Er auðlindaskattur hagkvæmur?

Ég birti grein undir þessu nafni á 2.–3. bls. 49. tbl. 27. árg. Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál. Greinin er skrifuð í tilefni af því, að ríkisstjórnin hefur boðað nýja auðlinda- og umhverfisskatta, en í hópi þeirra, sem fagnað hafa slíkum sköttum, er Jón Steinsson, hagfræðingur í Bandaríkjunum. Í greininni hrek ég þá kenningu, að auðlindaskattur í íslenskum sjávarútvegi hefði verið hagkvæmur til að koma nýtingunni niður í æskilegt mark. Ástæðan er einföld: Fiskihagfræðingar segja okkur, að samnýtt auðlind eins og fiskistofnar verði ofnýtt, nema aðgangur að henni sé takmarkaður. Takmarka mátti nýtinguna með skatti eða ókeypis úthlutun framseljanlegra kvóta. En takmörkun í krafti skatts var það, sem hagfræðingar kalla Pareto-óhagkvæm, því að þá tapa sumir (þeir, sem hætta veiðum, af því að þeir geta ekki greitt skattinn). Breyting er hins vegar Pareto-hagkvæm, ef að minnsta kosti sumir græða og enginn tapar. Við ókeypis úthlutun framseljanlegra kvóta tapar enginn og sumir græða, því að þeir, sem hætta veiðum, eru keyptir út, en ekki hraktir út.

Auðlindaskattur í sjávarútvegi var ekki nauðsynlegur til að koma nýtingunni niður í æskilegt mark, og hann er óþarfur, eftir að hún er með frjálsu framsali kvóta komin niður í það mark. Auk þess hefur bandaríski hagfræðingurinn Ronald Johnson fært fyrir því sterk rök, að óheppilegt sé að taka auðlindina aftur af eigendum kvótanna (eins og sumir vilja gera með svonefndri fyrningarleið): Þeir missa við það þá ábyrgðarkennd, sem fylgir því að vera eigendur. Hvernig stóð á því, að íslenskir útgerðarmenn sættu sig við það tiltölulega friðsamlega, að heildarkvóti í þorski væri nær helmingaður í upphafi tíunda áratugar? Hvernig stendur á því, að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í ólestri? Svarið er, að íslenskir útgerðarmenn eru ábyrgari en starfsbræður þeirra erlendis, vegna þess að þeir hafa beinan hag af arðsemi auðlindarinnar til langs tíma.

Auðlindaskattar eru því ekki hagkvæmir, þegar um er að ræða auðlindir, sem þegar eru nýttar og ofnýttar. Þar er verkefnið að fækka nýtendunum, án þess að neinn tapi, og það má gera með því að skilgreina einkaafnotarétt af auðlindunum og leyfa frjálst framsal með réttindin. Þá kemst nýtingin í frjálsum viðskiptum niður í hagkvæmasta mark. Þá eru þeir, sem er ofaukið, keyptir út, en ekki hraktir út. Hitt er annað mál, að auðlindaskattur getur komið til greina, þegar um er að ræða nýjar auðlindir, sem finnast skyndilega, til dæmis olía undan ströndum eða gull í Vatnajökli. Frekari rökstuðning má sjá í grein minni í Vísbendingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband