Ögmundur ekki í Kastljósinu

mynd_944609.jpgÖgmundur Jónasson gerði það, sem rétt var. Kastljóssmenn gerðu það, sem rangt var. Fimmtudaginn 17. desember hittu Kastljóssmenn Ögmund að máli og báðu hann að koma fram í þættinum um kvöldið. Ögmundur baðst undan því, vegna þess að hann hefði fengið sér vín með hádegismatnum og vildi ekki ræða alvarleg mál undir áhrifum, hversu lítil og ómerkjanleg sem þau áhrif kynnu að vera. Hann greiddi hins vegar þennan dag atkvæði um mál, sem höfðu verið lengi í undirbúningi og hann löngu gert upp hug sinn um.

Kastljóssmenn sýndu ódrengskap með því að skýra daginn eftir frá þessari ástæðu til þess, að Ögmundur vildi ekki koma fram í þætti þeirra. Sú frétt þeirra var engin frétt, að Ögmundur hefði greitt atkvæði undir áhrifum. Það er ekki bannað að fá sér vín með hádegismatnum og raunar ekkert ámælisvert við það. Eftir það geta menn gert sumt, en ekki annað. Þeir geta til dæmis ekki ekið sjálfir heim til sín, en þeir geta svo sannarlega opnað útidyrahurðina heima hjá sér með lykli. Hið sama er að segja um þingmenn. Þeir eiga ekki að taka til máls, ef þeir finna á sér, en auðvitað geta þeir greitt atkvæði, þegar afgreidd eru mál, sem lengi hafa verið í undirbúningi.

Hvað sem um Ögmund Jónasson má segja, vita allir, að hann er heiðarlegur stjórnmálamaður og ekki falur. Hann myndi aldrei hafa haldið neina Borgarnesræðu til varnar þeim auðjöfrum, sem grunaðir voru um ámælisverð eða jafnvel ólögleg vinnubrögð, eins og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gerði. Ég get ekki heldur ímyndað mér, að hann hefði farið sauðdrukkinn í ræðustól eins og einn þingmaður Samfylkinginnar (úr fjölmiðlastétt) gerði fyrir skömmu. Ríkisútvarpið má ekki breytast í æsimiðil eins og DV, þótt umræðustjóri Ríkisútvarpsins segi vissulega, að DV sé eina dagblaðið, sem mark sé á takandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband