Miskunnsami Samverjinn

samverjinn.jpgÉg sat fyrir skömmu fróðlega ráðstefnu um umhverfissiðfræði í Tucson, Arizona, eins og ég hef áður minnst hér á. Þar var meðal annars rætt um þær skyldur, sem við ættum við náunga okkar. Ég rakti þar úrlestur minn úr dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, sem ég hef stundum minnst á hérlendis opinberlega. Einum ráðstefnugesta, kaþólskum hagfræðingi, fannst hann svo merkilegur, að hann fékk leyfi mitt til að rekja hann í bloggi sínu. Dæmisagan er sem kunnugt er í Lúkasarguðspjalli, 10, 30–37: Maður fór frá Jerúsalem til Jeríkó og féll í hendur ræningjum, sem flettu hann klæðum, börðu og skildu eftir dauðvona. Fyrst gekk fram hjá prestur og síðan levíti, og báðir tóku þeir sveig fram hjá honum. Þá kom Samverji að, batt um sár hans, keypti honum gistingu, fæði og klæði og lét sér annt um hann.

Ég les fimm atriði úr þessari sögu:

  • Hætta er af ræningjum og það víðar en á leiðinni frá Jerúsalem til Jeríkó. Við þurftum traust, en takmarkað ríkisvald, eins og John Locke, Adam Smith og aðrir frjálshyggjumenn gerðu ráð fyrir, sem verndi okkur gegn ræningjunum og standi vörð um eignarréttinn.
  • Menntamenn eins og presturinn og levítinn eru oft frekar orða frekar en athafna. Þeir eru hrokagikkir, sem elska mannkynið, en ekki mennina, og taka sveig fram hjá þeim, sem eiga bágt. Margt má lesa um slíka menntamenn í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku á árinu.
  • Samverjinn var aflögufær. Það er öllum í hag, að til sé stétt efnafólks, sem geti ekki aðeins aðstoðað nauðstadda, þegar því er að skipta, heldur líka veitt ríkinu æskilegt mótvægi.
  • Samverjinn gerði góðverk sitt á eigin kostnað, en ekki annarra. Þegar hlustað er á vinstrimenn, eru oftast engin takmörk fyrir manngæsku þeirra, en hún er jafnan á kostnað annarra en þeirra sjálfra. Ellefta boðorðið ætti því að vera: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra.“
  • Nauðstaddi maðurinn var ekki betlari, heldur hafði hann ratað í vandræði. Þótt ýmis rök séu fyrir því að gefa ekki betlurum (enda á frekar að ráðast á kerfisbundnar orsakir betls en auðvelda það), gilda þau ekki um fólk í bráðum háska, sem auðvitað á að hjálpa, eins og Kristur benti á.

Að svo mæltu óska ég öllum lesendum, ekki síður andstæðingum en samherjum, gleðilegra jóla!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband