Ólög án landamæra?

New York Times birti 10. desember fréttaskýringu um meiðyrðamálaflakk, sem svo má kalla eftir ensku orðunum „libel tourism“. Þetta fyrirbæri hefur einnig í víðtækari merkingu verið kallað „forum shopping“ eða hentivettvangur. Það felst í því, að auðmenn velja sér Lundúni sem vettvang fyrir meiðyrðamál, sem þeir vilja höfða gegn gagnrýnendum sínum. Ástæðurnar eru þrjár. Breskir dómstólar taka sér mjög víða lögsögu í meiðyrðamálum, þar eð enska er heimstunga. Meiðyrðalög eru í annan stað mjög ströng í Bretlandi, og þarf sá, sem stefnt er, að sýna fram á sakleysi sitt, en stefnandinn ekki fram á sekt hans. Í þriðja lagi eru slík mál mjög dýr í Bretlandi, og munar auðmenn ekki um það, hvort sem þeir vinna eða tapa, en fórnarlömb þeirra standa oft eftir gjaldþrota.

New York Times segir, að nú séu Bretar sjálfir teknir að skammast sín fyrir þetta meiðyrðamálaflakk. Það hafi aldrei verið ætlun þeirra að auðvelda erlendum auðmönnum að þagga niður í gagnrýnendum sínum. Einn kunnasti vísindamaður Breta, Richard Dawkins, flutti nýlega ávarp um þetta á fundi Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem sjá má á Youtube. New York Times nefnir sérstaklega, þegar sádi-arabíski auðjöfurinn Khalid bin Mahfouz höfðaði mál í Lundúnum gegn bandaríska rithöfundinum Rachel Ehrenfeld, sem hafði haldið því fram í bók, að Mahfouz hefði lagt fé til hryðjuverkasamtaka. Ehrenfeld tók að ráði lögfræðinga sinna ekki til varna, og í útivistardómi var hún dæmd í skaðabætur og til greiðslu málskostnaðar, og nam það samtals um 100 þúsund pundum.  Bók hennar var gefin út í Bandaríkjunum, og aðeins höfðu fyrir tilviljun verið seld á þriðja tug eintaka í Bretlandi eftir netpöntunum. Nú hefur þing New York-ríkis samþykkt lög um það, að enskir meiðyrðadómar eins og í máli Ehrenfelds séu ekki aðfararhæfir, enda stangist þeir á við málfrelsisákvæði og málfrelsisvenjur í Bandaríkjunum.

Einnig nefnir New York Times meiðyrðamálið gegn mér, sem höfðað var í Lundúnum haustið 2004 og blaðið telur enn einkennilegra en mál Ehrenfelds. Það spratt af ummælum mínum á blaðamannaráðstefnu á Íslandi fimm árum áður, haustið 1999. Hefur það mál kostað mig hátt í þrjátíu milljónir króna, þegar allt er talið. Morgunblaðið benti réttilega á það í forystugrein á dögunum, að þeir aðilar, sem hvað fljótastir hefðu jafnan verið til að mótmæla öllu því, sem þeir teldu aðför að málfrelsi, hefðu ekkert látið í sér heyra um þetta mál. Ég man þó að vísu ekki betur en tveir kunnir álitsgjafar, þeir Egill Helgason og Guðmundur Andri Thorsson, hefðu andæft þessum málarekstri gegn mér opinberlega, og er skylt að þakka þeim það. En einnig ber að minnast þess, að einn maður fagnaði málarekstrinum sérstaklega, Þorvaldur Gylfason prófessor, í greininni „Lög án landamæra“ í Fréttablaðinu 13. október 2005. Hann var bersýnilega ekki sammála New York Times og sumum erlendum og íslenskum álitsgjöfum um, að bresku meiðyrðalögin væru ólög án landamæra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband