19.4.2025 | 05:24
Frelsi til að skapa
Þegar kommúnisminn hrundi í Austur-Evrópu og Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur árin 19891991, héldu margir, að runnin væri upp ný frelsisöld. Það reyndist að nokkru leyti rétt. Um allan heim voru ríkisfyrirtæki færð í hendur einkaaðila, sem höfðu miklu betri skilyrði til að reka þau en skrumarar og skriffinnar. Einstaklingsfrelsið nam ný lönd, Indverjar hurfu frá haftastefnu, og um skeið virtist jafnvel hið fjölmenna Kínaveldi ætla að skipa sér í sveit lýðræðisríkja. En skjótt skipuðust veður í lofti, sérstaklega eftir árás öfgamúslima á Nýju Jórvík (New York) árið 2001, hina alþjóðlegu fjármálakreppu árin 20072009, valdatöku Xi í Kínaveldi árið 2012, kórónuveirufaraldurinn 20202021, endurteknar innrásir Rússa í Georgíu og Úkraínu og tollastríð í stað frjálsra alþjóðaviðskipta. Getur verið, að frelsisöldin hafi aðeins verið skammvinn og mannkynið muni aftur síga í hið gamla far ofstjórnar og látlausra staðbundinna stríða? Hvernig getum við varið og aukið það frelsi til að skapa, sem hefur verið aðal Vesturlanda og knúið áfram framfarir? Um það er ráðstefna, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, og Austrian Economics Center í Vínarborg halda í Reykjavík laugardaginn 5. apríl síðdegis.
Kjarngóð stjórnmálahagfræði
Inngangserindi flytur Mark Pennington, hagfræðiprófessor í Kings College, Lundúnum, en hann er einn virtasti fræðimaður yngri kynslóðar frjálslyndra hagfræðinga. Nefnist erindi hans Freedom Under Attack: What Should Be the Response? Sótt að frelsinu: Hvernig ber að bregðast við? Árið 2011 kom út í Lundúnum bók Penningtons, Robust Political Economy (Kjarngóð stjórnmálahagfræði). Það er aðgengilegt yfirlitsrit um frjálshyggju og helstu aðfinnslur að henni. Pennington spyr, hvaða reglur eða stofnanir reynist best við takmarkaða þekkingu einstaklinganna og lítinn náungakærleik, og niðurstaða hans er hin sama og Adams Smiths og Davids Humes á átjándu öld: einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi og valddreifing. Eina leiðin til að nýta þá þekkingu, kunnáttu og vitneskju, sem dreifist á einstaklingana, er að dreifa líka valdinu til þeirra. Þetta auðveldar síðan alla þróun á frjálsum markaði, þar sem sumar tilraunir heppnast og aðrar misheppnast, en við það eykst þekkingin. Dreifing valdsins minnkar einnig líkurnar á valdníðslu, sem verður því tilfinnanlegri sem fórnarlömbin eða skotmörkin eru háðari valdhöfum.
Pennington svarar þeirri aðfinnslu hins kunna hagfræðings Josephs Stiglitz, sem hefur oft haldið fyrirlestra á Íslandi, að margvísleg ríkisafskipti séu nauðsynleg til að bæta úr göllum á markaðsviðskiptum, því að til séu markaðsbrestir (market failures). Bendir Pennington á, að stjórnendur og starfsmenn inni í ríkisstofnunum búi ekki síður og raunar miklu fremur við takmarkaða þekkingu en aðilar úti á markaðnum. Þeir hafa hins vegar enga hvatningu til að reyna að fullnægja þörfum samborgara sinna, því að störf þeirra og afkoma er ekki háð því, eins og gerist í frjálsri samkeppni á markaði. Til eru ríkisbrestir (government failures) ekki síður en markaðsbrestir. Pennington ræðir líka þá aðfinnslu heimspekinganna Charles Taylors og Jürgens Habermas við frjálshyggju, að þar sé horft fram hjá því, hvernig þarfir myndast. Jafnframt grafi frjáls samkeppni undan hefðbundnum verðmætum. Pennington svarar því til, að frjáls samkeppni sé umfram allt leið til að uppgötva mannlegar þarfir og fullnægja þeim, en þau verðmæti, sem siðaðir menn beri fyrir brjósti, til dæmis stöðugleiki og samheldni, þrífist miklu betur við frelsi en fyrirskipanir að ofan.
Enn önnur aðfinnsla að frjálsri samkeppni er, að hún leiði til óréttlátrar tekjudreifingar, eins og heimspekingurinn John Rawls hefur haldið fram. Pennington telur hins vegar ólíkt Rawls, að óeðlilegt sé að líta á mannlega hæfileika og náttúruauðlindir sem sameign. Þetta tvennt nýtist ekki nema sem séreign einstaklinga, þar sem þeir fá að bæta við takmarkaða þekkingu sína með tilraunum, höppum og glöppum. Ríkið eigi að láta sér nægja að halda uppi þvíregluverki, sem geri fólki kleift að vinna saman að áhugamálum sínum nauðungarlaust. Þetta eigi til dæmis við í umhverfismálum, þar sem aðalatriðið sé að nýta markaðsöflin, nota verðlagningu í stað skattlagningar, til að minnka umhverfisspjöll. Hér mánefna tvö íslensk dæmi. Að fornu ráku bændur fé á fjall á sumrin, en þá gátu einstakir bændur freistast til að reka þangað of margt fé, því að þeir hirtu ávinninginn, en tapið, sem fólst í ofbeit, dreifðist á marga. Þetta var leyst með ítölunni svokölluðu: Á hverri jörð myndaðist réttur til að reka tiltekinn fjölda fjár á fjall, telja í sumarhagana. Hitt dæmið er af fiskveiðum. Á meðan aðgangur að fiskimiðum var ótakmarkaður, freistuðust einstakir útgerðarmenn til að bæta við bátum, uns allur ávinningur hvarf í of mikilli sókn, offjárfestingu. Þetta var leyst á svipaðan hátt og með ítölunni. Á hverjum báti myndaðist réttur til að veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum hámarksafla, aflahlutdeild (kvóti), og þessi réttur varð varanlegur og framseljanlegur. Það merkti, að útgerðarmenn gátu skipulagt veiðar sínar fram í tímann, fært aflahlutdeild sína milli skipa, keypt hana eða selt, og einbeitt sér að því að veiða á sem hagkvæmastan hátt. Þannig voru markaðsöflin nýtt til að tryggja hagkvæmni í fiskveiðum.
Frelsi að fornu
Annar ræðumaður á ráðstefnunni er dr. Gabriel Stein. Hann er hagfræðingur og sagnfræðingur að mennt, en starfar sem fjármálaráðgjafi og fjárfestir í Lundúnum ásamt viðskiptafélaga sínum, John Nugée, sem er líka hagfræðingur og var um skeið deildarstjóri í Englandsbanka. Þeir félagar sóttu í ágúst 2005 ráðstefnu Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Reykjavík og hrifust af frásögnum um íslenska þjóðveldið, þar sem enginn konungur var annar en lögin, eins og þýski sagnritarinn Adam frá Brimum sagði. Apud illos non est rex, nisi tantum lex. Stein er Svíi af gyðingaættum og talar sænsku, ensku, hebresku, rússnesku, kínversku og ýmis önnur mál. Eitt tómstundagaman hans er að semja sögulegar skáldsögur, og ákváðu þeir Nugée í sameiningu að skrifa skáldsögu um íslenska þjóðveldið. Hún kom út í nóvember 2021 og heitir Sailing Free: The saga of Kári the Icelander (Frjáls á siglingu: Sagan um Íslendinginn Kára), og ætlar Stein að segja okkur frá henni.
Sagan gerist árin 1055-1067. Ragnar er bóndi og farmaður á Snæströnd, sem liggur á norðanverðu Snæfellsnesi. Móðir hans hafði verið hernumin frá Írlandi, en sjálfur hefur hann óbeit á þrælahaldi. Vinnufólk hans er allt frjálst. Synir hans og Hallgerðar konu hans eru Guðmundur og Kári. Ragnar á kaupskip, knörr, og hann sendir Kára í verslunarferðir suður á bóginn, til Kirkjuvogs á Orkneyjum og Jórvíkur á Englandi, og selur hann vaðmál og tennur og húðir rostunga, en kaupir timbur, járn og vefnaðarvöru. Kári ratar í ýmis ævintýri, þar á meðal innrás Haraldar harðráða í England 1066, og hann kemst alla leið suður til Lissabon, þar sem hann situr einn vetur. Heima fyrir gengur Guðmundi erfiðlega að gera upp á milli eiginkonu sinnar Ásu og Jórunnar, dóttur Gunnars goða, en hún er í senn fögur og harðbrjósta.
Að Ragnari bónda látnum eiga þeir Kári og Guðmundur í deilum við Gunnar goða, en ekki er nóg með, að hann sé yfirgangssamur við granna sína, heldur gerir hann á Alþingi 1067 bandalag við klerka um að leggja til sérstök gjöld handa kirkjunni í Róm og vill jafnframt, að Ísland sæki skjól til einhvers sterkara ríkis. Kári stendur þá upp og flytur snjalla ræðu. Bendir hann á, að þeir konungar, sem hann hafi kynnst á ferðum sínum erlendis, séu ærið misjafnir. Sumir þeirra leggi þung gjöld á þegnana og etji þeim út í mannskæðan hernað. Því sé Íslendingum hollast að halda sig við sín gömlu, góðu lög. Ræða hans er bergmál hinnar frægu ræðu Einars Þveræings, sem Snorri Sturluson samdi. Í skáldsögunni létu goðarnir sannfærast. En svo einkennilega vill til, að við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir sama vanda og forðum: Hvert á samband okkar að vera við Evrópusambandið annars vegar og Bandaríkin hins vegar?
Kreppa Evrópusambandsins
Forvitnilegt verður að hlýða á erindi þriðja ræðumannsins, dr. Barböru Kolm, forstöðumanns Austrian Economics Center í Vínarborg, sem starfar í anda austurríska hagfræðiskólans, sem þeir Carl Menger, Ludwig von Mises og Friedrich A. von Hayek stofnuðu. Sá skóli leggur áherslu á frjáls viðskipti og valddreifingu og telur frjálsa samkeppni umfram allt vera þekkingarleit, sem verði þess vegna að vera óheft. Jafnframt er Kolm stjórnmálamaður, því að hún var í nýafstöðnum þingkosningum í Austurríki kjörin á þing fyrir Frelsisflokkinn, og var hún eitt af ráðherraefnum flokksins, en svo fóru leikar, að aðrir flokkar mynduðu stjórnina. Kolm sat í bankaráði austurríska seðlabankans um árabil, en fyrirlestrar hennar og greinar hafa aðallega beinst að því, hvernig Evrópusambandið geti komist út úr þeirri kreppu, sem það er nú í, ekki síst vegna uppivöðslusamra innflytjenda, reglugerðarfargans og ótraustra peninga.
Við uppi á Íslandi horfum upp á margvísleg merki um þessa kreppu. Evrópusambandið hefur reynst þess vanmegnugt að bregðast við hættunni af öfgamúslimum annars vegar og ágengum Rússum hins vegar. Það er að sligast undan blekiðjubákninu í Brüssel, sem nýtur fulltingis stjórnlyndra dómara, en þeir skapa í sífellu ný réttindi á kostnað almennings og atvinnulífs eins og töframenn í hringleikahúsum draga kanínur upp úr höttum sínum. Þessir sömu dómarar sjá hins vegar ekkert athugavert við það, þegar evrópski seðlabankinn brýtur skilyrðislaust bann í stofnskrá sinni við því að veita aðildarríkjunum lán. Þegar öfgamúslimar ráðast með stuðningi Íransstjórnar á evrópsk skip í Súez-skurðinum (en hlífa skipum frá Rússlandi og Kína), hefst Evrópusambandið ekki að, heldur treystir á hernaðarmátt Bandaríkjanna. Nú er hins vegar komið í ljós, að Evrópuríkin geta ekki skilyrðislaust reitt sig á Bandaríkin. Hvað eiga þau þá að taka til bragðs? Hvernig á til dæmis að stöðva Úkraínustríðið, sem snúist hefur upp í þrátefli, tilgangslaust blóðbað?
Einn virtasti stjórnmálamaður Breta, Hannan lávarður, hefur nefnt hugmynd. Hún er, að Stóra Bretland, Ástralía, Kanada og Nýja Sjáland geri með sér samtök, sem verði í senn fríverslunarsvæði og öryggisbandalag, þar sem aðildarríkin njóti góðs af kjarnorkuvopnum Breta, en kosti aukningu þeirra og eflingu. Ég hitti Hannan að máli fyrir skömmu í Mexíkóborg og sagði honum, að hann mætti þá ekki gleyma Íslandi, sem kynni að eiga heima í slíku bandalagi. Það þarf alls ekki að koma í veg fyrir, að landið sé tengt Bandaríkjunum með varnarsamningnum frá 1951, sem virðist enn eiga við, og með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem tók gildi árið 1994 og veitti okkur aðgang að innri markaði Evrópu. En auðvitað hljóta Íslendingar einnig að líta til frændþjóða sinna á Norðurlöndum, og vonandi tekst Evrópuríkjunum að treysta samstarfið við Bandaríkin, þótt blikur séu á lofti. Aðrar þjóðir eiga að vera vinir okkar, en ekki drottnarar (eins og Kári segir í skáldsögu Steins og Einar Þveræingur í Heimskringlu Snorra).
Tveir aðrir ágætir fyrirlesarar eru á ráðstefnunni, prófessor Per Bylund, sem talar um frumkvöðla, en þeir eru sannkallaðir hreyflar kapítalismans með sköpunarmætti sínum, og prófessor Sasa Randelovic, sem talar um þróun nútímahagfræði. Bylund hefur nýlega gefið út bók um frumkvöðla. Ráðstefnan er í stofu M-101 í Háskólanum í Reykjavík og hefst kl. 14 á laugardag. Eru allir velkomnir.
(Grein í Morgunblaðinu 4. apríl 2025. Myndin er af erlendu ræðumönnunum og innlendu skipuleggjendunum.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:28 | Slóð | Facebook
19.4.2025 | 05:17
Samtal í Hámu
Dr. Gabriel Stein, fjárfestir í Lundúnum, flutti erindi á málstofu Hagfræðistofnunar mánudaginn 7. apríl 2025. Að því loknu fengum við okkur kaffi í Hámu, matstofu Háskólans. Að borði okkar komu tvö kurteis ungmenni, piltur og stúlka, sögðust vera frá Noregi og vildu fá að setjast hjá okkur. Í ljós kom, að þau voru trúboðar.
Ungmennin: Trúið þið á Guð?
Ég: Ja, hvað skal segja? Frumspekin fæst við þrjár gátur, tilvist Guðs, ódauðleika sálarinnar og frelsi viljans. Ég kem auga á þrenn rök fyrir tilvist Guðs. Hin fyrstu setti bekkjarbróðir minn úr menntaskóla fram í kvöldverðarboði hjá mér nýlega, Einar Stefánsson, prófessor og uppfinningamaður. Þau eru, að samtalið sé frjótt. Bænin er samtal við Guð, og hún auðveldar mönnum skynsamlegar ákvarðanir. Við þurfum einhvern til að tala við. Önnur rökin eru frá Pascal, að við ættum að veðja á tilvist Guðs, því að það kostar miklu meira að hafa rangt fyrir sér en rétt. Þriðju rökin eru frá Dostojevskíj: Ef Guð er ekki til, þá er allt leyfilegt.
Gabríel: Já, ég trúi á tilvist Guðs, en ég held, að miðaldaheimspekingurinn Móses Maímónídes hafi haft rétt fyrir sér um, að Guð felist í fjarveru, ekki nærveru.
Ég: Svipað og réttlæti er fjarvera ranglætis, friður fjarvera stríðs og frelsi fjarvera kúgunar?
Gabríel: Já, einmitt.
Ég: En hver er þá fjarveran, sem skilgreinir Guð?
Gabríel: Óskapnaður, ringulreið, kaos.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.
Ég: Já, þið eruð frá Noregi. Mér fannst fróðlegt að kynna mér Hans Nielsen Hauge, sem var í senn farandprédikari í Noregi á öndverðri nítjándu öld og athafnamaður. Hann rak mörg fyrirtæki og taldi, að Guði yrði best þjónað með því að græða fé. Sumir lærisveinar hans áttu þátt í því, að Norðmenn settu sér frjálslynda stjórnarskrá árið 1814.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. apríl 2025. Myndin er af Gabriel Stein.)
19.4.2025 | 05:11
Frelsi og frumkvöðlar
Flestar ráðstefnur eru lítið annað en bergmál almæltra tíðinda. Það átti þó ekki við um ráðstefnu, sem RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, og Austrian Economics Center héldu saman í Reykjavík 5. apríl 2025 um frelsi og frumkvöðla og ég skipulagði. Þar voru flutt mörg fróðleg erindi. Dr. Gabriel Stein, fjárfestir í Lundúnum og fjölfræðingur, sagði frá skáldsögu sinni um íslenska þjóðveldið, Sailing Free: The Saga of Kári the Icelander. Henni lýkur á Alþingi árið 1067, þar sem söguhetjan Kári Ragnarsson deilir við Gunnar goða, sem vill, að Íslendingar afsali sér fullveldi og leiti skjóls í Evrópu. Hagfræðiprófessorarnir Per Bylund í Oklahoma og Sasa Randjelevic í Serbíu útskýrðu, hvert væri hlutverk frumkvöðla í frjálsu atvinnulífi og hvernig áföll eins og fjármálakreppan 20072009 og kórónuveirufaraldurinn 20202021 ógnuðu atvinnufrelsi.
Frumlegustu hugmyndirnar voru þó settar fram í tveimur öðrum erindum. Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austrian Economics Center í Vínarborg, kvað skynsamlegustu viðbrögð Evrópuríkja við nýlegum tollahækkunum Bandaríkjastjórnar vera að fella einhliða niður alla tolla á vöru frá Bandaríkjunum og bíða síðan viðbragða í vestri. Þetta er svipuð hugmynd og Elon Musk hefur sett fram, að Norður-Ameríka og Evrópa verði eitt risastórt fríverslunarsvæði. Prófessor Mark Pennington sagði, að leiðin til ánauðar væri ekki lengur miðstýrður áætlunarbúskapur eins og Lenín og Stalín hefðu hugsað sér, heldur ofurvald orðræðustjóra á ýmum stigum, en þeir kæmu í veg fyrir frjálsa samkeppni hugmynda. Tók hann orðræðurnar um kórónuveirufaraldurinn og hamfarahlýnun til dæmis. Við erum hneppt í ósýnilega fjötra. Við veljum ekki. Það er valið fyrir okkur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. apríl 2025. Myndin er af Barböru Kolm að flytja erindi sitt.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:13 | Slóð | Facebook
11.4.2025 | 06:08
Tvö stríð
Samtök eldri sjálfstæðismanna sýndu mér þann sóma að biðja mig að tala á fundi þeirra 26. mars 2025, og kynnti ég þar nýútkomna bók mína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Sú bók er samanburður á þjóðlegri frjálshyggju danska skáldsins Grundtvigs og frjálslyndri alþjóðahyggju ítalska hagfræðingsins Einaudis. Ég minnti á norrænu leiðina í alþjóðamálum, sem væri 1) að leyfa einni þjóð að segja skilið við aðra, 2) að færa til landamæri með atkvæðagreiðslum í umdeildum héruðum, 3) að tryggja þjóðabrotum, sem lenda innan þjóðríkis, sjálfræði í sem flestum málum, 4) að halda afsali fullveldis í lágmarki með frjálsri gagnkvæmri aðlögun.
Síðan vék ég að þeim tveimur stríðum, sem háð eru í eða nálægt Evrópu. Stríð eru tvenns konar, þau, sem lýkur með sigri annars aðilans, og þau, sem verða að þrátefli, þar sem hvorugur aðili fær sigrað hinn. Dæmi um hið fyrrnefnda er sigur Ísraelsmanna á Arabaríkjunum árið 1948. Dæmi um hið síðarnefndar er fyrri heimsstyrjöldin, þar sem víglínur breyttust lítt eftir nokkra fyrstu mánuðina, svo að stríðið varð að tilgangslausu blóðbaði.
Stríðið í Ísrael er dæmi um hið fyrrnefnda. Ísrael er að sigra hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah. Vopnahlé núna væri jafnórökrétt og vopnahlé í Þýskalandi í ársbyrjun 1945. Ganga verður milli bols og höfuðs á hryðjuverkasamtökunum eins og gert var við nasista árið 1945. Stríðið í Úkráinu er hins vegar dæmi um hið síðarnefnda. Það er orðið þrátefli. Pútín kom ekki fram þeirri ætlun sinni að leggja Úkraínu undir sig, sem betur fer, en Úkraína hefur því miður ekki afl til að reka her hans af höndum sér. Þráteflið er því orðið að tilgangslausu blóðbaði. Eina ráðið þar ólíkt Ísrael er vopnahlé, og þá mætti líta til norrænu leiðarinnar í alþjóðamálum, þótt ég geri mér raunar litlar vonir um það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. apríl 2025.)
11.4.2025 | 06:02
Dagar í Mexíkó
Á ráðstefnu í Mexíkóborg 16.19. mars 2025 kynnti ég ekki aðeins nýútkomna bók mína á ensku um norræna og suðræna frjálshyggju, heldur tók einnig til máls, eftir að prófessor einn hafði rætt um Ameríkuhugtakið og minnst á, að á undan Kristófer Kólumbusi hefðu Íslendingar fundið Ameríku og líklega fleiri. Ég vitnaði í Oscar Wilde, sem sagði: Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur. Þetta er fyndið, en ekki alls kostar nákvæmt, því að Íslendingar týndu ekki Ameríku, heldur hröktu frumbyggjar þá á brott, eins og lýst er í Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, en ég hef gert útdrátt úr þeim á ensku undir nafninu The Saga of Gudrid, því að Guðríður Þorbjarnardóttir er í rauninni aðalsöguhetjan í þeim, fyrsta evrópska móðirin í Vesturheimi.
Ég fór líka með aðra gráa fyndni um fund Ameríku eftir þýska heimspekinginn Georg Christian Lichtenberg: Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn. Þetta er holl áminning um að gleyma ekki frumbyggjunum, sem fundu Ameríku langt á undan Íslendingum og Kólumbusi, líklega um 25 þúsund árum f. Kr., þegar þeir komu yfir Bering-sund frá Asíu. Evrópumenn báru með sér vestur um haf ýmsa smitsjúkdóma, sem þeir voru sjálfir orðnir ónæmir fyrir, en frumbyggjarnir ekki. Talið er, að í Ameríku hafi búið um 60 milljónir manna, áður en landnám Evrópumanna hófst, en allt að 90% þeirra hafi dáið úr bólusótt, myslingum, mýraköldu, inflúensu, taugaveiki, skarlatssótt og öðrum sjúkdómum. Hitt er annað mál, að líklega voru nýlenduherrar Spánverja skömminni skárri en keisarar Asteka og Inka, sem gengu fram af mikilli grimmd.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2025.)
11.4.2025 | 05:59
Mexíkóborg, mars 2025
Mont Pelerin samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman og fleiri stofnuðu árið 1947. Á þingi þeirra í Mexíkóborg 16.19. mars 2025 kynnti ég nýútkomna bók mína, sem evrópsku íhaldsflokkarnir gáfu nýlega út, Conservative Liberalism, North and South. Var kynningin vel sótt og góður rómur gerður að máli mínu. Sérstaklega fannst áheyrendum merkilegt að heyra um hinn fornnorræna frjálshyggjuarf, sem Snorri Sturluson kom orðum að í Heimskringlu, hugmyndirnar tvær um völd í umboði þinga og réttinn til að afhrópa konunga, ef þeir brutu fornhelg lög.
Mexíkóborg hét Tenochtitlan, þegar Spánverjar komu þangað fyrst haustið 1519, hafði verið stofnuð árið 1325 og var höfuðborg Astekaveldisins. Þar voru stundaðar mannfórnir, þegnarnir kúgaðir hrottalega og strangri stéttaskiptingu haldið uppi. Árið 1521 lögðu Spánverjar Astekaveldið undir sig og reistu nýja borg á rústum hinnar gömlu. Hún varð aðsetur landstjóra Spánverja á víðlendu svæði, konungdæminu Nýja Spáni, sem teygði sig yfir alla Mið-Ameríku, eyjar í Karíbahafi, Mexíkó okkar daga, vesturhluta núverandi Bandaríkja Norður-Ameríku, allt frá Kaliforníu til Flórída, og yfir þvert Kyrrahaf til Filippseyja. Stóð veldi Spánverja í rétt þrjú hundruð ár, til 1821, þegar Mexíkó öðlaðist sjálfstæði, en úr því hafði kvarnast mikið.
Mexíkóborg varð höfuðborg hins nýja ríkis, en ýmsar skýringar hafa verið viðraðar á því, hvers vegna því hefur vegnað miklu verr en grannanum í norðri. Ég tel einna haldbærasta þá, að muninn megi rekja allt til fyrstu evrópsku landnemanna, sem bjuggu við þátttöku (inclusion) í Bandaríkjunum, en sjálftöku (extraction) í Mexíkó.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2025).
16.3.2025 | 17:13
Ný forysta Sjálfstæðisflokksins
Full ástæða er til að óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins til hamingju, formanninum, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og varaformanni, Jens Garðari Helgasyni. Við þau eru miklar vonir bundnar. Eflaust hafa þau bæði notið þess hjá landsfundarfulltrúum að koma úr atvinnulífinu, en einn munurinn á Sjálfstæðisflokknum og hinum stjórnmálaflokkunum er, að hann styður öflugt atvinnulíf öllum í hag. Skapa þarf verðmætin, áður en þeirra er notið.
Ég gef þeim Guðrúnu og Jens Garðari tvö ráð. Annað er, að þau láti sig varða skoðanamyndun í landinu, en um hana hafa sjálfstæðismenn verið undarlega áhugalitlir. Í háskólum landsins og á ríkisfjölmiðlum er rekinn skefjalaus áróður fyrir vinstri stefnu. Auðvitað eiga vinstri menn að hafa fullt frelsi til að boða hugmyndir sínar. En það á ekki að vera á kostnað skattgreiðenda. Því miður nýtti Sjálfstæðisflokkurinn ekki það færi, sem hann hafði árið 2013, eftir að vinstri flokkarnir höfðu beðið greipilegan ósigur, til að tryggja eðlilegt jafnvægi í miðlun upplýsinga, sérstaklega í Ríkisútvarpinu, sem er þó skylt að lögum að gæta sanngirni. Þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fóðra þá, sem bíta hann?
Hitt ráðið er, að þau Guðrún og Jens Garðar geri sér grein fyrir, að hin raunverulega stéttabarátta á Íslandi er ekki háð á milli auðmagns og verkalýðs, eins og marxistar halda fram, heldur á milli hinna vinnandi og hinna talandi stétta. Þau koma sem betur fer bæði úr röðum hinna vinnandi stétta. En hinar talandi stéttir, sem hittast iðulega á fjölmennum og löngum fundum til að masa um, hvernig skipta megi þeim verðmætum, sem aðrir hafa skapað, hallast auðvitað til vinstri. Það ber dauðann í sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fjölga opinberum starfsmönnum og styrkþegum. Með því er hann aðeins að fjölga kjósendum vinstri flokka. Þá er hann enn að fóðra þá, sem bíta hann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2025.)
16.3.2025 | 17:11
Tollheimta og sjórán
Fyrir rás viðburðanna lentu Íslendingar undir stjórn Danakonungs árið 1380, þegar Danakonungur, Ólafur Hákonarson, þá tíu ára, var kjörinn konungur Noregs. Móðir Ólafs, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, var ríkisstjóri. En þegar Ólafur lést óvænt árið 1387, var úr vöndu að ráða. Margrét ákvað árið 1389 að ættleiða eina afkomanda föður síns á lífi, hinn sjö ára svein Bugislav af Pommern. Hann skipti þá um nafn, kallaðist Eiríkur og fluttist norður til Danmerkur. Varð hann konungur Noregs (og Íslands) árið 1389, konungur Danmerkur árið 1396 og Svíþjóðar sama ár.
Þótt Eiríkur væri konungur, stýrði Margrét ömmusystir hans ríkjum til dauðadags árið 1412. Sem konungur varð Eiríkur helst frægur fyrir að koma á Eyrarsundstollinum árið 1429. Urðu öll skip, sem fóru um Eyrarsund, að koma við í Helsingjaeyri og greiða toll af farmi sínum. Ella voru þau skotin í kaf með fallbyssum frá Krónborg. Margt varð Eiríki mótdrægt, og var hann settur af í Svíþjóð og Danmörku árið 1339 og í Noregi ári síðar. Hann fór til eyjunnar Gotlands og lifði næstu tíu árin á sjóránum. Þá vaknar forvitnileg spurning: Hvaða munur var á að leggja með Eyrarsundstollinum kostnað á skip, sem fóru um Eyrarsund, og leggja með sjóránum kostnað á skip, sem fóru um Eystrasalt? Það er gömul regla, að skatta skuli leggja á með samþykki réttkjörinna fulltrúa (No taxation without representation). Sú regla átti svo sannarlega ekki við um Eyrarsundstollinn, sem var innheimtur með hótunum um ofbeldi. Hann var síðan óhagkvæmur, því að hann dró úr alþjóðaviðskiptum. Verður mér í þessu sambandi hugsað til enska heimspekingins Gertrude Anscombe, sem sagði, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og bófafélögum, sem bjóða vernd gegn gjaldi.
Eini munurinn á tollheimtu Eiríks og sjóránum er, sýnist mér, að tollheimtan var fyrirsjáanleg og eftir föstum reglum. Með öðrum orðum var munurinn sá, að Eyrarsundstollurinn var löghelgað sjórán.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. mars 2025.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook
16.3.2025 | 17:03
Frelsishetjur Svía
Eitt af því, sem ég hef komist að í grúski mínu síðustu ár, er, að Svíar búa að sterkri frjálshyggjuarfleifð. Hún gerði þeim kleift að standast á sautjándu öld áhlaup konunga, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Guðs, og á tuttugustu öld áhlaup vinstri sinnaðra stjórnmálamanna, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Alþýðunnar. Í sögu Svía standa nokkrar frelsishetjur upp úr.
Ein er Þórgnýr lögmaður Þórgnýsson, sem Snorri segir frá í Heimskringlu, en á þingi Svía árið 1018 tilkynnti hann Ólafi, konungi þeirra, að hann yrði að halda friðinn og fylgja gömlum lögum, ella yrði hann settur af og jafnvel drepinn. Hér var Þórgnýr að vísa í þá ævafornu reglu germanskra þjóða, að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra.
Önnur frelsishetjan var aðalsmaðurinn og námueigandinn Engilbrekt Engilbrektsson, sem hafði forystu um uppreisn Svía árið 1434 gegn Eiríki af Pommern, en ári síðar komu fulltrúar ólíkra stétta saman í fyrsta sinn í bænum Arboga, og á sænska þingið rætur að rekja til þess fundar. Það var fram til 1866 stéttaþing og skiptist í fjórar deildir, aðals, klerka, borgara og bænda. Var þá fátítt í Norðurálfunni, að bændur ættu sérstaka fulltrúa á þingi. Orti Tómas Marteinsson biskup árið 1439 fræga drápu um Engilbrekt, og sagði þar, að frelsið væri gulli betra.
Þriðja frelsishetjan var fræðimaðurinn Olaus Petri, sem hét upphaflega Olof Petterson, en hann var lærisveinn Lúters í Wittenberg. Hann samdi Dómarabókina svokölluðu um 1530, en hún er jafnan sett fremst í lögbókum Svía og Finna. Þar er kveðið á um, að allir séu jafnir fyrir lögunum, fátæklingar jafnt og furstar. Ein meginskýringin á velgengni norrænna þjóða síðustu aldir er einmitt öflugt réttarríki.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2025. Myndin er af Þórgný lögmanni að vera við Ólaf konung við, gerð eftir Christian Krogh.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook
16.3.2025 | 17:00
72 ára
Hátíðir eiga að lyfta okkur upp úr hversdagslífinu, rifja upp, að við erum ekki maurar í þúfu, heldur einstaklingar í sálufélagi við ástvini, vini, fjölskyldu, samherja og samlanda.
Þótt árin færist yfir, er afmæli ætíð tilefni til hátíðarhalda. Þá hefur mér tekist að lifa af enn einn hringinn, sem jörðin fer í kringum sólina. Þegar ég átti 72 ára afmæli hinn 19. febrúar í ár, hélt ég upp á það með grillveislu heima hjá mér í Rio de Janeiro. Þá leituðu á hugann liðin stórafmæli, enda er minningin eina paradísin, sem enginn getur rekið okkur út úr.
Þegar ég varð þrítugur árið 1983, héldu vinir mínir mér fjölmennan fagnað í Héðinshúsinu, og flaug ég sérstaklega til Reykjavíkur frá Oxford, þar sem ég stundaði þá nám. Þeir Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Vilmundur Gylfason, formaður Bandalags jafnaðarmanna, kvöddu sér báðir hljóðs í samsætinu, og mæltist þeim vel.
Ég hélt upp á fertugsafmælið árið 1993 í góðra vina hóp í veitingastaðnum Skólabrú, þar sem þeir Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og konur þeirra samfögnuðu mér.
Ég hélt upp á fimmtugsafmælið árið 2003 með móttöku á Hótel Sögu og kvöldverði með nokkrum vinum í Skólabæ, sem þá var samkomuhús háskólamanna. Fluttu þeir Davíð Oddsson og Ólafur Þ. Harðarson snjallar ræður í móttökunni.
Ég hélt upp á sextugsafmælið árið 2013 með móttöku í Háskólanum og kvöldverði í Þingholti, þar sem þeir Davíð, Kjartan og Gunnlaugur Sævar færðu mér skemmtilega afmælisgjöf, málverk eftir Stephen Lárus Stephen, sem nefnist Hannes ófullgerður, áskorun um að halda áfram á markaðri braut.
Á sjötugsafmælinu árið 2023 var ég á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro, en í maí það ár hélt Háskólinn fjölmenna starfslokaráðstefnu, þar sem margir góðir vinir, erlendir og innlendir, fluttu fróðlega fyrirlestra, sem aðgengilegir eru á netinu. Forseti Íslands bauð öllum ræðumönnunum til móttöku á Bessastöðum, forseti Alþingi bauð erlendu gestunum í Alþingishúsið og fjármálaráðherra hélt kvöldverð í Ráðherrabústaðnum. Gat viðskilnaður minn við Háskólann ekki orðið ánægjulegri.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2025.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook