11.10.2009 | 17:23
Jóhanna veit ekki sitt rjúkandi ráð

10.10.2009 | 17:48
Furðuleg verðlaunaveiting

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook
9.10.2009 | 16:42
Náskershirðin

8.10.2009 | 16:40
Afsögn Ögmundar

Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2009 kl. 18:44 | Slóð | Facebook
4.10.2009 | 17:38
Þing ungra jafnaðarmanna
Ég flutti framsögu ásamt Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðingi og heimspekingi, á þingi ungra jafnaðarmanna sunnudaginn 4. október um, hvaða hugmyndir ættu að verða okkur leiðarljós út úr þrengingunum. Ég minnti á kenningu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls, sem Kristrún og aðrir Samfylkingarmenn hafa mjög hampað. Samkvæmt henni er það skipulag réttlátt, þar sem hagur hinna bágstöddustu er eins góður og hann getur framast orðið. Með öðrum orðum réttlætist tekjumunur af því einu eftir kenningu Rawls, að lágtekjufólk hagnist á því. Síðan spurði ég, hvað veruleikinn segði okkur um þetta. Í mælingum á vísitölu atvinnufrelsis (index of economic freedom), kemur skýrt fram, að þær þjóðir, sem búa við víðtækast atvinnufrelsi, njóta um leið bestu lífskjaranna og þá líka tekjulægstu hóparnir þar. Einnig er merkilegur samanburður sænska hagfræðingsins Fredriks Bergström á hinum 50 ríkjum Bandaríkjanna og hinum 25 ríkjum Evrópusambandsins, en samkvæmt honum eru lífskjör í Svíþjóð svipuð og í fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Arkansas og Mississippi. Í tveimur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware og Connecticut, eru lífskjör hins vegar svipuð og í því Evrópuríki, þar sem lífskjör eru langbest, Lúxemborg. Enginn getur efast um þessar staðreyndir, enda kaus Kristrún að leiða þær hjá sér. Í fyrirspurnum utan úr sal var hins vegar bent á, að slíkar mælingar væru ófullkomnar, og tók ég undir það, en minnti á, að við höfum með þeim þó eitthvað í höndunum og ekki aðeins orðin tóm.
Umræður voru kurteislegar og málefnalegar. Ég óskaði Jóhönnu Sigurðardóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar, til hamingju með daginn og hnykkti á því, að auðvitað hlytu allir heilbrigðir menn að vilja persónulega velgengni stjórnmálaandstæðinga. Stöð tvö sagði frá fundinum.
Einnig talaði ég sama dag við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF, en menn undir forystu Christhards Läpple eru þar að gera enn einn þáttinn um bankahrunið íslenska. Þar viðurkenndi ég, að framferði íslenskra bankamanna hefði ekki alltaf verið til fyrirmyndar, en á hitt væri að líta, að Ísland hefði starfað við sömu leikreglur og önnur ríki í EES. Meginástæðurnar til þess, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa kom harðar niður á Íslendingum en öðrum, eru 1) kerfisgalli í EES-samningnum (tryggingarsvæðið var Ísland eitt, en rekstrarsvæðið Evrópa öll, svo að bankana vantaði bakhjarl), 2) fautaskapur Breta (sem minnkuðu áreiðanlega stórkostlega verðmæti lánasafns bankanna með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök og taka Kaupþing yfir), 3) glannaskapur bankamanna, en hann má rekja til skorts á aðhaldi eftir hinn sögulega ósigur Davíðs fyrir Golíat sumarið 2004, þegar forsetinn gerðist klappstýra útrásarvíkinga, fjölmiðlar komust í eigu örfárra auðjöfra, stjórnmálamenn bergmáluðu Borgarnesræðurnar illræmdu og dómstólar sendu röng skilaboð út í atvinnulífið með hæpnum úrskurðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook
2.10.2009 | 11:16
Hlutdrægni fréttastofu RÚV
Máni Atlason benti á gott dæmi um hlutdrægni fréttastofu RÚV á athugasemd við færslu hjá mér á Facebook:
Sagðar voru fréttir af styrkjamáli Sjálfstæðisflokks linnulaust dögum saman og hver kratinn á fætur öðrum fenginn í búningi fræðimanns til að gefa sitt faglega álit, en daginn sem kom í ljós að Samfylking hafði fengið svo til sömu upphæðir í styrki frá sömu fyrirtækjum var því einfaldlega sleppt að fjalla um málið.
Nú síðast í gær byrjaði fréttamaður RÚV frétt sína "Stjórnarþingmenn vinna nú hörðum höndum að því að leysa skuldavanda heimilanna...", að vísu lítið atriði en hvað veit fréttamaðurinn um það hvort unnið er hörðum höndum að þessu? Þarna er bara einhver fullyrðing um fórnfýsi og dugnað Samfylkingarinnar út í bláinn.
Svona gæti maður lengi talið, en það sér það auðvitað hver maður sem á annað borð horfir á fréttir RÚV að á þeirri fréttastofu starfar fólk sem er hallt undir annað hvort Samfylkinguna eða Evrópusambandsaðild og jafnvel bæði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook
1.10.2009 | 06:18
Tvö afmæli
30. september er ár liðið frá því, að Davíð Oddsson krafðist þess að fá að tala við ríkisstjórnina til að vara hana við yfirvofandi hruni. Hið eina, sem ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerðu eftir fundinn, var að ráðast opinberlega á Davíð fyrir þau ummæli hans á fundinum, að sjaldan hefði verið þyngri rök en nú fyrir því að mynda þjóðstjórn, þótt almennt væri hann mótfallinn slíkum stjórnum. Ísland var að hrynja, og þá voru þessi ummæli aðaláhyggjuefni þeirra Össurar og Þorgerðar Katrínar!
Davíð kom á seðlabankaráðsfund, þar sem ég sat, strax eftir ríkisstjórnarfundinn þennan dag, og þykist ég vita, að hann hafi haft yfir okkur bankaráðsmönnum svipaða tölu og ríkisstjórninni. Ég er að sönnu bundinn trúnaði um þann fund, en get sagt það, að allt, sem Davíð sagði þá, hefur komið fram, eins og raunar það, sem hann hafði sagt á næstu bankaráðsfundum á undan. Hann var rödd hrópandans í eyðimörkinni. Fréttamenn hafa aldrei spurt einnar spurningar, sem er ekki mitt að svara: Hvað sögðu og gerðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans fyrir hrun? Vöruðu þeir einhvern tíma við ástandinu? Gerðu þeir einhvern tíma ágreining um peningastefnuna?
Hitt afmælið, sem má minnast, er sextíu ára afmæli kínverska alþýðulýðveldisins 1. október. Eftir valdatöku kommúnista hófst blóðbað í Kína. Margar milljónir manna voru teknar af lífi. Aðrir sættu kúgun og eftirliti. Allt málfrelsi hvarf í landinu. Þessu er rækilega lýst í Svartbók kommúnismans. En séra Jóhann Hannesson trúboði, sem dvaldist í Kína og síðar í Hong Kong, fræddi Íslendinga líka á þessu í merkum greinaflokkum í Morgunblaðinu 1952. Íslenskir kommúnistar brugðust ókvæða við og réðust harkalega á séra Jóhann, til dæmis þeir Sverrir Kristjánsson og Magnús Kjartansson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:21 | Slóð | Facebook