28.2.2012 | 10:41
Jónas H. Haralz: Minningarorð
Haustið 1997 gaf ég út bókina Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Þeir Benjamín Eiríksson, Jónas H. Haralz og Ólafur Björnsson héldu upp á það með mér eitt kvöldið. Þeir þrír höfðu verið skeleggir talsmenn hins frjálsa markaðar, Benjamín og Ólafur um og eftir miðja öldina, en Jónas á síðasta fjórðungi hennar. Umræður yfir borðum voru fjörugar. Jónas rifjaði upp margt úr sögu og samtíð. Hann var bekkjarbróðir Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra í menntaskóla, og þá var Jónas eindreginn kommúnisti, en Magnús draumlyndur sveimhugi með skáldagrillur. Seinna varð Magnús einn harðskeyttasti blaðamaður kommúnista, og taldi Jónas hann síðasta aldamótaritstjórann.
Jónas sagði skemmtilegar sögur af kosningunni í Suður-Þingeyjarsýslu sumarið 1946, þegar Sósíalistaflokkurinn sendi hann fram gegn Jónasi Jónssyni frá Hriflu, sem þá hafði hrakist úr Framsóknarflokknum. Fór Jónas frá Hriflu mikinn á fundum og náði kjöri, þótt hinn gamli flokkur hans byði fram gegn honum. Jónas Haralz sat um skeið í bankaráði Landsbankans, og á einum afmælisfundi ráðsins sagði Jónas frá Hriflu honum glottandi, að þeir nafnar ættu sameiginlegt, að kommúnistar hefðu hrakið þá úr trúnaðarstöðum. Ekki er það þó alls kostar nákvæmt, því að Jónas Haralz missti aðallega trúna á víðtæk ríkisafskipti vegna bágborinnar reynslu af þeim.
Jónas Haralz hafði í stríðslok komið sprenglærður hagfræðingur frá Svíþjóð og talið, að hann og hans líkar gætu stýrt hagkerfinu miklu betur en markaðsöflin. Smám saman rann upp fyrir honum, á meðan hann var starfsmaður svokallaðs nýbyggingarráðs, sem nýsköpunarstjórnin 19441947 hafði sett upp til að ráðstafa stríðsgróða Íslendinga, að viðskipti væru oft heppilegri en valdboð. Gerðist Jónas afhuga sósíalisma, sagði sig úr Sósíalistaflokknum snemma árs 1950 og fékk fyrir milligöngu Benjamíns Eiríkssonar starf hjá Alþjóðabankanum í Washington.
Talið barst að vinstri stjórninni 19561958, sem fékk Jónas Haralz heim til að gefa góð ráð. Taldi Jónas tvo ráðherra hennar iðulega vanmetna. Gylfi Þ. Gíslason hefði markað Alþýðuflokknum frjálslyndari stefnu en áður, og Hermann Jónasson hefði sýnt karlmennsku, þegar hann sagði af sér 1958 í stað þess að reyna að blása lífi í dauða ríkisstjórn. Þó hygg ég, að best hafi Jónasi samið við þá Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson í viðreisnarstjórninni 19591971.
Eftir að Jónas Haralz varð bankastjóri Landsbankans 1969, gerðist hann einn helsti talsmaður frjálshyggju á Íslandi. Skoðun hans var ekki reist á neinni fullvissu um eilíf sannindi, heldur á því, sem reynslan hafði kennt honum: Dreifing þekkingar krefst dreifingar valds. Á áttunda áratug hafði Jónas með mælsku sinni og þekkingu veruleg áhrif á leitandi æskumenn. Jónas var eins og fleiri af hans kyni prédikari í eðli sínu, talaði yfir mönnum, en samt ekki niður til þeirra. Hann var skarpgáfaður og vissi vel af því, ráðríkur, en hvorki frekur né hrokafullur. Með honum er genginn glæsilegur fulltrúi viðtekinna viðhorfa á síðari helmingi tuttugustu aldar.
(Minningarorð í Morgunblaðinu 27. febrúar 2012.)
26.2.2012 | 09:29
Á Beinni línu hjá DV
26.2.2012 | 09:28
Leiðrétting á vísu
Í fróðleiksmola í Morgunblaðinu og á pressan.is um Gróu á Leiti í íslenskum bókmenntum fór ég með vísu eftir Sigurbjörn Jóhannsson frá Fótaskinni. Nú hefur einn afkomandi Sigurbjörns, Vigdís Sigurðardóttir, bent mér á, að í prentuðum ljóðmælum hans frá 1902 sé vísan á aðra lund:
Vondra róg ei varast má,
varúð þó menn skeyti.
Mörg er Gróa málug á
mannorðsþjófa Leiti.
Hafði ég (eins og margir aðrir) haft beiti, þar sem prentað er skeyti.
22.2.2012 | 23:36
Ísland klukkunnar
Í Íslandsklukkunni bregður Halldór Kiljan Laxness upp mynd af Íslendingum, þegar þeir voru einna verst staddir, á seytjándu og átjándu öld. Sumir þeirrar tíðar menn sögðu svipað. Þeir voru síður en svo ánægðir með að búa á Íslandi. Þeim leið bersýnilega eins og fólki í flóttamannabúðum.
Oddur Einarsson biskup kvað til dæmis svo að orði í Íslandslýsingu nemma á seytjándu öld: Allir Íslendingar munu með réttu geta harmað það og talið til einnar mestu ógæfu sinnar, að þeim hefur eins og fyrir einhver sérstök örlög blátt áfram verið ýtt út í nánast ysta horn alheimsins og hálfgert útskúfað frá hinum ágætustu þjóðum.
Þorlákur Skúlason biskup skrifaði í bréfi til danska fornfræðingsins Óla Worms 1626: Eg hef af aumum örlögum hrakist burt á þennan útkjálka og verð að lifa innan um ómenntað, óþægilegt og dónalegt fólk, hin eina huggun mín er að hugsa um það, hve lífið er stutt, og um tilkomandi samvistir vorar á himnum.
Jón Ólafsson Grunnvíkingur lét svo um mælt hundrað árum síðar í orðabókarhandriti: Ísland má raunar kalla einslags stórt hrúgald af grjóti, með grasgeirum frá sjó upp eftir skorað. Að sönnu er þar haglendi á sumardag fyrir naut, kvikfé og hesta, veiðistöður til fiskifanga víða við sjó, oft ganga þar stór harðindis ár, með löngum köflum. Landslýður óróasamur með óþokkamál, og eyðir sjálfum sér, yfrið ósamþykkt og sundurlynt fólk, ágjarnt líka, óhreinlynt og illa geðjað. Þeir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.
Lýsingar Laxness í Íslandsklukkunni virðast því ekki fjarri lagi. Hitt er undrunar- og fagnaðarefni, að þrátt fyrir allt voru til menn, sem trúðu á Ísland, til dæmis Hannes Finnsson biskup, sem samdi í lok ájándu aldar sérstakt rit til stuðnings því, að landið væri byggilegt.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010. Hún er enn til í bókabúðum og hentar vel til tækifærisgjafa.)
21.2.2012 | 22:49
Hlegið að sjálfum sér
Rómverski heimspekingurinn Seneca yngri, ráðgjafi og kennari Nerós keisara, skrifaði: Sá sem hlær að sjálfum sér, verður ekki aðhlátursefni. Það er rétt, að menn koma stundum í veg fyrir, að aðrir geri gys að þeim, með því að verða fyrri til.
Hinn þjóðkunni gamanleikari Haraldur Á. Sigurðsson, sem uppi var 1901-1984, var til dæmis mjög gildvaxinn. Eitt sinn sagði einn vinur hans: Já, Guð hefur gefið þér góða sál, Haraldur minn. Haraldur svaraði hlæjandi: Já, og ekki hefur hann skorið umbúðirnar við neglur sér, blessaður.
Þegar menn reyndu að skopast að Haraldi, var hann fljótur til svars. Það verður ekki létt verk að bera þig til grafar, þegar þar að kemur, mælti kunningi hans. Þeir, sem guðirnir elska, deyja þungir, sagði þá Haraldur kankvíslega.
Ef menn urðu meinlegri, þá galt Haraldur líku líkt. Maður einn sagði háðslega við hann: Alltaf dettur mér svín í hug, þegar ég sé þig! Haraldur svaraði vingjarnlega: Það er auðvitað eðlilegt, vinur minn. Hugsa þú heim! Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera ættrækinn.
Í annað sinn mætti maður honum í Austurstræti, og var þar þröng mikil, enda var þetta fyrir daga almennrar bílaeignar landsmanna. Vegfarandinn lagði af einhverjum ástæðum fæð á Harald og hreytti út úr sér: Ég vík ekki fyrir svínum! Haraldur lét sér hvergi bregða, heldur vék til hliðar með þessum orðum: En það geri ég.
Fleiri tilsvör Haraldar urðu fleyg, þótt þau snerust ekki um holdafar hans. Tónskáldið Jón Leifs sagði til dæmis einu sinni reiðilega við hann: Er það satt, Haraldur, að þú sért að bera það út um allan bæ, að ég sé ekki normal? Haraldur svaraði: Mikil andskotans ósannindi eru þetta, maður, ég, sem er ekki einu sinni viss um það sjálfur.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2012 og er sóttur á ýmsa staði í bók minni, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)
20.2.2012 | 11:48
Jöklar og hvalir: Nýjar rannsóknir
Í janúar 2012 birtust tvær greinar í Nature, sem varpa nýju ljósi á tvö umræðuefni í umhverfismálum, bráðnun jökla í Himalajafjöllum og verndun hvala á höfum úti.
Greinin um jöklana var eftir Dirk Scherler, Bodo Bookhagen og Manfred Strecker. Þeir minntu á, að loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, þurfti að endurskoða þá spá sína í skýrslu frá 2007, að líklega yrðu allir jöklar í Himalajafjöllum bráðnaðir árið 2035. Átti spáin sér engar vísindalegar forsendur, þótt henni væri óspart haldið á lofti í æsifréttum af hlýnun jarðar. Eftir að þeir Scherler höfðu skoðað gögn um jöklana í Himalajafjöllum, sem aflað var úr gervitunglum, var niðurstaða þeirra, að jöklarnir væru ekki að hopa eins hratt og margir teldu. Þótt sumir hopuðu vissulega, stækkuðu aðrir. Viðbrögðin við loftslagsbreytingum væru ekki á einn veg.
Greinin um verndun hvala á höfum úti var eftir Christopher Costello, Steven Gaines og Leah R. Gerber. Þeir lögðu til, að tekið yrði upp kerfi framseljanlegra aflakvóta í hvalveiðum, eins og Íslendingar hafa haft í þorskveiðum. Þannig gæti frjáls markaður tryggt verndun og skynsamlega nýtingu hvalastofna. Ég gerði svipaða tillögu (en í annarri útfærslu) í fyrirlestri, sem ég flutti á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands fyrir tæpu ári, 8. apríl 2011. Um þessar mundir er ég að vinna að frekari greiningu á þessari hugmynd, en hún á erindi til fleiri en Íslendinga. Hvalir á Íslandsmiðum éta árlega um sex milljónir lesta af fæðu, fiski, svifi og annarri ætu í hafi, á meðan við Íslendingar löndum á sama tíma aðeins eitthvað á aðra milljón lesta af fiski. Hvalkjöt er hollt og næringarríkt í heimi, þar sem fólki á eftir að fjölga enn, en jarðarbúar eru nú um sjö milljarðar.
18.2.2012 | 09:32
Ræða Þorsteins Más á Viðskiptaþingi
Þorsteinn Már Baldvinsson útgerðarmaður flutti fróðlega ræðu á Viðskiptaþingi 15. febrúar 2012. Hann benti þar á, að farsælast væri, þegar stjórnvöld og atvinnulíf ynnu saman að því að auka verðmætasköpun öllum í hag. Nefndi hann sérstaklega, hversu boðnir og búnir norskir jafnaðarmenn væru til að aðstoða útgerðarmenn þar í landi, þegar á þyrfti að halda, til dæmis við sölu afurða.
Því miður hafa núverandi stjórnvöld á Íslandi (sem eðlilegast væri að kalla Dýrafjarðarstjórnina eftir þeirri kenningu forsætisráðherrans, að Jón Sigurðsson hefði fæðst í Dýrafirði) rekið herferð gegn atvinnulífinu og þá sérstaklega sjávarútvegi.
Helsti glæpur sjávarútvegsins hefur verið talinn, að hann er arðsamur. En er það eitthvað til að hafa áhyggjur af? Væri hitt ekki verra, væri hann rekinn með tapi og ríkisstyrkjum eins og sjávarútvegur víðast hvar annars staðar í heiminum? Sjávarútvegur þarf eins og aðrir atvinnuvegir traust og stöðugt rekstrarumhverfi. Þess í stað hafa núverandi stjórnvöld myndað óvissu, þrengt að atvinnugreininni og komið þar í veg fyrir eðlilegar langtímafjárfestingar.
Orðið gjafakvóti er eitt orðið, sem lýðskrumarar nota um sjávarútveg. Sannleikurinn er sá, að nær allir kvótar, sem nú eru í höndum útgerðarmanna, hafa verið keyptir á eðlilegu markaðsverði. Þeir eru keyptir kvótar, ekki gjafakvótar. Og þeir voru keyptir í þeirri trú, að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins væri traust.
Sannleikurinn er sá, að Íslendingar eru ein fárra þjóða, sem tekist hefur að stjórna fiskveiðum sínum skynsamlega. Það er vegna þess, að í kerfi varanlegra, seljanlegra aflakvóta geta útgerðarmenn einbeitt sér að því að lækka tilkostnað við veiðarnar til langs tíma, en þurfa ekki að eyða kröftunum í að veiða sem mest á sem skemmstum tíma, áður en einhver annar hirðir það. Jafnframt flytjast kvótar í frjálsum viðskiptum til þeirra, sem best geta nýtt þá.
Sjálfur er Þorsteinn Már dæmi um mann, sem skapar verðmæti með hagsýni sinni, útsjónarsemi og dugnaði. Við þurfum fleiri slíka menn, ekki færri.
15.2.2012 | 08:36
Er hlutleysi til eftirbreytni?
Stundum er vitnað í Brennu-Njáls sögu: Þeir einir munu vera, að eg hirði aldrei þó að drepist. Ég er ekki viss um, að allir þeir, sem nota þessa tilvitnun, geri sér grein fyrir, að orðin mælti Mörður Valgarðsson, er hann var hvattur til að stöðva bardaga þeirra Gunnars á Hlíðarenda og Otkels Skarfssonar, en Otkell var illmenni.
Ekki eru allir heldur sammála um, að hlutleysi Marðar sé til eftirbreytni. Edmund Burke sagði: Þá er illmenni bindast samtökum, verða góðir menn að standa sameinaðir, ella munu þeir falla hver af öðrum, ósyrgð fórnarlömb smánarlegra átaka.
Þýska skáldið August von Binzer orti:
Wer die Wahrheit kennt und spricht sich nicht,
Der bleibt fürwahr ein erbärmlicher Wicht.
Þetta má orða svo á lausu máli: Sá, sem veit sannleikann og segir hann ekki, verður sannarlega brjóstumkennanlegur ræfill.
Franski rithöfundurinn Charles Péguy skrifaði 1899: Sá, sem veit sannleikann og þylur hann ekki hástöfum, gerist meðsekur lygurum og svikurum.
Þýska skáldið Friedrich Wolf sagði í leikriti 1935: Því að verri glæpur er ekki til en sá að vilja ekki berjast, þar sem berjast þarf.
Stephan G. Stephansson orti 1923:
Æ, gef oss þrek, ef verja varð,
að vernda æ inn lægri garð
og styrk til þess að standa ei hjá,
ef stórsannindum níðst er á.
Best er sennilega komið orðum að þessari hugsun í kvæði Tómasar Guðmundssonar, Heimsókn:
Því meðan til er böl, sem bætt þú gast,
og barist var, á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.
(Eftirfarandi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2012 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook
14.2.2012 | 06:35
Tvær fróðlegar bækur
Ég er þessa dagana að lesa tvær fróðlegar bækur.
Önnur er eftir Magnús Þór Hafsteinsson, Dauðinn í Dumbshafi, um Íshafssiglingarnar í seinni heimsstyrjöld, en skipin, sem þau stunduðu, komu við í Hvalfirði á leiðinni. Er þetta mikil saga og oft raunaleg, sem Magnús Þór hefur skráð af kostgæfni.
Hin bókin er gömul, kom út 1988. Hún er eftir líffræðinginn Jeremy Cherfas og heitir The Hunting of the Whale. Þótt ég sé alls ekki sammála höfundinum, er bókin fróðleg og fjörlega skrifuð. Hvalir eru ótrúleg dýr.
13.2.2012 | 17:28
Ármann Þorvaldsson gestur í námskeiði mínu
Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, var fimmtudaginn 9. febrúar 2012 gestur í námskeiði mínu í stjórnmálahagfræði í Háskóla Íslands, þar sem farið er meðal annars yfir orsakir og afleiðingar falls bankanna haustið 2008. Hann skrifaði hina skemmtilegu bók Ævintýraeyjuna um reynslu sína af hruninu.
Ármann taldi eina leikreglu á íslenska fjármálamarkaðnum hafa verið hæpna, en hún hefði ekki gilt erlendis, svo að hann vissi til. Hún væri, að bankar gætu lánað út á eigin hlutabréf (eða út á einhvern þann gerning, sem jafngilti því). Þannig virtist eigið fé bankanna vera meira en það var í raun og veru, svo að þeir tóku meiri áhættu en skynsamlegt var. Ég spyr eftir að hafa hlustað á Ármann: Væri ekki nær að leiðrétta þessa reglu nú en efna til stjórnlagaþings og annarra aðgerða, sem komu hruninu ekki hætis hót við?
Ármann vakti einnig athygli á, að markaðsmisnotkun fer venjulega fram svo, að beitt er brellum til að hækka í verði hlutabréf, sem brotamennirnir vilja selja, svo að þeir græði á sölunni, eða til að lækka í verði þau, sem þeir vilja kaupa. En í dæmi íslensku bankanna fyrir hrun var reynt að koma í veg fyrir, að hlutabréfin hröpuðu í verði, sem hefði þær hugsanlegu afleiðingar, að kerfið hryndi. Tilgangurinn var því ekki að skapa með brellum gróða, heldur að afstýra tapi og halda kerfinu gangandi. Á þessu tvennu er verulegur siðferðilegur munur, hvort sem sanna tekst lögbrot á einhverja bankamenn eða ekki í einstökum dæmum.
Um kvöldið var ég framsögumaður á fundi Heimdallar um lýðræði ásamt kosningasérfræðingnum Birni S. Stefánssyni, sem rannsakað hefur raðval og sjóðval, og tveimur fulltrúum lýðræðisfélagsins Öldu. Fólkið frá Öldu var kurteist og málefnalegt, en ekki þótti mér það hafa mjög raunhæfar hugmyndir um lýðræði.
Betra er að telja nef en höggva hálsa, svo að lýðræði er skársta fyrirkomulagið til að skipta um stjórnvöld, þegar þau verða óþolandi. En eigum við að gera okkur einhverjar frekari vonir um það? Er frelsi einstaklinganna til að velja ekki aðalleiðarstjarna okkar?