Vinnubrögð Jóns Ólafssonar

Stalín og DímítrovÍ stað þess að hafa það, sem sannara reynist, svarar Jón Ólafsson á Bifröst mér skætingi í athugasemd við blogg mitt. Þeir Jón og dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, höfðu deilt um það, hvaða ályktanir mætti draga af skjali einu, sem Jón hafði fundið í Moskvu. Það var minnisblað frá Wilhelm Florin, starfsmanni Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, til Dímítrovs, forseta sambandsins, þar sem lýst er efasemdum um stofnun Sósíalistaflokksins og óskað eftir viðbrögðum Dímítrovs. Jón taldi þetta sýna, að stofnun Sósíalistaflokksins hefði verið gerð í andstöðu við Komintern.  Þór aftók það: Skjalið væri ekki opinber samþykkt, heldur minnisblað; íslenskir kommúnistar hefðu aldrei óhlýðnast Komintern á þann hátt; auk þess sem allar aðrar heimildir bentu til þess, að stofnun Sósíalistaflokksins hefði verið gerð með samþykki Kominterns.

Ég benti í þessu sambandi á skjal, sem ég hafði fundið í gögnum Sósíalistaflokksins. Það var bréf frá Michal Wolf (dulnefni Mihály Farkas, síðar varnarmálaráðherra og pyndingameistara Ungverjalands) til Æskulýðsfylkingarinnar, sem stofnuð var um leið og Sósíalistaflokkurinn sem æskulýðsarmur hans. Þar segist Farkas hafa lesið stefnuskrá Æskulýðsfylkingarinnar, og sé hann ánægður með hana og óski fylkingunni allra heilla. Farkas var enginn venjulegur æskulýðsleiðtogi, heldur annar aðalritari Alþjóðasambands ungra kommúnista og það, sem mikilvægara var, varamaður í framkvæmdanefnd Kominterns. Óhugsandi er, að hann hefði sent þetta bréf, hefði stofnun Sósíalistaflokkins verið gerð í andstöðu við Komintern. Jón oftúlkaði bersýnilega fróðlega heimild, sem hann var að vonum hreykinn af að finna.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um einkennileg vinnubrögð Jóns Ólafssonar á Bifröst. Hér ætla ég aðeins að vekja athygli á einu, þótt það varði vissulega smámál. Jón sagði í ritgerð þeirri í tímaritinu Sögu, sem hann birti skjalið í, að sumarið 1936 hefði Komintern sent „félaga Johnson“, sem sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins íslenska, til Íslands með línuna. Jón kvað síðan svo að orði: „Johnson er sennilega Angantýr Guðmundsson, einn fimm eða sex Íslendinga sem voru í Moskvu á þessum tíma.“ Ég hafði kynnt mér Moskvuferðir íslenskra kommúnista á þeirri tíð og hringdi í Jón til að spyrja, hvað hann hefði fyrir sér um þetta. Hann svaraði því til, að þetta væri tilgáta, sem hann hefði ekkert sérstakt fyrir sér um.

En hefði Jón gert rækilega rannsókn á heimildunum, sem til eru í Reykjavík og Moskvu, hefði hann vitað, að einn aðalforystumaður vinstriarms kommúnistaflokksins, Hjalti Árnason, var í Moskvu 1935–1936, eins og fram kemur í minningargrein um hann í Þjóðviljanum. Hann hefði líka séð af skýrslum íslenskra kommúnista til Moskvu, að Hjalti sat að minnsta kosti í miðstjórn kommúnistaflokksins árin á undan og sennilega líka árið 1936. (Taldir eru upp miðstjórnarmenn í skýrslunum.) Jón hefði líka vitað, að Angantýr var rekinn úr kommúnistaflokknum í hreinsunum 1934, eins og lesa má í fjölrituðum blöðum kommúnista á Siglufirði. Ólíklegt er, að Angantýr hefði verið sendur eftir það til Moskvu, auk þess sem hann var ekki einn af forystumönnum flokksins og engar heimildir til um, að hann hafi setið í miðstjórn hans. Ég benti á allt þetta í grein minni um byltingarskóla Kominterns í tímaritinu Þjóðmálum veturinn 2008: Þótt ekki væri það fullvíst, væri langlíklegast, að „félagi Johnson“ hefði verið Hjalti Árnason.

Nú vill svo til, að ég hef nýlega fengið í hendur fleiri skjöl frá Moskvu (sem eru flest á þýsku, en hún var opinbert mál Kominterns), og ég get ekki betur séð en eitt þeirra staðfesti einmitt þá tilgátu mína, að „félagi Johnson“ hefði verið Hjalti Árnason. Jóni hefur ekki aðeins sést yfir það, sem ég nefndi hér að ofan, heldur líka þetta skjal. Þetta er auðvitað smámál. En það er gott dæmi um vinnubrögð Jóns Ólafssonar í stóru og smáu. Eftir rannsóknir mínar á sögu íslenskra kommúnista gæti ég nefnt tugi eða hundruð annarra dæma um vinnubrögð hans, en það bíður betri tíma. Jón vandar ekki til verka, heldur kastar fram lítt rökstuddum fullyrðingum og tilgátum, og þegar hann er gagnrýndur, svarar hann aðeins skætingi og endurtekur villur sínar. 

(Myndin er af Jósíf Stalín og Georgíj Dímítrov, forseta Kominterns, tekin 1936.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband