1.1.2010 | 10:48
Skáldin gegn Bretum
Fautaskapur Breta í garð Íslendinga í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu verður lengi í minnum hafður. Þeir felldu breskan banka í eigu Kaupþings og settu Landsbankann á skrá yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana! Eftir þær tilefnislausu aðgerðir voru allar björgunaraðgerðir vonlausar. Síðan hafa þeir krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur beri það tjón, sem þeir ollu sjálfir að miklu leyti með aðgerðum sínum. Vinstristjórnin íslenska hefur látið undan þeim.
Þótt ýmislegt megi gott segja um breska heimsveldið á liðnum öldum, lék það smáþjóðir iðulega grátt. Við Íslendingar vorum til dæmis heppnir að hafa ekki sömu nýlenduherra og Írar, sem Bretar kúguðu löngum, jafnvel svo harkalega, að í því frjósama landi skall á hungursneyð um miðja nítjándu öld. Bretar hefðu umsvifalaust fangelsað eða skotið Jón Sigurðsson. Danir settu hann á laun við að sýsla um fornrit.
Þegar gull fannst í lok nítjándu aldar í Transvaal, en þangað höfðu hollenskumælandi íbúar Suður-Afríku hrakist undan Bretum, réðust Bretar þangað norður og lögðu landið undir sig, en Stephan G. Stephansson orti:
Og sneypstu, hættu að hæla þér,
af herfrægð þinni, blóði og merg,
því bleyðiverk það kallar hver,
þótt kúgi jötunn lítinn dverg.
Í Búastríðinu voru fyrst stofnaðar fangabúðir (concentration camps) í nútímamerkingu.
Þegar Bretar hernámu Ísland vorið 1940, voru flestir Íslendingar að vísu fegnir, að þeir voru ekki Þjóðverjar, sem gengið hefðu miklu harðar fram, en hernámið var engu að síður brot á fullveldi Íslands. Steinn Steinarr orti:
Og jafnvel þótt á heimsins ystu nöf
þú næðir þrælataki á heimskum lýð,
það var til einskis, veldur stuttri töf.
Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð.
Nú beita Bretar því afli gegn Íslendingum, sem þeir þora ekki að nota gegn öðrum stærri þjóðum, og því miður eru engir Bandaríkjamenn lengur til að halda aftur af þeim eins og í þorskastríðunum, þegar Bretar sendu hvað eftir annað herskip á Íslandsmið. Eins og í viðureigninni við Harald blátönn forðum eiga Íslendingar fá vopn önnur en kveðskapinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Facebook