Raddir skáldanna

Þótt íslensk skáld geti verið mistæk í afstöðu sinni til einstakra mála, eins og andstaða margra þeirra við hið farsæla varnarsamstarf við Bandaríkin 1941–2006 sýndi, komast þau oft vel að orði og flytja okkur sannleik ofar stað og stund, enda skilur þar milli góðskálda og dauðlegra manna. Andskotinn á ekki einn að bjóða upp á bestu lögin, eins og sagt hefur verið.

Mér finnst sumt það, sem íslensk skáld ortu á tuttugustu öld, eiga vel við um óheillasamninginn, sem Steingrímur J. Sigfússon berst nú fyrir um Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi, til dæmis þessi orð Jóns Helgasonar prófessors vorið 1951:

Sú þjóð, sem dottar dáðlaus, viljasljó,
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja.

Samningamennirnir íslensku, sem virðast hafa verið fullkomnir viðvaningar og haldið eins illa á málstað Íslendinga og hugsast getur, hefðu líka mátt lesa orð Halldórs Kiljans Laxness úr Íslandsklukkunni:

„Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíð­skap­­aryfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hall­­kvæmur og lini afl óvinar þess.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband