29.10.2011 | 10:09
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er óþarfur
væri óþörf stofnun, nema auðvitað fyrir hina hrokafullu starfsmenn hans,
sem fá skattfrjáls laun og ferðast um á fyrsta farrými. Sjóðurinn hefur
það hlutverk að bjarga valdsmönnum, sem kunna ekki fótum sínum forráð,
undan afleiðingum eigin mistaka. Á sama hátt er Alþjóðabankinn aðeins
byggðastofnun fyrir allan heiminn: Hann veitir lán til framkvæmda, sem
einkaaðilar telja ekki nógu arðbær til þess, að þeir vilji fjármagna
þau. Ráðin, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir einstökum ríkjum, eru
mörg hver skynsamleg, en það þarf engan vitring til að semja þau: Ríki
eiga ekki að eyða um efni fram og þurfa að gæta hófs í seðlaútgáfu.
28.10.2011 | 00:10
Var aðildin að Schengen-samkomulaginu mistök?
að nær ekkert vegabréfaeftirlit er hér með aðkomufólki frá löndum
Schengen-samkomulagsins. Þegar menn eru komnir inn í eitt landið, eru
þeir komnir inn í þau öll. Ísland er opið og óvarið. Hefðum við ekki átt
að taka sama kost og Bretar, sem eru raunar ólíkt okkur í
Evrópusambandinu, en ákváðu samt að gerast ekki aðilar að
Schengen-samkomulaginu? Við búum á eyju eins og þeir og gætum þess vegna
komið í veg fyrir óhindraða för stigamanna hingað út.
27.10.2011 | 11:25
„Varð þó að koma yfir hann“
Fræg eru vísuorð Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum:
Þetta, sem helst nú varast vann,
varð þó að koma yfir hann.
Mér duttu þau í hug, þegar ég rakst í grúski mínu á tvö mál, sem eru að öðru leyti óskyld.
Halldór Kiljan Laxness gerði í Sölku Völku óspart gys að Hjálpræðishernum. Nú vildi svo til, að vorið 1938 kom Laxness við í Kaupmannahöfn á leið frá Rússlandi. Á fundi í stúdentafélaginu íslenska 11. apríl 1938 fór hann með þýðingu sína á kvæði eftir Kasakaskáldið Dzhambúl, þar sem eru meðal annars þessi vísuorð:
Stalín, þú ert söngvari þjóðvísunnar,
Stalín, þú ert hinn voldugi faðir Dzhambúls.
Þá dundi við lófatak. En einn stúdentinn stóð upp undir fagnaðarlátunum og læddist út, svo að lítið bar á. Hann var Ólafur Björnsson, síðar hagfræðiprófessor. Á leiðinni heim hristi hann höfuðið og tautaði fyrir munni sér, að þetta hefði verið líkast hjálpræðisherssamkomu, sem hann hafði eitt sinn sótt af forvitni á námsárum sínum á Akureyri.
Átti það, sem þótti hlægilegt við Hjálpræðisherinn, ekki við um Laxness líka?
Fleira hefur verið aðhlátursefni á Íslandi. Til dæmis skellihlógu íslenskir sósíalistar að kenningum Kristmanns Guðmundssonar um það, að starfsmenn póstsins hlytu að hnupla frá honum bréfum frá útlöndum. En eins og ég segi frá í Laxness, þriðja bindi ævisögu nóbelsskáldsins, höfðu fleiri áhyggjur af pósti en Kristmann. Halldór Kiljan Laxness skrifaði póststofunni í Reykjavík bréf sumarið 1948 og kvartaði undan því, að bréf til sín frá útlöndum hefðu verið opnuð og lesin. Póstmenn svöruðu fullum hálsi. Vísuðu þeir því á bug, að bréf skáldsins væru opnuð hér á landi, en bentu á, að sum bréfin væru frá löndum, þar sem tíðkaðist að skoða bréf, áður en þau væru framsend.
Átti það, sem þótti hlægilegt við kvartanir Kristmanns undan póstinum, ekki við um Laxness líka?
25.10.2011 | 22:11
Kirkja fyrirfinnst engin …
Fyrir mörgum árum las ég snjalla ræðu eftir dr. Guðmund Finnbogason prófessor, sem flutt var í Hrafnseyrarrétt 3. júlí 1927. Hafði Guðmundur skipulag réttarinnar til marks um sjálfstæðisþrá Íslendinga og sjálfseignarhvöt. Þeir létu sér ekki nægja almenninginn, heldur vildu hafa skýr mörk, svo að mitt og þitt þekktist að. Þeir væru hræddir um, þegar ríkismarkið kæmi á hverja kind, að skammt yrði að bíða skýrslunnar: Öll hús staðarins fallin. Kirkja fyrirfinnst engin. Kvígildi staðarins kveður prestur sig uppetið hafa.
Síðar rakst ég á smásögu eftir Gunnar Gunnarsson frá árinu 1910 um prest, sem hefði verið sóknarbörnum sínum svo hjálpsamur í hallæri, að eignir staðarins, sem hann sat, hefðu eyðst. Hefði hann jafnvel höggvið kirkjuna niður í eldivið handa sóknarbörnum. Smásagan hét Kirkja fyrirfinnst engin. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi orti kvæði með sama heiti og um sömu sögu. Þar segir meðal annars:
Í þyngstu raunum reynast verkin betur
en ritningin og gamalt fræðaletur.
Fróðlegt er, að þeir Gunnar og Davíð skrifuðu af samúð með presti, en Guðmundur taldi framferði hans víti til varnaðar.
Hvaðan er sagan? Hvaða prestur var þetta? Hún bar allan blæ venjulegrar þjóðsögu, en ég fann hana ekki í neinu þjóðsagnasafni þrátt fyrir nokkra leit. Ég spurðist þá fyrir um hana hjá þeim margfróðu mönnum, sem sitja iðulega með mér að grúski í Þjóðarbókhlöðunni, en enginn þeirra var viss um, hvaðan sagan væri.
Eftir talsverða frekari eftirgrennslan komst þó einn fræðaþulurinn í Þjóðarbókhlöðunni að þeirri niðurstöðu, að sennilega væri sagan runnin af atviki, sem gerðist í Skagafirði í harðindum á níunda áratug nítjándu aldar. Árið 1887 kom séra Jón Hallsson prófastur að Hvammi í Laxárdal. Kirkjan var þá komin að falli og kúgildi staðarins öll horfin, en presturinn, séra Magnús J. Skaftason, á förum vestur um haf. Má lesa um þetta í óprentuðum prestasögum Sighvats Grímssonar í handritadeild Þjóðarbókhlöðu.
Botna verður söguna með því að upplýsa, að ný kirkja var reist í Hvammi 1892, en séra Magnús komst vestur um haf, þar sem hann gerðist prestur landa sinna og gat sér gott orð.
(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010, en hann birtist í Morgunblaðinu 15. október 2011.)
22.10.2011 | 06:59
Steinn í Hressingarskálanum

Hressingarskálinn var opnaður á öðrum degi jóla 1929 og varð þegar eitt vinsælasta kaffihús bæjarins. Fyrstu tvö árin var skálinn í húsi því, sem kennt var við Reykjavíkurapótek (Pósthússtræti 7), en fluttist vorið 1932 að Austurstræti 20.
Vinur Halldórs Kiljans Laxness úr Unuhúsi, utangarðsmaðurinn Jón Pálsson frá Hlíð, kom stundum í Hressingarskálann fyrstu árin. Þar sagði hann eitt sinn um Kiljan: Hann er eins og taflborð, nema það vantar mennina. Kiljan var jafnan mjög vel klæddur. Sást hann um það leyti skunda um miðbæinn í stórköflóttum tweed-jakka og pokabuxum að erlendri fyrirmynd. En orð Jóns skírskota eflaust einnig til þess, að stundum þótti vanta hlýju í þær myndir, sem Kiljan dró upp af mönnum. Sjálfur gekk Jón í sjó 1938.
Annar kaffihúsaspekingur, Ólafur Friðriksson ritstjóri, sat líka iðulega í Hressingarskálanum og talaði þá illa um Kiljan. Bækur Kiljans eru skrifaðar á færeysku. Fannst honum (eins og Þórbergi Þórðarsyni) orðfæri Kiljans ósjaldan tilgerðarlegt og tilfundið.
Steinn Steinarr var hinn ókrýndi konungur Hressingarskálans. Sat hann þar löngum að skrafi, enda sagði hann Ragnari í Smára, að kaffihúsin væru sinn háskóli.
Mörg tilsvör Steins í Hressingarskálanum voru neyðarleg. Í desember 1955 hitti hann þar Einar Braga, sem sýndi honum stoltur nýprentaðan ritdóm eftir sig um Sigfús Daðason. Það er nú fallegt af þér, Einar minn, að hrósa þessum strákum. En þú skalt vara þig á einu, sagði Steinn íbygginn. Hverju? spurði Einar Bragi. Að vitna mikið í ljóðin, svaraði Steinn. Hvers vegna? spurði Einar Bragi undrandi. Þá er svo hætt við, að fólk sjái strax, að þú ert að plata, svaraði Steinn.
Ári síðar, haustið 1956, settist skáldið Jóhannes úr Kötlum, einn sanntrúaðasti kommúnisti Íslands, við sama borð og Steinn í Hressingarskálanum. Talið barst að kynnisferð, sem Steinn hafði farið í til Ráðstjórnarríkjanna þá um sumarið, en þar hafði honum litist illa á sig. Jóhannes var á báðum áttum: Ég veit ekki, hverju ég á að trúa. Steinn sagði: Oo, þú skalt bara halda áfram að trúa.
(Þessi pistill er sóttur í marga staði í bókum mínum, Kjarna málsins, sem kom út 2010, og Íslenska kommúnista 19181998, sem er væntanleg í nóvember. Myndina teiknaði Gunnar Karlsson teiknari.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:01 | Slóð | Facebook
20.10.2011 | 05:59
Morgunblaðslygin
Jón Óskar rifjaði upp í einni minningabók sinni, Gangstéttum í rigningu, þegar hann sat á kaffihúsum með öðrum róttækum æskumönnum um miðja tuttugustu öld: Ég uppgötvaði það smám saman, að til var á Íslandi ein merkileg grýla, sem var ýmist fáránlega heimsk eða slóttug og illvíg: Hún hét Morgunblaðið. Þessum kaffihúsaspekingum var tamt orðið Morgunblaðslygin. Sú lygi var í fæstum orðum, að alræði væri í Ráðstjórnarríkjunum, eymd og kúgun, en valdhafar þess árásargjarnir.
Fyrsta dæmið, sem ég finn um notkun orðsins Morgunblaðslygi í þessari merkingu, var í málgagni Kommúnistaflokks Íslands, Verklýðsblaðinu, 4. mars 1935. Þar var andmælt þeirri frétt, sem Morgunblaðið hafði birt eftir skeytum frá Kaupmannahöfn, að einn forystumaður Ráðstjórnarríkjanna, Andrej Andrejev, yrði brátt leiddur fyrir rétt. Raunar var sú frétt sennilega ekki á rökum reist. Andrejev lifði af hreinsanir Stalíns, enda dyggur stalínisti. En margar og raunar flestar aðrar fréttir Morgunblaðsins af ógnarstjórn Stalíns reyndust réttar.
Styttingin Moggalygi er yngri. Jóhannes úr Kötlum notaði hana til dæmis, þegar hann rifjaði í Þjóðviljanum 7. mars 1963 upp hina frægu ræðu Khrústsjovs um Stalín: Eg held maður muni þá tíð þegar félagi Nikíta gerði stalínpersónuna miklu að einni allsherjar sorptunnu og fjörtíu ára moggalygi var þar með orðin pravda. (Pravda merkir sannleikur á rússnesku.)
Lokaorðin um Morgunblaðslygina átti síðan Össur Skarphéðinsson, þá ritstjóri og síðar ráðherra. Eins og ég rek í væntanlegri bók um íslensku kommúnistahreyfinguna beitti Össur sér fyrir því á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins í annarri viku febrúar 1990, að Alþýðubandalagið harmaði opinberlega fyrri samskipti sín og forvera sinna (kommúnistaflokks Íslands og Sósíalistaflokksins) við kommúnistaríkin. Hvatti hann til uppgjörs við fortíðina og sagði: Hin beiska staðreynd er sú, að Morgunblaðið hafði rétt fyrir sér varðandi Austur-Evrópu.
(Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 1. október og er, eins og þar segir, sóttur í ýmsa staði í væntanlegri bók minni, Íslenskir kommúnistar 19181999.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:04 | Slóð | Facebook
19.10.2011 | 09:04
Pyndingar í Búdapest
Á nítjándu öld fylgdust Íslendingar af samúð með sjálfstæðisbaráttu Ungverja, og Steingrímur Thorsteinsson sneri hvatningarljóði þjóðskálds þeirra, Sandörs Petöfis, sem samið var 1848:
Upp nú, lýður, land þitt verðu,
loks þér tvíkost boðinn sérðu:
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi.
Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi.
En Ungverjar fengu ekki að kjósa, þótt þeir sæju muninn. Kommúnistar hrifsuðu völd í skjóli Rauða hersins 1945 og stjórnuðu af mikilli harðneskju. Verstur þeirra þótti Mátyás Rákosi, aðalritari ungverska kommúnistaflokksins 1945-1956 og alræmdur hrotti.
Þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Ottósson kynntust Rákosi, þegar þeir urðu samferða honum af öðru þingi Alþjóðasambands kommúnista 1920 í Moskvu, og varð þeim vel til vina. Rákosi hældi sér af því að hafa fundið upp smábitaaðferðina (e. salami tactics) til að ná fullum yfirráðum. Hún var fólgin í að gleypa ekki of stóran bita í einu, heldur marga smábita hvern af öðrum.
Íslenskir sósíalistar áttu raunar skipti við fleiri ungverska kommúnista en þeir þekktu. Þegar Æskulýðsfylkingin var stofnuð 1938, fékk hún heillaóskir frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista í Moskvu, og skrifaði Michal Wolf undir bréfið.
Maðurinn, sem leyndist undir því nafni, hét Mihály Farkas og varð varnarmálaráðherra Ungverjalands í tíð Rákosis og yfirmaður leynilögreglunnar, AVO. Sonur hans, Vladimir Farkas, starfaði í leynilögreglunni og varð kunnur fyrir pyndingar. Á hann að hafa gengið sérstaklega hart fram í yfirheyrslum yfir Jánosi Kádár, sem var í ónáð á Stalínstímanum, en varð síðar aðalritari kommúnistaflokksins.
Eftir að stalínistar hrökkluðust frá völdum í Ungverjalandi, sátu Farkas-feðgar um skeið í fangelsi. Á gamals aldri sagði Farkas yngri opinberlega frá starfi sínu í leynilögreglunni, en harðneitaði að vonum að hafa pyndað fólk.
(Þessi fróðleiksmoli, sem birtist í Morgunblaðinu 24. september 2011, er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 19181998.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook
17.10.2011 | 00:27
24. febrúar 1956
Tuttugasta þing kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna var sett í Moskvu 14. febrúar 1956. Kristinn E. Andrésson, framkvæmdastjóri Máls og menningar, var annar fulltrúi Sósíalistaflokksins á þinginu. Fyrstu dagana fluttu nokkrir foringjar kommúnista ræður, sem skilja mátti sem ádeilur á Stalín, hinn gamla einræðisherra, sem látist hafði þremur árum áður.
Þetta vakti mikla athygli á Vesturlöndum. Vikublaðið Frjáls þjóð, sem deilt hafði árum saman á sósíalista fyrir þjónkun við Kremlverja, gaf sigri hrósandi út sérstakt aukablað 20. febrúar um þessar ádeilur á Stalín. Íslenskir sósíalistar ókyrrðust. Eiginkona Kristins skrifaði honum 24. febrúar: Annars er mér sama, hvað þeir segja í Moskvu um Stalín minn, hann verður alltaf stórmenni í mínum augum, og ég held, að hann hafi mátt vera dálítið einráður. Rakst ég á þetta fróðlega bréf í skjalasafni Kristins á Þjóðarbókhlöðunni.
Lúðvík Jósepsson birti sama dag, 24. febrúar 1956, langa grein í Þjóðviljanum undir heitinu Flóttinn til Volgu, þar sem hann varaði íslenska sósíalista við að taka mark á æsifréttum vestrænna blaða af flokksþinginu í Moskvu. Þær breyttu engu um það, að sósíalisminn hlyti að sigra í heiminum.
Lúðvík gat ekki verið óheppnari í tímasetningu. Að kvöldi sama dags og hann birti grein sína, flutti Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokksins, leynilega ræðu yfir innlendum þingfulltrúum, þar sem hann gerði upp við Stalín. Hinn látni einræðisherra hefði verið valdasjúkur, ofsótt flokksbræður sína og logið sökum upp á herforingja Rauða hersins. Enginn hefði verið óhultur fyrir honum.
Þótt ræðan væri leynileg, leyfðu Kremlverjar vestrænum fréttariturum að birta hana í erlendum blöðum. Þeir tóku hins vegar ekkert tillit til hinna íslensku fylgismanna sinna, sem stóðu eins og þvörur. Kristinn E. Andrésson frétti fyrst af ræðunni, þegar hann kom við í Kaupmannahöfn á heimleið og las dönsku dagblöðin. Og líklega hefur Lúðvík Jósepssyni ekki verið skemmt, þegar hann heyrði um ræðuna og minntist greinar sinnar sama dag um Flóttann til Volgu.
(Fróðleiksmoli þessi birtist í Morgunblaðinu 17. september 2011 og er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 19181998.)
15.10.2011 | 11:35
Hengdur fyrir að kaupa fisk af Íslendingum
Á tuttugustu öld hafa Íslendingar haft ýmis óvenjuleg kynni af íbúum Tékkóslóvakíu.
Sumum í Halldórseigendafélaginu íslenska gramdist, þegar ég benti á það, að Atómstöðin eftir Laxness, eitt beittasta vopn íslenskra kommúnista gegn varnarsamstarfi við Bandaríkin, væri að miklu leyti sniðin eftir skáldsögunni Sveitastúlkunni Önnu (sem hét í þýskri þýðingu af tékknesku Anna. Das Mädchen vom Lande). Höfundur sögunnar var rithöfundurinn og kommúnistinn Ivan Olbracht, en landi hans og skoðanabróðir, Otto Katz, sneri henni á þýsku.
Otto Katz var eitt stærsta tannhjólið í hinni risavöxnu áróðursvél kommúnista í Evrópu milli stríða. Undir dulnefninu André Simone skrifaði hann margar bækur, og var ein þeirra gefin hér út 1943 í þýðingu Sverris Kristjánssonar, Evrópa á glapstigum. Katz var ævintýramaður og talinn fyrirmynd Victors Lazslos í Casablanca og Kurts Mullers í Vörður við Rín (Watch on the Rhine), sem báðar voru sýndar hér á landi. Hann barðist í spænska borgarastríðinu, skipulagði undirróður meðal leikara í Hollywood og varð ritstjóri aðalblaðs kommúnista í Tékkóslóvakíu eftir valdarán þeirra þar 1948. Í hreinsunum innan kommúnistaflokksins 1952 var hann leiddur fyrir rétt og hengdur.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu og er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 19181998.)
14.10.2011 | 21:05
Hver var Vladímírov?
Kristinn E. Andrésson var framkvæmdastjóri Máls og menningar, miðstjórnarmaður í Sósíalistaflokknum og vinur Kremlverja. Hann fór mikla ævintýraför snemma í seinni heimsstyrjöld.
Kristinn átti vorið 1940 erindi til Danmerkur til Svíþjóðar. Þar sem hann var staddur í Stokkhólmi 9. apríl barst honum fréttin um, að Þjóðverjar hefðu hernumið Danmörku og Noreg. Kristinn ákvað að halda heim í gegnum Rússland. Flaug hann til Riga og þaðan til Moskvu, þar sem hann dvaldist í þrjár vikur.
Skjöl í Moskvu sýna, að Kristinn gekk 16. apríl á fund ráðamanna Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, og gaf þeim skýrslu um starfsemi íslenskra sósíalista. Fékk hann fjárstyrk til Máls og menningar, sérstaklega til að gefa út rússnesk áróðursrit.
Ráðamenn Kominterns kölluðu Kristin aftur á sinn fund 9. maí og afhentu honum ýmis fyrirmæli til Sósíalistaflokksins, þar á meðal um að taka hvorki afstöðu með Bretum né Þjóðverjum í stríðinu. Einnig kom Vladímírov í áróðursdeild Kominterns á framfæri tilmælum til íslenskra sósíalista um að kynna sér betur fræðirit marxismans.
Kristinn flaug síðan til Sofíu í Búlgaríu og ók þaðan með lest til Genúa. Þar barst honum fréttin um, að Bretar hefðu hernumið Ísland 10. maí. Hann komst með síðasta skipi frá Genúa til New York, þar sem hann afhenti bandaríska kommúnistaflokknum leynileg skilaboð. Sigldi hann síðan til Íslands.
Hver var Vladímírov, sem vildi fá íslenska sósíalista til að lesa sér betur til? Ég hygg, að hann sé búlgarski kommúnistinn Valko Tsjervenkov, sem varð eftir stríð forsætisráðherra lands síns. Var hann harður stalínisti og svo óvinsæll að sögn, að frímerki með mynd af honum var ónothæft, því að allir hræktu öfugum megin á það.
Fróðlegt væri síðan að vita, hvaða leynilegu skilaboð Kristinn flutti bandarískum kommúnistum.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2011, en hann er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 19181998.)