27.12.2009 | 10:54
Avatar
Ég skrapp á dögunum í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar eftir James Cameron. Auðvitað er handritið þaulhugsað, myndin stórvel gerð tæknilega og alls ekki leiðinleg, þótt löng sé. En mér líst ekki alls kostar á boðskapinn. Á reikistjörnunni Pandóru býr eins konar tegund manna, Navi, sem er fær um að tala og líkist mönnum um margt annað, en er ekki langt komin tæknilega. Mennirnir ryðjast þangað, því að Navi-þjóðin lumar á verðmætum málmum. Henni tekst þó með hjálp bandarísks hermanns að hrinda þeim af höndum sér.
Navi-fólkið er blátt á hörund, grannvaxið og lifir hamingjusamt í sátt við náttúruna. Þar minnir um sumt á indjána í tveimur öðrum myndum úr draumasmiðjunni bandarísku, Dansað við úlfa og Pocahontas. Ég sé ekki betur en þetta sé goðsögnin um göfugu villimennina, sem Jean-Jacques Rousseau gerði fræga, í enn einni útgáfu. Þeir villimenn hafa aldrei verið til. Frumstæðir ættbálkar manna hafa jafnan lifað við sult og seyru, grimmd og dráp og flestir gengið illa um umhverfi sitt, stundað rányrkju í stað ræktunar.
Í myndinni er tæknin sýnd sem óvinur náttúrunnar, eyðingarafl. Þetta er líka boðuð einhver óljós algyðistrú, þar sem náttúran er komin í stað Guðs. Gyðjan Eywa er samnefnari alls lífs. En Náttúran rauð um kjaft og kló, sem Tennyson orti um, er ekki góður guð eða miskunnsamur. Þar berjast tegundirnar hver við aðra um að halda velli. Hvalir veiða fisk frá mönnum. Fílar troða niður akra og hús bænda í Afríku. Ljón elta uppi önnur dýr og rífa þau í sig, á meðan hrægammar sveima yfir. Mýflugur og rottur bera sýkla milli manna og dýra og valda þannig dauða þeirra. Þar eru margvísleg önnur eyðingaröfl að verki. Þurrkar og flóð skiptast á. Beljandi stórfljót varna mönnum og dýrum ferða.
Samkvæmt hinum gyðinglega og kristilega arfi eiga mennirnir að fara eftir boðorðinu í fyrstu bók Móse: Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni. Þetta merkir, að ná ber tökum á þurrkum og flóðum með áveitum og stíflum og brúa stórfljót eða virkja, halda með hæfilegum veiðum í skefjum hvölum, fílum og ljónum og eyða meindýrum. Tæknin er ekki eyðingarafl, heldur von okkar og haldreipi. Og það var einmitt með nýjustu tækni, sem James Cameron gat gert þessa stórmynd sína gegn tækninni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook