1.1.2010 | 10:43
Rányrkja og nýlendukúgun
Það er vandlifað í þeim heimi, sem umræðustjóri Ríkisútvarpsins hefur skapað sér. Ég leyfði mér fyrir nokkru að svara á bloggi mínu fullum hálsi árásum Baugsmiðla á mig, og þá skrifaði Egill Helgason ótilkvaddur inn á Facebook-síðu mína, að ég skyldi halda út á hafsauga ásamt Baugsmönnum. Á dögunum skrapp ég í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar, bloggaði síðan um hana og lét í ljós efasemdir um boðskapinn, sem virðist beinast að vestrænni tækni. Þá sakar Egill mig um að mæla bót rányrkju og nýlendukúgun! Eða svo að gullaldaríslenska hans sé notuð: Ég haldi „með vondu köllunum“.
Auðvitað er ég andvígur hvoru tveggja, rányrkju og nýlendukúgun. En ráðið gegn rányrkju er ekki að prédika gegn henni, eins og Egill Helgason virðist trúa, heldur að gera þá, sem nýta náttúruauðlindir, ábyrga fyrir þeim með því að veita þeim einkaafnotarétt eða eignarrétt að þessum auðlindum. Þá hafa þeir ekki hag af rányrkju. Þetta hefur tekist mætavel með íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi, eins og Ragnar Árnason prófessor hefur leitt manna best í ljós. Annar íslenskur prófessor, Þráinn Eggertsson, hefur skrifað snjalla grein um, hvernig fornmenn reyndu að takmarka ofbeit á fjöllum (rányrkju) með svokallaðri ítölu. Hvergi var hins vegar stunduð meiri rányrkja en í ríkjum sameignarmanna á síðari hluta tuttugustu aldar. Þar hafði enginn hag af skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, af því að enginn átti þær.
Enginn mælir heldur bót nýlendukúgun. En sennilega bitnaði hún oft á kúgurunum ekki síður en hinum kúguðu. Sú staðreynd er til dæmis merkileg, að ríkustu lönd heims, Sviss, Lúxemborg, Noregur og Bandaríkin, áttu ekki nýlendur, að heitið gat, og að þau nýlenduveldi, sem héldu lengst í nýlendur sínar, Portúgal og Ráðstjórnarríkin, eru tiltölulega fátæk lönd. Raunar hefur ekki komið út magnaðri bók um nýlendukúgun síðustu misseri en Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi, og hefur sums staðar verið undarlega hljótt um hana. Önnur staðreynd er ekki síður merkileg, sem skoski sagnfræðingurinn Niall Ferguson hefur bent á, að sumum löndum varð það til góðs að vera undir nýlendustjórn. Hong Kong-búar vildu til dæmis ólmir vera áfram undir stjórn Breta frekar en sameinast Kínverjum.
Því er við að bæta, af því að jólin eru nýliðin og allir vonandi enn í kristilegu skapi, að sumir réttlæta þróunaraðstoð með orðum Jóhannesar skírara: „Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á.“ (Lúk. 3, 11.) En ég tel, að aðeins megi réttlæta neyðaraðstoð með þessum orðum, ekki venjulega þróunaraðstoð. Það skiptir máli, hvers vegna maður á engan kyrtil. Ef harðstjórinn í landi mannsins (sem oft leysti nýlenduherrana af hólmi) hrifsar jafnóðum af honum þá kyrtla, sem hann saumar sér, þá stoðar lítt að gefa honum nýjan kyrtil. Ef maðurinn nennir sjálfur ekki að sauma sér kyrtil, þá á hann ekki að fá hann að gjöf. Frjálshyggjumenn hafa mestan áhuga á því, að saumastofur séu í fullum gangi, svo að engan vanti kyrtil. En til þess þarf að borga sig að sauma kyrtla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2010 kl. 10:03 | Facebook