða króna, í Hollandi og Lúxemborg, en einnig í skattaskjólum eins og á Ermarsundseyjum, Jersey og Guernsey, og eyjum í Karíbahafi. Ríkið verði að komast í þetta fé.

Röng nálgun

Indriði byrjar á öfugum enda. Hann spyr: Hvers vegna geyma Íslendingar stórfé erlendis? Hann ætti frekar að spyrja: Hvers vegna geyma útlendingar ekki stórfé hér? Hvað getum við gert til að laða að fé frá útlöndum? Hvernig eigum við að keppa við Holland, Lúxemborg og önnur lönd? Svarið er einfalt: Með því að gera skattaumhverfi fyrirtækja og fjármagnseigenda eins hagstætt og í þessum löndum. Þá þurfa íslenskir fjármagnseigendur ekki að geyma fé sitt erlendis, og þá sjá erlendir fjármagnseigendur sér hag í að geyma fé sitt hér. Til dæmis er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki skattskyldur í Hollandi. Indriði lætur líka í ljós áhyggjur af því, að íslenska útrásin hafi ekki skilað íslenska ríkinu verulegum skatttekjum. Það er rétt, en hitt hefur skilað stórkostlegum skatttekjum, að bankarnir eru komnir úr greipum ríkisins. Skattgreiðslur þeirra voru áður nánast engar, af því að þeir voru jafnan reknir með tapi, en nema nú tugum milljarða króna á ári.

Algengar meinlokur

Indriði er bersýnilega haldinn tveimur algengum meinlokum um skattamál. Önnur er, að skattstofnar séu nánast óbreytilegir að stærð, og verkefnið sé aðeins að afla skatttekna af þeim með góðu eða illu. En skattstofnar er einmitt mjög breytilegir að stærð. Fleiri vinna til dæmis meira, ef þeir fá sjálfir í sinn hlut mestallar þær tekjur, sem vinnan skapar, í stað þess að ríkið hirði slíkar viðbótartekjur nær óskiptar, eins og Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott bendir á nýútkominni bók, Cutting Taxes to Increase Prosperity. Hin meinlokan er, að fjármagnið, sem á að skattleggja, sé óhreyfanlegt. Það bíði skattheimtumannanna sallarólegt eins og sauðfé eftir slátrurum. En í heimi hnattvæðingar og sífellt betri fjarskiptatækni er fjármagnið afar kvikt. Það fer á svipstundu þangað, sem það ávaxtast best. Verkefnið er þess vegna að bjóða eigendum þess sem hagstæðust kjör.

Skattasamkeppni til góðs

Aukin skattasamkeppni milli ríkja veldur því, að jaðarskattur einstaklinga (skatturinn sem greiddur er af hæstu viðbótartekjum) hefur í iðnríkjunum lækkað að meðaltali úr 67% árið 1980 í 40%. Á sama tíma hefur tekjuskattur fyrirtækja lækkað að meðaltali í sömu ríkjum úr um 50% í 27%. Slík skattasamkeppni heldur ekki aðeins fjárfrekum stjórnmálamönnum í skefjum, heldur auðveldar hún skynsamlegar fjárfestingar einkaaðila og er þannig öllum í hag, þegar til lengdar lætur, eins og breski hagfræðingurinn Richard Teather benti á í erindi á skattadegi Deloitte í janúar síðastliðnum.

Einstakt tækifæri

Um þessar mundir er Evrópusambandið með háskattalöndin Þýskaland og Frakkland í broddi fylkingar að reyna að torvelda skattasamkeppni. Írar hafa verið ávítaðir fyrir að bjóða fyrirtækjum lága skatta, og Lúxemborg sér fram á að verða að herða reglur um fjármálastofnanir. Þetta veitir Íslendingum, sem eru utan Evrópusambandsins og óbundnir af skattareglum þess, einstakt tækifæri til að bjóða fyrirtækjum og fjármagnseigendum hagstætt skattaumhverfi. Geir H. Haarde forsætisráðherra setti þegar árið 1979 fram hugmynd um þetta í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, og nefnd undir forsæti Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi skilaði vandaðri skýrslu um málið í árslok 2006. Hugmyndin er ekki að veita illa fengnu fé skjól, heldur að bjóða fjármagni án skýrs heimilisfangs svo hagstæð kjör, að það finni sér hér bólfestu. Ísland getur orðið Sviss norðursins.

Fréttablaðið 9. mars 2008. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband